12. tbl. 90. árg. 2004
Íðorð. Blóðgjöf
Í framhaldi af umræðunni um transfusion í síðasta pistli sendi Soili H. Erlingsson, læknir í Blóðbankanum, tölvupóst og sagðist lengi hafa notað íslenska heitið blóðgjöf um blood donation, en blóðinngjöf um hemotransfusion. Það bætist þá í hóp þeirra sem tilgreind voru: blóðgjöf, blóðfærsla og blóðveita. Íslensk orðabók Eddu birtir tvær skýringar með flettunni blóðgjöf: það að láta taka úr sér blóð til að gefa öðrum manni; það að gefa sjúklingi blóð.
Spaugari í læknastétt, sem ekki vildi láta nafns getið, hringdi og setti fram þá skoðun að heitið blóðgjafi hlyti einnig að hafa tvær merkingar: sá sem gefur sitt eigið blóð og sá sem gefur sjúklingi blóð úr öðrum. Fjölmargir heilbrigðisstarfsmenn væru því "blóðgjafar" án þess nokkru sinni að gefa sitt eigið blóð. Þá vildi hann vekja athygli á að orðið gjöf væri mest notað um hlutinn sem gefinn er, til dæmis afmælisgjöf, en einnig um það að gefa, samanber orðasambandið að taka fé á gjöf. Öðru máli gegndi um orðið blóðgjöf, það væri eingöngu notað um það að gefa blóð. Þannig eigi ekki að segja að sjúklingur fái blóðgjöf, heldur að hann fái blóð. Þessu er hér með komið á framfæri.
Blóðhlutar
Þá vildi Soili vekja athygli á því að sjúkdómar, sem smitast við blóðgjöf, geta alveg eins smitast við blóðhlutagjöf, það er þegar gefið er rauðkornaþykkni, blóðflagnaþykkni eða plasma. Hún gaf til kynna að aðvaranir sem tilgreina smithættu aðeins þannig: "Getur smitast við blóðgjöf", ættu að vera þannig: "Getur smitast við blóð- eða blóðhlutagjöf."
Blóðeitrun
Þorkell Jóhannesson, prófessor emeritus, sendi tölvupóst og sagði orðið blóðeitrun, sem heiti á sepsis, hafa unnið sér slíka hefð í málinu að erfitt væri að berjast gegn því. Undirritaður hélt enn fram heitinu sýklasótt og benti á að orðið blóðeitrun væri úr sér gengið og oft ranglega notað "af leikmönnum og jafnvel læknum" til dæmis þegar rauð strik sæjust út frá bólgustað. Slíkt nefndu leikmenn gjarnan blóðeitrun. Þar væri þó á ferðinni bráð eitilæðabólga, lymphangitis acuta, en ekki eiginleg blóðsýking, hvað sem síðar yrði.
Undirritaður skorar nú á lækna að leita uppi umræðuna um sepsis í íðorðapistlum númer 62-64 og skoða allar tillögurnar. Þetta efni er að finna á vefsíðum Læknablaðsins undir fyrirsögninni Fylgirit, nánar tiltekið í fylgiriti 41. Umræða hefur næsta lítil orðið og kominn er tími til að taka afstöðu.
Svæsni
Þýðandi nokkur hafði samband til að fá álit á tillögu sinni að þýðingu á læknisfræðilegu orðasambandi í löngum texta. Hann var meðal annars að fást við þýðingu úr ensku þar sem fyrir komu orðin: "the severity of her symptoms was such that she could not stay still." Nú hafði honum komið í hug að nota orðið svæsni í þýðingu sinni og segja: "svæsni einkenna hennar var slík að hún gat ekki verið kyrr." Undirritaður lagðist þegar gegn þessu, með þeim rökum að þarna væri komið enn eitt dæmið um nafnorðanotkun enskunnar, sem ekki ætti að yfirfæra á íslensku. Betur færi á að segja: "einkenni hennar voru það mikil að hún gat ekki verið kyrr." Þá sagðist undirritaður vera efins um að orðið svæsni væri til í íslensku. Byggðist það á uppflettingu í Ensk-íslenskri orðabók Arnar og Örlygs. Þar eru þýðingar fyrir nafnorðið severity tilgreindar þannig: 1. strangleiki, harka, harðneskja; vægðarleysi. 2. alvara. 3. látleysi. 4. strangasta nákvæmni.
Undrun undirritaðs varð því mikil þegar í ljós kom að Íslensk orðabók Eddu birtir nafnorðið svæsni með lýsingunni: það að vera svæsinn. Þá var einnig til gamans flett upp í Samheitaorðabókinni og - viti menn! - svæsni birtist einnig þar. Tilgreind eru samheitin ákafi, ofsi, ofstæki, æsingur, öfgar. Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar er svæsni sagt merkja ákefð, ofsi, ofstæki. Uppruni er ekki fullljós, en lýsingarorðið svæsinn er að minnsta kosti frá 18. öld og hefur líklega upprunatengsl við norsku. Nú má spyrja hvort not séu fyrir nafnorðið svæsni í læknisfræði?
Brjóstmyndataka
Baldur Sigfússon, röntgenlæknir hjá Krabbameinsfélaginu, hringdi og sagðist vilja gera greinarmun á brjóstmyndatöku sem færi fram hjá einkennalausum konum vegna hópleitar eða skimunar og þeirrar sem færi fram vegna einhverra einkenna eða merkja um meinsemd í brjósti. Fyrri myndatakan er nefnd screening mammography á ensku en sú síðari clinical mammography eða diagnostic mammography. Undirrituðum fannst liggja beint við að sú fyrri nefndist þá skimunar(brjóst)myndataka og sú síðari greiningar(brjóst)myndataka. Svigarnir tákna að sleppa megi orðhlutanum brjóst þegar ljóst er hvað við er átt.
Skima
Baldur gerði um leið athugasemd við þann sið að tala um að skima fyrir einhverju, hann vildi halda sig við eldri málvenju um að skima eftir einhverju. Undirritaður tók undir þetta en fann svo í Íslenskri orðabók að báðar samsetningarnar væru fullgildar. Sögnin skima merkir: 1 líta í kringum sig, skyggnast um, horfa. 2 (um bát, sleða eða þ.h.) geiga frá beinni stefnu, stefna til hliðar. 3 leita kerfisbundið með rannsóknum eða prófunum (að e-u óæskilegu eða óeðlilegu), skoða lauslega (í leit að e-u).