12. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Eru barna- og unglingageðlækningar að deyja út?

- Viðhorf stjórnvalda til barna þarf að breytast segja þær Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir, Dagbjörg Sigurðardóttir og Helga Hannesdóttir

Stundum er lífið þverstæðukennt. Það fannst mér þegar ég stóð í anddyri Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) og skoðaði veggspjald um tónleika sem haldnir voru fyrir skömmu til þess að afla fjár til starfsemi deildarinnar. Þeir voru liður í mikilli herferð sem staðið hefur í allt haust. Ég var hins vegar á leið til fundar við þrjá barna- og unglingageðlækna sem héldu því fram að sérgrein þeirra væri að deyja út.

Viðmælendur Læknablaðsins voru þær Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir, Dagbjörg Sigurðar­dóttir og Helga Hannesdóttir en þær starfa allar við barna- og unglingageðlækningar á Landspítala. Þær eru ómyrk­ar í máli um stöðu sérgreinarinnar sem þær segja að sé allsendis ófullnægjandi. Barist hefur ver­ið án árangurs fyrir því að BUGL hljóti sjálfstæði innan Landspítala en deildin heyrir nú undir geðsvið spítalans og lýtur yfirstjórn fullorðinsgeðlækna í einu og öllu.

Þær segja blaðamanni frá því að þegar deildin var stofnuð um 1970 hafi verið samin greinargerð um starfsemina þar sem lagt var til að BUGL yrði rekin sem sjálfstæð deild fyrstu fimm árin en svo sameinuð Barnaspítala Hringsins. Eftir á að hyggja hefði þetta þýtt að allar barnalækningar á Landspítala hefðu ver­ið undir einu þaki eins og tíðkast hefur í mörgum löndum, til að mynda Svíþjóð þar sem allar lækningar 18 ára og yngri heyra undir sama svið. Hér varð þróunin hins vegar sú að aldrei varð af sameiningu við barnaspítalann heldur var BUGL færð undir geðsvið spítalans þegar honum var skipt upp í svið í lok níunda áratugarins.

2004-10-front

Einn í framhaldsnámi

Þar við situr og þær Guðrún, Dagbjörg og Helga segja að þetta hamli verulega allri geðlæknaþjónustu við börn vegna þess að deildin er hornreka á spítalanum. Það sama á við um læknadeild Háskóla Íslands en þar eru barna- og unglingageðlækningar alger afgangsstærð. Enginn fastur kennari er í greininni og sú litla kennsla sem fram fer er í höndum stundakennara.

"Þetta er mikið áhyggjuefni, enda er Ísland eina landið sem aðild á að Evrópusamtökum barna- og unglingageðdeilda, að frátalinni Albaníu, þar sem enginn prófessor er starfandi í greininni," segja þær. "Þetta er með ólíkindum fyrir velferðarríki þar sem rannsóknir í greininni hafa verið stundaðar á þriðja áratug. Það er verið að hefta framgang og þróun greinarinnar, gagnstætt því sem hefur verið að gerast í öllum öðrum Evrópuríkjum."

Fyrir vikið er áhugi læknanema og unglækna á að leggja barna- og geðlækningar fyrir sig hverfandi. Nú eru starfandi 11 barna- og unglingageðlæknar, auk þriggja sem komnir eru á eftirlaun. Hins vegar er aðeins einn læknir í framhaldsnámi í greininni. "Það er talið eðlilegt ástand að fjöldi lækna í sérnámi sé á að giska helmingur starfandi lækna í viðkomandi sér­grein. Ef þeir eru mikið færri er endurnýjun í greininni í verulegri hættu," segja þær.

Kennsla læknanema í barna- og geðlækningum er ekki mikil í læknadeild og henni er einungis sinnt í stundakennslu. Það er heimild fyrir aðjúnktstöðu en hún hefur ekki verið auglýst.

Evrópskur þrýstingur

Hvað varðar stjórnun og fjárveitingar eru barna- og unglingageðlækningar undir forræði fullorðinsgeð­lækn­inga og greinin er því eftirbátur annarra sér­greina. Þetta hefur vakið athygli innan Evrópusamtaka barna- og unglingageðlækna sem hafa ákveðið að halda ársþing sitt hér á landi á næsta ári. Tilgangurinn er ekki hvað síst sá að þrýsta á stjórnvöld að auka sjálfstæði greinarinnar.

Þær leggja áherslu á nauðsyn þess að læknadeild Háskóla Íslands skipi í prófessorsstöðu hið allra fyrsta í sérgreininni þar sem prófessorshæfni er fyrir hendi í landinu. "Megináherslan hefur verið lögð á það innan UEMS að skipa í prófessorsstöðu til að stuðla að sjálfstæði og hraða uppbyggingu sérgreinarinnar, bæta kennslu stúdenta og koma á skipulögðu sérnámi við allar læknadeildir Evrópulanda. Aðalvandinn hér er að sérgreinin hefur engan talsmann innan deildarinnar til að stuðla að þessari uppbyggingu, auk þess sem aðrir prófessorar deildarinnar berjast fyrir sínar sérgreinar þar sem peningar eru naumir í læknadeild. Þeir kjósa því að setja peningana í eigin sérgreinar," segja þær.

Dagbjörg, Guðrún og Helga segja að barna- og unglingageðlækningar hafi verið í örri framþróun í Evrópu á undanförnum árum, bæði hvað varðar skipulag og uppbyggingu, auk þess sem þekkingunni hefur fleygt fram. Hér á landi tala þær fyrir daufum eyrum og áhugaleysið er algert á því að efla greinina.

"Það er talað við okkur eins og við séum börn eða ófullkomnir einstaklingar eins og skjólstæðingar okkar," segja þær.

Eftir að BUGL komst á legg hafa verið gerðar úttektir á starfseminni og stungið upp á því að deildin tengdist barnaspítalanum en af því hefur aldrei orðið. "Það hafa því miður aldrei komist á nein tengsl þarna á milli. Það væri mikill kostur að hafa öll heilbrigðismál barna undir sama þaki því þá gætu foreldrar hitt alla sérfræðingana samtímis ef barn þeirra á við fjölþættan vanda að etja. Þetta barst í tal meðan barna­spítalinn var í byggingu en af einhverjum ástæðum var hætt við það," segja þær.

"Meginatriði er þó að greinin öðlist sjálfstæði, halda þær áfram. -Vinnubrögð og aðferðir í barna- og unglingageðlækningum eru mjög ólíkar því sem gildir í fullorðinsgeðlækningum. Við tökum mið af þroska barnsins og fjölskylda og aðrir í umhverfi þess eru mjög virkir í meðferðinni. Sjálfstæðið verður ekki að veruleika fyrr en greinin er viðurkennd á spítalanum og í læknadeild," segja þær Dagbjörg, Helga og Guðrún.

Í framhaldi af þessu spjalli barst talið að viðhorfi samfélagsins til barna og að sjálfsögðu beindust sjónir okkar að kennaraverkfalli sem þá var nýlokið. Það er eins og börn og þeir sem þjóna þeim séu afgangsstærð hjá þeim sem fara með völdin í samfélaginu. Því þarf að breyta.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica