Umræða og fréttir

Hæstiréttur úrskurðar bæklunarlæknum í vil

Fimmtudaginn 11. desember kvað hæstiréttur upp dóm í máli bæklunarlækna gegn Tryggingastofnun ríkisins. Mál þetta hefur manna í millum verið nefnt "Skúrkamálið" en það snýst um rétt lækna á einkastofum til að veita sjúklingum þjónustu án greiðsluþátttöku TR. Niðurstaða réttarins var sú að þeim væri þetta heimilt samkvæmt samningi þeirra við TR.

Dóminn kváðu upp þrír af fimm dómurum en tveir skiluðu séráliti. Í niðurstöðu réttarins segir meðal annars:

"Í samningi milli T (Tryggingastofnunar ríkisins) og félagsmanna Í (Íslenska bæklunarlæknafélagsins) um greiðslu T á hluta almannatrygginga í lækniskostnaði vegna meðferðar sjúklinga hjá félagsmönnum Í var meðal annars kveðið á um afslátt sem færi hækkandi eftir því sem læknisverk yrðu fleiri á hverju ári. Í nóvember 2002 tjáðu nokkrir félagsmenn Í sjúklingum sínum að þeim stæði ekki til boða á því ári að fá þjónustu með greiðsluþátttöku T en jafnframt að þjónustan stæði til boða ef sjúklingarnir greiddu að fullu fyrir hana sjálfir. Í málinu krafðist Í viðurkenningar á því að félagsmönnum þess væri þetta heimilt og vísaði meðal annars til 2. mgr. 5. gr. fyrrgreinds samnings sem kvað á um að lækni væri heimilt að taka sjúkratryggðan einstakling til meðferðar án greiðsluafskipta T ef sjúklingur óskaði þess. Talið var að í ljósi 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar yrði að líta svo á að félagsmenn Í hefðu óskert frelsi til að ráða verkum sínum, innan þeirra marka sem því frelsi kynni að vera sett með samningum þeirra eða lögum. Í lögum 117/1993 væri hvergi mælt fyrir um bann við því að leysa af hendi læknisverk fyrir annað endurgjald en greini í fyrrnefndum samningi við T og ekki sé kveðið á um að lækni sem bundinn sé af samningnum sé skylt að sinna hverjum þeim sjúklingi sem til hans leiti. Engin skilyrði komi fram í 2. mgr. 5. gr. samningsins önnur en þau að sjúklingur óski sjálfur eftir þjónustu án greiðsluþátttöku T og þótti forsaga ákvæðisins ekki gefa tilefni til ályktana um að heimildin sem þar komi fram sé bundin frekari skilyrðum en berum orðum greini. Félagsmönnum Í sé hvorki eftir nefndum samningi né einstaklingsbundnum samningum sínum við T skylt að leysa af hendi sérhvert læknisverk á sérfræðisviði sínu sem leitað sé til þeirra um, eða slík verk allt að tilteknu magni. Þeir hafi því ekki með samningssambandi sínu við T afsalað sér rétti til að velja eftir sínum eigin forsendum hvaða verkum þeir sinni, þar á meðal hvort þeir taki að sér verk með tilliti til fjárhagslegra ástæðna. Voru kröfur Í því teknar til greina."
Þetta vefsvæði byggir á Eplica