12. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Orlofskostum fjölgar

Orlofsnefnd LÍ hefur unnið að því að undanförnu að fjölga þeim kostum sem læknum bjóðast í orlofi sínu. Ákveðið hefur verið að framlengja leigusamninginn um íbúðina í Barcelona og nú er verið að ganga frá samningum um leigu á íbúð í Alicante á meginlandi Spánar en Menorca dettur út.

Þá hefur verið tekin á leigu íbúð í hjarta Kaupmannahafnar. Um er að ræða 88 fermetra þriggja herbergja íbúð við Paludan Mullersvej á Friðriksbergi. Þaðan er skammt í Frederiksborg Have og dýragarðinn og röskur göngutúr eftir Vesterbro­gade niður að Ráðhústorgi.

2004-10-frontInnlendum kostum fjölgar líka. Nú er lokið endurbótum á einbýlishúsinu að Skaftárvöllum 7 á Kirkjubæjarklaustri og hefur húsið verið í leigu frá því í haust. Þetta er rúmgott hús með svefnplássi fyrir átta manns. Búið er að koma upp gufubaði í bílskúrnum og að sjálfsögðu er hinn ómissandi heiti pottur á veröndinni. Húsið er vel tækjum búið og hentar jafnt til sumar- sem vetrardvalar. Það liggur vel við ferðum inn á hálendið og í næsta nágrenni eru fjölbreyttir möguleikar á veiðum, hvort sem menn sækjast eftir lagardýrum eða fuglum himinsins.

Síðast en ekki síst ber að nefna nýjustu fjárfestingu nefndarinnar en hún afréð nú fyrir skemmstu að kaupa heilsárshúsið Mörk sem stendur í grennd við Lauga­skóla í Suður-Þingeyjar­sýslu, nánar tiltekið í hlíðinni ofan við skólann. Húsið er nýlegt, reist fyrir tveimur árum og hefur verið notað sem sumarbústaður og íbúðarhús. Húsið er 64 fermetrar auk 25 fermetra svefnlofts. Á hæðinni eru tvö svefnherbergi, eldhús, bað og stofa. Verið er að koma húsinu í gott horf og heitum potti verður komið upp fyrir sumarið en ætlunin er að hefja útleigu á því eftir áramót.

Nánari upplýsingar um þessa kosti og aðra sem Orlofsnefnd býður læknum verður að finna í bæklingi nefndarinnar sem að þessu sinni kemur út í janúar og verður dreift með fyrsta tölublaði Læknablaðsins á nýju ári. Einnig má benda á heimasíðu nefndarinnar en hana má nálgast af heimasíðu LÍ: lis.isÞetta vefsvæði byggir á Eplica