Umræða og fréttir

Nefnd um verkaskiptingu sjúkrahúsa og einkarekstrar

Á haustdögum skipaði Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra nefnd sem ætlað er að gera tillögur til ráðherra "um hvernig endurskilgreina megi verksvið Landspítala - háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri með tilliti til breyttra þjóðfélagsaðstæðna". Nefndin á að skoða hlutverk þessara sjúkrahúsa "sem hátæknisjúkrahús landsmanna, kennslustofnana, miðstöðva faglegrar þróunar, stofnana sem veita öllum landsmönnum þjónustu og sem svæðisbundin sjúkrahús. ... [Nefndinni] er einnig falið að kanna verkaskipti milli þessara stofnana og annarrar heilbrigðisþjónustu, svo sem einkarekinna læknastofa ... [og] leita ráðgjafar landlæknis m.a. um faglegt mat á því hvaða heilbrigðisþjónustu sé skynsamlegt að veita utan sjúkrahúsa."

Þetta er ekki lítið hlutverk sem ráðherra ætlar tíu manna nefnd að sinna en nefndarmenn eru: Jónína Bjartmarz alþingismaður sem er formaður, Magnús Pétursson forstjóri Landspítala varaformaður, Páll Skúlason háskólarektor, Drífa Hjartardóttir alþingismaður, Margrét Frímannsdóttir alþingismaður, Sigurbjörn Sveinsson formaður LÍ, Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Halldór Jónsson forstjóri FSA, Garðar Garðarsson formaður samninganefndar heilbrigðisráðuneytisins og Magnús Skúlason deildarstjóri í sama ráðuneyti.

Þegar stjórn LÍ fjallaði um þessa nefndarskipan vakti það athygli að í henni á læknastéttin aðeins einn fulltrúa. Hins vegar vantar í nefndina lækni "sem telja má sérstakan kunnáttumann um eitt aðalviðfangsefni hennar, einkareknar læknastofur, og talsmann þeirra hagsmuna og faglegra sjónarmiða, sem þar eru ríkjandi" eins og segir í bréfi frá formanni LÍ til ráðherra. Þar stingur hann upp á því að úr þessu verði bætt. Ráðherra svaraði bréfinu á þann hátt "að óska eftir því við Læknafélag Íslands að það velji einstakling til samstarfs við nefndina, eða lítinn hóp sérfróðra manna um þetta efni. Formanni nefndarinnar, Jónínu Bjartmarz alþingismanni, verður falið að hafa samstarf við þennan eða þessa einstaklinga eftir þörfum og nýta þannig sérþekkingu þeirra."

Stjórn LÍ hafði ákveðið að skipa nefnd lækna formanninum til fulltingis í störfum nefndar Jónínu. Stjórnin óskaði eftir tilnefningum LR, FÍH og læknaráða Landspítala og FSA en skipaði formann án tilnefningar. Í framhaldi af því ákvað stjórn LÍ að þessi nefnd gæti einnig mætt óskum ráðherra. Í henni eru fimm læknar sem að meirihluta hafa þekkingu og reynslu af rekstri sérfræðistofu utan sjúkrahúsa en þeir eru: Sigurður Guðmundsson landlæknir, Elínborg Bárðardóttir formaður FÍH, Friðbjörn Sigurðsson formaður læknaráðs LSH, Óskar Einarsson formaður LR og Valur Þór Marteinsson formaður læknaráðs FSA.

"Jónínunefndin" eins og nefnd ráðherra er gjarnan kölluð hefur haldið tvo fundi frá því hún var skipuð og ráðgjafahópur LÍ einn. Í skipunarbréfi ráðherra er nefndinni gert að skila niðurstöðum sínum í vor.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica