10. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Áhuga-, atvinnu- eða ævintýramenn?

Það hefur verið afar ánægjulegt að starfa að félagsmálum lækna á liðnum árum. Ég hef notið þeirra forréttinda að fá að tengja áhugamál og félagsstarf lækna og notið til þess stuðnings kollega minna í læknastétt. Auðvitað er stundum siglt mótbyr og veður á súðum, en það léttir jafnan undir þegar allir leggjast á eitt; maður finnur áhuga félaganna á að leggja nokkuð til af sínu, gefa sinn skerf af tíma og fyrirhöfn til að samtök lækna nái markmiðum sínum.

Sigurbjörn SveinssonÉg minnist oft þeirra ára sem ég var í stjórn Félags íslenskra heimilislækna. Þau urðu ellefu áður en yfir lauk. Þetta var að ýmsu leyti uppskerutími; miklu hafði verið sáð og nægur ávöxtur. Það þurfti verkamenn til uppskerunnar. Margt verkið lagðist á fárra herðar eins og gengur. En það var athyglisvert að það heyrði til algerra undantekninga - og ég man reyndar ekki dæmi þess - að nokkur skoraðist undan þeim verkefnum sem honum voru falin. Það kom oftar en ekki fyrir að stjórnin tæki ákvarðanir um viðfangsefni og oddvita þeirra án munnlegra umleitana fyrirfram. Var þá niðurstaðan tilkynnt bréflega. Tóku félagarnir hverju því sem að hendi kom með miklu jafnaðargeði og umburðarlyndi og leystu úr verkefnum sínum eins og til var ætlast. Og gekk enginn úr skaftinu. Þessi hefur verið siður lækna í áranna rás enda verkefnin mörg en verkamennirnir fáir og takmarkað fé miðað við viðleitni og umsvif.

Það er að sínu leyti ævintýri líkast.

Undanfarin misseri hafa þær raddir gerst háværari að launa beri félagsstörf fyrir lækna í ríkari mæli en nú er gert. Skemmst er að minnast umræðu sem fram fór á aðalfundi félagsins á Hólum á liðnu ári. Útgáfu­stjórn Læknablaðsins hafði þá haft til umfjöllunar mánuðum saman erindi frá ábyrgðarmanni og ritstjórn blaðsins um fastar greiðslur til hans fyrir ritstjórnina en vikið sér undan að taka afstöðu til þess. Það var álit mitt að um afdrifaríka tímamótaákvörðun yrði að ræða sem bryti í bága við ríkjandi hefðir í röðum lækna. Hélt ég þeirri skoðun á loft að slíka ákvörðun yrði aðalfundur Læknafélags Íslands að taka, þar sem við myndi blasa nýr fjárhagslegur veruleiki eða öllu heldur skógarferð­ir með fjárhag félagsins.

Eins og kunnugt er hafa engir læknar notið launa innan LÍ utan formanns nema þeir sem orðið hafa fyrir umtalsverðum búsifjum vegna starfa sinna, til dæmis að samningamálum. Eru dæmi þess teljandi á fingrum annarrar handar.

Aðalfundur 2003 gaf stjórninni fyrirmæli um að komast að niðurstöðu í máli ábyrgðarmannsins án þess að því fylgdi nokkur forsögn um hver hún skyldi vera. Þetta leiddi til tímabundinnar lausnar málsins. Sú sátt renn­ur með réttu skeið sitt samkvæmt orðanna hljóðan þann 2. október 2004.

Í framhaldi þessarar umræðu fól stjórn LÍ undirrituðum og framkvæmdastjóra að kanna hug annarra félaga, sem fara með umfangsmikil ábyrgðarstörf fyrir félagið, til þessa málatilbúnaðar. Bréfleg eftirgrennsl­an hefur borið lítinn árangur. Þó hefur einn þessara aðila tjáð sig munnlega, að honum finnist laun fyrir starf sitt óviðeigandi en "bætur" fyrir tjón eða tillit á annatímum koma til greina. Gæti það fremur orðið til að styrkja LÍ en veikja. Það má því ljóst vera að þeir sem fara með annasömustu trúnaðarstörfin fyrir félagið eru tvístígandi þegar fjárhagsleg umbun er ann­ars vegar eða hugsanlega í hjarta sínu andvígir því.

Stjórn LÍ barst svo á dögunum erindi þar sem óskað var eftir bótum fyrir glataða frídaga á ferða­lögum erlendis í þágu LÍ. Því erindi var synjað.

Til þess að Læknafélag Íslands haldi þeirri siglingu sem á því er, og er því þá alls ekki haldið fram að allt sé yfir gagnrýni hafið á þeim bænum, þurfa sem flestir að fórna nokkru. Og hver og einn til skemmri tíma eða lengri eftir aðstæðum sínum og ánægju og óskum félaga sinna. Þar er heilbrigður metnaður sjálfsögð fylgja.

Allt hefur sinn tíma undir sólinni og svo er einn­ig um félagsstörf. Félagsstörf eru gefandi. Þeirra má njóta. Þau verða ekki "bætt". Forðum var sagt að maðurinn lifði ekki af brauði einu saman. Sigurður Nordal bætti um betur og fullyrti að maðurinn lifði alls ekki af brauði, hann lifði af ævintýrunum. Starfið í víngarði lækna getur verið slíkt ævintýr.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica