10. tbl. 90. árg. 2004
Íðorð 170. Eftirfylgni
Það hefur alltaf þótt góður siður að læknar fylgi sjúklingum sínum eftir, þar til þeir hafa læknast eða niðurstaða fengist. Í mörgum tilvikum kemur frumkvæðið að slíku frá lækninum og hann skipuleggur þá samfundi læknis og sjúklings sem til þarf. Á ensku er gjarnan notuð samsetningin to follow up, að fylgja eftir. Sögnin follow merkir fylgja, elta eða fylgjast með. Óþarft ætti að vera að bæta þar við atviksorðinu up, en það merkir upp, uppi, upp á við eða að fullu, enda tilgreinir Orðabók Arnar og Örlygs það einnig sem merkingarlitla viðbót eða áhersluorð með ýmsum sögnum. Síðan hefur orðið til enska nafnorðið follow-up, en það er notað til að gefa til kynna þá aðgerð eða þann feril, sem þarf til að einhverju verði fylgt eftir. Á slíku vilja læknar hafa heiti. Þrátt fyrir mikla notkun í daglegu starfi á sjúkrastofnunum í hinum enskumælandi heimi, er þetta nafnorð ekki að finna í nýlegum læknisfræðiorðabókum Dorlands og Stedmans. Fjölfræðiorðabók Websters tekur hins vegar á málinu með því að tilgreina helstu merkingarnar og bendir einnig á, að oft er samsetningin notuð sem ígildi lýsingarorðs með nafnorði, til dæmis follow-up care.
Íðorðasafn lækna verður ekki til hjálpar við þýðinguna, en í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar má finna follow up í orðasafni úr stjórnmálafræði og þá með þýðingunum eftirfylgd, eftirfylgni, framhald. Undirritaður leggur til að læknar noti nafnorðið eftirfylgni þegar við á. Ekki er þó beinlínis amast við orðinu eftirfylgd, nema af þeirri ástæðu einni, að það er svo erfitt í framburði. Í samsetningum má stytta og breyta til, þannig að follow-up treatment verður eftirmeðferð eða fylgimeðferð og follow-up care getur orðið fylgi- eða eftirumönnun.
"Bjúgaður?"
Eiríkur Jónsson, yfirlæknir, sendi tölvupóst og bað undirritaðan vinsamlegast um að fordæma orðskrípin bjúgaður, sem "unglingar og upp í virðulega prófessora" eru farnir að nota þegar "einhver er með bjúg", og verkjaður, "þegar einhver er með verki". Undirritaður er Eiríki hjartanlega sammála og hefur til þess stuðning fleiri virðulegra sérfræðinga sem hafa haft samband við hann á undanförnum vikum af sömu ástæðu. Einn þeirra benti á að lyfjaður væri þó allra verst þessara nýju orða.
Gera verður ráð fyrir að umrædd orð ætti að flokka sem lýsingarorð mynduð af nafnorðunum, bjúgur, verkur og lyf. Dæmi um slíka orðmyndun er lýsingarorðið kjarkaður (af kjarkur). Flest orð sem enda á -aður eru hins vegar lýsingarháttur þátíðar af tilsvarandi sögn, svo sem málaður (af mála) og ölvaður (af ölva).
Undirritaður ráðfærði sig ítarlega við sérfræðinga Íslenskrar málstöðvar og voru þeir sammála Eiríki um að þessar orðmyndir samræmdust ekki íslensku málkerfi, án þess þó að slíkt væri hægt að styðja með beinhörðum málfræðireglum.
Spaugsamir unglingar munu að sjálfsögðu halda áfram að setja saman ný orð, gera alls kyns tilraunir með gömul orð og að prófa þanþol hins íslenska máls. Þegar slíkt er gert af þekkingu og með virðingu fyrir tungumálinu og því sem til umræðu er, getur útkoman orðið býsna skemmtileg. Undirrituðum finnst það hins vegar álíka lítilsvirðandi fyrir sjúklinginn að segja að hann sé "bjúgaður" eða "lyfjaður" og að tala um hann sem "gallblöðruna á stofu nítján!" Nú þurfa yfirlæknar og ráðsettir sérfræðingar að koma í veg fyrir að orðin komi sér tryggilega fyrir í íslenskum sjúkraskrám.
Manipulation
Ekki var rými í síðasta pistli til að ljúka fyrstu umræðu um manipulation. Æskilegt væri að fá notkunardæmi úr læknisfræðilegum textum til að fást við. Manipulation vísar til aðgerðar eða verknaðar þar sem tiltekinn líkamshluti er hreyfður, lagaður eða færður til, annaðhvort með höndum eða á einhvern annan hátt, þannig að um beina eða óbeina handfjötlun getur verið að ræða. Sögnin manipulate vísar á sama hátt til þess að hreyfa, á eiginlegan eða óeiginlegan hátt, með höndunum. Vel þekkt er sögnin að handstýra. Spurningin til Jóhanns Tómassonar, læknis, og annarra, sem áhuga hafa á íslenskun þessara orða, er eftirfarandi: Í hvaða samhengi eru þau notuð núna og hvaða verknaði eiga þau að lýsa í læknisfræðilegu samhengi? Sjálfsagt er svo að halda umræðunni áfram í tengslum við áhugaverð notkunardæmi.
Syncope
Magnús Karl Pétursson, hjartalæknir, óskaði eftir umræðu um íslenskun á heitinu syncope. Tilefnið er að fram er komið í ensku fræðimáli hugtakið near syncope.
Íðorðasafn lækna tilgreinir syncope án skilgreiningar og íslensku þýðingarnar yfirlið, ómegin, aðsvif, öngvit, sem skilja má sem samheiti. Læknisfræðiorðabækur Dorlands og Stedmans lýsa fyrirbærinu hins vegar á þennan hátt: tímabundið meðvitundarleysi vegna almennrar blóðþurrðar í heila og missir meðvitundar og stöðuspennu af völdum minnkaðs heilablóðflæðis. Orðið syncope er komið úr grísku og sagt myndað úr forskeytinu syn-, sem merkir með eða saman og orðhlutanum kop-, sem mun vera dreginn af sögninni koptein, skera. Samsett orð af þessum stofnum merkti svo að stytta, stöðva, binda endi á eða grípa fram í fyrir einhverjum. Framhald í næsta blaði.
johannhj@landspitali.is