11. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Árni Björnsson læknir

Fæddur 14. júní 1923 - Dáinn 24. október 2004

Árni Björnsson læknir var um margt sérstakur maður. Hann var brautryðjandi nútímalýtalækninga hér á landi, eða skapnaðarlækninga eins þá voru kallaðar. Árni var skynsamur, hugaður og laginn skurðlæknir. Vann hann margt læknisverkið á slösuðum sjúklingum og á börnum og fullorðnum með meðfædd lýti, þannig að ekki þarf að hafa um þau mörg orð. Þau munu bera hróður hans.

Árni var óbrotinn alþýðumaður og aristókrat, list­elskur húmanisti og róttækur umbótamaður, fullur mann­úðar en kröfuharður til sjálfs sín og annarra. Hæfði þetta allt vel því lífsstarfi sem hann kaus sér. Árni var glæsilegur maður á velli, hafði einhverja sérstaka og dulúðuga útgeislun sem bar með sér virðingu er gerði hann fyrirhafnarlaust að fyrirmynd yngri lækna.

Árni tók mikinn þátt í félagsmálum lækna, var

skoðanafastur og harður í horn að taka, ef nauðsyn bar til. Hann brá oft orðsins brandi og fór vel með, var rökfastur, óvæginn og stundum meinfyndinn. Hann gerði sig aldrei sekan um þann glæp að vera leiðinlegur á prenti.

Þessir góðu eiginleikar Árna komu vel fram þegar hann var löngu hættur störfum, en taldi sér skylt að taka þátt í umræðunni um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Mátti öllum ljóst vera að þar fóru saman geislandi fjör og baráttugleði, frelsi andans og skapandi hugsun, öllum óháð nema sannfæringunni um það sem hún taldi rétt og satt.

Ég vil leyfa mér fyrir hönd íslenskra lækna að senda eftirlifandi eiginkonu Árna, börnum þeirra og öðrum ástvinum samúðarkveðjur með þökkum fyrir góðan dreng.

Sigurbjörn Sveinsson



Þetta vefsvæði byggir á Eplica