11. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Ársfundur Alþjóðafélags lækna

Ályktað um samskipti lækna og fyrirtækjaRætt við Jón G. Snædal formann siðfræðiráðs WMA

Alþjóðafélag lækna (World Medical Association, WMA) hélt ársfund sinn í Tókýó í Japan dagana 6.-9. október. Þar átti LÍ þrjá fulltrúa en fundinn sóttu fyrir hönd félagsins Sigurbjörn Sveinsson formaður, Jón G. Snædal varaformaður og Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóri. Jón var ekki eingöngu fulltrúi LÍ á fundinum því hann gegnir stöðu formann siðfræðiráðs félagsins og er því einn af forystumönnum samtakanna.

Læknablaðið hitti Jón að máli og spurði hvort ekki hefði eitthvað verið til umræðu á þessum fundi sem snertir íslenska lækna.

"Jú, þarna voru samþykktar nýjar reglur um samskipti lækna og fyrirtækja en þá er bæði átt við framleiðendur lyfja og tæknibúnaðar fyrir heilbrigðiskerfið. Þetta eru einhliða reglur WMA, ekki samningur við fyrirtækin eins og við þekkjum. Með vissum undantekningum er innihald þessara reglna svipað og hjá okkur. Til dæmis er þarna fjallað um lækna sem vinna hjá fyrirtækjum að öllu leyti eða hluta og hverjar skyldur þeirra eru. Að öðru leyti er þetta svipað og ekkert í reglum WMA sem stangast á við okkar reglur.

Ég skal ekki segja hvort þessi samþykkt markar tímamót. Það er víða unnið að reglusmíð á þessu sviði, meðal annars á vegum evrópsku læknasamtakanna sem er í sama farvegi og hjá okkur, þær verða í formi samnings við lyfjafyrirtækin. Það tekur hins vegar lengri tíma en menn ætluðu og reglurnar verða ekki tilbúnar á þessu ári eins og vonir stóðu til. "

- Svara þessar reglur þeirri gagnrýni sem fram hefur komið að undanförnu á samskipti lækna og lyfjafyrirtækja?

"Þeim er ætlað að gera það og draga úr tortryggni í garð þeirra samskipta. Í því ljósi er mjög jákvætt að læknar skuli gefa út yfirlýsingu um það hvernig þeir vilja haga þessum samskiptum. Eins og fram kemur í reglum WMA og samningi okkar þá er lagaumhverfið með þeim hætti að þessi samskipti verða að eiga sér stað, lyfjaþróunin hefur ekki annan farveg frá fyrirtækjunum til samfélagsins en í gegnum lækna."

Skyldur lækna í stríði

­En það var fleira til umræðu í Tókýó.

"Já, það var gefin út yfirlýsing um hlutverk og skyldur lækna í vopnuðum átökum. Þar er lögð mikil áhersla á að skyldur læknis eru fyrst og fremst við þá sjúklinga sem hann stendur frammi fyrir, án tillits til hvar þeir standa í átökunum. Kveikjan að þessari yfirlýsingu er ástandið í Palestínu. Norrænu félögin létu frá sér heyra um ástandið þar fyrir um það bil ári og lýstu áhyggjum sínum af því. Þá brugðust ísraelsku læknasamtökin hart við því sá kvittur komst á kreik að til stæði að reka þau úr WMA sem enginn hafði hugleitt. Þeir lögðu fram tillögu um yfirlýsingu sem var tekin til umræðu og breytt áður en hún var samþykkt.

Þetta mál er þó enn í gangi því nú í september sendu formenn norrænu læknafélaganna sameiginleg bréf til ísraelsku og bandarísku læknasamtakanna vegna upplýsinga sem borist höfðu um harðræði sem fangar væru beittir í fangelsum í Ísrael og Írak. Það sem ýtti við mönnum var að af þeim upplýsingum mátti skilja að læknar hefðu átt hlut að máli með bein­um eða óbeinum hætti.

Ísraelska læknafélagið er þegar búið að svara og gera grein fyrir því hvernig það hefur tekið á þessu. Þeir hafa skipt sér af þessum málum og reynt að styðja lækna sem sinna föngum. Bandarísku samtökin hafa ekki svarað nema munnlega en þau hafa sent okkur afrit af bréfi sem samtökin sendu Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Þar fara þau fram á að gerð verði hlutlaus rannsókn á meintu harðræði gegn föngum í fangelsum í Írak og ítreka að samtökin styðji yfirlýsingar WMA um meðferð á föngum. Þar kemur meðal annars fram að læknum beri að sinna sjúkum föngum af sömu skyldurækni og frjálsum mönnum.

Þá vil ég nefna að nú er farin af stað vinna við það reyna að tengja unga lækna samtökunum. Það virðist ætla að verða frekar erfitt viðureignar. Ungir evrópskir læknar hafa lýst yfir áhuga á að tengjast WMA betur en nú er, en á sjálfstæðan hátt, það er í gegnum sín samtök en ekki almennu læknasamtökin. Nú á að gera könnun meðal allra aðildarfélaga WMA á því hver viðhorf þeirra eru til þessara samskipta. Það er líka verið að vinna að útgáfu handbókar um siðfræðimál. Um hana verður væntanlega fjallað í siðfræðiráði LÍ en bókin á að koma út síðar í vetur. Hugmyndin er sú að læknafélög geti afhent hana ungum læknum þegar þeir útskrifast. Vonandi getum við afhent hana í kandídatamóttöku næsta vor."

Á leið til Georgíu aftur

Eins og fram hefur komið hér í blaðinu fór Jón á vegum WMA til Georgíu til að kynna sér meðferð á föngum og hvort þeir njóti mannréttinda. Um er að ræða átaksverkefni styrkt af Evrópusambandinu með þátttöku þriggja alþjóðlegra samtaka og er WMA eitt þeirra. Nú er kom­ið að því að halda námskeið fyrir 50 lækna og 25 lögfræðinga í Tiblisi um málefni fanga og hvernig hægt er að bæta aðbúnað þeirra og réttindi. Námskeiðið hefst nú í nóvember og þangað fer Jón til að halda erindi um þær siðareglur sem WMA leggur til grundvallar í þessari vinnu. Einnig fjallar hann um tvenns konar skyldur lækna sem sinna föngum, annars vegar skyldur þeirra gagnvart föngunum og hins vegar þær skyldur sem yfirvöld leggja þeim á herðar. Þessar skyldur fara ekki alltaf saman og þá þurfa læknar stuðning svo þeir ráði við að láta skyldurnar við fangana hafa forgang.

"Að þessu loknu þarf að meta árangurinn af þessu framtaki en það er mjög mikilvægt því átakið sem WMA tekur þátt í nær einungis til fimm landa. Löndin þar sem fangar eru beittir harðræði eru hins vegar á annað hundrað talsins. Þar gæti hlutverk læknasamtakanna verið að halda svona námskeið víða. Þar nýt­ist vel frumkvæði norsku læknasamtakanna sem hafa komið upp fjarnámi á þessu sviði en það fer fram á netinu."

Formennska í siðfræðiráði LÍ

Hér heima hafa orðið þau tíðindi hjá Jóni að hann lét af varaformennsku í LÍ á aðalfundi um síðustu mánaðamót en var skömmu síðar skipaður formaður siðfræðiráðs félagsins. Hvernig líst honum á það?

"Mjög vel því það tengist því sem ég hef verið að gera fyrir LÍ á alþjóðavettvangi undanfarin tvö ár. Það styrkir starfið að hafa þessi tengsl við alþjóðasamtökin og Evrópu þar sem siðfræðileg málefni eru mikið til umræðu og hlutfallslega meira en í samtökum okkar. Þarna eru ýmis verkefni og ég vil nefna eitt þeirra sem er endurskoðun alþjóðlegra siðareglna lækna sem er að hefjast. Þar er LÍ þátttakandi í vinnu­hópi og ég sé fyrir mér að siðfræðiráðið sinni því starfi fyrir hönd félagsins.

Ráðið hefur verið að skoða evrópskar reglur um samskipti lækna og sjúklinga á netinu og laga þær að íslenskum aðstæðum. Þeirri vinnu verður að sjálfsögðu haldið áfram. Ýmis mál sem eru til umræðu í samfélaginu þarf að taka upp í ráðinu, svo sem stofnfrumurannsóknir en nú er komin fram þingsályktunartillaga um þær á alþingi. Það er því af nógu að taka," segir Jón G. Snædal.Þetta vefsvæði byggir á Eplica