12. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Framhaldsnám í lyflækningum við Landspítala:

Fyrstu deildarlæknarnir útskrifaðir

Um miðjan nóvember útskrifuðust fyrstu deildarlæknarnir eftir þriggja ára framhaldsnám á lyflækningasviðum Landspítalans. Þau Hilmar Kjartansson, Guðni A. Guðnason og Sigríður Björnsdóttir hafa stundað nám í almennum lyflækningum og stefna nú á frekara framhaldsnám í útlöndum.

Hafist var handa um að koma á fót framhaldsnámi við Landspítalann eftir sameiningu sjúkrahúsanna og eru nú um 20 deildarlæknar skráðir í sérnám í lyflækningum á ýmsum stigum. Í námi þeirra er lögð áhersla á að veita þjálfun í undirstöðuþáttum al­mennra lyflækninga og byggja upp klíníska færni, trausta dómgreind og fagmennsku. Jafnframt eru námslæknar þjálfaðir í vísindastörfum og hvattir til að temja sér sjálfstæða þekkingaröflun.

Deildarlæknunum er falin stigvaxandi ábyrgð með hliðsjón af færni þeirra og reynslu. Þegar blaðamaður Læknablaðsins ræddi við hina nýútskrifuðu deildarlækna hrósuðu þeir ekki síst þeim þætti námsins. Þau hefðu verið farin að stjórna vöktum og starfa sjálfstætt á göngudeild en að sjálfsögðu með það í bakhöndinni að geta leitað stuðnings sérfræðilækna ef á þyrfti að halda. Þetta fyrirkomulag bætti líka starfsandann á sjúkrahúsinu vegna þess að það brúaði bil sem oft vill myndast á milli unglækna og sérfræðinga. Það væri líka gott fyrir sérfræðingana sem fengju meiri örvun við að kenna lengra komnum nemendum.

Þegar blaðamaður innti þau eftir því hvað tæki nú við voru svörin á þá leið að Hilmar er á leiðinni til Nýja-Sjálands á næstu vikum þar sem hann ætlar að leggja stund á framhaldsnám í bráðalækningum á sjúkrahúsi í borginni Christchurch á Suðurey. Hann segist fá námið við Landspítalann metið til styttingar á náminu ytra. Þau Guðni og Sigríður eru að þreifa fyrir sér með framhaldsnám en bæði stefna þau í sérfræðinám í efnaskipta- og innkirtlasjúkdómum, helst á Norðurlöndum eða Bretlandseyjum, hún næsta vor en hann að ári liðnu. Þangað til munu þau starfa hér innanlands.

Þau voru sammála um að það væri ótvíræður kostur fyrir unglækna að hafa val um það hvort þeir hefja framhaldsnám hér á landi eða fara strax utan. Ekki síst væri þetta góður kostur fyrir fjölskyldufólk því þetta stytti þann tíma sem það þyrfti að dvelja í útlöndum. Þeir sem fara til Norðurlanda til náms í undirsérgrein fá þetta nám metið að fullu og þá tekur nám þeirra ytra ekki nema þrjú eða fjögur ár. Þá nýttist þessi kostur þeim læknum sem hyggja á framhalds­nám í öðrum greinum en lyflækningum því í mörgum sérgreinum væri gerð krafa um að læknar taki hluta af sínu framhaldsnámi á lyflækningadeild.

Það var Steinn Jónsson framhaldsmenntunarstjóri lyflækningasviða sem útskrifaði þremenningana og óskaði þeim velfarnaðar í frekara námi og starfi.

2004-10-front

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica