Ágrip erinda

Ágrip erinda 50-95

E 50 Þvinguð notkun lamaðs efri útlims og áhrif hennar á starfræna færni útlimsins hjá sjúklingi eftir heilablóðfall. A-B-A-B-A tilfellarannsókn

Jónína Waagfjörð1,2, Herdís Þórisdóttir21Læknadeild HÍ, sjúkraþjálfunarskor, 2Landspítali Grensási

joninaw@hi.isInngangur: Markmið rannsóknarinnar var að skoða áhrif CIM - þjálfunar (constraint induced movement therapy) á starfræna færni lamaðs efri útlims hjá sjúklingi eftir heilablóðfall og einnig til að skoða hvort endurtekning á meðferðartímanum (seinni B fasi) mundi auka þá færni enn frekar. Framfarir eru í mörgum tilfellum mjög hægar í lamaða efri útlimnum eftir heilablóðfall og 30-66% af þeim sem lifa af heilablóðfall geta ekki notað hann við starfræna færni.

Efniviður og aðferðir: Þátttakandi var 21 árs gömul stúlka sem fengið hafði heilablóðfall sex mánuðum áður. Sjálfstæð með allt atferli daglegs lífs en gat ekki notað lamaða efri útliminn. Gekk stuttar vegalengdir með eina hækju sem ekki var notuð á meðan á rannsókninni stóð. Rannsóknin var A-B-A-B-A tilfellarannsókn (single subject design) þar sem meðferðartíminn (B) samanstóð af ákafri þjálfun á lamaða efri útlimnum og var heilbrigði útlimurinn bundinn meirihluta dagsins (90%). Hvert tímabil stóð yfir í tvær vikur og safnað var gögnum þrisvar sinnum í viku með Wolf Motor Function Test (WMFT). Önnur mælitæki sem notuð voru: Assessment of Motor and Process Skills (hluti af prófi), Modified Motor Assessment Scale Uppsala Akademiska sjukhuset, 1999 (efri útlimur), virkur hreyfiferill í efri útlimum og GAITRite göngumotta til að skrá spatio-temporal göngubreytur.

Helstu niðurstöður: Niðurstöður sýndu breytingar til hins betra í nær öllum breytum sem skoðaðar voru fyrir efri útlim og kom marktækur munur í ljós í þremur atriðum á WMFT-prófinu (brjóta handklæði, lyfta penna, snúa lykli í skrá). Gæði hreyfinga jukust einnig. Endurtekning á meðferðartímabili sýndi enn frekari bata en vegna veikinda þátttakanda var söfnun gagna ábótavant og því allir tölfræðiútreikningar erfiðir. Meðferðin hafði einnig jákvæð áhrif á aðrar breytur (til dæmis göngu) og starfrænni færni var viðhaldið þremur mánuðum eftir að rannsókn lauk.

Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að CIM-þjálfun valdi áframhaldandi aukningu í færni lamaðs efri útlims sem ólíklegt er að hefði gerst ef ekki hefði komið til þessi sérstaka þjálfun. Endurtekning á meðferðartímabilinu virtist auka færni lamaða efri útlimsins enn frekar. Frekari rannsókna er þörf til að skoða þetta hjá fleiri einstaklingum.

E 51 Tvívíður lögunarháður rafdráttur til rannsókna

á flóknum erfðaefnissýnum

Guðmundur Heiðar Gunnarsson1,2, Hans Guttormur Þormar1,3, Bjarki Guðmundsson2, Lina Akeson1, Jón Jóhannes Jónsson1,31Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 2Lífeind ehf., 3erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss

ghg@lifeind.isInngangur: DNA bútar með óeðlilegar annars stigs byggingar, þar með taldar misparanir, lykkjur, ljósskemmdir og A-raðir, hafa breytta lögun. Slíkir bútar ferðast hægar í PAGE rafdrætti en bútar með eðlilega lögun. Sé um að ræða flókið safn mislangra búta er ekki hægt að greina með venjulegum rafdrætti hvaða bútar tefjast vegna breyttrar lögunar. Aðferðir til að aðgreina DNA sameindir eftir lögun en óháð lengd væru því mikilsverðar. Þær mætti meðal annars nota til að einangra misparaða eða skemmda DNA búta frá eðlilegum DNA bútum í flóknum erfðaefnissýnum. Við lýsum þróun rafdráttarkerfis fyrir lögunarháðan aðskilnað.

Efniviður og aðferðir: Smíðaðir voru 298 bp DNA bútar sem hver innihélt eina skilgreinda óeðlilega byggingu í miðju sinni. Þannig var komið upp safni 14 DNA búta sem samanstóð af réttpöruðum viðmiðunarbút, átta bútum með öllum einföldum mispörunum og fimm bútum með lykkjum á stærðarbilinu 1 til 5 basar. Einnig var geisluð 545 bp PCR afurð við 254 nm í 0-60 mínútur til að mynda blöndu ljósskemmda. Safnið var nýtt til að þróa tvívítt rafdráttarkerfi fyrir lögunarháðan aðskilnað.

Niðurstöður: DNA bútar sem innihéldu lykkjur, ljósskemmdir og A-raðir sýndu aukna töf í PAGE. Við skilgreindum aðstæður sem lágmörkuðu mun á ferðahraða DNA búta af sömu lengd en með ólíka lögun. Þessar aðstæður voru nýttar við þróun tvívíðs rafdráttar þar sem DNA bútar aðgreinast eftir lögun og lengd í fyrri vídd en nær eingöngu eftir lengd í seinni vídd. Með aðferðinni var hægt að aðskilja DNA búta sem innihéldu lykkjur eða ljósskemmdir frá flóknu DNA safni.

Ályktanir: Við höfum þróað skilvirka aðferð til lögunarháðs aðskilnaðar DNA búta í flóknum erfðaefnissýnum. Notagildi hennar felst meðal annars í mispörunarskimun til að greina lengdarerfðabreytileika, einangrun á skemmdum DNA sameindum og mati á endurblendingu flókinna sýna.E 52 Mispörunarskimun á erfðamengissamsvörunum (Representational Mismatch Scanning, RMS)Hans Guttormur Þormar
1,2, Guðmundur H. Gunnarsson1,3, Bjarki Guðmundsson3, Sigrún M. Gústafsdóttir1, Shermann M. Weissmann4, Jón Jóhannes Jónsson1,2,41Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 2erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala háskólasjúkrahúsi, 3Lífeind ehf., 4Dept of Genetics, Yale School of Medicine, New Haven, Connecticut

hans@rhi.hi.isInngangur: Aðferðir eins og genomic mismatch scanning (GMS) til að einangra samupprunaraðir úr erfðamengjum gætu reynst mjög öflugar. Hins vegar er erfðamengi mannsins of flókið til að hægt sé að endurblenda því í heild sinni á skilvirkan hátt en það er ein meginforsenda GMS. Við höfum þróað aðferð til að búa til og meðhöndla samsvaranir með ákjósanlegum eiginleikum til mispörunarskimunar.

Efniviður og aðferðir: Adenínríkar raðir við 3' enda Alu endurtaka (AluR3Fl), sem sumar hverjar eru mjög erfðabreytilegar, voru magnaðar upp. Tvívítt lögunarháð rafdráttarkerfi (2-D CDE) var notað til að meta skilvirkni endurblendingar, til einangrunar erfðabreytilegra raða hjá hópi einstaklinga og til einangrunar á samupprunaröðum hjá hópi sjúklinga með stökkbreytingu í HFE geninu. Gerð var frádráttarblending til að kanna skilvirkni endurblendingar.

Niðurstöður: BLAST leit á 27 klónuðum AluR3Fl sýndi að allar raðir sem fundust voru við 3' enda Alu endurtaka og 21 af 27 var staðsett á 11 mismunandi litningum. 2-D CDE sýndi að AluR3Fl endurblenduðust með skilvirkum hætti. Sjö af 14 röðum sem við einangruðum með 2-D CDE mispörunarskimun, reyndust vera erfðabreytilegar. Við einangrun á samupprunaröðum úr sjúklingum með Cys282Tyr stökkbreytingu í HFE geni komu fram sex raðir. Þrjár þeirra voru í 1-4 eintökum í erfðamenginu og ein þeirra reyndist vera 500 þúsund basapörum frá HFE geninu. Með frádráttarblendingu einangruðum við tvær raðir sem eingöngu voru í öðru erfðamenginu.

Ályktanir: Hjáraðir 3' við Alu endurtökur virðast hafa ákjósanlega eiginleika sem erfðamengissamsvaranir til mispörunarskimunar. Þær endurblendast á skilvirkan hátt og ættu því að nýtast vel sem efniviður til einangrunar samupprunaraða. Við erum að þróa sérhæfð örsýnaraðsöfn til slíkrar greiningar.

E 53 Gen úr sveppum og fléttum tjáð í gersveppnum Saccharomyces_cerevisae_>Saccharomyces cerevisae

Ólafur S. Andrésson, Chen HuipingTilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

osa@rhi.hi.isInngangur: Nýta má erfðaauðlindir fjölbreytilegra heilkjörnunga, svo sem sveppa, fléttna og þörunga, með því að velja og flytja erfðaefni og tjá í gersveppum sem eru sérlega hentugir til ræktunar og erfðatæknivinnu. Í því verkefni sem hér verður fjallað um verður áhersla lögð á fjölketíð, en stefnt er að því að finna og framleiða margvísleg verðmæt lífefni, einkum meðalstórar lífrænar sameindir.

Efniviður og aðferðir: Í fyrsta áfanga verkefnisins eru notuð fjölketíð gen með þekktar basaraðir úr þráðsveppum af ættkvíslinni Aspergillus. Upplýsingar um lestrarupphaf, innraðir og lestrarlok eru notaðar til að útbúa ólígónúkleotíð vísa sem síðan eru notaðir til að magna upp skaraða búta án innraða. Þessum DNA bútum er blandað við opna genaferju og blöndunni er komið inn í liþíum asetat meðhöndlaða gersveppi. Öflugt endurröðunarkerfi gersveppsins splæsir síðan lesröðina saman í tjáningarferjunni. Að lokum er skoðað hvort afurð hins snyrta og ferjaða gens myndar fjölketíð synþasa ensím og hvort það hvatar myndun samsvarandi fjölketíðs.

Niðurstöður og ályktanir: Staðfest hefur verið að skaraðir DNA bútar geta endurraðast inn í tjáningarferju í gersveppum. Ekkert virðist því til fyrirstöðu að þessi tækni verði notuð til að flytja starfhæf gen eða lesraðir úr ýmsum heilkjörnungum í gersveppinn Saccharomyces cerevisae. Einnig verður greint frá niðurstöðum mælinga á fjölketíð afurðum hinna ferjuðu gena.

E 54 Umritunarvirkni Mitf stjórnast af samskiptum þess og stjórnþáttanna p300 og p66

Alexander Schepsky1, Gunnar J. Gunnarsson1,2, Jón H. Hallsson1, Sigríður Valgeirsdóttir2, Eiríkur Steingrímsson1,21Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 2Urður, Verðandi, Skuld

alexansc@hi.isInngangur: Microphthalmia (Mitf) próteinið telst til fjölskyldu basic-helix-loop helix-Leucine Zipper (bHLH-Zip) umritunarþátta. Mitf er mikilvægt fyrir þroskun ýmissa frumugerða. Til að auka skilning á virkni Mitf próteinsins höfum við notað tvíblendingskerfi í gersvepp til að einangra samstarfsþætti þess. Meðal þeirra þátta sem voru einangraðir var p66 próteinið en það er hluti MeCP1 histone deacetylasa/DNA metýlasa próteinflókans. Hér eru hlutverk samskipta Mitf og p66 greind nánar.

Efniviður og aðferðir: Fyrst var p66 cDNA í fullri lengd einangrað úr músa- cDNA safni og tjáningarmunstur p66 skoðað með Northern blot. Staðsetning p66 og Mitf frumunnar var skoðuð með því að transfectera p66-GFP og Mitf-dsRED próteinum inn í 293T frumur. Samskipti próteinanna voru staðfest með co-immunoprecipitation á c-myc-p66 og Mitf úr 293T frumum. Áhrif p66 á umritunarvirkni Mitf voru skoðuð með co-transfection tilraunum.

Niðurstöður: Athugun á amínósýruröð p66 próteinsins sýndi að það er GATA-zinc-finger prótein sem á sér samsvörun í manni, Drosophila, Xenopus og C. elegans. p66 genið er tjáð víða bæði í heilbrigðum vef og í æxlum, eins og við var að búast með deacetýlasa flóka. Tjáning p66-GFP og Mitf-dsRED samrunapróteinanna sýndi að þau voru bæði staðsett í kjarna 293T frumnanna. Þar að auki féllu c-myc-p66 og Mitf saman út í co-immunoprecipitation úr 293T frumum. Umritunarvirkni Mitf minnkar ef því er co-transfected með p66 og reporter constructi.

Ályktarnir: Við sýnum hér fram á samskipti milli p66 og Mitf í kjarnanum og að þessi samskipti draga úr umritunarvirkni Mitf. Áður hefur verið sýnt að Mitf á samskipti við p300 próteinið og veldur það aukinni umritunarvirkni. Þar sem p66 er hluti af deacetýlasaflóka er hugsanlegt að p66 taki þátt í stjórnun Mitf með acetýleringu.E 55 Úrfelling í CHEK2 geninu og tengsl við brjóstakrabbameinSteinunn Thorlacius
1, Þorvaldur Jónsson2,31Urður, Verðandi, Skuld, 2Landspítali háskólasjúkrahús, 3læknadeild HÍ

steinunn@uvs.isInngangur: Stökkbreytingar í BRCA1 og BRCA2 genunum útskýra hluta af ættlægum brjóstakrabbameinum. Stökkbreytingar í CHEK2 geninu á litningi 22q12.1 finnast í einstaklingum með Li-Fraumeni heilkennið (LFS). Krabbameinsáhætta er mikil í einstaklingum með LFS, þar á meðal krabbamein í brjósti. CHEK2 genið kóðar fyrir próteinkínasa sem virkjast við DNA skemmdir og stöðvar frumuskiptingar á meðan gert er við erfðaefnið.

Nýleg rannsókn hefur sýnt fram á að tíðni úrfellingarinnar CHEK2*1100delC er hærri meðal brjóstakrabbameinssjúklinga en viðmiða og hefur verið áætlað að áhætta arfbera á brjóstakrabbameini sé tvöföld. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tíðni CHEK2*1100delC breytingarinnar meðal íslenskra brjóstakrabbameinssjúklinga og heilbrigðra viðmiða.

Efniviður og aðferðir: DNA var einangrað úr blóði 846 einstaklinga sem greinst hafa með brjóstakrabbamein og 658 viðmiða. Skimað var fyrir CHEK2*1100C með PCR og DHPLC tækni, sem gerir kleift að aðskilja DNA búta eftir stærð og lögun. Stökkbreytingar voru staðfestar með raðgreiningu. Einnig var skimað fyrir þekktum stökkbreytingum í BRCA1 og BRCA2. Skimun fyrir BRCA1 G5193A breytingunni var gerð með DHPLC en BRCA2 999del5 stökkbreytigreining var gerð með PCR og rafdrætti.

Niðurstöður: Niðurstöður fengust fyrir 817 sjúklinga og 629 viðmið. CHEK2*1100C úrfellingin fannst í þremur sjúklingum og einu heilbrigðu viðmiði. Enginn þessara einstaklinga reyndist hafa stökkbreytingu í BRCA1 eða BRCA2.

Ályktanir: CHEK2*1100C úrfellingin finnst hjá íslenskum brjóstakrabbameinssjúklingum en er mjög sjaldgæf.

E 56 Óvirkjun BRCA gena í brjóstakrabbameini

Valgerður Birgisdóttir1, Jórunn E. Eyfjörð1,21Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 2læknadeild HÍ

valgerdurb@krabb.isInngangur: Gallar í BRCA1 og BRCA2 genum tengjast aukinni áhættu á brjóstakrabbameini. Þegar þessi gen eru óvirk hefur það meðal annars áhrif á DNA viðgerð tvíþátta brota og þar með stöðugleika erfðaefnisins. Markmið verkefnisins er að kanna óvirkjun BRCA gena í brjóstaæxlum. Óvirkjun BRCA2 má rekja til kímlínubreytinga í geninu og taps á eðlilegu eintaki þess í æxlisvef. Óvirkjun BRCA1 verður á sama hátt, en virðist einnig geta orðið vegna epigenetískra áhrifa, það er meþýleringar á stjórnröð gensins.

Í verkefninu er meþýlering á BRCA1 stýrilsvæði, sem hindrar tjáningu gensins, metin í brjóstaæxlissýnum. Jafnframt er ójafnvægi/tap á BRCA1 og BRCA2 genasvæðum í brjóstaæxlissýnum skoðað með örraðavísum og fylgni milli ójafnvægis/taps á BRCA1 og BRCA2 genasvæðum metin.

Efniviður og aðferðir: Rannsökuð eru 200 sýnapör (æxli og eðlilegur vefur; 10 með BRCA1 breytingu, 90 með BRCA2 breytingu, 100 án BRCA breytinga). Aðferðin sem notuð er við meþýleringargreiningu er meþýleringarsérhæft PCR og rafdráttur. Við greiningu á ójafnvægi/tapi er erfðaefnið sem skoða á magnað upp með örraðavísum. PCR afurðir eru síðan dregnar á geli í ALFexpress raðgreini og greindar með Fragment Analyzer hugbúnaði.

Niðurstöður og ályktanir: Verkefnið er í fullum gangi og verða helstu niðurstöður þess kynntar á ráðstefnunni. Farið verður ítarlega í aðferðafræði rannsóknarinnar en ekki er vitað til þess að fyrrnefndar aðferðir hafi verið notaðar áður hér á landi.

E 57 Litningaóstöðugleiki í brjóstaæxlum

Sigríður Klara Böðvarsdóttir1, Margrét Steinarsdóttir2, Hólmfríður Hilmarsdóttir1, Katrín Guðmundsdóttir1, Sigfríður Guðlaugsdóttir1, Jón Gunnlaugur Jónasson2,3, Jenny Varley4, Jórunn E. Eyfjörð1,31Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 2Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði, 3Háskóli Íslands, 4Patersonstofnunin í krabbameinsrannsóknum í Manchester

skb@krabb.isInngangur: Litningaóstöðugleiki er algengur í brjóstaæxlum. Fyrri rannsóknir hafa sýnt sterk tengsl milli flókinna litningabreytinga í brjóstakrabbameinum, stökkbreytinga í p53 geni og kímlínubreytingar, 999del5, í BRCA2 geninu. Nýlegar niðurstöður benda til þess að endaeyðing litninga eigi stóran þátt í litningaóstöðugleika við æxlismyndun í þekjuvef. Líklegt er að þetta eigi einnig við um brjóstakrabbamein, og hugsanlegt er að stökkbreyting í BRCA2 hafi þar einnig áhrif. Tilgangur verkefnisins er að skoða þætti sem líklegir eru til að hafa áhrif á litningaóstöðugleika. Meðal þessara þátta eru endaeyðing litninga og mögnun æxlisgena, svo sem c-Myc sem hefur áhrif á tjáningu telomerasa.

Efniviður og aðferðir: Brjóstaæxli með þekktar litningabreytingar voru valin í þessa rannsókn. Eyðing litningaenda var greind í 82 brjóstaæxlum sem einnig höfðu verið greind með tilliti til stökkbreytinga í p53 og BRCA2 genum. Þar sem litningaendum í æxlum er viðhaldið með telomerasa er nauðsyn að kanna tjáningu hans. Litað er fyrir virku hTERT telomerasaeiningunni á paraffínsteyptum vefjasneiðum. Mögnun æxlisgena er skoðuð með CGH (comparative genomic hybridization) og sértækum þreifurum fyrir FISH (fluorescense in situ hybridization).

Niðurstöður og ályktanir: Algengt er að æxli með p53 eða BRCA2 stökkbreytingu sýni endasamruna og eru þau æxli jafnan með flóknar litningabreytingar og háa litningatölu. CGH greining á 27 brjóstaæxlum, sem flest sýndu endasamruna og háa litningatölu, sýndi c-Myc mögnun í um 85% tilfella. Einnig reyndist svæði þar sem Aurora A gen er staðsett vera magnað í 85% tilfella, en aurora A hefur áhrif á stöðugleika erfðaefnisins.

E 58 Íslensk rannsókn á sýnd Cys282Tyr stökkbreytingar

í
HFE>HFE geni sem tengist hemókrómatósu

Jónína Jóhannsdóttir1,2, Eiríkur Steingrímsson2, Guðmundur M. Jóhannesson3, Jón Gunnlaugur Jónasson4, Jón Jóhannes Jónsson1,21Erfða- og sameindalæknisfræðideild Rannsóknastofnunar Landspítala háskólasjúkrahúss, 2Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 3blóðmeinafræðideild Rannsóknastofnunar Landspítala háskólasjúkrahúss, 4Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði

joninajo@hi.isInngangur: Hemókrómatósa er arfgengur efnaskiptagalli sem stafar af aukinni upptöku járns í smáþörmum og ofhleðslu járns í vefjum. Niðurstöður erlendra rannsókna á sýnd Cys282Tyr stökkbreytingar í HFE geni eru mjög mismunandi eða 1-50%. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna sýnd stökkbreytingarinnar meðal Íslendinga.

Efniviður og aðferðir: Samsætutíðni stökkbreytinga í HFE geni hjá Íslendingum var rannsökuð á 250 aftengdum sýnum völdum af handahófi úr hópi einstaklinga fæddum 1996. Farið var yfir niðurstöður á lifrarsýnum hjá RH í meinafræði yfir 25 ára tímabil og stökkbreytingar greindar á sýnum með hemókrómatósu. Arfgerð var ákveðin með PCR og ensímskurði. Lífefnafræðileg skilgreining hemókrómatósu var við S-járnmettun 60% hjá körlum og 50% hjá konum, og S-ferritín 500 µg/L hjá báðum kynjum. Fjöldi karla 40 ára og kvenna 50 ára var fenginn úr þjóðskrá.

Niðurstöður: Samsætutíðni Cys282Tyr stökkbreytingarinnar var 6,8%, His63Asp 16,8% og Ser65Cys 3,1%. Á árunum 1973-1997 greindust 38 einstaklingar með hemókrómatósu samkvæmt niðurstöðum úr lifrarástungu en alls höfum við greint 81 hemókrómatósusjúkling með tilliti til HFE stökkbreytinga. Cys282Tyr arfhreinir reyndust 65, eða 80%. Samkvæmt Hardy-Weinberg jafnvægi ættu 328 Íslendingar, karlar 40 ára og konur 50 ára, að vera Cys282Tyr arfhreinir. Ef sjúklingar fá hemókrómatósu þá er það jafnan eftir þessi aldursmörk. Af 65 Cys282Tyr arfhreinum sjúklingum höfum við upplýsingar um að 36 sjúklinganna uppfylli skilgreiningar hér að framan, þar með talið aldur. Sýnd Cys282Tyr stökkbreytingarinnar er þar af leiðandi að minnsta kosti 11% (36/328) á Íslandi.

Ályktanir: Þessar niðurstöður gefa tilefni til að rannsaka áhrif annarra breytigena og umhverfisþátta á sýnd hemókrómatósu.

E 59 Þróun aðferða til rannsókna á fríum kjarnsýrum

í líkamsvökvum

Árni Alfreðsson1, Meghann Lyons1, Jónína Jóhannsdóttir1,2, Guðmundur H. Gunnarsson1, Magnús Konráðsson1, Steinunn Kristjánsdóttir1, Julie Asmussen1, Jón Jóhannes Jónsson1,21Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 2erfða-og sameindalæknisfræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss

arnialf@hi.isInngangur: Fríar kjarnsýrur eru til staðar í lágum styrk í blóðvökva. Takmarkaðar upplýsingar eru til um uppruna þeirra, eiginleika, afdrif og breytingar við sjúkdómsástand. Tilgangur þessa verkefnis var að þróa aðferðir sem væru nógu næmar til að mæla styrk og byggingu utanfrumu DNA í heilbrigðum einstaklingum.

Efniviður og aðferðir: Erfðaefni var einangrað með High Pure Viral Nucleic Acid Kit (Roche Diagnostics) úr blóðvökva 36 heilbrigðra einstaklinga (21-33 ára, 17 karlar og 19 konur). Hannað var PCR hvarf sem magnar upp 169 bp langan bút úr Alu endurteknum röðum samhliða mælingu á SYBR®Green I flúrljómun á rauntíma í LightCycler (Alu-PCR). Einnig var þróuð aðferð sem byggir á að mæla Picogreen flúrljómun beint frá tvíþátta DNA bæði til magnmælinga og til að meta stærð kjarnsýrubúta eftir rafdrátt. Flúrljómun var í þessu tilviki mæld á TyphoonTM 8600 flúrljómunarmyndgreini.

Niðurstöður: Öll sýni féllu innan mælisviðs beggja aðferða. Styrkur frírra kjarnsýra í blóðvökva heilbrigðra var að meðaltali 4,7 µg/L (breidd 1,6-8,8) samkvæmt Alu-PCR. Með beinni flúrljómunarmælingu var meðaltalið 3,5 µg/L (breidd 1,0-7,0). Markvísi Alu-PCR aðferðar var 9,1% en beinnar flúrljómunaraðferðar 13,9%. Samkvæmt rafdrætti var mest tvíþátta DNA í blóðvökva heilbrigðra einstaklinga með færanleika sem samsvarar 150 til 300 bp löngum sameindum. Konur höfðu 20% lægri styrk frírra kjarnsýra samkvæmt báðum mæliaðferðum.

Ályktanir: Þróaðar hafa verið nógu næmar aðferðir til að mæla styrk og lengd frírra kjarnsýra í blóðvökva heilbrigðra. Þar með er kominn grundvöllur til að bera saman heilbrigða og sjúka til að kanna hvernig styrkur og bygging utanfrumu DNA breytist við sjúkdómsástand. Mismunur á niðurstöðum aðferðanna felst líklega í mismunandi byggingu DNA sameinda til dæmis þó að nokkuð sé um einþátta DNA í blóðvökva heilbrigðra.

E 60 Riða á Íslandi. Tíðni einkennalauss riðusmits

í þremur riðuhjörðum og samband við PrP arfgerðir

Stefanía Þorgeirsdóttir1, Guðmundur Georgsson1, Sigurður Sigurðarson2, Ástríður Pálsdóttir11Tilraunastöð HÍ í meinafræði og 2rannsóknadeild dýrasjúkdóma að Keldum

stef@hi.isInngangur: Riða í kindum einkennist af löngum meðgöngutíma og einkennalaus sýking getur aukið útbreiðslu sjúkdómsins. VRQ arfgerð príongensins (PrP) í íslensku sauðfé er tengd auknu næmi fyrir riðusmiti, en AHQ arfgerðin virðist vera verndandi. Þrjár riðuhjarðir voru rannsakaðar með tilliti til riðusmits og PrP arfgerða. Reynt er að svara því hvort ræktun riðuþolins sauðfjárstofns auki hættu á heilbrigðum smitberum.

Efniviður og aðferðir: Heila- og blóðsýnum var safnað úr alls 266 kindum úr þremur riðuhjörðum. PrP arfgerðagreining var gerð með skerðibútagreiningu og bræðslugeli. Leitað var að riðusmitefninu, PrPSc, með próteinþrykki (WB) og í einni hjörð einnig með ónæmislitun á heilasýnum.

Helstu niðurstöður: Tíðni einkennalausrar sýkingar var afar mismunandi milli riðuhjarða, 35% í þeirri fyrstu, 12% annarri en aðeins 2% í þeirri þriðju. Sú hjörð sem hafði hæsta tíðni af riðusmituðum kindum hafði einnig flestar kindur með áhættuarfgerð, en einnig var grunur um að fyrstu kindur hafi smitast nokkrum árum áður en hjörðin var felld. Hlutfall smitaðra einstaklinga með áhættuarfgerð endurspeglaði þverskurð hverrar hjarðar hvað varðar PrP arfgerðir. Í fyrstu hjörðinni voru allar nema tvær með áhættuarfgerðina VRQ, en í hinum tveimur hjörðunum voru flestar jákvæðu kindanna ARQ/ARQ (16/19 og 4/5). Í öllum þremur hjörðunum reyndist engin af riðujákvæðu kindunum (með eða án einkenna) vera með verndandi arfgerðina AHQ.

Ályktanir: Munur á tíðni einkennalausrar sýkingar milli hjarða gæti stafað af því að sjúkdómurinn hafi leynst meðal kindanna mislengi áður en hann uppgötvaðist, en einnig gæti uppbygging hjarðanna hvað varðar PrP arfgerðir skipt máli. Niðurstöður okkar benda ekki til að kynbætur þar sem tíðni AHQ arfgerðarinnar yrði aukin myndu auka líkur á einkennalausum smitberum.E 61 Staðsetning á genum sem tengjast mismunandi birtingarformum sóraAri Kárason1, Jóhann E. Guðjónsson2, Rudi Upmanyu1, Arna Antonsdóttir1, Valdimar B. Hauksson1, Michael C. Frigge1, Augustine Kong1, Kári Stefánsson1, Jeffrey Gulcher1, Helgi Valdimarsson21Íslensk erðfagreining, 2ónæmisfræðideild Landspítalans

helgiv@landspitali.isInngangur: Leit að litningasvæðum með sóragenum hefur til þessa ætíð verið gerð án þess að taka tillit til þess að sjúkdómurinn getur haft mjög ólík birtingarform. Við og aðrir höfum fundið sterk tengsl milli sóra og gens á MHC svæði 6. litnings, og byggjast þessi tengsl á HLA-Cw6 geninu. Við höfum nú kannað hvort hægt sé að staðsetja aðra erfðaþætti sem tengjast ólíkum birtingarformum sjúkdómsins og flokkuðum sjúklingana því samkvæmt ákveðnum klínískum skilmerkjum.

Efniviður og aðferðir: Nákvæm klínísk greining var gerð á um 1000 sjúklingum með sóra. Greining á erfðaefni þessara sjúkinga var gerð með 1000 erfðamerkjum, sem hafa verið notuð af Íslenskri erfðagreiningu til tengslagreiningar á erfðamengi mannsins.

Niðurstöður: Miðgildi aldurs við upphaf sjúkdóms var 17 ár. Tengsl fundust við svæði á lengri armi 4. litnings hjá þeim sem fengu sjúkdóminn eftir 17 ára aldur (LOD>3,7) en ekki hjá þeim sem fengu sjúkdóminn fyrr. Þeir sem fengu fyrstu einkenni sjúkdómsins í hársvörð sýndu tengsl við lengri arm 10. litnings (LOD>4,0), en þessir sjúklingar hafa gjarnan exemkennd (seborrhoeic) útbrot. Einnig koma fram tengsl við svæði á 11. litningi hjá sjúklingum með þrálát dropaútbrot (eruptive psoriasis). Loks fundust tengsl við svæði á 1. litningi hjá sjúklingum með naglbreytingar sem tengjast sóra (LOD>3,0).

Ályktanir: Fyrri niðurstöður okkar benda til þess að tilhneiging til að erfa sóra ráðist af samspili fárra gena. Þessar niðurstöður samrýmast því að ýmis önnur gen geti haft veruleg áhrif á gang og einkenni sjúkdómsins.

E 62 FDA flokkun lyfja og sýklódextrín

Þorsteinn LoftssonLyfjafræðideild HÍ

thorstlo@hi.is Inngangur: FDA hefur innleitt flokkunarkerfi fyrir lyf sem byggist á leysanleika lyfjanna í vatni og hæfni þeirra til að komast í gegnum lífrænar himnur. Kallast þetta kerfi Biopharmaceutics Classification System. Samkvæmt því eru lyf flokkuð í fjóra flokka. Í flokki 1 eru lyf sem bæði leysast vel upp í vatni og fara auðveldlega í gegnum lífrænar himnur. Í flokki 2 eru lyf sem eru torleysanleg í vatni en fara auðveldlega í gegnum lífrænar himnur þegar þau eru í lausn. Í flokki 3 eru lyf sem leysast auðveldlega upp í vatni en fara treglega í gegnum lífrænar himnur. Að lokum eru lyf sem eru bæði torleysanleg í vatni og fara treglega í gegnum lífrænar himnur í flokki 4. Sýnt verður hvernig sýklódextrínfléttun hefur áhrif á lyf í þessum flokkum.

Efniviður og aðferðir: Ýmis lyf voru leyst upp í sýklódextrínlausnum í vatni. Leysanleiki lyfjanna var ákvarðaður og flutningur þeirra frá lausnunum í gegnum ólífrænar (sellófanhimnur) og lífrænar himnur (músahúð, snákahúð og fiskroð) ákvarðaður. Lyfin voru magnákvörðuð með HPLC.

Helstu niðurstöður: Í flokki 1 eru þau lyf sem hafa æskilega eðlisefnafræðilega eiginleika. Aftur á móti eru flest lyf í flokki 2 og mjög mörg ný lyf (og NCE) eru í flokki 2 eða 4. Sýklódextrín mynda fléttur (komplexa) með mörgum fitusæknum lyfjum og geta þannig aukið leysanleika lyfjanna í vatni. Þar sem ekki myndast jafngild tengi (kóvalent tengi) við fléttumyndun og þar sem óbundnar lyfjasameindir eru í hröðu jafnvægi við sameindir sem bundnar eru í fléttunum, þá dregur fléttunin ekki úr hæfni lyfsins til að komast í gegnum lífrænar himnur.

Ályktanir: Með sýklódextrínfléttun lyfja má flytja lyf úr flokki 2 í flokk 1. Einnig er hægt að flytja sum lyf úr flokki 4 í flokk 1. Aftur á móti geta sýklódextrín ekki flutt lyf úr flokki 3 í flokk 1.

E 63 Einangruð svínaaugu sem líkan fyrir frásog augnlyfja

Hákon Hrafn Sigurðsson1,2, Þorsteinn Loftsson2, Einar Stefánsson31Lyfjafræðideild HÍ, 2Íslensk erfðagreining, 3læknadeild HÍ

hhs@hi.isInngangur: Kanínur eru oft notaðar sem tilraunadýr þegar meta á frásog nýrra augnlyfja eða augnlyfjasamsetninga. Þó er notkun kanína við slíkar rannsóknir umdeild. Svínsaugu eru talin líkjast mannsaugum hvað mest. Hins vegar er erfitt að framkvæma slíkar frásogstilraunir í lifandi svínum.

Markmið: Að kanna hversu gott líkan einangruð augu úr svínum eru til að meta frásog augnlyfjasamsetninga. Einnig að kanna hvort hægt sé að nota slímhimnu svínaaugna til að rannsaka slímhimnuviðloðandi augnlyfjasamsetningar.

Efniviður og aðferðir: Augu úr nýslátruðum svínum eru notuð við rannsóknirnar. Þau eru skorin úr svínum á tvennan hátt, annars vegar einungis augað úr tóftinni en hins vegar augað með augnvöðvum, augnlokum og hluta húðar í kringum augun. Augunum er komið fyrir í sérstökum grindum og míkródíalýsusprotum komið fyrir á mismunandi stöðum í augunum. Mæling hefst er lyfjalausn er sett á yfirborð augans og flæði byrjar inn í sprotana. Í lok tilrauna er augað hlutað í sundur og lyfið magngreint í mismunandi hlutum þess. Einnig er flæði lyfs í gegnum mismunandi hluta augans mælt í flæðisellum.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður hafa leitt tvennt mjög mikilvægt í ljós. Hornhimna svínaaugna er mikil hindrun á flæði lyfja og það tekur venjulega fitusækna sterasameind um það bil fjórar klukkustundir að fara í gegnum hornhimnuna. Staðsetning sprota inn í auga skiptir höfuðmáli við mat á frásog lyfja. Almennt er frásog inn í svínaaugu mun minna en almennt er talið fyrir mannsaugu.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að svínaaugu séu ef til vill ekki heppileg sem líkön fyrir frásog augnlyfja. Einnig má draga mjög varfærnislega þær ályktanir að hugsanlega sé hluti lyfs sem mælist í augum í klínískum rannsóknum ekki tilkominn vegna frásogs lyfsins inn í augað heldur vegna flutnings þangað með blóðrásarkerfinu.E 64 Efnabyggingar einsleitra fjölsykra úr ormagrösum (Thamnolia_vermicularis>Thamnolia vermicularis var. subuliformis>subuliformis) og áhrif þeirra á frumufjölgun miltisfrumna in_vitro>in vitroSesselja Ómarsdóttir
1, Elín Soffía Ólafsdóttir1, Berit Smestad Paulsen2, Jóna Freysdóttir31Lyfjafræðideild HÍ, 2Dept of Pharmacognosy, Institute of Pharmacy, University of Oslo, 3Lyfjaþróun hf.

sesselo@hi.isInngangur: Af þeim 13.500 fléttutegundum sem þekktar eru í dag hafa einungis um 100 tegundir verið rannsakaðar með tilliti til fjölsykruinnihalds. Margar fjölsykrur úr fléttum og sveppum hafa sýnt áhrif á ýmsa þætti ónæmiskerfisins. Ormagrös framleiða flókið heteróglýkan sem hefur óvenjulega rhamnópýranósýlgalaktófúranan byggingu og heitir thamnolan. Thamnolan hefur sýnt virkni í átfrumuprófi og anti-komplementprófi in vitro.

Efniviður og aðferðir: Fjölsykrurnar voru úrhlutaðar með heitu vatni og 0,5 M NaOH, einangraðar með etanólfellingum og díalýsu, hreinsaðar upp með jónskiptaskiljun, gelsíun og preparatíft á GP-HPLC. Fjölsykrurnar voru byggingaákvarðaðar með 1H og 13C -NMR, metanólýsu og metýleringsgreiningu á GC-MS og með ensím- og sýruhýdrólýsu. Mólþyngd var ákvörðuð með GP-HPLC. Frumufjölgunarpróf voru gerð á miltisfrumum úr rottum. Frumurnar voru ræktaðar í 24 klukkustundir með mismunandi styrk af fjölsykrum. Frumufjölgunin var ákvörðuð með því að mæla 3H-thýmidín upptöku frumna í skiptingu með sindurteljara.

Niðurstöður: Ormagrös innihalda að minnsta kosti fjórar tegundir fjölsykra. Thamnolan, Ths-2 sem er (1!3)-ß-D-glúkan sem greinist með (1!6)-ß-D-glúkanópýranósýl hóp á þriðju hverri einingu í aðalkeðjunni og hefur Mr = 67 kDa. Ths-4 sem er heteróglýkan með einsykrusamsetninga Gal:Man:Glc:Rha:Ara:Xyl (45:31:11:6:4:3) og Mr = 19 kDa og Ths-5 einnig heteróglýkan og hefur einsykrusamsetninguna Gal:Glc:Man:Rha:Ara:Xyl (44:27:11:9:5:4) og Mr = 200 kDa. Ths-2 og Ths-5 juku frumufjölgun miltisfrumna í þessu prófi þar sem að SI (stimulation index) var 2,3 hjá Ths-2 og 2,5 hjá Ths-5 í styrknum 167 mg/ml.

Ályktanir: Ormagrös framleiða fjölsykrur með óvenjulegar byggingar sem gætu verið áhugaverðar með tilliti til áhrifa þeirra á ónæmiskerfið og út frá flokkunarfræðilegu sjónarmiði.

E 65 Umhverfisvæn mjúk bakteríudrepandi lyf

Þorsteinn Þorsteinsson1,2, Már Másson1, Karl G. Kristinsson3, Martha A. Hjálmarsdóttir3, Hilmar Hilmarsson4, Þorsteinn Loftsson11Lyfjafræðideild HÍ, 2Íslensk erfðagreining, 3sýklafræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss, 4Líffræðistofnun HÍ

thorstt@hi.isInngangur: Mjúk lyf eru skilgreind sem líffræðilega virk efnasambönd (lyf) sem brotna niður með fyrirsjáanlegum hraða og hætti í líkamanum (in vivo) í óeitruð efni eftir að þau hafa haft tilætluð áhrif. Mjúk bakteríudrepandi efnasambönd úr fituefnum, meðal annars úr fiskiolíu, voru búin til og virkni þeirra og eðlislyfjafræðilegir eiginleikar prófaðir. Efnafræðileg uppbygging samanstendur af löngum fituhala sem er tengdur við skautaðan hóp með efnafræðilega óstöðugu tengi. Þessi efni líkjast efnafræðilega (hermar) þekktum bakteríudrepandi efnum eins og cetýlpýridínklóríði og benzalkóníumklóríði en brotna niður mun auðveldar í umhverfinu.

Efniviður og aðferðir: Sería af um 30 mjúkum bakteríudrepandi efnum var smíðuð og nokkur þekkt efni til viðbótar einnig prófuð. Í stöðugleikarannsóknum voru nokkur efni brotin niður við mismunandi pH, buffera, hitastig, skautun, ísótópa og þær niðurstöður notaðar til að áætla hvernig niðurbrotið á sér stað. Kannað var hugsanlegt samband milli virkni og eðlislyfjafræðilegra eiginleika. Virkni þessara efna gegn fjórum bakteríutegundum og einni veirutegund var rannsökuð.

Niðurstöður: Efnin voru greind með NMR, HPLC og frumefnagreiningu til að ákvarða efnabyggingu og hreinleika. Mjúku efnin mældust með virkni (MIC) allt að 1 mg/ml gegn Staphylococcus aureus og sýndu góða virkni gegn Enterococcus faecalis og E. coli en minni virkni gegn Pseudomonas aeruginosa. Virkni gegn Herpes Simplex veiru var mjög góð og efnin höfðu einnig mun minni eituráhrif gegn hýsilfrumunum í veiruprófinu en "hörðu" efnin.

Ályktanir: Mjúku bakteríudrepandi efnin náðu álíka góðri virkni og hefðbundin "hörð" bakteríudrepandi efni, en þessi efni geta brotnað mun auðveldar niður í náttúrunni í óvirk efnasambönd og eru því umhverfisvæn.

E 66 Áhrif sýrustigs á eiginleika mónókaprínhlaups

og virkni gegn örverum

Þórunn Ósk Þorgeirsdóttir1, Hulda Ormsdóttir1, Hilmar Hilmarsson2, Halldór Þormar2, Þórdís Kristmundsdóttir11Lyfjafræðideild og 2Líffræðistofnun HÍ

thoth@hi.isInngangur: Þróuð hafa verið hlaup með mónókapríni sem virku efni og hefur það reynst stöðugt og virkt. Mónókaprín (1-mónóglýseríð af kaprínsýru) er náttúrulegt fituefni sem hefur sýnt mikla virkni gegn ýmsum bakteríum og veirum í tilraunaglasi. Það fer eftir væntanlegri notkun mónókaprínhlaupsins hvaða sýrustig væri æskilegt að stilla það á en hlaup sem þetta mætti nota gegn sýkingum jafnt í munni og í leggöngum. Lyfjaform í leggöng er æskilegt að stilla á pH 5,0 og lyfjaform til notkunar í munni á pH 7,0. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif sýrustigs á eiginleika mónókaprínhlaups og virkni gegn örverum.

Efniviður og aðferðir: Framleidd voru hlaup sem voru stillt á pH 5,0, 6,0 eða 7,0. Öll hlaupin innihéldu sama magn af karbomer en mónókaprín var leyst upp í blöndu af 5% própýlenglýkóli og 1% pólýsorbati 20. Virkni gegn HSV-1 og Escherichia coli var könnuð. Áhrif mismunandi sýrustigs á seigjustig hlaupanna, viðloðun við nefslímhúð svína svo og losun mónókapríns úr lyfjaforminu voru einnig skoðuð.

Niðurstöður: Sýrustigið hafði engin áhrif á virkni hlaupsins gegn HSV-1 en virkni gegn E. coli minnkar með hækkuðu sýrustigi. Seigjustig hlaupanna eykst með hækkuðu sýrustigi sem hefur áhrif á losun mónókapríns úr hlaupinu. Viðloðun hlaupsins við nefslímhúð svína eykst með auknu sýrustigi en viðloðun hlaups sem stillt var á pH 6,0 var ekki betri en þess sem stillt var á 5,0 eins og við var búist.

Ályktanir: Niðurstöður sýna að sýrustig hefur áhrif á virkni mónókaprínhlaups gegn E. coli. Þar sem þekkt er að seigjustig karbomer hlaupa eykst með hækkuðu sýrustigi mætti minnka magn þess í hlaupum ætluðum í munn og því er hægt að laga lyfjaformið að hvorum stað fyrir sig með litlum breytingum.

E 67 Þróun á smáskammta doxýcýklín (SSD) hlaupi

Skúli Skúlason1,3, W. Peter Holbrook2, Þórdís Kristmundsdóttir31Líf-Hlaup ehf., 2tannlæknadeild og 3lyfjafræðideild HÍ

skulis@hi.isInngangur: Munnangur er mjög algengt og er talið herja á allt að 20% jarðarbúa. Munnangur læknast venjulega á 7-14 dögum án meðhöndlunar. Á tímabilinu getur munnangrið hins vegar verið sársaukafullt, einkum þegar sjúklingurinn neytir matar eða drykkjar. Þörf fyrir lyf við munnangri er umtalsverð þar sem munnangur gerir mönnum lífið leitt og meðferðarúrræði sem nú eru til hafa ekki sýnt fram á nægilega góða verkun eða hafa óæskilegar aukaverkanir. Tetracýklín og afleiður þess hafa sýnt góða virkni sem hamlar á matrix metallópróteinasa (MMP) ensím sem eru hluti af bólgusvörun og taka einnig þátt í niðurbroti á vef í sárunum.

Líf-Hlaup ehf. hefur þróað lyfjasamsetningu til meðferðar á munnangri og er meðferðinni ætlað að stytta viðverutíma munnangursins og draga úr sársauka.

Efniviður og aðferðir: Hlaupforskrift hefur verið þróuð og prófuð með tilliti til viðloðunar, losunar virks efnis, stöðugleika og virkni in vitro. Klínísk rannsókn á samsetningunni stendur nú yfir. Meðferðin byggist á hamningu doxýcýklíns á MMP ensímum. Magn doxýcýklíns í lyfjaforminu er það lítið að það hefur ekki áhrif á örveruflóru munnsins.

Niðurstöður: MMP-2 og MMP-9 eru hamin fullkomlega við 300mM og 50mM styrk doxýcýklíns. Samsetningin hefur sýnt góða bindingu við slímhúð in vitro. Stöðugleikapróf hafa sýnt að samsetningin er stöðug eftir eins árs geymslu. Losun virka efnisins úr hlaupinu er hröð og hafa um 20% losnað á 15 mínútum.

Ályktanir: In vitro rannsóknir hafa sýnt að doxýcýklín hemur MMP ensím við mjög lágan styrk og álykta má að lyfið hafi góða virkni í munnholi þar sem rannsóknir hafa sýnt að það safnast í mun hærri styrk í munnvef en í sermi og bætir þannig staðbundna virkni. Mjög lítið magn þarf af virku efni til að hemja ensímin og því lítil hætta á að lyfið hafi áhrif annars staðar í líkamanum.

E 68 Viðvera stakra F._nucleatum_>F. nucleatum klóna í munnvatni barna fyrstu tvö ár ævinnar

Gunnsteinn Haraldsson1,2, Eija Könönen2, W. Peter Holbrook11Tannlæknadeild HÍ, 2National Public Health Institute, Helsinki

Gunnsteinn.Haraldsson@ktl.fiInngangur: Loftfirrðar bakteríur finnast í munni barna áður en tennur koma upp en eftir að tennur birtast eykst tíðni þessara tegunda mikið. Þegar tegundir hafa tekið sér bólfestu í munni barna er viðvera þeirra stöðug. Viðvera stakra klóna hefur hins vegar lítið verið rannsökuð. Í nýlegri rannsókn okkar á uppruna nefkoks Fusobacterium nucleatum fundust sömu klónar í munnvatni barna, teknir með sex mánaða millibili. Markmið þessarar rannsóknar var að meta viðveru og útskiptingu stakra F. nucleatum klóna í börnum fyrstu tvö ár ævinnar.

Efniviður og aðferðir: Úr munnvatnssýnum 12 barna, teknum við tveggja, sex, 12, 18 og 24 mánaða aldur, voru 543 F. nucleatum stofnar greindir til klóna með AP-PCR og bornir saman við aðra klóna úr sama barni. AP-PCR var framkvæmt með C1 (5'-3' GAT GAG TTC GTG TCC GTA CAA CTG G), C2 (5'-3' GGT TAT CGA AAT CAG CCA CAG CGC C), D8635 (5'-3' GAG CGG CCA AAG GGA GCA GAC), og D11344 (5'-3' AGT GAA TTC GCG GTG AGA TGC CA) prímerum, sem allir hafa verið notaðir áður við greiningu F. nucleatum. DNA var einangrað með suðu nokkurra kólonía í jónabindiefni í 10 mínútur, þá var það hrist og spunnið í 10 mínútur. PCR-að var í 25 µl rúmmáli í 500 µl PCR glasi með 5 µl af DNA upplausn og 0,8 µM af einum prímer. PCR afurðir voru aðskildar með agarósa rafdrætti, ethidíum brómíði litaðar og myndaðar stafrænt í UV-ljósi.

Niðurstöður: Í hverju barni fundust 5-14 (meðaltal 8,4) klónar. Allt að sjö klónar fundust í hverri sýnatöku (meðaltal 3,1) en algengasti fjöldi var tveir eða þrír. Í hverju sýni voru einn til tveir klónar ríkjandi (að minnsta kosti þriðjungur stofna). Í 11 börnum héldust klónar í allt að eitt ár. Algengara var að klónar skiptust út fyrir eins árs aldur en héldust í börnunum eftir eins árs aldurinn.

Ályktanir: Niðurstöðurnar staðfesta sundurleitni tegundarinnar, allt að sjö klónar finnast í einni sýnatöku. Klónar F. nucleatum geta viðhaldist í börnum í að minnsta kosti eitt ár.E 69 Breytt notkun tannfyllingaefna á Íslandi

Svend Richter, Sigfús Þór ElíassonTannlækningastofnun, tannlækningadeild HÍ

svend@hi.is  Inngangur: Upplýsingar um notkun tannfyllinga eru mikilvægar þegar meta á þátttöku hins opinbera í tannlæknisþjónustu, við kennslu tannlæknanema og fyrir tannlækna almennt. Engar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi hvað þetta varðar, fyrir utan eina rannsókn 1983. Tilgangur þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á breytta notkun fyllingaefna á þessu tímabili og ástæðum fyrir gerð og endurgerð fyllinga.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er hluti stærri rannsóknar á tannfyllingum og endurgerð þeirra. Tannlæknar í almennum praxís voru beðnir að skrá fyrirfram skilgreindar ástæður fyrir gerð tannfyllinga, vali á tannfyllingaefnum og endingu tannfyllinga, eftir lögun (klössum) og efnum fyllinga. Þá voru þeir beðnir að áætla núverandi og fyrrverandi notkun tannfyllingaefna í álagssvæði jaxla.

Niðurstöður: Í rannsókninni 1983 fengust upplýsingar frá 41 tannlækni (56% svarhlutfall) um 3077 fyllingar, en í þeirri síðari (2000) fengust upplýsingar frá 91 tannlækni (51%) um 8395 fyllingar. Niðurstöður sýna stöðuga aukningu á notkun plastefna í álagssvæði jaxla, mun meiri í I. klassa en II. klassa. Seinni könnunin sýnir að einungis er notað 14,9% amalgam í I. klassa, en var aðalfyllingaefnið (55,2%) 1983. Hlutfall upphafsfyllinga og endurfyllinga var nánast það sama 2000 og 1983. Sekunder tannáta var aðalástæða fyrir endurgerð allra fyllinga bæði árin, 48,6% 1983, en 43,7% 2000. Aðalbreytingar á ástæðum tengjast bættum fyllingaefnum. Þannig fækkar amalgamfyllingum sem brotna við brúnir eða að tennur brotna sem í eru amalgamfyllingar. Hvað kompositfyllingar varðar þá fækkar þeim fyllingum sem þarf að endurgera vegna mislitunar. Góð fylgni er á milli áætlaðrar og raunnotkunar á amalgami og komposit í I. og II. klassa fyllingar.

Ályktanir: Notkun komposit í álagsfleti jaxla eykst stöðugt á kostnað amalgams, sérstaklega í I. klassa fyllingar. Aðalástæður fyrir gerð fyllinga hafa lítið breyst, breytingar tengjast aðallega bættum fyllingaefnum.

E 70 Ending tannfyllinga á Íslandi

Sigfús Þór Elíasson, Svend RichterTannlækningastofnun, tannlækningadeild HÍ

sigfuse@hi.is  Inngangur: Upplýsingar um endingu tannfyllinga eru mikilvægur mælikvarði við mat á langtímakostnaði tannviðgerða, en engar slíkar upplýsingar hafa verið til hér á landi. Tilgangur rannsóknarinnar er að afla upplýsinga um endingu tannfyllinga á Íslandi og bera niðurstöður saman við sams konar rannsóknir erlendis.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er hluti stærri rannsóknar á tannfyllingum og endurgerð þeirra og vali á fyllingaefnum í almennum tannlæknapraxís. Tannlæknar voru beðnir að skrá aldur fyllinga sem voru endurgerðar, ef upplýsingar voru fáanlegar úr sjúkraskrám. Voru þeir beðnir að skrá hefðbundna lögun fyllinga eftir klössum (I.-VI.), auk "öðruvísi" fyllinga, þar sem til dæmis allir fletir væru viðgerðir. Einnig voru tannlæknar beðnir að skrá hvort tannfyllingaefnið sem var fjarlægt væri amalgam, komposit, glerjonomer, plast/glerjonomer eða annað efni. Aldur fyllinga var reiknaður bæði sem meðaltal og miðgildi. Í niðurstöðum er miðgildi aldurs notað, þar sem efri og neðri 25% kvartel eru ekki tekin með.

Niðurstöður: Aldur 1917 bilaðra fyllinga í fullorðinstönnum var skráður. Miðgildi aldurs amalgamfyllinga var 10 ár, átta ár fyrir komposit, fjögur ár fyrir glerjonomerfyllingar og þrjú ár fyrir resin-/glerjonomerfyllingar. Miðgildi aldurs fyrir "aðrar" fyllingar, sem aðallega voru gullinnlegg, var mun hærra, eða 16 ár. Miðgildi aldurs amalgam- og kompositfyllinga borið saman við lögun (klassa) fyllinga var alltaf hærra fyrir amalgamfyllingar, eða 13,5 ár á móti fimm árum fyrir composit í I. klassa, 10 ár á móti sjö árum í II. klassa, 15,5 ár á móti 10 árum í III. klassa, 10 ár á móti átta árum í V. klassa og 11 ár á móti fimm árum í stærri fyllingar. Séu niðurstöður flokkaðar eftir aldri kom í ljós að í yngsta hópnum var miðgildi aldurs kompositfyllinga fjögur ár, en næstum helmingi hærra, eða 7,5 ár, fyrir amalgamfyllingar. Ekki var munur á aldri amalgamfyllinga eftir kynferði, en miðgildi aldurs kompositfyllinga var nokkuð lægra hjá körlum en konum.

Ályktanir: Amalgamfyllingar endast lengur en kompositfyllingar. Glerjonomer- og plast-/glerjonomerfyllingar endast skemur. Gullfyllingar endast lengst.

E 71 Áhrif munnvatnsmengunar á bindistyrk milli plastlaga

Sigurður Örn Eiríksson1, Patricia N.R. Pereira2, Edward J. Swift Jr.2, Harald O. Heymann2, Ásgeir Sigurðsson21Tannlækningastofnun tannlæknadeildar HÍ, 2University of North Carolina at Chapel Hill, NC

sigeir@hi.isInngangur: Mælt hefur verið með að setja plastfyllingar í tennur í nokkrum lögum og ljósherða á milli. Lengri tíma tekur að gera slíkar fyllingar og aukin hætta er á mengun. Tilgangur þessarar rannsóknar var að rannsaka áhrif munnvatnsmengunar á bindistyrk (mTBS) á milli plastlaga og ákvarða hvaða hreinsunaraðferð kæmi næst gildum samanburðarhópsins.

Efniviður og aðferðir: Yfirborð 4 mm plastfyllingarkubbs (Z-250, Renew, APX, PertacII) var meðhöndlað á eftirfarandi hátt: 1) munnvatn borið á og þurrkað hægt, 2) sama og 1) þurrkað hratt, 3) sama og 1) skolað með vatni, 4) sama og 3) bindiefni borið á (Single Bond, One-Step, Clearfil SE, Prompt L-pop), 5) sama og 1) bindiefni borið á. Samanburðarhópur var ekki mengaður. Plastfyllingarefni var sett yfir og ljóshert í 2 mm lögum. Eftir 24 klukkutíma í vatni voru sýnin söguð niður í 0,7 mm breiðar þynnur, formuð með bor í stundarglasasnið með 1 mm2 í þvermál, og brotið með togálagi í Instron Universal prófunarvél á 1 mm/mín hraða. Niðurstöður voru greindar tölfræðilega með ANOVA og Fishers PLSD prófi (p<0,05). MPa (SD), n=12.

Niðurstöður: Meðalbindistyrkur fyrir samanburðarhópa var 58,5 MPa en lækkaði niður í 20,2 MPa í hópi 1. Bindistyrkur fyrir hóp 2 var 45,3 MPa og hóp 3 49,9 MPa. Þegar bindiefnin voru sett á sýnin mældist bindistyrkur 48 MPa í hópi 4 og 54,9 MPa í hópi 5.

Ályktanir: Til að endurvekja upprunalegan bindistyrk hjá plastfyllingarefnum eftir munnvatnsmengun er best að bera bindiefni á plastfleti.

E 72 Áverkar á tennur hjá börnum og unglingum á Íslandi

Sigfús Þór ElíassonTannlækningastofnun tannlæknadeild HÍ

sigfuse@hi.isInngangur: Áverkar á tennur barna og unglinga eru tannheilsuvandamál sem erfitt getur reynst að meðhöndla. Ekkert er vitað um áverka á tennur Íslendinga. Tilgangur þessarar rannsóknar er að kanna tíðni áverka á framtennur 12 og 15 ára barna og unglinga á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Þessi könnun var hluti af stærri rannsókn á tannheilsu íslenskra ungmenna sem var framkvæmd árið 1986 og aftur árið 1996. Rannsóknarsvæði voru ákvörðuð (stratified cluster sampling) og þátttakendur valdir með slembiúrtaki úr skólaskýrslum. Fjöldi skoðaðra árið 1986 var 898 12 ára og 858 15 ára og 989 12 ára og 999 15 ára árið 1996. Tannskoðun fór fram í grunnskólum í færanlegum tannlækningastól með ljósi og kanna. Auk þess var spurt spurninga um ástæður áverkans. Sami tannlæknir skoðaði börnin í báðum könnunum og sami aðstoðarmaður sá um skráningu. Áverkum var skipt í fimm flokka: 1) tönn mislituð en óbrotin; 2) einungis brotið úr glerungi; 3) brotið bæði úr glerungi og tannbeini; 4) brotið úr tönn þannig að tannkvika skaðaðist; 5) tönn töpuð. Einnig var skráð hvort og á hvern hátt brotin tönn var viðgerð.

Niðurstöður: Árið 1986 voru 20,4% 12 ára og 23,1% 15 ára með sýnilegan áverka á einni eða fleiri tönnum. Sambærilegar tölur fyrir árið 1996 eru 15,6% hjá 12 ára og 18,3% hjá 15 ára. Samtals bæði árin er meira en helmingur áverkanna bundinn við glerungsskaða, eða 55,2% hjá 12 ára og 55,9% hjá 15 ára. Brot náði inn í tannbein í 35,1% tilfella hjá 12 ára og 32,3% hjá 15 ára og inn í tannkviku hjá 8,2% 12 ára og 9,4% 15 ára. Mislitaðar tennur voru 0,9% tilfella fyrir 12 ára og 1,6% hjá 15 ára, meðan alveg tapaðar tennur voru 0,6% og 0,8% hjá þessum aldurshópum. Langalgengast var að miðframtennur efri góms hefðu skaðast. Drengir urðu oftar fyrir tannáverka en stúlkur. Oftast var gert við tannbrot með kompositfyllingum. Algengustu ástæður gefnar fyrir tannáverka voru að "eitthvað rakst í tennur" og að viðkomandi "datt".

Ályktanir: Næstum fimmta hvert ungmenni á Íslandi verður fyrir áverka á tennur sem þarfnast tannlæknismeðferðar.

E 73 Einangrun og skilgreining á nýrri stofnfrumulínu úr brjóstkirtli

Þórarinn Guðjónsson1,2, René Villadsen2, Helga Lind Nielsen2, Lone Rønnov-Jessen3, Mina J. Bissell4, Ole William Petersen21Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 2Structural Cell Biology Unit, Institute of Medical Anatomy, The Panum Institute, Kaupmannahöfn, 3Zoophysiological Laboratory, The August Krogh Institute, Kaupmannahöfn, 4Life Sciences Division, Berkeley National Laboratory, Berkeley

thorarinn@krabb.isInngangur: Þekjuvefur brjóstkirtils er samsettur úr innra lagi af skautuðum kirtilþekjufrumum og ytra lagi af vöðvaþekjufrumum aðskilið frá utanumliggjandi stoðvef með grunnhimnu. Brjóstakrabbamein á nánast alltaf upptök sín í kirtilfrumunum og við framþróun illkynja vaxtar hverfa vöðvaþekjufrumurnar að mestu auk þess sem grunnhimnan er ekki lengur sjáanleg. Kirtilþekjufrumurnar og vöðvaþekjufrumurnar tjá sértæk kenniprótein sem hægt er að nota til að greina þessar frumur í sundur í rækt. Kirtilþekjufrumur tjá meðal annars sialomucin, epithelial specific antigen, keratín 18 og undirhópur þeirra tjáir keratín 19. Vöðvaþekjufrumur tjá meðal annars mikið af grunnhimnupróteinum og integrinum auk vöðvasérvirkra próteina.

Efniviður og aðferðir: Við höfum sýnt fram á í frumurækt að undirhópur kirtilfrumna getur umbreyst í vöðvaþekjufrumur en ekki öfugt, sem styður þá kenningu að stofnfrumur brjóstsins sé að finna innan kirtilfrumna. Með notkun mótefna gegn sértækum kennipróteinum á undirhópi kirtilfrumna reyndist mögulegt að einangra frumur úr brjóstaminnkunaraðgerðum sem innihéldu stofnfrumueiginleika. Útbúin var stofnfrumulína til notkunar í langtímarannsóknum með innskoti á retrógenaferju sem innihéldur E6 og E7 æxlisgenin frá Human papilloma 16 veiru.

Niðurstöður: Í tvívíðri frumurækt (monolayer) og með mótefnalitun kom í ljós að frumulínan sérhæfðist bæði í fullþroskaðar kirtilþekjufrumur og vöðvaþekjufrumur. Í þrívíðri frumurækt myndaði stofnfrumulínan mjólkurganga mjög svipað því sem sést í líkamanum, það er að segja með innra lagi af skautuðum kirtilþekjufrumum og ytra lagi af vöðvaþekjufrumum.

Ályktanir: Nánari athugun á þessari stofnfrumulínu og notkun hennar í framtíðinni gæti aukið þekkingu okkar á tilurð og framþróun brjóstakrabbameina.

E 74 Gerð og skilgreining nýrrar æðaþelsfrumulínu úr fituvef brjóstkirtils

Agla J.R. Friðriksdóttir, Helga M. Ögmundsdóttir, Þórarinn GuðjónssonRannsóknarstofa Krabbameinsfélagi Íslands í sameinda- og frumulíffræði

agla@krabb.isInngangur: Nýmyndun æða er nauðsynlegur þáttur í vexti krabbameina og skipta samskipti æðaþelsfrumna og æxlisfrumna miklu máli í þessu samhengi. Frumuræktunarlíkön, sem endurspegla þessi samskipti, gætu því komið að miklum notum. Fyrri rannsóknir hafa aðallega notast við æðaþelsfrumur frá naflastreng. Þetta stafar af því hversu gott aðgengi er að þessum frumum. Hins vegar er það vel þekkt að æðaþelsfrumur frá hinum ýmsum líffærum búa yfir ólíkum eiginleikum. Markmið þessarar rannsóknar var að búa til og skilgreina æðaþelsfrumulínu úr fituvef brjóstkirtils, sem hægt væri að nota í samræktum með brjóstakrabbameinsfrumum í framtíðinni.

Efniviður og aðferðir: Fituvefur var einangraður úr brjóstvef eftir brjóstaminnkunaraðgerð og meltur með kollagenasa og trypsíni. Þar sem fituvefurinn inniheldur nær eingöngu fitufrumur og háræðar fékkst tiltölulega mikið magn af nokkuð hreinum æðaþelsvefjabútum. Vefjalausnin var því næst inkúberuð með Dynabeads segulkúlum, sem húðaðar voru með mótefni gegn CD31 (PECAM), til þess að fá enn hreinni lausn af æðaþelsvefjabútum. Einangruðum háræðavefjabútum var síðan sáð á kollagenhúðaðar ræktunarflöskur og þeir ræktaðir á sértæku æðaþelsfrumuæti. Eftir að góður frumuvöxtur hafði fengist í ræktunarflöskunum voru æðaþelsfrumurnar gerðar ódauðlegar með innskoti á retrógenaferju, sem skráir fyrir human papilloma veiru-16 æxlisgenunum E6 og E7.

Niðurstöður: Nýja brjóstaæðaþelsfrumulínan sýnir kúlulaga (cobblestone) svipgerð og snertitálmun í tvívíðum ræktum. Við ræktun ofan á grunnhimnuefni myndast æðalíkir strúktúrar. Mótefnalitanir staðfesta tjáningu á hefðbundnum kennipróteinum fyrir æðaþelsfrumur, eins og CD31, von Willebrand Factor og CD105.

Ályktanir: Þessi nýja háræðaþelsfrumulína mun vonandi koma að góðum notum í in vitro frumuræktunarlíkönum, er endurspegla þau samskipti sem eiga sér stað milli brjóstaæðaþelsfrumna og eðlilegra og illkynja brjóstakrabbameinsfrumna við nýmyndun æða. Þær rannsóknir eru í gangi núna.

E 75 Arfberar BRCA2 stökkbreytingar. Áhrif fæðinga

og brjóstagjafar á brjóstakrabbameinsáhættu

Laufey Tryggvadóttir1, Sigfríður Guðlaugsdóttir2, Elínborg J. Ólafsdóttir1, Sigrún Stefánsdóttir2, Hólmfríður Hilmarsdóttir2, Hafdís Hafsteinsdóttir2, Jón G. Jónasson1,3,4, Hrafn Tulinius1, Jórunn E. Eyfjörð2,31Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 2Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 3Háskóli Íslands, 4Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði

laufeyt@krabb.isInngangur: Meðfæddar stökkbreytingar í BRCA genum auka áhættu á brjóstakrabbameini. Á Íslandi bera 7-8% kvenna með brjóstakrabbamein eina tiltekna stökkbreytingu, 999del5, í BRCA2 geninu. Fæðingar og brjóstagjöf draga úr brjóstakrabbameinsáhættu. Tilgangur rannsóknar okkar var að kanna tilgátu um að áhrif þessara þátta séu önnur á brjóstvef í arfberum BRCA2 stökkbreytingar en hjá öðrum konum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var tilfellaviðmiðarannsókn innan ferilrannsóknar. Tveir hópar tilfella voru skoðaðir. Í öðrum voru 100 arfberar íslensku stökkbreytingarinnar sem höfðu gefið svar í ferilrannsókn Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins fyrir greiningu. Meðalaldur við greiningu var 48 ár (30-77 ár). Í hinum tilfellahópnum var 361 tilfelli án stökkbreytingarinnar, sambærilegt við arfberana varðandi greiningarár, fæðingarár og aldur við svar. Í viðmiðunarhópnum voru 1000 heilbrigðar konur. Við útreikninga var notuð fjölbreytugreining (conditional logistic regression) þar sem tekið var tillit til annarra áhættuþátta.

Niðurstöður: Aukinn fjöldi fæðinga hafði marktækt ólík áhrif hjá arfberum og konum án stökkbreytingarinnar. Hlutfallsleg áhætta fyrir hverja nýja fæðingu var 1,15 (95% öryggisbil: 0,96-1,38) þegar arfberar voru bornir saman við heilbrigð viðmið, en 0,88 (95% öryggisbil: 0,79-0,99) þegar óvalinn sjúklingahópur var borinn saman við heilbrigðu konurnar. Einnig var tímalengd brjóstagjafar styttri hjá arfberum en sjúklingum án stökkbreytingarinnar.

Ályktanir: Skort hefur rannsóknir sem gefa skýr svör varðandi hugsanleg ólík áhrif fæðinga hjá arfberum BRCA stökkbreytingar og öðrum konum. Niðurstöður okkar benda sterklega til þess að áhrifin séu ólík. Erfiðara er að túlka áhrif brjóstagjafar, því styttri brjóstagjöf hjá arfberum getur verið til marks um erfiðleika við mjólkurframleiðslu. Önnur hugsanleg skýring er að brjóstagjöfin veiti arfberum sterkari vernd gegn brjóstakrabbameini en öðrum konum.

E 76 Tíðni stökkbreytinga í BRCA1 og BRCA2 genunum

í eggjastokkakrabbameini á Íslandi

Þórunn Rafnar1, Steinunn Thorlacius1, Þorgeir Gestsson2, Hafsteinn Sæmundsson3, Karl Ólafsson3, Anna Salvarsdóttir3, Kristrún R. Benediktsdóttir2,41Urður, Verðandi, Skuld, 2læknadeild HÍ, 3kvennadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 4Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði

thorunnr@uvs.isInngangur: Stökkbreytingar í BRCA1 og BRCA2 genunum tengjast aukinni áhættu á krabbameini í brjósti, eggjastokkum og öðrum líffærum. Ein stökkbreyting í hvoru geni er þekkt á Íslandi, BRCA1 G5193A sem er mjög sjaldgæf og BRCA2 999del5 sem finnst í 0,5% Íslendinga. Markmið rannsóknarinnar var að meta tíðni þessara stökkbreytinga í eggjastokkakrabbameini á Íslandi og kanna hvort tengsl væru við meinafræðilega greiningu og/eða horfur.

Efniviður og aðferðir: DNA var einangrað úr blóði 188 núlifandi einstaklinga og úr vefjasýnum frá 118 af þeim 124 einstaklingum sem greinst höfðu með eggjastokkakrabbamein árin 1991-2000 og eru látnir. BRCA1 G5193A breytingin var greind með dHPLC tækni og stökkbreytingar staðfestar með raðgreiningu. BRCA2 999del5 greining var gerð með PCR og aðskilnaði samsæta með rafdrætti. Upplýsingar um greiningaraldur voru fengnar hjá Krabbameinsskrá.

Niðurstöður: Stökkbreytingin BRCA1 G5193A fannst í einu sýni úr hópi 188 núlifandi sjúklinga og einu sýni úr hópi 118 látinna einstaklinga. Báðir einstaklingarnir höfðu æxli af serous gerð. BRCA 999del5 breytingin fannst í sex af 164 núlifandi einstaklingum (3,7%, OR: 6,2, CI: 1,96-) og sex af 109 látnum einstaklingum (5,5%, OR: 12,64, CI: 1,96-). Tíu af 12 BRCA2 jákvæðum æxlum, eða 83%, voru af serous gerð á móti 44% stakra æxla. Meðalaldur við greiningu var lægri hjá konum með BRCA2 stökkbreytingu en meðal þjóðarinnar.

Ályktanir: Stökkbreyting í BRCA2 er sterkur áhættuþáttur fyrir eggjastokkakrabbameini á Íslandi. BRCA1 stökkbreytingin virðist ekki vera sterkur áhrifaþáttur í eggjastokkakrabbameini hér á landi.E 77 Tjáning lípoxýgenasa í illkynja og eðlilegum frumumSigurdís Haraldsdóttir
1,2, Erna Guðlaugsdóttir1,2, Jón Gunnlaugur Jónasson2,3, Helga M. Ögmundsdóttir1,21Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 2læknadeild HÍ, 3Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði

sigurdis@hi.isInngangur: Lípoxýgenasar (LOX) mynda HETE og leukotríen úr arakídónsýru og eiga sér þrjú ísóform, 5-, 12- og 15-LOX. Leukotríen eru mikilvægir bólgumiðlarar en á seinni árum hefur komið í ljós að LOX-ferlar koma einnig við sögu í illkynja æxlisvexti. 5-LOX situr í kjarnahjúpi á virku formi og hefur vaxtarörvandi verkun á illkynja æxlisfrumur en 12-LOX virðist aðallega vera í umfrymi og örvar auk vaxtar skrið- og meinvarpsmyndun. Brjósta-, blöðruhálskirtils- og briskrabbamein hafa reynst næmust fyrir hindrum á þessa ferla. Markmið þessa verkefnis var að kanna tjáningu 5- og 12-LOX í illkynja frumulínum af mismunandi vefjauppruna, eðlilegum vef úr brjósti og illkynja vefjasýnum úr mismunandi vefjum.

Efniviður og aðferðir: Illkynja æxlisfrumulínur voru keyptar hjá ATCC. Vefjasýni voru fengin hjá Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði. Tjáning á 5- og 12-LOX var metin með mótefnalitun.

Niðurstöður: Tjáning 5-LOX var mest í bris- og brjóstakrabbameinslínum en minnst í ristilkrabbameinslínu. Ennfremur reyndist staðsetning ensímsins háð því hvar fruman væri í frumuhringnum. Tjáning 12-LOX var mikil í nær öllum illkynja línunum og var mest í umfrymi en sást einnig í kjarnahimnu. Tjáning 5- og 12-LOX var hverfandi í eðlilegum vef úr brjósti en bæði ensímin voru til staðar í illkynja vefjasýnum úr brjósti. Unnið er að úrvinnslu úr litunum á vefjasýnum úr öðrum tegundum krabbameina.

Ályktanir: 5- og 12-LOX eru til staðar í illkynja frumum úr frumulínum og vefjasýnum en eru í mjög litlu magni í eðlilegum vef. Magn 5-LOX er breytilegt eftir vefjauppruna og er mest í þeim frumulínum sem eru næmastar fyrir vaxtarhindrandi verkun 5-LOX hindra. Við virkjun frumulína með sermi færðist 5-LOX úr umfrymi að kjarnahimnu og er því mjög líklega á virku formi í illkynja frumum.

E 78 Interleukin-1 breytileiki og tengsl við magakrabbamein

Magnús K. Magnússon1, Sturla Arinbjarnarson1, Ólöf Dóra Bartels Jónsdóttir1, Bjarki Jónsson Eldon1, Sigfús Nikulásson2, Albert Imsland1, Steinunn Thorlacius1, Eiríkur Steingrímsson1,3, Bjarni Þjóðleifsson4,5, Valgarður Egilsson1, Jónas Magnússon4,61Urður Verðandi Skuld, 2Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði, 3lífefna- og sameindalíffræði læknadeild HÍ, 4læknadeild HÍ, 5meltinga- og innkirtlasjúkdómadeild og 6skurðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss

magnusk@uvs.isInngangur: Helicobacter pylori (HP) sýking í magaslímhúð eykur líkur á magakrabbameini. Viðvarandi sýking getur leitt til frumubreytinga sem síðan geta þróast yfir í krabbamein. Nýlega var sýnt fram á fylgni milli erfðabreytileika í stýrisvæði interleukin 1 beta (IL-1B) gensins og aukinnar áhættu á magakrabbameini hjá H. pylori sýktum einstaklingum. Breyting þessi veldur aukinni tjáningu IL-1B gensins en próteinafurð þess er bólguörvandi cýtókín (IL-1b) sem meðal annars hindrar sýruseytun í maga. Einnig hafa fundist tengsl milli breytileika í interleukin 1 RN (IL-1RN) geni og aukinnar áhættu á magakrabbameini, en afurð þess IL-1Ra (receptor antagonist) binst IL-1 viðtökum og hefur þannig áhrif á virkni IL-1b í maga. Rannsóknir hafa bent til aukinnar áhættu á magakrabbameini (El-Omar, et al. Nature 2000; 404: 398-402) ef einstaklingar báru annars vegar C samsætuna í stýrisvæði IL-1B eða voru arfhreinir um IL-1RN*2 samsætuna í IL-1RN geninu. Markmið verkefnisins var að kanna tengsl milli þessara erfðabreytileika og áhættu á magakrabbameini á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Erfðaefni 125 magakrabbameinssjúklinga (42 konur og 83 karlar) og 202 viðmiða (95 konur og 107 karlar) var greint með tilliti til ofangreindra erfðabreytileika. Breytileiki í stýrisvæði IL-1B gensins var greindur með PCR og raðgreiningu, en breytileiki IL-1RN gens var greindur með PCR og stærðargreiningu. Tengsl milli erfðabreytileika og áhættu á magakrabbameini voru metin með áhættuhlutfalli.

Niðurstöður: Áhættuhlutfall þeirra sem bera C samsætu í IL-1B geni (stöðu -31) var 1.285 (95% vikmörk 0,82-2,01) miðað við arfhreina TT einstaklinga. Áhættuhlutfall þeirra sem eru arfhreinir fyrir samsætunni IL-1RN*2 í geni IL-1RN var 0,85 (95% vikmörk 0,34-2,13) miðað við arfblendna einstaklinga og þá sem ekki bera þessa samsætu. Ekki reyndist marktækur munur á áhættu á magakrabbameini milli þeirra einstaklinga sem bera CC og TC í IL-1B geni eða þeirra sem eru arfhreinir um IL-1RN*2 í geni IL-1RN.

Umræða: Engin tengsl fundust milli erfðabreytileika í IL-1B eða IL-1RN genum og magakrabbameins í íslenska úrtakinu. T samsætan var algengari en C samsætan í IL-1B-31 og reyndist ekki tengjast aukinni áhættu á magakrabbameini. Engin tengsl fundust heldur milli IL-1RN samsætna og aukinnar tíðni magakrabbameins. Ekki hefur því verið sýnt fram á tengsl Interleukin-1 breytileika og magakrabbameins í íslenskum sjúklingum.

E 79 Coeliac sjúkdómur sem svarar ekki meðferð, eitilfrumumagabólga og mycosis fungoides upprunnin frá sameiginlegri T-frumu

Bjarni A. Agnarsson1, Brynjar Viðarsson2, Sigurður Y. Kristinsson2, Sigrún Kristjánsdóttir1, Guðrún Jóhannesdóttir1, Hrefna K. Jóhannsdóttir1, Rósa Björk Barkardóttir11Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði, 2blóðmeinafræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss

bjarniaa@landspitali.isInngangur: Nýlegar rannsóknir benda til þess að coeliac sjúkdómur sem svarar ekki meðferð (refractory coeliac) geti verið ógreint (subklínískt) form af T-frumu eitilfrumuæxli (lymphoma). Eitilfrumumagabólga (lymphocytic gastritis) er sérstakt form af magabólgu sem getur meðal annars tengst Helicobacter pylori sýkingum eða coeliac sjúkdómi. Mycosis fungoides (MF) er vel þekkt form af T-frumu eitilfrumuæxli í húð. Við segjum frá sjúklingi sem var með alla þessa sjúkdóma samtímis og þar sem reyndist unnt að sýna fram á að á öllum stöðum, það er í smágirni, maga og húð, var um að ræða T-frumu sjúkdóm eða eitilfrumuæxli með sama (clonal) T-frumu uppruna.

Efniviður og aðferðir: Sjötíu ára karlmaður með meltingaróþægindi greindist með coeliac sjúkdóm á smágirnissýni. Þrátt fyrir glútenfrítt fæði versnuðu einkenni og annað smágirnissýni tekið tveimur mánuðum seinna sýndi óbreytt vefjaútlit. Um svipað leyti komu fram húðútbrot og skellur og sýndi vefjarannsókn breytingar dæmigerðar fyrir MF. Jafnframt sýndi vefjasýni frá maga breytingar dæmigerðar fyrir eitilfrumumagabólgu.

Gerð var PCR rannsókn fyrir einstofna (clonal) eitilfrumum og DNA raðgreining á öllum vefjasýnunum.

Niðurstöður: DNA úr vefjasýnum frá smágirni, maga og húð sýndu öll sams konar einstofna band fyrir T-frumum og með raðgreiningu var sýnt fram á sömu basaröð í öllum sýnum.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að utan meltingarvegar getur coeliac sjúkdómur sem ekki svarar meðferð tekið á sig mynd MF og að eitilfrumumagabólga í tengslum við coeliac sjúkdóm getur verið einstofna sjúkdómur. Jafnframt eru þessar niðurstöður í samræmi við nýlegar rannsóknir sem hafa sýnt að í sumum tilfellum getur coeliac sjúkdómur sem svarar ekki meðferð stafað af ógreindu T-frumu eitilfrumuæxli í meltingarvegi.E 80 Rannsóknir á E-cadherini, b-catenini og FHIT

í magakrabbameinum

Sigurður Ingvarsson1, Chen Huiping1, Jón Gunnlaugur Jónasson21Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði

siguring@hi.isInngangur: E-cadherin-catenin flókinn er mikilvægur í frumusamloðun þekjufrumna og viðheldur réttri vefjabyggingu. Truflun á tjáningu eða starfi flókans veldur tapi á viðloðun milli frumna og jafnvel umbreytingu frumna yfir í illkynja ástand og æxlisframvindu. FHIT er talið vera æxlisbæligen og breytingar á því gætu átt þátt í æxlismyndun í maga.

Efniviður og aðferðir: Við rannsökuðum breytingar á E-cadherini, b-catenini og FHIT í 50 magaæxlum með greiningu á tapi á arfblendni, stökkbreytingargreiningu, greiningu á afbrigðilegum RNA umritum og ónæmislitunum.

Niðurstöður: Há tíðni taps á arfblendni greindist á litningasvæði 16q22.1 þar sem E-cadherin genið er staðsett (75%) og innan FHIT gens (84%). Þrjú tilfelli (6%) sýndu sams konar mislestursbreytingu, A592T, í E-cadherin geni. Við greindum sjö æxli (18%) með afbrigðilegt E-cadherin mRNA. Einnig voru 34 af 39 (87%) æxlum með lága FHIT tjáningu eða afbrigðilegt FHIT mRNA. Minnkuð tjáning E-cadherins, b-catenins og FHIT greindist í 42%, 28% og 78% tilfella. Ellefu æxli (22%) greindust með b-catenin umfrymislitun.

Ályktanir: Niðurstöður okkar styðja þá tilgátu að breytingar á E-cadherini, b-catenini og Fhit hafi áhrif á tilurð eða framvindu magakrabbameina.

E 81 Tap á arfblendni innan C3CER1 svæðis á litningi 3p21.3 í æxlum frá tíu mismunandi líffærum

Þórgunnur Eyfjörð Pétursdóttir1, Unnur Þorsteinsdóttir2, Valgarður Egilsson1, Sigurður Ingvarsson31Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði, 2Íslensk erfðagreining, 3Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

thorgep@landspitali.isInngangur: Litningur 3 er sá litningur sem hvað oftast tapast í æxlum. Þó hefur ekki tekist að finna þar vel skilgreint æxlisbæligen. C3CER1 (Chromosome 3 Common eliminated region 1) svæðið á 3p21.3 var skilgreint með notkun svokallaðs elimination test, þróað og framkvæmt á Karólínsku stofnuninni í Stokkhólmi. Prófið byggir á flutningi á einum mannalitningi, litningi 3 í þessu tilfelli, í æxlisfrumulínu frá manni eða mús með örfrumu samruna. Svæðið hefur verið þrengt niður í um það bil 1,4 Mb og 19 gen verið skilgreind á því.

Efniviður og aðferðir: Efniviður okkar samanstendur af 575 frumæxlum frá 10 mismunandi líffærum og samsvarandi eðlilegum vef fyrir hvert æxli: 159 brjóstaæxli, 115 ristil- og endaþarmsæxli, 67 nýrnaæxli, 70 lungnaæxli, 38 magaæxli, 42 eggjastokkaæxli, 31 eistnaæxli, 24 legslímhúðaræxli, 14 skjaldkirtilsæxli og 15 sarkmein. Við höfum rannsakað tíðnitap á arfblendni (Loss of Heterozygosity, LOH) í þessum æxlum með fimm microsatellite erfðamörkum sem dreifð eru innan C3CER1 svæðis. Samanburður var gerður á LOH á C3CER1 svæði í æxlum frá mismunandi líffærum. Í þeim æxlum sem sýndu LOH var kannað hvort að stökkbreytingar væru til staðar í LIMD1 (LIM domain containing 1) geni á C3CER1 með SSCP (single stranded conformation polymorphism) og DNA raðgreiningu.

Niðurstöður: SSCP greining á brjóstaæxlum er lokið og erfðabreytileiki kom í ljós í útröðum 1, 2 og 3 í LIMD1 geninu. DNA raðgreining mun sýna hvort um raunverulegar stökkbreytingar er að ræða. Oftast var tíðni LOH í kringum 70-90% í þeim æxlum sem gáfu niðurstöður, hæst var tíðnin í lungnaæxlum (92%) en lægst í sarkmeinum (40%).

Ályktanir: Það er því há tíðni LOH á C3CER1 svæðinu í flestum æxlisgerðum sem rannsakaðar voru, en LOH í æxlum finnst oft í tengslum við æxlisbæligen.

E 82 Svefn ofvirkra barna

Björg Þorleifsdóttir, Bryndís BenediktsdóttirLæknadeild HÍ

bryndisb51@hotmail.comInngangur: Tilgátur um að svefn barna með athyglisbrest og/eða ofvirkni (attention-deficit/hyperactivity disorder: ADHD) sé truflaður og skýri meðal annars eirðarleysi, einbeitingar- og athyglisbrest sem einkennir þau í vöku hafa ekki verið staðfestar. Niðurstöður fyrri rannsókna eru ekki samhljóða. Markmið þessarar rannsóknar, sem gerð var í samvinnu við barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL), var að bera saman svefnmynstur, nætursvefn og dagsyfju barna með ADHD annars vegar og frískra jafnaldra þeirra hins vegar.

Efniviður og aðferðir: Öllum börn á aldrinum 6-12 ára, sem vísað var til ofvirknigreiningar á BUGL veturinn 1997 til 1998, var boðin þátttaka í rannsókninni. Í ADHD hópnum voru 58 börn (kynjahlutfall: ein stúlka á móti 4,8 drengjum; meðalaldur 8,8 ára). Veturinn eftir voru valin í samanburðarhóp 27 börn úr einum grunnskóla borgarinnar (kynjahlutfall: 4,4 :1; meðalaldur: 9,1 árs). Hreyfivirkni var mæld (actigraph) í viku og á sama tíma héldu foreldrar einnig svefnskrá. Í lok þeirrar viku var svefnmæling gerð eina nótt heima, en daginn eftir var dagsyfja mæld á rannsóknarstofu. Foreldrar svöruðu spurningalistum um svefnvenjur og börnin svöruðu einnig sjálf spurningum. Við úrvinnslu var börnunum skipt í þrjá aldurshópa (6-7, 8-9, 10-12 ára) vegna aldursáhrifa á svefnlengd.

Niðurstöður: Nætursvefnmæling sýndi að heildaruppbygging svefns var mjög svipuð hjá báðum hópunum. Hjá sex til sjö ára börnum með ADHD kom þó fram aukið hlutfall svefnstigs 1 (p=0,03), hjá átta til níu ára börnum með ADHD var svefnstig 4 aukið (p=0,04). Tilhneiging til aukinnar dagsyfju meðal barna með ADHD kom fram og meðal elstu barnanna var marktækur munur milli hópa. Börn með ADHD sofnuðu fljótar (15,3 á móti 19,3 mínútur; p=0,007) og þau sofnuðu oftar yfir daginn (2,2 á móti 0,6; p=0,008). Hreyfivirknimæling sýndi að yngstu börnin með ADHD sofnuðu fyrr (p= 0,012) og vöknuðu einnig fyrr (p=0,002) en samanburðarhópur. Foreldrar barna með ADHD töldu svefn barna sinna verri en foreldrar heilbrigðra.

Ályktanir: Rannsókn sýndi að dagsyfja var meiri hjá börnum með ADHD sem ekki skýrðist af trufluðum nætursvefni, en gæti bent til þess að örvunarstig í vöku sé ekki nægjanlega hátt og gæti átt þátt í að skýra hegðunarmynstur barna með ADHD.

E 83 Athyglisbrestur, ofvirkni og flog. Algengi og tengsl meðal íslenskra barna

Pétur Lúðvígsson1, Dale Hesdorffer2, Elías Ólafsson3, Ólafur Kjartansson4, W. Allen Hauser21Barnaspítali Hringsins, 2Columbia University NY, 3taugalækningadeild og 4röntgendeild Landspítala háskólasjúkrahúss

peturl@landspitali.isInngangur: Athyglisbrestur (ADD), ofvirkni (HD) og athyglisbrestur með ofvirkni (ADHD) eru algeng einkenni hjá börnum. Einkennin sjást oftar hjá börnum með flogaveiki en öðrum og er flogum eða lyfjameðferð oft kennt um. Hluti rannsóknar okkar á algengi og áhættuþáttum floga og flogaveiki á Íslandi beindist að því að kanna tengsl floga við athyglisbrest og ofvirkni.

Efniviður og aðferðir: Nánasti aðstandandi þeirra barna á Íslandi, á aldrinum 3-16 ára, sem greindust með fyrsta flog á 39 mánaða tímabili frá 1. desember 1995 og nánasti aðstandandi tveggja viðmiðunareinstaklinga úr þjóðskrá á sama aldri og kyni, svöruðu stöðluðum spurningalista í síma um athyglisbrest og ofvirkni samkvæmt skilgreiningu DSM IV. Spurt var eins fljótt og auðið var eftir fyrsta flog.

Niðurstöður: Algengi athyglisbrests, ofvirkni og athyglisbrests með ofvirkni var 7%, 6% og 3% hjá börnum við fyrsta flog, en 2%, 3% og 1% hjá viðmiðunarhópi. Saga um athyglisbrest með eða án ofvirkni var mun oftar fyrir hendi hjá börnum við fyrsta flog en hjá viðmiðunarhópi. (OR: 2,9; 95% CI=1,3-6,1). Tengslin sáust við athyglisbrest eingöngu (OR: 4,3; 95% CI=1,3-15) og athyglisbrest með ofvirkni (OR=3,7; 95% CI=0,59-23), en ekki við ofvirkni eingöngu (OR=1,8; 95% CI=0,57-5,7).

Ályktanir: Niðurstöður benda til að athyglisbrestur með eða án ofvirkni og flog geti átt sameiginlega orsök. Algengi athyglisbrests, ofvirkni og athyglisbrests með ofvirkni var lægri í viðmiðunarhópi en búast hefði mátt við.

E 84 Áhrif reykinga á meðgöngu á þætti sem ákvarða vöxt fóstursRagnar Freyr Ingvarsson
1, Þórður Þórkelsson1,2, Anton Örn Bjarnason1, Hildur Harðardóttir1,3, Guðmundur M. Jóhannesson4, Ásgeir Haraldsson1,2, Atli Dagbjartsson1,21Læknadeild HÍ, 2Barnapítali Hringsins, 3kvennadeild og 4rannsóknastofa Landspítala háskólasjúkrahúss

thordth@landspitali.isInngangur: Reykingar á meðgöngu geta haft ýmsar óæskilegar afleiðingar fyrir hina verðandi móður og ófætt barn hennar. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrif reykinga á stærð barna við fæðingu og þætti sem ákvarða vöxt fóstursins, það er súrefnisflutning, næringarástand og vaxtarþætti.

Efniviður og aðferðir: Rannsökuð voru framskyggnt 28 börn mæðra sem reykt höfðu alla meðgönguna og þau borin saman við börn 45 mæðra sem ekki reyktu. Í naflastrengsblóði voru mældir eftirfarandi þættir: 1. Merki um nýlega súrefnisþurrð (sýrustig, mjólkursýra, base excess, erythropoietin, normoblastar). 2. Merki um langvarandi súrefnisþurrð (magn blóðrauða). 3. Næringarástand (pre-albúmín, albúmín, kólesteról, þríglýseríðar, glúkósi). 4. Vaxtarþættir (insúlín, insúlínlíkur-vaxtarþáttur-I (IGF-I) og IGF-bindiprótein 3 (IGFBP3).

Helstu niðurstöður: Börn mæðranna sem reyktu voru léttari, minni og með minna höfuðummál en börnin í samburðarhópnum. Þau voru með hærri þéttni blóðrauða, en ekki merki nýlegrar súrefnisþurrðar. Ekki var marktækur munur á næringarástandi barnanna. IGF-I og IGFBP3 mældist lægra hjá börnum reykingamæðra en hjá börnum í samanburðarhópnum. Öfug fylgni var á milli þéttni erythropoietins og styrks IGF-I.

Ályktanir: Reykingar á meðgöngu valda samhverfri vaxtarskerðingu hjá fóstrinu, það er að segja minni þyngd, lengd og höfuðummál. Þær skerða súrefnisflutning til fóstursins, sem bregst við með aukinni framleiðslu blóðrauða og eykur þannig súrefnisflutningsgetu blóðsins. Reykingar virðast hins vegar ekki auka líkur á súrefnisþurrð í fæðingu, hugsanlega vegna aukins magns blóðrauða. Næringarástand barnanna skýrir ekki vaxtarskerðinguna. Niðurstöður benda til þess að vaxtarskerðingin geti skýrst af minnkaðri framleiðslu IGF-I og IGFBP3, hugsanlega tengt langvarandi súrefnisþurrð.

E 85 Notkun efedríns í boltaíþróttum á Íslandi

Sigurbjörn Árni Arngrímsson1, Hrönn Árnadóttir1, Margrét Ágústa Þorvaldsdóttir1, Þórarinn Sveinsson21Íþróttafræðasetur KHÍ að Laugarvatni, 2sjúkraþjálfunarskor læknadeildar HÍ

thorasve@hi.isInngangur: Efedrín, sem er ólöglegt lyf, er í sumum fæðubótarefnum og neysla þess, sem og fæðubótarefna almennt, virðist í mikilli tísku um þessar mundir. Tilgangur þessarar rannsóknar var því að kanna hvort boltaíþróttamenn noti efedrín.

Efniviður og aðferðir: Átján lið (þrjú karlalið og þrjú kvennalið í hverri grein) sem spila í efstu deild í handknattleik, knattspyrnu og körfuknattleik voru valin af handahófi sem úrtak fyrir könnunina. Spurningalisti var notaður til verksins. Allir 255 íþróttamennirnir (133 karlar og 122 konur) sem könnunin var lögð fyrir svöruðu.

Niðurstöður: Af þeim sem svöruðu töldu 84% að fæðubótarefni gætu bætt árangur í íþróttum. Hlutfall þeirra sem nota fæðubótarefni í þessum tilgangi var 56% meðal körfuknattleiksmanna, 35% meðal knattspyrnumanna og 13% meðal handknattleiksmanna. Munurinn á milli allra greina var tölfræðilega marktækur (p<0,003). Einnig notuðu marktækt fleiri karlar fæðubótarefni en konur (p=0,004). Í heildina hafði 53% íþróttamannanna verið boðið efedrín. Um 12% þeirra notaði efedrín og 25% til viðbótar höfðu prófað efedrín, hlutfallslega flestir í körfubolta. Þá vissu 61% um einhverja í þeirra íþróttagrein sem notuðu efedrín og var algengara að konur hefðu slíka vitneskju (p=0,001). Af þeim sem ekki höfðu prófað efedrín gátu 18% þeirra hugsað sér að prófa það í framtíðinni. Tuttugu og einu af hundraði fannst að leyfa ætti notkun sumra lyfja án eftirlits og var sú skoðun algengari hjá þeim sem notuðu eða höfðu notað efedrín (r=0,38; p<0,001).

Ályktanir: Þessar niðurstöður gefa til kynna að notkun ólöglegra lyfja hafi aukist nokkuð frá 1998 og að tæplega 40% íþróttamannanna hafa notað efedrín. Notkunin er einnig mun algengari á meðal körfuknattleiksmanna en hinna tveggja boltagreinanna.

E 86 Áhættuþættir sortuæxla í húð meðal flugáhafna

og úrtaks þjóðarinnar

Vilhjálmur Rafnsson1, Jón Hrafnkelsson2, Hrafn Tulinius1,3, Bárður Sigurgeirsson4, Jón Hjaltalín Ólafsson41Rannsóknarstofa í heilbrigðisfræði HÍ, 2krabbameinsdeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 3Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 4húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

vilraf@hi.isTilgangur: Að meta hvort munur á algengi áhættuþátta sortuæxla hjá úrtaki þjóðarinnar og flugáhafna gæti skýrt aukið nýgengi sortuæxla, sem í fyrri rannsóknum hefur fundist meðal flugáhafna.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti var notaður til að afla upplýsinga um háralit, augnlit, freknur, fæðingarbletti, húðgerð, sögu um sólbruna, notkun sólarvarnar, notkun sólarlampa/-bekkja og fjölda sólarlandaferða. Reiknað var spágildi fyrir sortuæxli út frá algengi áhættuþáttanna í hópunum.

Niðurstöður: Í rannsókninni tóku þátt 239 flugmenn (karlar) og 856 flugfreyjur sem voru borin saman við 454 karla og 1464 konur, sem valin voru af hendingu úr þjóðskrá. Það var ekki mikill munur á eðlislægum eða hegðunarbundnum áhættuþáttum fyrir sortuæxli milli hópanna. Áhafnirnar höfðu oftar notað sólvörn og oftar farið í sólarlandaferðir en karlar og konur í úrtakinu. Spágildi vegna notkunar á sólvörn var 0,88 fyrir flugmenn en 0,84 fyrir flugfreyjur; og spágildi vegna sólarlandaferða var 1,36 og 1,34 fyrir hvorn hóp.

Umræða: Það var ekki áberandi munur á algengi áhættuþáttanna milli hópanna. Það er því ólíklegt að sú aukna áhætta sortuæxla sem fundist hefur hjá flugmönnum (SIR 10,0) og flugfreyjum (SIR 3,0) skýrist eingöngu af því að þau verði fyrir mikilli mengun sólarljóss í frítímanum. Það er því nauðsynlegt að rannsaka frekar þýðingu geimgeislamengunar sem flugáhafnir verða fyrir.

E 87 Eitranir á Íslandi. Bráðabirgðaniðurstöður framskyggnrar rannsóknar sem fór fram á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum 2001-2002

Jakob Kristinsson1, Curtis P. Snook2, Guðborg A. Guðjónsdóttir2, Hulda M. Einarsdóttir3, Margrét Blöndal2, Runólfur Pálsson3, Sigurður Guðmundsson41Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, 2Eitrunarmiðstöð Landspítala Fossvogi, 3lyflækningadeild Landspítala Hringbraut, 4Landlæknisembættið

jakobk@hi.isInngangur: Markmið rannsóknarinnar var að afla sem áreiðanlegastra upplýsinga um bráðar eitranir og meintar eitranir, sem koma til meðferðar eða umfjöllunar lækna og annarra heilbrigðisstétta á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum landsins. Hér er greint frá frumniðurstöðum þessarar rannsóknar.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingum var aflað á framskyggnan hátt á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum landsins. Rannsóknin hófst 1. apríl 2001 og henni lauk 31. mars 2002.

Niðurstöður: Svör bárust frá 30 sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum um 1125 eitranir eða meintar eitranir. Átta hundruð sjötíu og fimm þeirra (77,8%) komu af höfuðborgarsvæðinu. Meðalaldur hópsins var 31 ár, aldursbil 0-92 ár. Börn yngri en 18 ára voru 224 (19,9%). Konur voru 624 og karlar 501. Algengustu ástæður eitrunar voru sjálfsvígstilraunir (36%) og misnotkun lyfja eða ávana- og fíkniefna (23%). Slysaeitranir voru 21% allra eitrana og eitranir tengdar atvinnu 10%. Í 804 tilvikum (71,5%) voru áfengi og/eða lyf aðal eitrunarvaldarnir. Algengastar voru eitranir af völdum áfengis, benzódíazepínsambanda, verkjadeyfandi og hitalækkandi lyfja og geðdeyfðarlyfja. Ólögleg ávana- og fíkniefni komu við sögu í 8,7% tilvika. Af öðrum algengum eitrunum má telja innöndun reyks eða eitraðra lofttegunda og eitranir af völdum ýmiss konar hreinsiefna og lífrænna leysiefna.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að svipaður fjöldi einstaklinga leiti sér aðstoðar á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum vegna eitrana og vegna áverka af völdum umferðarslysa. Þrátt fyrir að flestar eitranirnar tengist sjálfsvígstilraunum og lyfjamisnotkun (59%) varð drjúgur hluti þeirra vegna óhappa í leik og starfi (32%).

E 88 Tíðni þungana, fóstureyðinga og fæðinga meðal unglingsstúlkna í aldarfjórðung

Sóley S. BenderHjúkrunarfræðideild HÍ, læknadeild HÍ

ssb@hi.isInngangur: Þungun á unglingsþroskaskeiði getur haft margvíslegar afleiðingar fyrir móður og barn. Á þessum árum er einstaklingurinn að takast á við mörg þroskaverkefni og litið er á það sem tvöfalda kreppu að eignast barn á þeim tíma, einkum fyrir þær sem yngri eru. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða tíðni þungana, fæðinga og fóstureyðinga á Íslandi meðal unglingsstúlkna, borið saman við Danmörku, Finnland, Noreg og Svíþjóð, á tímabilinu 1976-1999 og greina hvað er líkt og ólíkt með þessum löndum.

Efniviður og aðferðir: Stuðst var við skráningu þungana, fóstureyðinga og fæðinga frá Hagstofu Íslands og öðrum hagstofum á Norðurlöndum fyrir aldurshópinn 15-19 ára og skráning borin saman. Valið var tímabilið eftir að lög um fóstureyðingar tóku gildi (1975) hér á landi.

Niðurstöður: Fæðinga- og þungunartíðni í þessum fimm löndum lækkaði um 57-67% og 31-50% á þessu tímabili en á Íslandi hélst þessi tíðni mun hærri en á öðrum Norðurlöndum. Hér á landi hefur tíðni fóstureyðinga meðal unglingstúlkna aukist frá því að vera 5,8/1000 árið 1976 í 21,5/1000 árið 1999. Á hinum Norðurlöndunum varð hins vegar almenn lækkun um 20-41% á tíðni fóstureyðinga á þessu tímabili. Á árunum 1996-1999 er tíðni fóstureyðinga meðal unglingsstúlkna hér á landi orðin hærri en á hinum Norðurlöndunum.

Ályktanir: Hærri tíðni þungana hér á landi má líklega tengja við viðhorf til barneigna í íslensku samfélagi. Það er hátt metið í samfélaginu að eiga mörg börn. Það sem líklega greinir Ísland frá hinum Norðurlöndunum er að hér á landi hafi í kjölfar gildistöku fóstureyðingarlaganna ekki verið lögð rík áhersla á forvarnir í formi kynfræðslu og kynheilbrigðisþjónustu eins og gert var í hinum löndunum.Til að hafa áhrif á þessa þróun þarf að styrkja báða þessa forvarnarþætti.

E 89 Tengsl holdafars og lifnaðarhátta níu ára barna

í Reykjavík

Erlingur Jóhannsson1, Sigurbjörn Árni Arngrímsson1, Brynhildur Briem2, Elín Þorgeirsdóttir3, Þórarinn Sveinsson4, Þórólfur Þórlindsson31Íþróttafræðasetur KHÍ að Laugarvatni, 2Kennaraháskóli Íslands, 3félagsvísindadeild HÍ, 4sjúkraþjálfunarskor læknadeildar HÍ

thorasve@hi.isInngangur: Heilsufarsvandamál sem tengjast lifnaðarháttum fólks, svo sem offita og hreyfingarleysi, hafa aukist til mikilla muna á undanförnum árum. Breyttir þjóðfélagshættir hafa haft mikil áhrif á hreyfingarmynstur fólks, kyrrseta er mun meiri og fólk hreyfir sig minna en áður. Þar eru börn ekki undanskilin. Börn sitja meira fyrir fram sjónvarp og eru meira í tölvuleikjum og til viðbótar eru börn meira keyrð á milli staða.

Efniviður og aðferðir: Markmið rannsóknarinnar var að kanna holdafar með því að mæla líkamsþyngdarstuðul og líkamsfitu, íþróttaiðkun og lífsvenjur meðal níu ára barna í Reykjavík. Úrtak rannsóknarinnar var 308 níu ára gömul börn úr fjórum grunnskólum í Reykjavík, Fellaskóla, Laugarnesskóla, Melaskóla og Seljaskóla. Foreldrar og forráðamenn 237 barna gáfu samþykki fyrir þátttöku barna sinna í rannsókninni og var hún framkvæmd á þeim í september og október. Þátttökuhlutfallið var því 76,9%.

Niðurstöður: Marktæk fylgni var á milli líkamsþyngdarstuðuls (LÞS) og þykkt húðfellinga (p<0,01). Þegar börnin eru flokkuð eftir LÞS kom í ljós að 18,4% voru með LÞS frá 19,1-22,8 eða of þung og 5,5% voru með LÞS >22,8. Marktækur munur var á þeim sem voru yfir kjörþyngd og hinna, það er lélegri útkomu úr þrekprófi (p<0,001), hreyfa sig minna (p<0,05), horfa meira á sjónvarp (p<0,05) og stunda íþróttir í minna mæli. Hlutfall barna sem stunda íþróttir með íþróttafélögum var einungis 52%.

Ályktanir: Ljóst er út frá þessum niðurstöðum að ofþyngd og offita meðal barna og unglinga á Íslandi er mjög mikil og er orðið alvarlegt heilbrigðisvandamál. Einnig er ljóst að lífsvenjur og lifnaðarhættir barna hafa umtalsverð áhrif á holdafar þeirra og líkamsástand.Þakkir: Rannsóknin var styrkt af Rannís.

E 90 Tengsl reykinga og nýbyrjaðrar iktsýki. Framskyggn rannsókn

Valdís F. Manfreðsdóttir1, Þóra Víkingsdóttir1, Helgi Valdimarsson1, Sigrún L. Sigurðardóttir1, Árni J. Geirsson2, Ólafur Kjartansson3, Ásbjörn Jónsson3, Þorbjörn Jónsson1, Arnór Víkingsson1,21Ónæmisfræðideild, 2gigtarskor og 3röntgendeild Landspítala háskólasjúkrahúss

valdisfm@landspitali.isInngangur: Hugsanlegt hlutverk reykinga í tilurð og alvarleika iktsýki hefur verið til umræðu á síðustu árum. Afturskyggnar rannsóknir á sjúklingum með langvarandi iktsýki hafa flestar bent til þess að reykingar auki liðskemmdir en ýti ekki undir tilurð sjúkdómsins. Þetta hefur þó verið umdeilt og hefur framskyggnar rannsóknir þessu til stuðnings vantað.

Efniviður og aðferðir: Í framskyggnri rannsókn á nýgreindum sjúklingum með samhverfar fjölliðabólgur voru þátttakendurnir skoðaðir fjórum sinnum á tveim árum, tekin sjúkrasaga og nákvæm reykingasaga, gerð líkamsskoðun og liðamat. Röntgenmyndir af höndum og fótum voru teknar. Við samanburð á reykingavenjum sjúklinganna og þjóðarinnar var stuðst við upplýsingar úr skrám Tóbaksvarnarnefndar.

Niðurstöður: Eitt hundrað sjúklingar tóku þátt í rannsókninni. Meðalaldur þeirra var 53 ár og hlutfall kvenna 56%. Af 100 sjúklingum höfðu 28 manns aldrei reykt, 34 voru núverandi reykingamenn og 38 höfðu hætt fyrir upphaf liðagigtareinkenna. Núverandi reykingamenn höfðu marktækt virkari sjúkdóm við fyrstu komu samanborið við þá sem höfðu aldrei reykt (liðbólgur 16,3 á móti 9,8; p=0,024; liðeymsli 19,0 á móti 13,6; p=0,017). Sjúkdómurinn hélst virkari í núverandi reykingamönnum við sex mánaða mat þrátt fyrir lyfjameðferð (liðbólgur 6,2 á móti 2,5; p=0,038; liðeymsli 10,4 á móti 6,1; p=0,049). Upplýsingar um liðskemmdir samkvæmt röntgengreiningu munu liggja fyrir bráðlega. Reykingar voru algengari meðal sjúklinga heldur en almennt gerist hjá þjóðinni (36% á móti 26%; p=0,023).

Ályktanir: Hér er í fyrsta sinn sýnt fram á með framskyggnri rannsókn að tíðni iktsýki er aukin hjá reykingamönnum. Jafnframt benda niðurstöðurnar til að reykingamenn hafi virkari sjúkdóm við upphaf einkenna og að liðagigtin haldist virkari að minnsta kosti fyrstu sex mánuðina eftir að meðferð hefst.

E 91 Vinnuvernd. Árangur heilsueflingar í leikskólum Reykjavíkur

Kristinn Tómasson, Berglind Helgadóttir, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, Guðbjörg Linda RafnsdóttirVinnueftirlit ríkisins

kristinn@ver.isInngangur: Mikilvægt er að rannsaka árangur heilsueflingar og vinnuverndaraðgerða. Fyrsti liður í slíkum aðgerðum er könnun á núverandi ástandi, þá koma tillögur til úrbóta byggðar á þeim niðurstöðum og síðan að hóflegum tíma liðnum mat á árangri.

Efniviður og aðferðir: Í maí árið 2000 var tekið úrtak 16 leikskóla hjá Leikskólum Reykjavíkur og þeir beðnir um að svara ítarlegum spurningalista og vinnustaðir skoðaðir. Þar var spurt um persónulega hagi, svo sem hjúskaparstöðu, heimilisaðstæður, menntun og stöðu, líkamlegt álag og líkamsbeitingu, félagslega og andlega álagsþætti. Í framhaldi voru gerðar ákveðnar úrbætur og í maí 2002 var sami spurningalisti lagður fyrir starfsfólk.

Niðurstöður: Árið 2000 voru starfsmenn 320 og svöruðu 90% en árið 2002 voru starfsmenn 302 og svöruðu 88%. Algengi stoðkerfisvandamála var mjög hátt svo og kvartanir vegna hávaða. Einnig voru ýmis sálfélagsleg vandamál tíð en hins vegar var almenn starfsánægja og starfmenn ánægðir með sína líðan. Byggt á þessu var ákveðið að efla mjög kennslu í líkamsbeitingu og réttum vinnustellingu en einnig var tryggt að aðbúnaður, svo sem borð, stólar og svo framvegis, væri sem bestur og bætt úr þar sem þess þurfti. Einnig voru gerðar aðgerðir til að draga úr hávaða. Hlutfall þeirra sem unnu í mjög eða oft í álútum stellingum fór úr 71% í 45%, og hlutfall þeirra sem unnu oft á hækjum sér lækkaði úr 71% í 51% og sama gilti um þá sem voru oft krjúpandi, eða úr 64% í 45%. Algengi verkjakvartana frá baki, hnjám og ökklum minnkaði í kjölfarið og það dró úr heimsóknum til lækna vegna bakveiki. Þeim, sem voru mjög oft andlega úrvinda, fækkaði um helming (úr 21% í 11%).

Ályktanir: Markvisst vinnuverndarstarf eins og í þessu tilviki skilar verulegum árangri sem er þar með til verulegs gagns fyrir starfsmann, fyrirtæki og þjóðfélag.

E 92 Áhrif nýs barnsföður á endurtekningaráhættu háþrýstings á meðgöngu. Rannsókn á fjölskyldutengdum konum

Sigrún Hjartardóttir1, Björn Geir Leifsson2, Reynir Tómas Geirsson1, Valgerður Steinþórsdóttir31Kvennadeild og 2skurðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 3Íslensk erfðagreining

sighjart@landspitali.isTilgangur: Hækkun blóðþrýstings í meðgöngu (aðallega meðgöngueitrun) sést mun oftar í fyrstu meðgöngu konu en þeim síðari. Fjölskyldusaga um slíka hækkun og fyrri hækkun á blóðþrýstingi í meðgöngu eykur líkur á endurtekningu. Einnig hefur verið talið að áhættan hjá fjölbyrjum aukist ef barnsfaðir breytist. Rannsökuð voru áhrif nýs barnsföður á þessa áhættu hjá konum sem höfðu sögu um slíka hækkun í fyrstu meðgöngu og tilheyra fjölskyldum þar sem sjúkdómurinn er þekktur. Einnig var athugað hvort aldur móður eða tímalengd milli fæðinga hafi áhrif á þessa áhættu.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um 614 konur með staðfesta greiningu háþrýstings eftir 20. viku í fyrstu meðgöngu voru notaðar til að meta áhrif barnsföður, aldurs móður og tímalengdar milli fæðinga á áhættu þess að fá háþrýsting í meðgöngu að nýju.

Niðurstöður: Af 614 konum hafði 121 (19,7%) nýjan barnsföður. Endurtekinn háþrýstingur greindist hjá 62% kvenna með nýjan og 64,5% kvenna með sama barnsföður. Áhættuhlutfall (OR) endurtekningar með nýjum barnsföður var 0,897 (95% vikmörk 0,595-1,353). Meðaltímalengd milli fyrstu og annarrar fæðingar var lengri hjá konum sem fengu endurtekinn háþrýsting (4,9 á móti 4,0 ár; p=0,0002). Áhættuhlutfall endurtekningar háþrýstings var 1,154 (95% vikmörk 1,049-1,269) fyrir hvert ár með sama og 1,145 (95% vikmörk 0,958-1,368) með nýjum barnsföður eftir leiðréttingu vegna aldurs móður.

Ályktanir: Hjá þessum hópi kvenna með þekkta fjölskyldusögu og fyrri háþrýsting á meðgöngu þar sem búast má við hærri tíðni endurtekins háþrýstings virðist nýr barnsfaðir í annarri meðgöngu ekki hafa nein áhrif til viðbótar áhættu. Aukin tímalengd milli fæðinga virðist hins vegar geta aukið áhættuna um allt að 15% fyrir hvert ár, hvort heldur barnsfaðir er sá sami eða annar.

E 93 Tengsl sálfélagslegra þátta og óþæginda í hálsi, herðum og mjóbaki hjá konum í öldrunarþjónustu

Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Berglind Helgadóttir, Kristinn TómassonRannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins

hkg@ver.isInngangur: Óþægindi í stoðkerfi eru algeng og kostnaðarsöm bæði á Íslandi og annars staðar. Umönnun aldraðra er erfið vinna og starfsmannaskipti tíð á öldrunarstofnunum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tengsl sálfélagslegra þátta og óþæginda í hálsi, herðum og mjóbaki hjá fólki í öldrunarþjónustu.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti var sendur á allar öldrunardeildir og öldrunarstofnanir þar sem voru 10 starfsmenn eða fleiri, á samtals 62 vinnustaði. Þeir sem voru í vinnu sólarhringinn 1.-2. nóvember 2000 voru beðnir að svara listanum (N=1886). Spurt var um persónulega hagi, svo sem hjúskaparstöðu, heimilisaðstæður, menntun og stöðu, líkamlegt álag og líkamsbeitingu, félagslega og andlega álagsþætti. Svörun var 80%. Konur voru 96%. Meðalaldur var 45 ára, en aldursbilið 14-79 ára. Sextán af hundraði voru hjúkrunarfræðingar, 20% sjúkraliðar, ófaglærðir 44%, ræstitæknar 8%, aðrir 11%. Körlunum var sleppt. Tengsl sálfélagslegra þátta og óþæginda í stoðkerfi voru könnuð með lógístískri aðhvarfsgreiningu og reiknuð líkindahlutföll (odds ratio, OR) með 95% öryggisbilum.

Niðurstöður: Óþægindi í hálsi og hnakka tengdust mörgum sálfélagslegum þáttum þó einkum óánægju í starfi, að vera úrvinda eftir vaktina, óánægju með yfirmenn og að hafa orðið fyrir áreitni (OR>2). Óþægindi í öxlum tengdist sérstaklega óánægju með valdaskipulagið og yfirmennina (OR>3). Óþægindi í mjóbaki tengdust sérstaklega skorti á samstöðu í vinnunni, óánægju með yfirmenn og valdaskipulagið (OR>2). Að vera yfirleitt andlega úrvinda eftir vinnu og að hafa orðið fyrir einhvers konar áreitni tengdist óþægindum í öllum fyrrnefndum líkamssvæðum.

Ályktanir: Til að koma í veg fyrir vinnutengd óþægindi í stoðkerfi er mikilvægt að huga bæði að sálfélagslegum þáttum og líkamlegu álagi.E 94 Próffræðilegir eiginleikar BASC hegðunarmatskvarðanna

Sólveig Jónsdóttir1, Sigurlín H. Kjartansdóttir2, Jakob Smári21Barna- og unglingageðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2félagsvísindadeild HÍ

soljonsd@landspitali.isInngangur: BASC (Behavior Assessment System for Children) hegðunarmatskvarðarnir eru yfirgripsmikið mælitæki, sem ætlað er til notkunar við mat, greiningu og meðferð geðraskana, þroskaraskana, námserfiðleika og hegðunartruflana barna og unglinga á aldrinum tveggja og hálfs árs til 18 ára. Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa sýnt að þeir reynast vel við mat á athyglisbresti með ofvirkni, sem er algengasta taugageðröskun barna og unglinga. Megintilgangur rannsóknarinnar var að athuga próffræðilega eiginleika íslenskrar þýðingar hegðunarmatskvarðanna.

Efniviður og aðferðir: Tvö hundruð þrjátíu og tvö börn á aldrinum 6-11 ára voru valin af handahófi úr nemendahópi eins skóla á höfuðborgarsvæðinu. Eitt hundrað þrjátíu og sjö foreldrar (60%) samþykktu að taka þátt og sendu útfyllta foreldramatskvarða fyrir börn sín. Átján kennarar (86%) 117 barnanna fylltu út kennaramatskvarða. Sjálfsmatskvarðar bárust frá 95 (61%) barnanna á aldrinum 8-11 ára.

Niðurstöður: Kennarar meta drengi marktækt hærri en stúlkur á kvörðum er mæla ofvirkni og árásargirni. Athyglisvandamál eru einnig meiri hjá drengjum. Kennarar meta stúlkur hærri á kvíða og líkamlegum umkvörtunum. Stúlkur eru metnar með heldur betri félagsfærni en drengir. Mat foreldra er í sömu átt og kennaranna, en ekki kemur fram eins mikill munur á milli kynja. Meðaltal áreiðanleikastuðla undirkvarða kennaramatsins er 0,84 og yfirkvarða 0,94. Meðaltal áreiðanleikastuðla undirkvarða foreldramatsins er 0,72 og yfirkvarða 0,88. Samræmi milli svara foreldra og kennara er svipað og í bandarísku frumútgáfunni.

Ályktanir: Meginniðurstöður þessarar rannsóknar á íslenskri gerð BASC hegðunarmatskvarðanna eru þær að próffræðilegir eiginleikar þeirra séu góðir og að þeir séu áreiðanlegt og réttmætt mælitæki til að meta hegðun og líðan 6-11 ára íslenskra barna.

E 95 Persónuleikaeinkenni sem spá fyrir um hvort fólk, sem hefur farið í áfengismeðferð, kemur í eftirfylgnimat

Jón Friðrik Sigurðsson1, Gísli H. Guðjónsson2, Kristín Hannesdóttir2, Tómas Þór Ágústsson1, Ása Guðmundsdóttir1, Þuríður Þórðardóttir1, Hannes Pétursson1, Þórarinn Tyrfingsson31Geðsvið Landspítala háskólasjúkrahúss, 2Institute of Psychiatry, King´s College, London, 3SÁÁ

jonfsig@landspitali.isInngangur: Markmið þessarar rannsóknar var að kanna þætti sem greina best á milli þeirra sjúklinga sem farið hafa í áfengismeðferð og koma í fyrirfram ákveðið eftirfylgnimat ári síðar og hinna sem ekki koma í slíkt mat.

Efniviður og aðferðir: Gert var sálfræðilegt mat á samtals 393 sjúklingum í áfengismeðferð á sjúkrahúsum í Reykjavík á fyrstu viku meðferðar þeirra. Ári síðar voru þeir beðnir um að koma í eftirfylgnimat. Níutíu og átta (25%) sjúklingar komu í eftirfylgnimatið. Þeir sem ekki komu reyndust marktækt yngri en hinir sjúklingarnir, þeir mældust kvíðnari og með truflaðri persónuleika og með minni tilhneigingu til að fegra sig en hinir sem komu í eftirfylgnimatið.

Niðurstöður: Alvarleiki áfengisvandamála við komu í meðferð reyndist ekki hafa forspárgildi um komu í eftirfylgnimat. Aðhvarfsgreining sýndi að harðlyndiskvarðinn á persónuleikaprófi Eysencks greindi best á milli hópanna tveggja að þessu leyti.
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica