Umræða og fréttir
  • Örn Bjarnason

Hrafn Sveinbjarnarson - líkn og lækningar

Suðurganga Hrafns

Í ritgerð sinni um suðurgöngur Íslendinga í fornöld segir Einar Arnórsson, að leið Hrafns sé ekki lýst nákvæmlega. "Hann er þó sagður hafa sótt heim hinn heilaga Egedium í Ílansborg. Í Leiðarvísi þeim, sem eignaður er Nikulási ábóta á Þverá um 1150, en er auðvitað tekinn upp úr útlendum ferðaleiðarvísum, sem nóg er til af, er á tveimur stöðum nefndur "Ilansvegur" (Alfræði íslenzk I. 15, 23), "og er sá vegur sagður hafa verið pílagrímavegur um bæinn St. Gilles, sem liggur skammt suður frá borginni Nîmes í Suðaustur-Frakklandi og í norður-vestur frá Marseille, nokkru fyrir vestan Rhone-fljótið. Hinn heilagi Egidius, sem hlotið hefir franska nafnið St. Gilles, er sagður hafa stofnað bæ þenna, en jarðneskar leifar þessa dýrlings eru þó sagðar vera í Toulouse, sem á kirkjulatínu heitir Tolosanum. Dýrlingur er talinn heimsóttur, þar sem jarðneskar leifar eru sagðar vera. Og eftir því ætti Hrafn Sveinbjarnarson að hafa komið við í Toulouse á leið sinni suður Frakkland. Næst sýnist hafa legið, þegar ferðinni er heitið til Rómaborgar frá Bretlandseyjum, að lenda á norðvesturströnd Frakklands við Ermarsund og halda þaðan suð-austurlandið yfir í Rhonedalinn og suður um St. Gilles og þaðan til hafs og fara síðan Miðjarðarhafsströndina."

Næsti áfangi Hrafns hefir verið pílagrímaleiðin til vesturs frá Galisíu, um Astúrías, Baska-héruð Spánar og Frakklands, allt til St. Gilles du Gard. Á miðöldum hét staðurinn Vallis Flaviana og þar reisti heilagur Egedíus (St. Aegidius, St. Gilles) klaustur á 7. öld. Staðurinn hafði á 12. öld fengið nýtt hlutverk, því að þegar Hrafn "sótti heim inn helga Egidium í Ílansborg" var þar aðalbækistöð Jóhannesarriddara (af Reglu sjúkrahúss heilags Jóhannesar skírara af Jerúsalem).



Þaðan fór hann til Rómaborgar og fal líf sitt á hendi guðs postulum og öðrum helgum mönnum. Síðan fór hann sunnan frá Rómi og varði fé sínu til helgra dóma, þar sem hann kom.

Ekki er vikið að því hvaða leið hann fór frá Róm til Norðurlandanna.

Landleiðin suður Frakkland til Ílansborgar og þaðan vestur til Galisíu er alls um 2800 kílómetra leið. Frá Santiago de Compostela er 1200 kílómetra austur til Ílansborgar, þaðan um 1000 kílómetra til Rómarborgar og að lokum nærri 2000 kílómetrar til Álaborgar í Danmörku. Suðurgangan var því um 7000 kílómetrar, en tæpir 4000 kílómetrar ef hann fór fyrst sjóleiðina til La Coruña á norðurströnd Spánar.



Ok er hann kom í Nóreg, þá fór hann út til Íslands og var um veturinn á Þingvelli með Brandi mági sínum.



Kvonfang Hrafns og búskapur að Eyri

Þá fóru þeir Hrafn og mágur hans, Hallur Gizurarson, og Brandur í Kallaðarnesi, að biðja Hallkötlu Einarsdóttur til handa Hrafni, og það var að ráði gört. Hallkatla var Einarsdóttir, Grímssonar, Ingjaldssonar, Grímssonar glammaðar, Þorgilssonar örrabeinsstjúps. Móðir hennar var Þórey Másdóttir. Síðan fór Hrafn vestur á Eyri og tók hann við fjárhlut þeim, er faðir hans og móðir höfðu átt og bjó á Eyri þaðan af, meðan hann lifði.

Hrafn tók þá við goðorði því, sem faðir hans hafði átt, og mannavarðveizlu. Þá réðu þeir Mögur og Kelddælir og Hraunverjar goðorð sitt undir Hrafn fyrir sakir vinsælda hans. Svo var bú Hrafns gagnauðugt, að öllum mönnum var þar heimill matur, þeim er til sóttu og örenda sinna fóru, hvort sem þeir vildu setið hafa lengur eða skemur. Alla menn lét hann flytja yfir Arnarfjörð, þá er fara vildu. Hann átti og skip á Barðaströnd. Það höfðu allir þeir sem þurftu yfir Breiðafjörð. Og af slíkri rausn Hrafns var sem brú væri á hvárum tveggi firðinum fyrir hverjum, er fara vildi.

Mörgum mönnum veitti Hrafn smíðar sínar, og aldrei mat hann þær fjár. Bæ sinn í Eyri byggði hann vel og görði þar mörg hús og stór, og marga aðra bæjarbót, þá er mikil má á sjá.



Af lækningum Hrafns Sveinbjarnarsonar

Svo fylgdi hans lækningu mikill guðs kraptur, að margir gengu heilir frá hans fundi, sem banvænir komu til hans fyrir vanheilsu sakir ...

Til einskis var honum svo títt, hvárki til svefns né matar, ef sjúkir menn komu á fund hans, að eigi myndi hann þeim fyrst nokkura miskunn veita. Aldrei mat hann til fjár lækning sína. Við mörgum mönnum vanheilum og félausum tók hann, þeim er þrotráða voru, og hafði með sér þangað til er þeir voru heilir. Fyrir því væntum vér að Kristur muni kauplaust hafa Hrafni veitt með sér andlega lækning á dauðadegi hans. Eigi aðeins græddi Hrafn þá menn er særðir voru eggbitnum sárum, heldur græddi hann mörg kynja mein þau, er menn vissu eigi, hvers háttar voru.

Þorgils hét maður, er hafði meinsemd þá, er allur líkamur hans þrútnaði, bæði höfuð hans og búkur, hendur og fætur. Hann kom á fund Hrafns á förnum veg á einum gistingarstað, þeim er Hrafn hafði, og bað hann lækningar, en Hrafn brenndi hann marga díla í kross bæði fyrir brjósti og í höfði og í meðal herða. En hálfum mánuði síðar var allur þroti úr hans hörundi, svo að hann varð alheill.

Kona sú kom á fund Hrafns, er mikið hugarválað hafði. Hún grét löngum og var svo brjóstþungt, að nær hélt henni. Hrafn tók henni æðablóð í hendi í æði þeirri, er hann kallaði þrotandi. En þegar eftir það varð hún heil.

Þorgils hét maður, er tók vitfirring. Hann var svo sterkur, að margir menn urðu að halda honum. Síðan kom Hrafn til hans og brenndi hann í höfði díla nokkura, og tók hann þegar vit sitt. Litlu síðar varð hann heill.

Í sveit Hrafns var maður þrotráða, er hét Marteinn og var Brandsson. Hann hafði steinsótt, svo að því mátti hann eigi þurft sækja, er steinninn féll fyrir getnaðarliðu hans. Síðan tók Hrafn við honum og hafði hann hjá sér lengi og létti hans mein með mikilli íþrótt. Og svo sótti meinið að honum, að hann varð banvænn og lá bólginn sem naut. Og þá heimti Hrafn til sín presta sína og þá menn er vitrastir voru með honum, og spurði, hvort þeim þótti sá maður fram kominn fyrir vanmegnis sakir, en allir sögðu, að þeim þótti hann ráðinn til bana, nema atgörðir væri hafðar. En Hrafn sagði að hann myndi til taka með guðs forsjá og þeirra atkvæði. Og þá fór hann höndum um hann og kenndi steinsins í kviðinum og færði hann fram í getnaðarliðinn, svá sem hann mátti, og batt síðan fyrir ofan með hörþræði, svo að eigi skyldi upp þokast og öðrum þræði batt hann fyrir framan steininn. Og þá bað hann, að allir skyldi syngja fimm pater noster, þeir er inni voru, áður en hann veitti aðgörðina. Og síðan skar hann um endilangt með knífi og tók í brott tvo steina. Síðan batt hann viðsmjör við sárið og græddi hann, svo að hann varð heill.

Sagnaritarinn lýkur frásögninni af lækningunum með þessum orðum:



Torvelt er að tína til öll ágæti íþróttlegrar lækningar hans, þeirra er guð gaf honum. En fyrir því má slíkt eigi undarlegt sýnast, að guði eru engir hlutir ómáttugir, og af guði er öll sönn lækning, svo sem Páll postuli segir: Alii gratia sanitatu in eodem spiritu. Það er svá að skilja: Sumum mönnum er gefin lækning af miskunn heilags anda.



Ekki verður skilizt við þessa frásögn, án þess að varpað sé fram þeirri spurningu, hvort Hrafn hafi haft fyrirmyndina að líknarstarfi sínu frá þeirri líknarreglu sem ágætust var á miðöldum, Jóhannesarriddurunum? Vísbendingar gætu til dæmis falizt í því að Hrafn tók við mönnum vanheilum og félausum og að sjúkur maður kom til fundar hans á förnum veg á einum gistingarstað, þeim er Hrafn hafði, og bað hann lækningar. Þá má velta fyrir sér hver merking felzt í dýrum gjöfum Orkneyjabiskups. Þær hefðu sómt hvaða riddara sem var.

En nú er komið að því að greina frá því, er vinur Hrafns, Guðmundur Arason var kjörinn biskup.



Guðmundur góði og Hrafn Sveinbjarnarson

Í Guðmundar sögu Arasonar eftir Arngrím ábóta Brandsson segir frá því að eftir lát Brands biskups sumarið 1201, "snerist allt fólk heilagrar Hólakirkju í eitt og hið sama samþykki, að með ákallaðri heilags anda miskunn kjöru þeir sér og sínum málum síra Guðmund góða til andlegs föður og forstjóra." ...

"En þessum tíðindum fær síra Guðmundur eigi með orðum anzað, því að óttinn tjáir brjóstinu, hvað bruggað er" og er "hann finnur loflega kennimenn, leitar hann ef nokkur þeirra vill hans þunga letta." ...

Gengur nú maður undir manns hönd, þar til að Kolbeinn Tumason, goðorðsmaður og skáld á Víðimýri "kallar saman héraðsfólkið á næsta sunnudag, þvílíkt sem hann leiddi ofurefli móti honum. Var hér sami rómur og ein allra bæn, að fyrir guðs skuld vikist Guðmundur eigi undan lærðra manna kosning og kirkjunnar nauðsyn með samþykkt fremstu leikmanna, en bæn allrar alþýðu. Verður hér um síðir, sem lesið finnst af guðs vinum," að Guðmundur góði er heldur dreginn en leiddur til samþykkis. Í sögunni kemur fram, að svar Guðmundar beri að skilja þann veg, að þótt tignarmunur væri mikill með þeim Heinreki konungi og Kolbeini Tumasyni, væri lík þeirra ástundan með undirhyggju. "Báðir vildu formann, sem þeir hugðu sér hlýðnastan, lömdu og báðir þann sama mest til lægðar, sem áður sýndust þeir lyfta til virðingar." "Svo slítur þetta mót, að menn þakka síra Guðmundi, sem hann hafði undir játazt kosninginn." Ekki þurfti lengi að bíða þess, að Kolbeinn Tumason reyndi að ná yfirráðunum á Hólastað og því er það, að biskupsefni (electus) ákvað, að "fá tvo röskva menn og ráðna, annan til að halda kirkjunnar umboð í hans fráveru, en annan til Noregs með sjálfum sér. Því skrifar hann tvenn bréf eftir jólin, önnur austur til Sigurðar Ormssonar í þann skilning, að honum er nú færi að firrast foráttu Oddaverja og veita vörð Hólakirkju góz, meðan electus er af landi brott." [Sigurður var goðorðsmaður á Svínafelli og síðar staðarhaldari á Möðruvöllum og síðast munkur á Þverá, dáinn 1235.]

Í Hrafns sögu segir um þessa atburði: ..."Ok er hann var körinn til biskups, þá sendi hann orð Hrafni Sveinbjarnarsyni, að hann skyldi koma á fund hans norður í Miðfjörð. Hrafn fór á fund biskupsefnis, svá sem hann sendi orð til, ok er þeir fundust, þá bað biskupsefni, að hann skyldi fara utan með honum, því honum þótti hann bezt fallin þeirrar ferðar fyrir vizku sakir og vinsælda, er hann hafði utanlendis." Í Guðmundar sögu segir svo frá sömu atburðum: "Önnur bréf skrifar hann vestur á landið til vinar sins, er Hrafn hét, reyndur maður í dyggð og hamingju. Þar lýsir hann vígsluferð sinni til Noregs, ef guð vill svo takast láta, biður Hrafn í vináttu þeirra fylgja sér og forsjá veita kirkjunnar og slíkum nauðsynjum, nefnir honum stað og tíma, hvar þeir skuli finnast á vorið eftir hvítasunnu ..." Hittast þeir síðan biskupsefni og Hrafn Sveinbjarnarson í Miðfirði, svo sem ætlað var og staðfesta sína sigling út af þeirri höfn, er Eyjafjörður kallast. Þar stóð uppi norrænt far á Gáseyri og ætlaði brott um sumarið.



Með Guðmundi góða til Noregs

Er ekki að orðlengja það að sumarið 1202 var lagt upp frá Gásum í Eyjafirði. Á leiðinni til Noregs hrepptu þeir hin verstu veður, en að lokum fengu þeir byr til Noregs "og fann biskupsefni Hákon konung í Björgvin og tók hann allvel við honum" eins og segir í Biskupssögu Guðmundar Arasonar. Var hér kominn Hákon Sverrisson, sem ríkti í rúmt eitt ár, en hann dó 1. janúar 1204. Hákon var sonur Sverris Sigurðssonar er var konungur Noregs frá 1184 til dauðadags 9. marz 1202). Þetta atvik er til marks um það, að konungar vildu vera með í ráðum við val á höfðingjum kirkjunnar.

Þegar í Niðarós var komið tók við þeim Eiríkur, hinn þriðji með erkibiskupstign frá því Páfagarður setti stóllinn árið 1154. Voru þeir í Þrándheimi um veturinn. Var Guðmundur Arason var enn efins um það hvort hann skyldi taka vígslu og færðist undan á hverja lund er hann kunni, að því er segir í Biskupssögu hans. Biskupsefni tjáði erkibiskupi með snjöllum orðum og framlegum, að kirkjunnar réttur er svo til falls kominn á Íslandi, að kirkjan þurfi skörung og sterka hlífð með viturlegri stoð, ef hún skal ei með öllu hníga fyrir ágang og yfirgirnd vondra manna. "En með umráðum Hrafns og annarra vitra manna," ... "þá var hann vígður til biskups á messudegi heilagrar meyjar Eufemie" ... "En sumarið eftir fóru þeir biskup og Hrafn út til Íslands ... Þá fór biskup til Hóla til biskupsstóls síns, en Hrafn fór vestur í fjörðu til bús síns á Eyri", eins og segir í Hrafns sögu.



Endalokin

Ekki er sagt frá því, að þeir ferðafélagarnir hafi hitzt síðar, en í Hrafns sögu segir: "Var þar ok in mesta vinátta með þeim Hrafni og Guðmundi inum góða, ok því hélt meðan báðir lifðu."

Guðmundar Arasonar beið harðvítug barátta við veraldlega valdsmenn í anda umbótastefnu Gregóríusar VII. Biskup vildi gera Hólastól og embætti sitt óháð veraldlegu valdi og hann varð fyrstur hérlendis til að berjast fyrir óháðu dómsvaldi kirkjunnar. Er því ekki að furða, að honum hafi í lifanda lífi verið jafnað til heilags Tómasar af Kantaraborg.

Guðmundur átti mestan þátt í því, að fá viðurkennda hérlendis helgi biskupanna Þorláks Þórhallssonar (árið 1198) og Jóns Ögmundssonar (árið 1200). Það var hins vegar ekki fyrri en átta öldum síðar, að Þorlákur Þórhallsson hlaut verðskuldaða viðurkenningu í Róm. Í postullegu bréfi Jóhannesar Páls II. páfa dagsettu 14. janúar 1984, staðfesti stjórnardeild sakramenta og guðrækni, "að hinn heilagi biskup Þorlákur sé verndardýrlingur íslensku þjóðarinnar hjá Guði".

Í Íslenskum söguatlas fær Guðmundur Arason síðan þessi eftirmæli:



Minningin um Guðmund varð er á leið kirkjunni til hins mesta framdráttar. Yfir deilurnar fyrndist, en eftir lifði minningin um trú hans, bænahald, vígslur, örlæti við fátæka og hjálpfýsi við vesæla. Jarteinir þær, sem við hann voru tengdar, sannfærðu menn um það að hann væri helgur maður og bein hans voru skrínlögð 1315. Hann varð þjóðardýrlingur, þótt aldrei tækist að fá viðurkenningu páfa á helgi hans.

Hrafn Sveinbjarnarson átti í langvinnri deilu við Þorvald Snorrason goðorðsmann í Vatnsfirði og fór svo að lokum, að tíu árum eftir heimkomuna úr ferðinni með Guðmundi góða lét Þorvaldur taka Hrafn af lífi. Um það verður ekki fjallað hér, en fróðlegt væri að velta fyrir sér spurningunni: Hvað gat Hrafn Sveinbjarnarson vitað um lækningajurtir? Eða öllu heldur: Hvaða lækningabækur gat hann hafa haft undir höndum? Verður reynt að svara þeirri spurningu síðar.



Helztu heimildir

Santiago de Compostela



Heilagur Jakob, sem nefndur er hinn mikli, var eldri bróðir Jóhannesar guðspjallamanns. Í Markúsarguðspjalli segir frá því, er Jesú valdi postulana, að hann hafi skipað tólf, er skyldu vera með honum og hann gæti sent út að prédika með valdi að reka út illa anda. Jesú skipaði þá Símon, er hann gaf nafnið Pétur, Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans, og Andrés, Filippus og Bartólómeus, Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson, Taddeus og Símon vandlætara og Júdas Ískaríot, þann er sveik hann (Mk 3.14-19)

Þeir Pétur, Andrés bróðir hans og bræðurnir Jakob og Jóhannes eru einnig nefndir fyrstir postulanna í Mattheusarguðspjalli (Matt 10.2), Lúkasarguðspjalli (Lk 6.14) og Postulasögunni (P 1.13) Þeir fjórir voru með Kristi á Olíufjallinu, þegar hann boðaði: "Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð" (Mk 13.26) Pétur, Jakob og Jóhannes voru einir með Jesú á fjallinu, þegar hann ummyndaðist fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og "þeim birtist Elía ásamt Móse, og voru þeir á tali við Jesú" (Mk 9.2-3, 9.4). Í Getsemane eru þeir þrír enn einir með Kristi, þegar hann sagði: "Sál mín er hrygg allt til dauða. Bíðið hér og vakið" (Mk 14.34)

Samkvæmt helgisögn, sem talin er eiga upphaf á sjöundu öld, var Jakobi ætlað trúboð á Íberíuskaganum. Þangað sigldi hann og tók land á norð-vestur hluta Spánar, þar sem nú heitir Galisía. Hann hafði ekki árangur sem erfiði og að sjö árum liðnum hélt hann heim til Landsins helga. Jakob dó þar píslarvættisdauða árið 44 og er frá því sagt í Postulasögunni: "Um þessar mundir lét Heródes konungur leggja hendur á nokkra úr söfnuðinum og misþyrma þeim. Hann lét höggva Jakob bróður Jóhannesar með sverði" (P 12.1-2).

Helgisögnin fjallar síðan um það, að lærisveinar Jakobs fluttu jarðneskar leifar hans aftur til Galisíu til greftrunar, en síðar hafi staðurinn gleymst, enda gengu yfir innrásirnar úr norðri og austri og síðan komu Márarnir úr suðri. Þessu næst segir, að árið 814 hafi fjárhirðir að nafni Pelayo fylgt ábendingu stjörnuhraps og fundið grafhýsi Jakobs. Af þeim atburði hafi staðurinn fengið nafn sitt: Santiago de Compostela, sem merkir eiginlega Heilagur Jakob í Stjörnuakri (campus stellae á latínu). Önnur orðskýring gæti verið sú, að compostela merki einfaldlega legstað hinna látnu, sem dómkirkjan í Santiago er reist á.

Sagan segir enn fremur frá því, að þrjátíu árum eftir að bein hans fundust, hafi Heilagur Jakob birzt á hvítum fáki í orrustunni við Clavijo nærri Logroño í Ebró-dalnum og hafi hann fært kristnum mönnum skjótan sigur. Þar með var hann orðinn Santiago Matamoros (sá sem eyðir Márunum) og hann er þjóðardýrðlingur Spánverja. Jakobsmessa, hátíðisdagur heilags Jakobs, er 25. júlí.



Ordo militiae Sancti Johannis Baptistae hospitalis Hierosolymitani

Á miðöldum tóku klaustrin við umönnun sjúkra og þá varð til ný stofnun, sjúkrahúsið. Vaxandi fjöldi kristinna pílagríma hélt til Landsins helga og þörf þeirra sem veiktust vegna framandi aðstæðna, loftslags og mataræðis, leiddi til þess, að stofnaðar voru trúarreglur, sem ætlað var að sinna þörfum þessa fólks.

Upphafs þeirrar sögu, sem hér verður rakin, er trúlega að leita í því, að Gregóríus páfi hinn mikli gerði um aldamótin 600 Próbus ábóta út af örkinni, með fyrirmæli um að stofnsetja athvarf fyrir pílagríma í Jerúsalem. Það framtak fékk þó skjótan endi, því að árið 614 réðust Persar á borgina og voru kristnir menn stráfelldir. Múhameð spámaður hóf trúboð sitt árið 610 og árið 638 náði einn félaga hans, Abu Obeidah, Jerúsalem á sitt vald. Borgin var og er önnur heilagasta borg múslíma á eftir Mekku og virtu þeir eignir og starfsemi kristinna manna. Um aldamótin 800 kom til sögunnar Karla-Magnús keisari hins Heilaga rómverska ríkis og gerðist hann verndari kristinna manna í Landinu helga. Lét hann endurbæta athvarf það, er Gregóríus mikli stofnaði til tveim öldum fyrr og starfsemi athvarfsins var sett undir Benediktsmunka, sem höfðu fram að því búið á Ólíufjallinu. Árið 1005 hóf kalífinn í Bagdad að þrengja að kristnum mönnum og þvinga þá til að ganga íslam á hönd. Skyldu þeir ella þola harðræði eða verða landflótta. Vernd helgra staða hafði nú færzt til keisarans í Aust-rómverska keisaradæminu og náði hann samkomulagi við kalífann. Kristnir menn gátu því snúið aftur árið 1023 og mun Gregóríusar-sjúkrahúsið fljótlega hafa verið endurgert og stækkað, því nú fékk það nýja stuðningsaðila, þar sem voru kaupmenn í lýðveldinu Amalfí við Salernóflóann. Þeir áttu stóran flota og höfðu nánast einokun á verzluninni við Egyptaland og Sýrland og í Konstantínópel voru kaupmenn frá Amalfí álíka margir og mikilvægir og Feneyingarnir. Sjúkrahúsið var nú sem fyrr undir stjórn Benediktsmunka. Ekki var hörmungunum þó lokið, því árið 1071 náðu Seldsjúkar, tyrkneskir stríðsmenn undir sig Jerúsalem. Varð þessi atburður aðalhvatinn að fyrstu krossferðinni.

Þegar krossfarar náðu Jerúsalem 1099 færði Gerard, forsvarsmaður sjúkrahússins, út kvíarnar og stofnaði trúarreglu og setti að auki upp útibú á Ítalíu.

Er Paschalis páfi annar staðfesti stofnun Jóhannesar-reglunnar 15. febrúar 1113 í bréfi til Gerards, var notað um líknarstofnunina heitið xenodochium, en það merkti að um opinbera byggingu væri að ræða, sem tæki við ókunnugum, sjúkrahús fyrir ókunnugt fólk og einnig, í samræmi við ferðamátann, áfangastaður úlfaldalesta. Í páfabréfinu segir: "Að því er varðar sjúkrahúsin og athvörf fátækra á Vesturlöndum, í St. Gilles, Asti, Pisa, Bari, Otranto, Tarento og Messina úrskurðum vér að þau skuli um alla framtíð vera undir valdi og stjórn yðar og eftirmanna yðar, eins og þau eru í dag." Eru þrjár fyrstu borgirnar á pílagríma-leiðinni, fjórar þær síðari eru hafnarborgir, þar sem siglt var að og frá Landinu helga.

Með páfaleyfinu fengu reglubræður nú að kjósa eigin yfirmann. Raymond de Puy tók við af Gerard árið 1120 og það var hann, sem fékk árið 1154 leyfi páfans, Anastasíusar IV., til enn frekari umsvifa og var í páfabréfinu enn ítrekað, að öll úrræði sem félli reglunni í skaut, skyldi nota í þágu pílagríma og fátæks fólks. Undir stjórn de Puys breiddist reglan út um hinn vestræna kristna heim. Þannig voru stofnuð setur í Portúgal 1140, Navarra 1142, Englandi 1145, Aragon 1157, Frakklandi 1179, Kastilíu 1190.

Frá höfuðsetrinu í Clerkenwell á Englandi breiddist reglan til Skotlands og árið 1153 var reglusetri komið á fót í Torphicken, sem er skammt norðan við Bathgate, milli Glasgow og Edinborgar.

Til Danmerkur barst reglan 1164, þegar Valdemar mikli stofnaði reglusetur í Antvorskov við Slagelse og síðan voru stofnuð sjö önnur, í samræmi við þau fyrirmæli að eitt setur skyldi vera í hverju stifti. Voru þau í Ribe, Viborg, Horsens, Odense, Lundi, í Dueholm á Mors og eitt var í Slésvík. Príorinn í Antvorskov var yfirmaður allra annarra setra á Norðurlöndunum. Hann naut mikillar virðingar og sat meðal annars oft í ríkisráðinu. Þess ber að geta, að Jóhannesarriddarar tóku upp gunnfána, hvítan kross á rauðum feldi og var það merki staðfest með úrskurði páfa 1259. Er ekki ólíklegt, að það tákn hafi verið haft uppi í herförinni til Eistlands 1219, þegar goðsögnin um Danebrog varð til.

Reglunni var skipt á landsvæði og mörkunum réð tungumálið: Ítalía, Provence, Auvergne, Frakkland, Aragon, Kastilía, Portúgal, England og Þýzkaland. Norðurlöndin þrjú, sem nefnd voru Dacia, svo og Ungverjaland, voru sett undir meistarann á þýzka svæðinu.

Æðstir í metorðastiganum í líknarreglunni voru riddararnir, sem urðu að vera af aðalsættum og að hafa verið slegnir til riddara af kristnum konungi.

Riddarar reglunnar sáu um hernaðarumsvifin, ásamt vopnabræðrum (serjeants) og málaliðum, en þjónustubræður, ásamt ráðnu þjónustuliði, sáu um aðhlynningu og hjúkrun.

Meðbræður (confratres) voru samfélag leikmanna, sem tengdist reglunni. Þeir nutu allra réttinda innan reglunnar og áttu rétt á greftrun í grafreitum hennar. Þeir tóku að sér að vernda hagsmuni reglunnar og færa fram ákveðna gjöf á degi heilags Jóhannesar skírara.

Þá voru og svonefndir donati, sem urðu að vera af aðalsættum. Þeir áttu tilkall til þess að vera teknir í tölu riddara og gegn tilteknum gjöfum áttu þeir rétt á gistingu á setrunum. Upphaflega munu donati hafa verið krossfarar, sem börðust undir merkjum Jóhannesarreglunnar og fengu í ellinni athvarf hjá reglunni. Dæmi um þetta var, að í Noregi mun reglan hafa náð fótfestu nokkru fyrir 1200, en þá var stofnað líknarsetur Jóhanníta í Varna (Verne) í Rygge nærri konungsgarði í Moss við Oslóarfjörðinn. Í Diplomatarium Norvegicum (I. 689. II. 700, III. 693) eru bréf príors "sacre domus hospitalis ordinis sancti Johannis Ierosolimitani in Varne" frá árunum 1484-1488, þar sem vísað er til réttinda, sem líknarsetrið hafi þegið af Hónoríusi III., sem var páfi 1216-1227. Í Sögu norskra klaustra á miðöldum segir, að í skjali frá 17. öld sé rætt um afrit af páfabréfi fyrir Varna frá Hónoríusi III. Líknarsetrið fékk síðar framlög frá norsku hirðinni og skyldi á móti koma, að hirðmenn ættu þar hæli í ellinni.

Þegar Landið helga féll endanlega í hendur Serkjum, tóku reglubræður eyjuna Ródos af Ottómönum árið 1309 og voru aðalstöðvarnar fluttar þangað (Knights of Rhodes). Þegar Tyrkjunum tókst síðan 1523 að hrekja þá af eyjunni, veitti Karl V. keisari Hins heilaga rómverska keisaradæmis reglunni yfirráð yfir Möltu (The Sovereign Order of the Knights of Malta). Bræðurnir létu gera mikla flotastöð við Valetta, víggirtu borgina og héldu úti flota til þess að herja á Tyrki, enda var það hlutverk þeirra, að halda Ottóman-veldinu í skefjum. Það var síðan Napóleon, sem lagði Möltu undir sig 1798 og eftir að Bretar höfðu náð eyjunni 1814, var veru Jóhannesarriddara þar lokið. Var þá starfsemin flutt til Ítalíu og stjórn líknarreglunnar var færð til Rómar árið 1834.

Flateyjarbók. En Samling af norske Konge-Sagaer med indskudte mindre Fortællinger om Begivenheder i og udenfor Norge samt Annaler. Udgiven efter offentlige Foranstaltninger. Förste til tredje Bind. Christiania: P. T. Mallings Forlagsboghandel 1860-1868.

Landnámabók I-III Hauksbók, Sturlubók, Melabók M.M. Udgiven af Det Kongelige Nordiske Oldskrift-Selskab. København: Thieles Bogtrykkeri 1900.

Lárus H. Blöndal og Vilmundur Jónsson: Læknar á Íslandi. Skrifstofa landlæknis lét taka saman. Önnur prentun. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf. MCMXLV.

Biographisches Lexikon der hervorragenden Ärtze aller Zeiten und Völker vor 1880. Zweite Auflage 1929-1934. Dritte unveränderte Auflage. Band I-V. Nachdruch: Urban & Schwarzenberg, München - Berlin 1962.

Hrafns saga Sveinbjarnarsonar. Edited by Guðrún P. Helgadóttir. Oxford: Clarendon Press 1987.

Saga Guðmundar Arasonar Hóla-biskups, eftir Arngrím ábóta. Í Biskupasögum, gefnum út af Hinu íslenzka Bókmenntafélagi, öðru bindi. Kaupmannahöfn í Prentsmiðju S. L. Möllers 1878.

Margaret Cormack. The Saints in Iceland. Their Veneration from the Conversion to 1400. Preface by Peter Foote. Bruxelles: Société des Bollandistes 1994.

The Knights Hospitallers in the Holy Land by Colonel Edwin James King, Knight of Justice and Librarian of The British Order of St. John of Jerusalem. London: Methuen & Co. 1931.

Patologiaæ Latinæ Tomus CLXIII (Paschalis II et al.) Excudebatur et venit apud J.-P. Migne editorem. Parisiis 1854, Col. 314: Bulla qua apostilicæ sedis tuitionem concedit xenodochio S. Joannis Hierosolymitani (15. febrúar 1113).

Patologiaæ Latinæ Tomus CLXXXVIII (Anastasii IV. et al.) Excudebatur et venit apud J.-P. Migne editorem. Parisiis 1855, Col. 1078: Hospitalis domus Hierosolymitanæ protectionem suscipit possessionesque ac privilegia confirmat (21. október 1154).

Christian C A Lange. De norske klostres historie I Middelalderen. Anden omarbeidede Udgave. Christiania: Chr. Tønsberg 1856.

Diplomatarium Norvegicum. Oldbreve til kundskab om Norges indre og ydre forhold, sprog, slægter, sæder, lovgivning og rettergang i middelalderen. Samlede og udgivne af Chr. C.C. Lange og Carl R. Runge. Christiania: P. T. Mallings Forlagshandel 1849-1976 (Samling I-XXI).

Norsk Biografisk Leksikon. Bind I-XIX. Kristiania/Oslo: Forlagt af H. Aschehoug & Co. (W. Nygaard) 1923-1983 Den Norsk-Islandske Skjaldediktning udgiven af Kommissionen for de Arnamagnæanske Legat ved Finnur Jónsson. København og Kristiania: Gyldendalske Boghandel - Nordisk Forlag. A. Tekst efter Haandskrifterne. Bind I og II. 1912. B. Rettet Tekst. Bind I 1912 og Bind II. 1915.

Öldin tólfta - Minnisverð tíðindi 1101-1200. Óskar Guðmundsson tók saman. Reykjavík: Iðunn 2003.

Öldin þrettánda - Minnisverð tíðindi 1201-1250. Óskar Guðmundsson tók saman. Reykjavík: Iðunn 2002.

Íslenskur söguatlas. 1. bindi. Frá öndverðu til 18. aldar. Ritstjórar: Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg, Helgi Skúli Kjartansson. Reykjavík: Iðunn 1991.

Kulturhistorisk Leksikon for nordisk middelalder fra vikingetiden til reformationstid. Bind I-XXII. Reykjavík: Bókaverzlun Ísafoldar 1956-1978.

Einar Arnórsson. Suðurgöngur Íslendinga í fornöld. Saga, II. bindi. Reykjavík: Sögufélagið 1954-58.

Magoun, Francis P, jr. The Pilgrim-Diary of Nikulas of Munkathvera: The Road to Rome. Mediaeval Studies. Volume VI. Toronto, Canada: Pontificial Institute of Medieval Studies 1944.

Hauksbók udgiven efter de Arnamagnæanske Håndskrifter No. 371, 544 og 675, 4* samt forskellige Papirshåndskrifter af det Kongelige Nordiske Oldskrift-Selskab. K, síðu 502: "Wegur til Róms" (Ms A.M. 281). Í: Springer, Otto. Mediaeval Pilgrim Routes from Scandinavia to Rome.Mediaeval Studies. Volume XII. Toronto, Canada: Pontificial Institute of Medieval Studies 1950.

Itineraria Romana. Römische Reisewege and der Hand der Tabula Peutingeriana dargestellt von Konrad Miller. Verlegt von Strecker und Schröder in Stuttgart MDCCCCXVI.

Altdeutsches namenbuch von Prof. Dr. Ernst Förstemann. Zweiter band: ortsnamen. Zweite, volligneue bearbeitung. Nordhausen: Verlag von Ferdinand Förstemann 1872.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica