11. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

"Líðan sjúklings eftir atvikum góð"

Erindi Róberts Marshall um hag sjúklinga og skyldur lækna og blaðamanna vakti athygli

Aðalfundir LÍ hafa lengi verið í nokkuð föstum skorðum en á fundinum sem haldinn var í byrjun október var tekið upp á þeirri nýbreytni að efna til Læknaþings. Um­ræðuefni þingsins var Sjúklingar og lækn­ar í samfélaginu - staða þeirra og hlut­skipti. Frummælendur voru fimm: Jim Appleyard forseti Alþjóðafélags lækna fjall­aði um fagmennsku lækna sem var leiðarstef dagsins en á eftir honum fluttu erindi Elínborg Bárðardóttir formaður Félags íslenskra heimilislækna, Dögg Páls­dóttir lögmaður, Róbert Marshall formaður Blaðamannafélags Íslands sem fjölluðu um hag sjúklinga og skyldur sinna stétta og loks Óskar Einarsson formaður LR sem fjallaði um trúnaðarsamband lækna og samfélags.

Hér gefst ekki tóm til að fjalla ítarlega um öll erindin en ef marka má viðbrögð úr sal og umræður að loknum framsöguerindum kveikti leiðtogi blaðamanna mest í fundarmönnum. Róbert Marshall hélt því meðal annars fram að engin samfélags­mein væru leyst í þagnarbindindi og að það ætti einnig við um starfsvettvang lækna.

Hann nefndi dæmi frá Bandaríkjunum þar sem umfjöllun blaðamanna um mistök í heilbrigðiskerfinu varð til þess að starfshættir kerfisins breyttust. Í þeim tilfellum höfðu málin verið rædd í hópi lækna án þess að nokkuð breyttist. Það var ekki fyrr en blaðamenn eða fólk þeim nákomið dó sem málin komust upp á yfirborðið og vinnubrögð heilbrigðiskerfisins breyttust.

Róbert nefndi samskipti fjölmiðla við lækna á bráðadeild Landspítala sem fylgja þeirri reglu að eini maðurinn sem fjölmiðlar geta talað við er vakthafandi læknir. Sá læknir er þó oft upptekinn og getur lítið sagt en samskiptin liðu fyrir það að spítalinn hefði engan talsmann sem gæti tjáð sig um afleiðingar slysa og líðan fórnarlamba þeirra. "Líf vakthafandi læknis, hvað fjölmiðla varðar, væri óbærilegt ef þetta væri einn og sami maðurinn en mik­ið væri líf okkar fjölmiðlamanna betra ef svo væri," sagði Róbert. Út úr þessum samskiptum kæmi oft að líðan sjúklings væri eftir atvikum góð sem væri eitthvert merkingarlausasta orðasamband íslenskra fjölmiðla.

Hann nefndi nýlegt dæmi um samskipti ís­lenskra lækna og fjölmiðla þar sem veikindi forsætisráðherra Íslands voru til umræðu og bar þau saman við það þegar breskur kollega ráðherrans veiktist til að sýna muninn á ís­lenskri fjölmiðlaumfjöllun og erlendri. Þegar Davíð Oddsson veiktist tókst ekki að toga stakt orð upp úr neinum lækni um veik­indi hans en þegar Tony Blair fór í skurðaðgerð mætti læknir í útsendingu Sky-fréttastofunnar með líkan af hjarta til að sýna hvað væri verið að gera við ráðherrann. Og það sem meira var: líflæknir ráðherrans var í símaviðtali á sama tíma og greindi frá líðan skjólstæðings síns.

Frummælendum varð nokkuð tíðrætt um það sem nefnt er læknamistök en menn vildu frekar nefna óhöpp í heilbrigðiskerfinu en umræða um þau hefur verið mikil á síðustu árum. Dögg Pálsdóttir ræddi í því samhengi um lögin um sjúklingatryggingu þar sem kveðið er á um bótaskyldu sjúklinga sem verða fyrir skakkaföllum í heilbrigðiskerfinu, en án þess að einhver einstaklingur sé dreginn til ábyrgðar. Hún gagnrýndi lækna nokkuð fyrir það að þeir væru tregir til að tilkynna um tilvik þar sem árangur meðferðar hefði orðið annar en að var stefnt. Einnig sagði hún að læknar stæðu sig ekki í stykkinu við að upplýsa sjúklinga um rétt þeirra samkvæmt áðurnefndum lögum um sjúklingatryggingu.

Umræður um þetta og fleiri atriði sem fram komu í framsöguerindunum voru líflegar en að vanda hefði tíminn að ósekju mátt vera lengri.Þetta vefsvæði byggir á Eplica