11. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Samþykktir aðalfundar Læknafélags Íslands

1.

Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn í Nesi við Seltjörn dagana 1. til 2. október 2004 fellst á þá ráðstöfun stjórnar að ráða hagfræðing til félagsins. Fundurinn samþykkir verkefnið sem tilraun til þriggja ára og felur framkvæmdastjóra, gjaldkera, formönnum samninganefnda og hagfræðingnum sérstaka tilsjón með því.

Framkvæmdastjóri skal vera oddviti þess hóps og gefa aðalfundi skýrslu um verkefnið ár hvert. Hópurinn setur hagfræðingnum erindisbréf.

2.

Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn í Nesi við Seltjörn dagana 1. til 2. október 2004, ályktar að gerðar skuli kröfur um kunnáttu í íslenskri tungu til þeirra lækna, sem ráðnir eru til starfa á Íslandi. Fundurinn skorar á landlækni að koma með tilmæli þar að lútandi.

Ennfremur bendir fundurinn á að efla þarf túlka­þjónustu í þágu sjúklinga, sem ekki tala íslensku.

3.

Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn í Nesi við Seltjörn dagana 1. til 2. október 2004, skorar á Alþingi og ríkisstjórn að hafa forgöngu um aðgerðir til að auka heilbrigði Íslendinga með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. Fundurinn leggur til að gerð verði áætlun í þessu skyni sem hafi heilsurækt til eflingar lýðheilsu á Íslandi að leiðarljósi. Höfð verði til hliðsjónar markmið-11 í gildandi heilbrigðisáætlun og markmið Manneldisráðs varðandi mataræði og næringarefni. Mótuð verði stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar sem fjallaði um:

a. verðlækkun hollustuvara og bætta merkingu matvæla,

b. almenningsfræðslu,

c. aukna kennslu í næringarfræði og aukna hreyf­ingu í leik- og grunnskólum,

d. stuðning við menningartengda hreyfingu barna og unglinga, svo sem ýmis konar dans, ratleiki o.fl., auk keppnisíþrótta,

e. aukna áherslu á almenningsíþróttir og aðstöðu almennings til útivistar og annarrar hreyfingar.

Haft yrði í huga að gera þetta að sjálfsögðu, spennandi og skemmtilegu verkefni fyrir þjóðina til að fást við og að það hefði þverpólitíska skírskotun. Sköpuð yrðu skilyrði fyrir þegnana til að velja skynsamlega í þessum efnum, þannig að bágur efnahagur og skortur á fræðslu og upplýsingum hefði sem minnst áhrif á ákvarðanir til heilsubótar.

4.

Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn í Nesi við Seltjörn dagana 1. til 2. október 2004, felur stjórn LÍ að móta stefnu um fjölgun sjálfstætt starfandi heimilislækna og fjölbreyttara rekstrarform í heilsugæsl­unni. Unnin verði greinargerð um stöðu heimilislækninga hérlendis og hún borin saman við þróun reksturs heimilislækninga í nágrannalöndum okkar. Greinargerðin skal fjalla um, hverju þurfi að breyta í lögum og reglugerðum hér á landi til að auka sjálfstæði heimislækna og hvernig rammasamningur Læknafélags Íslands við heilbrigðisyfirvöld fyrir sjálfstætt starfandi heimilislækna gæti litið út. Greinargerðin verði lögð fyrir næsta aðalfund LÍ.

5.

Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn dagana 1. og 2. október 2004, í Nesi við Seltjörn, heimilar áframhaldandi fjárstuðning til Læknafélags Akureyrar við uppbyggingu lækningaminjasafns í Gudmanns Minde á Akureyri allt að kr. 1.000.000 árið 2005 enda komi sama upphæð á móti með frjálsum framlögum frá öðrum.

Aðalfundurinn skorar á Akureyrarbæ að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hægt verði að endur­byggja húsið ásamt viðbyggingu í upprunalegri mynd.Þetta vefsvæði byggir á Eplica