Ritstjórnargreinar
  • Vilhjálmur Rafnsson
  • Védís Skarphéðinsdóttir
  • Mynd 3

Læknablaðið á netinu

Læknablaðið hefur vaxið, eflst og dafnað að visku, þroska og getu einsog vera ber á þeim 90 árum sem það hefur verið gefið út. Þessi aldur er sannarlega virðulegur en blaðið hefur líka kappkostað að fylgja tíðarandanum hverju sinni og árið 2004 er blaðið sterkur fjölmiðill sem dagblöð og ljósvakafjölmiðlar vitna til, einkum hvað varðar nýjar íslenskar rannsóknir og fræðilegt efni. Þar eru meðal annars til umfjöllunar sjúkdómar sem áður voru taldir afar sjaldgæfir en sem nú er hægt að meðhöndla á nýjan og árangursríkan hátt, og er hér í þessu tilviki átt við lungnaslagæðaháþrýsting. Nýgengi sjúkdómsins er mjög lágt, um eitt til tvö tilfelli á milljón íbúa á ári, en í síðasta tölublaði Læknablaðsins á árinu 2003 var sagt frá þremur mjög nýlegum tilfellum sjúkdómsins á Íslandi. Skýringanna getur verið að leita í meiri þekkingu lækna, betri greiningartækni og nýjum meðferðarúrræðum, og eru þetta ánægjulegar fréttir þótt sumir myndu kalla þetta sjúkdómsvæðingu.

Útgáfa Læknablaðsins á netinu www.laeknabladid.is er um það bil tveggja ára um þessar mundir. Þar birtist nýtt tölublað um hver mánaðamót og er alla jafna nokkrum dögum fyrr á ferðinni en pappírsútgáfan. Allir árgangar blaðsins frá og með árinu 2000 eru nú á netinu ásamt þeim fylgiritum sem gefin hafa verið út á árabilinu 2000-2003. Lestur og heimsóknir í netútgáfuna hafa aukist jafnt og þétt allt frá upphafi en þó má greina árstíðasveiflu í því sem öðru. Í hverjum mánuði líta fleiri í Læknablaðið á netinu heldur en nemur áskrifendum að pappírsútgáfunni og margir glugga í netútgáfuna oftar en einu sinni á mánuðinum. Svo virðist sem fylgirit með ráðstefnum og dagskrá Læknadaganna dragi fleiri lesendur á netið og fylgja þessu toppar þar sem nær þrjú þúsund gestir með yfir fjögur þúsund heimsóknir eru í ákveðnum mánuðum. Minnst er netútgáfan lesin á laugardögum en mest á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum. Mest er netblaðið heimsótt af Íslendingum og umfangið af því sem gestir vilja opna er langmest hjá íslenskum gestum. Erlendir gestir eru hvaðanæva úr heiminum en flestir frá Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu.

Leitarvélin sem fylgir netútgáfunni er bæði öflug og þægileg. Hægt er að leita eftir höfundum, titlum greina, lykilorðum eða hvaða orði sem er en að sjálfsögðu einungis í þeim árgöngum sem birst hafa á netinu eða frá árinu 2000. Einnig er hægt að slá upp efnisyfirlitum í eldri tölublöðum. Oft er leitað til ritstjórnar Læknablaðsins eftir upplýsingum um efni og skrif í eldri blöð og árganga og er þá flett upp í pappírseintökum af efnisyfirlitum en einnig er hægt að leita í www.gegnir.is sem er bókasafnskerfi Landsbókasafns. Þar er hægt að leita eftir höfundum, titlum og efnisorðum.

Þótt Læknablaðið sé nú búið að koma sér vel fyrir á netinu þýðir það ekki að pappírsútgáfan hætti að koma í nánustu framtíð. Það eru enn margir áskrifendur Læknablaðsins sem aldrei hafa farið inn á netútgáfuna. Þannig að pappírsútgáfan er alls ekki á útleið og sennilegt er að þessi tvö útgáfuform munu lifa hlið við hlið um langan aldur. Útgáfurnar bæta hvor aðra og henta mismunandi allt eftir aðstæðum og tilgangi notkunar. Pappírsútgáfan gefur betri yfirsýn yfir efni og umfang blaðsins, hún er alltaf til staðar, hvorki rafmagnsleysi né vírusar geta hamlað lestri hennar. Netútgáfan er afar heppileg til leitar og upp munu vaxa kynslóðir lækna og annarra lesenda sem nær eingöngu lesa texta af tölvuskjám.

Á afmælisári blaðsins þótti rétt að yfirfara viðmót blaðsins á netinu einsog það heitir á tölvumáli, leysa úr hnökrum og stytta aðgerðaleiðir og bæta við nýjum efnisatriðum. Eftir þessa tiltekt mun möguleikinn til að leita í blaðinu birtast á hverri síðu, jafnframt verður upphafssíða blaðsins, með efnisyfirliti nýjasta blaðsins, enn meira efnislega sundurgreind en áður var. Hægt verður að senda efni beint úr blaðinu á netfang einhvers væntanlegs lesanda, hægt verður að skrifa athugasemd við hverja grein og fá að lesa þær athugasemdir sem aðrir lesendur hafa gert við greinar. Það síðastnefnda er liður í því sjálfsagða markmiði Læknablaðsins sem það hefur fylgt frá 1915 og allt fram á tíræðisaldurinn, - en það er að ná til lesenda sinna.Vilhjálmur er prófessor í heilbrigðisfræði við Háskóla Íslands og ábyrgðarmaður Læknablaðsins.

Védís er ritstjórnarfulltrúi Læknablaðsins.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica