Umræða og fréttir

Broshornið 45. Eins og hjón og ormar í áfengi

Áttatíu

Sigurður læknir: "Þú ert við mjög góða heilsu, Lára mín. Þú nærð því örugglega að verða áttatíu ára."

Lára: "En, ég er orðin áttatíu ára."

Sigurður: "Sko, hvað sagði ég?"Eins og hjón

Eldri heimilislæknir og föngulegur hjúkrunarfræðingur á frjósömum aldri komu á hótel þar sem þau ætluðu að dvelja meðan þau tækju þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um bólusetningar. Parið sem var ekki par þekktist vel enda samverkafólk til margra ára af sömu læknastöðinni. Við innritun á hótelið varð ljóst að mistök höfðu orðið við bókun þeirra. Í stað þess að fá tvö eins manns herbergi fengu þau úthlutað hjónaherbergi með tvíbreiðu rúmi. Hótelið var fullbókað og því ekki um annað að ræða fyrir ferðalangana en gera sér hjónaherbergið að góðu.

Seint um kvöldið þegar gamli læknirinn gekk til náða galopnaði hann gluggann á herberginu og skellti sér svo undir sæng. Eftir stutta stund tilkynnti hjúkkan að henni væri kalt og bað herrann um að loka glugganum.

Þá sagði læknirinn: "Ef þér er svona kalt viltu þá kannski að við þykjumst vera hjón?" Það tísti í hjúkkunni og hún sagði: "Þú segir nokkuð. Ef þú ert til þá er ég alveg til." Þá rumdi í þeim gamla: "Allt í lagi, þá skalt ÞÚ fara fram úr og loka fjandans glugganum."Ormar og áfengi

Nokkrir læknanemar sátu í fyrirlestri hjá dósent í læknadeild sem fræddi þá um skaðsemi áfengis. Til þess að leggja áherslu á orð sín tók hann nokkra orma og setti þá ofan í krukku sem var hálffull af spíra. Eftir stutta stund voru ormarnir steindauðir.

"Jæja, dömur mínar og herrar. Hérna sjáið þið greinilega hvaða áhrif áfengi hefur á óæðri lífverur," sagði dósentinn. "Hvað haldið þið að þetta segi okkur um áhrif áfengis á manneskjuna?"

Læknanemi í öftustu röð rétti upp hendina og sagði: "Sá sem drekkur áfengi fær ekki ormaveiki."Grátandi nunna

Gamall maður sem beið í biðstofunni á heilsugæslustöðinni varð alveg miður sín þegar grátandi nunna skundaði út frá lækninum. Þegar röðin kom að þeim gamla gat hann ekki á sér setið og skammaði lækninn fyrir að hafa komið nunnunni til að gráta.

"Slakaðu á, vinur minn," sagði læknirinn. "Hún var með versta hiksta sem ég hef á ævinni kynnst. Eina leiðin til að lækna hana var að gera henni eins bilt við og hugsast gat. Ég tilkynnti henni einfaldlega að hún væri ófrísk."Minnimáttarkennd

Kona á miðjum aldri hafði gengið til geðlæknis tvisvar í viku árum saman enda kunni hún ekki aura sinna tal og hafði áhyggjur af flestum hlutum. Framfarir konunnar voru engar og læknirinn var nánast viss um að þær yrðu aldrei neinar.

"Ragnheiður Tjúlla," sagði læknirinn í lok eins viðtals, "heldur þú að þessar heimsóknir þínar til mín geri þér eitthvert gagn?"

"Nei, í rauninni ekki," sagði Ragnheiður. "Minnimáttarkennd mín er alveg eins svakaleg og hún hefur alltaf verið."

"Ragnheiður Tjúlla," sagði læknirinn, "ég verð í fullri einlægni að segja þér svolítið. Þú ert ekki með neina minnimáttarkennd. Þú ert í raun og veru minnimáttar."Umbúðaskipti

Maður mætti í endurkomu á slysadeild. Læknirinn sá að umbúðirnar um sárið á handleggnum voru losaralegar og spurði manninn hverju þetta sætti.

"Sko, þú sagðir að ég mætti aldrei bleyta umbúðirnar þannig að ég varð að taka þær af í hvert skipti sem ég fór í sturtu."Engin ávanahætta

Kona um sextugt þurfti að skipta um heimilislækni þegar hún flutti úr Kópavogi í Grafarvog. Hún var alveg á nálum þegar hún fór í fyrsta skipti til Ara læknis á Heilsugæslustöðinni í Grafarvogi, sveitt í lófum, með höfuðverk og hjartslátt svo fátt eitt sé upptalið af því sem amaði að henni.

"En þetta er ekki neitt sem svona litlar kringlóttar pillur með skoru geta ekki lagað," sagði konan og sýndi lækninum gamalt pilluglas.

"Nei, svona pillur færðu ekki hjá mér því þær eru svo ávanabindandi," sagði Ari læknir.

"Ég held nú síður," sagði konan hin önugasta. "Ég veit nú betur en það, enda búin að taka töflurnar í fimmtán ár."

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica