Ágrip erinda

Ágrip veggspjalda 1-42

V 01 Erfðafræðilegir þættir sem hafa áhrif á legslímuflakk

Hreinn Stefánsson1, Reynir Tómas Geirsson2, Valgerður Steinþórsdóttir1, Helgi Jónsson1, Andrei Manolescu1, Augustine Kong1, Guðrún Ingadóttir3, Jeffrey R. Gulcher1, Kári Stefánsson1reynirg@landspitali.isInngangur: Í legslímuflakki (endometriosis) er fjölskyldulægni til. Ef konur eru spurðar vita 8% um sjúkdóminn í nánum fjölskyldumeðlimum. Aðstæður á Íslandi gera kleift að nota öfluga ættfræðigrunna til að meta betur fjölskyldutengsl í sjúkdómum. Þetta var notað til að skoða þætti sem hafa áhrif á áhættuna á legslímuflakki.

Efniviður og aðferðir: Notaðar voru upplýsingar um 750 konur sem höfðu fengið sjúkdóminn á 13 ára rannsóknartímabili á sjúkrahúsum í landinu sem höfðu kvensjúkdómadeild. Mat á fjölskyldutengslum með tölvugerðri módelaðferð var notað í útreikningi á áhættustuðli (risk ratio), skyldleikastuðli (kinship coefficient) og reikningi á fjölda forfeðra (minimum founder test).

Niðurstöður: Konurnar voru mun skyldari er samanburðarþýði sem valið var á sömu grunnskilmerkjum. Áhættustuðull fyrir systur var 5,2 (p<0,0001) og systkinabörn 1,56 (p<0,003). Skyldleikastuðull fyrir konurnar var marktækt hærri en fyrir samanburðarhópa 750 kvenna samkvæmt reiknilíkani, sem valdir voru af handahófi úr ættfræðigrunninum (p<0,0001), jafnvel þegar þær konur sem skyldar voru í fyrsta ættlið voru teknar út (p<0,05). Þegar fjöldi forfeðra var borinn saman milli kvenna með legslímuflakk og módelhópanna sást að forfeður voru marktækt færri á árabili sem svaraði til þriggja til sex kynslóða aftur í tímann. Erfðir í sjúkdómnum virðast geta verið gegnum bæði karl- og kvenlegg.

Ályktanir: Konur með legslímuflakk eru skyldari en almennt er í þjóðfélaginu og áhætta vegna ættlægni er mikil fyrir náskylda ættingja en einnig aukin fyrir annan ættlið. Erfðafræðilegir þættir auka á áhættuna.

V 02 Er hætta á endurtekningu háþrýstingssjúkdóms í annarri meðgöngu? Rannsókn á fjölskyldutengdum konum

Sigrún Hjartardóttir1, Björn Geir Leifsson2, Reynir Tómas Geirsson1, Valgerður Steinþórsdóttir31Kvennadeild og 2skurðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 3Íslensk erfðagreining

sighjart@landspitali.isTilgangur: Hækkaður blóðþrýstingur á meðgöngu getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, bæði fyrir hið ófædda barn og móður. Háþrýstingur getur verið til staðar fyrir meðgöngu eða komið í ljós á meðgöngu. Einkenni frá öðrum líffærakerfum geta komið fram sem gera sjúkdómsmyndina alvarlegri. Sum birtingarform eru talin algengari í fyrstu meðgöngu. Fjölskyldusaga um blóðþrýstingshækkun og fyrri hækkun á meðgöngu eykur líkur á endurtekningu. Rannsökuð var tíðni endurtekins háþrýstingssjúkdóms hjá konum sem höfðu sögu um slíka hækkun í fyrstu meðgöngu og tilheyra fjölskyldum þar sem sjúkdómurinn er þekktur og athuguð samsvörun milli mismunandi birtingarforma í fyrstu og annarri meðgöngu.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um 835 fjölbyrjur með staðfesta greiningu háþrýstings í fyrstu meðgöngu samkvæmt alþjóðlegum staðli voru notaðar til þess að meta endurtekningartíðni og samsvörun milli greininga í fyrstu og annarri meðgöngu.

Niðurstöður: Endurtekinn háþrýstingur greindist hjá 586 konum (70%). Af 614 konum sem höfðu háþrýsting eftir 20. viku í fyrstu meðgöngu sást endurtekinn háþrýstingur hjá 393 (64%). Sama birtingarform háþrýstings sást hjá 37% af öllum konunum og samsvörun milli greininga var sterkust hjá konum með fyrirverandi háþrýsting og meðgönguháþrýsting án próteinmigu (45% í hvorum hópi). Endurtekning meðgöngueitrunar sást hjá 12,5% kvennanna og aðeins 44% kvenna með meðgöngueitrun í fyrstu meðgöngu voru með eðlilegan blóðþrýsting í annarri meðgöngu.

Ályktanir: Tvær konur af hverjum þremur fengu endurtekinn háþrýsting í annarri meðgöngu og þriðjungur þeirra fékk sama form háþrýstings að nýju. Sterkust samsvörun milli greininga í fyrstu og annarri meðgöngu sást hjá konum með fyrirverandi háþrýsting og meðgönguháþrýsting án próteinmigu.

V 03 Bólusetning ungbarna með próteintengdum bóluefnum gegn pneumókokkum minnkar tíðni miðeyrnabólgu og sýklalyfjanotkun á aldrinum 18 til 24 mánaða

Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1, Þórólfur Guðnason2, Katrín Davíðsdóttir3, Sveinn Kjartansson2,3, Karl G. Kristinsson5, Mansour Yaich4, Ingileif Jónsdóttir11Rannsóknarstofnun í ónæmisfræði, 2barnadeild og 5sýkladeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 3Miðstöð heilsuverndar barna, 4Aventis Pasteur, Frakklandi

ingileif@landspitali.isInngangur: Próteintengd fjölsykrubóluefni gegn pneumókokkum (Pnc) koma í veg fyrir ífarandi sýkingar og minnka tíðni miðeyrnabólgu (AOM) af völdum þeirra hjúpgerða pneumókokka sem eru í bóluefninu (VT). Fyrri niðurstöður okkar sýna að við tveggja ára aldur er beratíðni VT og hjúpgerða sem ekki eru í bóluefninu sambærileg milli bólusettra og óbólusettra barna. (Sigurðardóttir S. o.fl., annað ágrip) en bólusettu börnin höfðu hærri sértæk IgG mótefni gegn VT. Í þessari rannsókn metum við klínískar upplýsingar frá bólusettum börnum og óbólusettum viðmiðunarhópi milli 18 og 24 mánaða aldurs.

Efniviður og aðferðir: Ungbörn voru bólusett við þriggja, fjögurra, fimm og 13 mánaða aldur með 11-gildum Pnc-T/D bóluefnum (hjúpgerðir 1, 3, 4, 5, 6B, 7F, 9V, 14, 18C, 19F og 23F, tengdum við prótein úr stífkrampa- (TT) eða barnaveikibakteríunni (DT). Við 24 mánaða aldur svöruðu foreldrar barnanna spurningum um AOM, lungnabólgu, skútabólgu, aðrar sýkingar og sýklalyfjanotkun frá 18 mánaða aldri. Óbólusett börn úr sama leikumhverfi voru fengin til samanburðar.

Niðurstöður: Saga var tekin frá 64 börnum, bólusettum með 11-gildu Pnc-T/D og 105 óbólusettum til samanburðar. Aldursdreifing var sambærileg, miðgildi 24 mánuðir í báðum hópum 95% dreifing 23,5-25,2 hjá bólusettum og 18,2-28,9 hjá óbólusettum. Saga um miðeyrnabólgu sex undanfarna mánuði var algengari hjá óbólusettum börnum, 43% miðað við 23% (p=0,0084). Óbólusettu börnin fengu fleiri sýklalyfjakúra (0,9 á móti 0,63 / barn; p<0,0001) á sama tíma og rör í hljóðhimnum voru algengari (20% á móti 8%; p=0,0465) en hjá bólusettu börnunum. Tíðni annarra sýkinga var sambærileg milli hópanna.

Ályktanir: Bólusetning með próteintengdum fjölsykrubóluefnum gegn pneumókokkum getur varið börn gegn miðeyrnabólgu og minnkað sýklalyfjanotkun.

V 04 Áhrif 11-gildra próteintengdra fjölsykrubóluefna gegn pneumókokkum (Pnc) á beratíðni í nefkoki hjá börnum yngri en tveggja ára

Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1, Ingileif Jónsdóttir1, Þórólfur Guðnason2, Katrín Davíðsdóttir3, Sveinn Kjartansson2,3, Mansour Yaich4, Karl G. Kristinsson51Rannsóknarstofnun í ónæmisfræði, 2barnadeild og 5sýkladeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 3Miðstöð heilsuverndar barna, 4Aventis Pasteur, Frakklandi

ingileif@landspitali.isInngangur: Rannsóknir á Pnc hafa sýnt að bóluefnin geta minnkað beratíðni af hjúpgerðum bóluefnisins (VT) í nefkoki þegar það er gefið ungbörnum. Einnig hefur verið sýnt fram á aukningu á hjúpgerðum sem ekki eru í bóluefnunum (NVT) (Nontombi, et al, J Inf Dis 1999). Sýkingar á slímhúðum og ífarandi sýkingar eiga oft upptök sín í nefkokinu og því voru áhrif Pnc á beratíðni pneumókokka í nefkoki rannsökuð.

Efniviður og aðferðir: Eitt hundrað fjörutíu og sex ungbörn voru bólusett með 11-gildu Pnc (hjúpgerðir 1, 3, 4, 5, 6B, 7F, 9V, 14, 18C, 19F og 23F tengdar tetanus próteini eða diphtheria toxóíði) við þriggja, fjögurra, sex og 13 mánaða aldur og ræktað úr nefkoki barnanna þegar þau voru fjögurra, sjö, 10, 14, 18 og 24 mánaða. Við tveggja ára aldur voru fengin 105 jafngömul, óbólusett börn úr sama leikumhverfi og ræktað úr nefkoki þeirra.

Niðurstöður: Alls voru 808 nefkoksstrok tekin frá 146 bólusettum börnum til tveggja ára aldurs og 105 frá óbólusettum samanburðarhópi við tveggja ára aldur. Taflan sýnir samanteknar niðurstöður.Saman-

burðarhópur

Aldur (mán.) 4 7 10 14 18 24 -24Fjöldi 146 143 143 143 125 108 105

% pneumókokka 38 46 36 32 61* 61 57

% VT 15 17 10 13 16 24 24

% NVT 23 29 24 20 45* 35 30*Munur frá fyrri heimsókn; P<0,0001Ályktanir: Hlutfallsleg aukning á NVT pneumókokkum við 18 mánaða aldur gæti endurspeglað vörn gegn VT í bóluefninu sem hverfur með aldri og tíma frá bólusetningu. Ef Pnc bóluefnin veita viðbótarvernd gegn bólfestu pneumókokka á slímhúðum virðast þau áhrif hverfa um 24 mánaða aldur en þá er tíðni bæði VT og NVT sambærileg við tíðni hjá óbólusettum börnum.

V 05 Litrófsgreining á blóðrauða í æðum sjónhimnu og sjóntaugar í mönnum

Gunnar Már Zoëga1, Þór Eysteinsson1, Peter K. Jensen2, Pedersen DB2, Kurt Bang2, James Beach3, Jón Atli Benediktsson4, Gísli Hreinn Halldórsson4, Einar Stefánsson11Augnlækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2Kaupmannahafnarháskóli, 3Stennis Space Center, MS, 4verkfræðideild HÍ

sirrybl@landspitali.isInngangur: Markmið rannsóknarinnar var að þróa og prófa tæki til að greina súrefnismettun blóðrauða í æðum sjónhimnu og sjóntaugar í mönnum.

Efniviður og aðferðir: Augnbotnamyndavél (Canon CR 6-45NM) var tengd við myndgreini (optical insights, með ljóssíum fyrir 542, 558, 586 og 605 nm). Stafræn myndavél nam fjórar einlitar myndir og fartölva með viðeigandi hugbúnaði var notuð til að reikna niðurstöður. Ljósþéttni í æðum og utan æða var mæld fyrir hverja mynd og hlutföll reiknuð til dæmis milli 605 nm og 586 nm myndanna til að reikna súrefnismettun.

Endurteknar mælingar á sama auga voru framkvæmdar til að meta stöðugleika mælinganiðurstaðna. Einstaklingar önduðu að sér andrúmslofti og síðan 100% súrefni í fimm mínútur og var súrefnismettun mæld fyrir, meðan á súrefnisöndun stóð og eftir.

Niðurstöður: Augnbotnamyndavél með litrófsgreini er þægileg í notkun og áreynslulítið bæði fyrir "sjúkling" og lækni að mæla súrefnismettun. Stöðugleiki niðurstaðna er viðunandi og þegar reiknuð eru meðaltalsgildi endurtekinna mælinga er staðalfrávik yfirleitt innan við 10%. Tækjabúnaður mælir aukna súrefnismettun þegar einstaklingur andar að sér 100% súrefni og lækkar hún síðan aftur eftir að 100% súrefnisöndun er hætt.

Ályktanir: Rannsóknarhópurinn hefur sett saman tækjabúnað til litrófsgreiningar á súrefnismettun blóðrauða í sjónhimnu og sjóntaugaræðum í mönnum. Fyrstu niðurstöður benda til þess að búnaðurinn virki þolanlega vel. Þróunarvinna á hugbúnaði og klínískar prófanir munu halda áfram. Þess er vænst að tækjabúnaður sem þessi geti nýst vel til að meta blóðþurrðarsjúkdóma í augnbotni, svo sem gláku og sykursýkisaugnsjúkdóm, og áhrif meðferðar á slíka sjúkdóma.

V 06 Sjálfvirk skráning augnbotnamynda til að meta súrefnismettun

Jón Atli Benediktsson1, Gísli Hreinn Halldórsson1, Einar Stefánsson2, Þór Eysteinsson21Verkfræðideild HÍ, 2læknadeild HÍ

thore@landspitali.isTilgangur: Augnbotnamyndir eru mikilvægur þáttur í rannsóknum á æðakerfi og vefjum sjónhimnunnar og geta hjálpað til við greiningu sjúkdóma. Í þessu verkefni var hannaður og prófaður hugbúnaður til að skrá augnbotnamyndir af mismunandi bylgjulengdum og meta súrefnismettun blóðs.

Efniviður og aðferðir: Myndir voru teknar með stafrænni CCD myndavél með ljóssíum sem gefur fjórar myndir á mismunandi bylgjulengdum: 542 nm, 558 nm, 586 nm og 605 nm. Alls tóku fimm einstaklingar með eðlilega sjón og sjö sjúklingar með sykursýki þátt. Teknar voru raðir af fjórum myndum frá sjúklingum með stuttu millibili. Þátttakendur með eðlilega sjón voru látnir anda að sér 100% O2 í fimm mínútur. Teknar voru myndir fyrir og eftir innöndun súrefnis. Skráningin er fullkomlega sjálfvirk. Fyrst eru æðaferlar dregnir fram í myndunum. Því næst eru æðamót greind og samsvarandi pöruð saman á milli myndanna. Svo er vörpun fundin til að varpa myndunum í viðmiðunarhnitakerfi. Þegar skráningunni er lokið er hægt að finna mismun og hlutfall á milli mynda af mismunandi bylgjulengdum til að meta súrefnismettunina.

Niðurstöður: Skráning augnbotnamynda af mismunandi bylgjulengdum tókst vel. Hlutföll milli bylgjulengda í öllum myndum voru reiknuð yfir slagæðum og bláæðum og sjóntaug og sjónu. Staðalfrávik hlutfalla var lægst yfir sjóntaug (3,5%) hjá sjúklingum, en hæst yfir æðum (11%). Litlar breytingar í þessum hlutföllum komu fram við innöndun 100% súrefnis. Aðferðin er sjálfvirk og reyndist auðvelt að finna meðaltal og staðalfrávik gilda úr mörgum myndum. Ýmis tæknileg atriði í útfærslu aðferðar verða útskýrð nánar.

Ályktanir: Um er að ræða samvinnu verkfræðinga, lífeðlisfræðinga og lækna til að þróa sjálfvirkan búnað til að mæla súrefnismettun í sjónhimnu og sjóntaugum manna með myndrænni litrófsgreiningu. Fyrstu tilraunir benda til að tækjabúnaður gefi áreiðanlegar mælingar um súrefnismettun, sérstaklega yfir sjóntaug, bæði í sjúklingum með súrefnisþurrð og fólki með eðlilega augnbotna.

V 07 Áhættuþættir ellihrörnunar í augnbotnum. Augnrannsókn Reykjavíkur

Ársæll Arnarsson1, Friðbert Jónasson1, Þórður Sverrisson1, Haraldur Sigurðsson1, Einar Stefánsson1, Ingimundur Gíslason1, Kazayuki Sasaki2, Hiroshi Sasaki2 og samstarfshópur íslenskra og japanskra augnlækna1Augnlækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2augnlækningadeild Háskólans í Kanasawa

sirrybl@landspitali.isInngangur: Markmið rannsóknarinnar er að finna áhættuþætti fyrir ellihrörnun í augnbotnum (age-related maculopathy) hjá einstaklingum 50 ára og eldri.

Efniviður og aðferðir: Sautján hundruð Reykvíkingar 50 ára og eldri voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá og boðið að taka þátt í yfirgripsmikilli augnrannsókn. Teknar voru þrívíðar augnbotnamyndir af þátttakendum. Myndunum var síðan skipt í fjóra flokka: þær sem sýndu enga ellihrörnun, þær sem sýndu hörð drusen, þær sem sýndu byrjandi ellihrörnun og þær sem sýndu langt gengna ellihrörnun. Áhættuþættir voru svo reiknaðir með lógistískri aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Fyrir hvert ár sem fólk eldist eftir fimmtugt er áhættuhlutfallið (odds ratio) fyrir að fá byrjandi ellihrörnun 1,08 (95% CI 1,06-1,10) og 1,20 (95% CI 1,15-1,27) fyrir langt gengna ellihrörnun. Fyrrum reykingamenn eru í marktækt meiri hættu að fá byrjandi ellihrörnun (OR=1,56: 95% CI 1,06-2,28) en núverandi reykingamönnum er marktækt hættara við langt genginni ellihrörnun (OR=3,03: 95% CI 1,09-8,42). Hærri líkamsþyngdarstuðull (body mass index) minnkar hættuna á byrjandi ellihrörnun (OR=0,94: 95% CI 0,90-0,98). Það virðist einnig sem meiri ættartengsl séu á milli þeirra sem voru með langt gengna ellihrörnun. Aðrar breytur voru skoðaðar en reyndust ekki hafa marktæk áhrif.

Ályktanir: Það er mikil aukning í áhættuhlutfalli með auknum aldri, auk þess sem reykingamenn eru í aukinni hættu. Erfðir og líkamsþyngd virðast einnig hafa áhrif á áhættuhlutfallið.

V 08 Tíðni gleiðhornagláku og tálflögnunar á Íslandi. Augnrannsókn Reykjavíkur

Ársæll Arnarsson1, Friðbert Jónasson1, Karim Damji2, Lan Wang2, Þórður Sverrisson1, Kazayuki Sasaki3, Hiroshi Sasaki3 og samstarfshópur íslenskra og japanskra augnlækna1Augnlækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2augnlækningadeild Háskólans í Ottawa, 3augnlækningadeild Háskólans í Kanasawa

sirrybl@landspitali.isInngangur: Markmið rannsóknarinnar er að ákvarða algengi gleiðhornagláku (open-angle glaucoma) og tálflögnunar (pseudoexfoliation) hjá einstaklingum 50 ára og eldri.

Efniviður og aðferðir: Sautján hundruð Reykvíkingar 50 ára og eldri voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá og boðið að taka þátt í yfirgripsmikilli augnrannsókn. Gláka var greind á grundvelli breytinga á sjóntaug sem tengjast gláku, sjónsviðsskerðingar og sjónskerðingar.

Niðurstöður: Algengi gleiðhornagláku meðal Íslendinga eldri en 50 ára reyndist 4,0% (95% CI 2,8-5,2) og tálflögnunar 10,3% (95% CI 8,5-12,2). Af þeim 42 einstaklingum (22 körlum og 20 konum) sem voru með gleiðhornagláku reyndust 13 (31%) hafa tálflögnun að auki. Algengi gláku eykst með aldri (OR=1,10/ár: 95% CI 1,07-1,13; p=0,000) og það sama á við um tálflögnun (OR=1,10/ár: 95% CI 1,07-1,13; p=0,000). Tálflögnun reyndist ekki vera marktækur áhættuþáttur fyrir gleiðhornagláku þegar leiðrétt hafði verið fyrir áhrifum aldurs.

Ályktanir: Algengi gleiðhornagláku og tálflögnunar eykst með aldri. Samanborið við erlendar rannsóknir eru ívið fleiri með gláku hér á landi en annars staðar. Þó verður að hafa í huga að ekki er alltaf notast við sömu skilgreiningar í rannsóknum.

V 09 Aldursbundin ellihrörnun í augnbotnum. Augnrannsókn Reykjavíkur

Friðbert Jónasson1, Þórður Sverrisson1, Ársæll Arnarsson1, Einar Stefánsson1, Haraldur Sigurðsson1, Ingimundur Gíslason1, Hiroshi Sasaki2, Kazayuki Sasaki2, Tunde Peto3, Alan C. Bird31Augnlækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2augnlækningadeild Háskólans í Kanazawa, 3Moorfields augnlækningasjúkrahúsið í London

sirrybl@landspitali.isInngangur: Við notum þrívíðar litmyndir til þess að greina og undirflokka ellihrörnun í augnbotnum Reykvíkinga 50 ára og eldri.

Efniviður og aðferðir: 75,8% (1045) þeirra sem tókst að ná í tóku þátt í Augnrannsókn Reykjavíkur. Algengi og stig aldursbundinnar ellihrörnunar í augnbotnum, mismunandi tegundir drusen og breytingar í litþekju sem teljast dæmigerð fyrir ellihrörnun í augnbotnum voru ákvörðuð. Einnig ákvörðuðum við algengi ellihrörnunar á háu stigi sem skiptist í þurra og vota hrörnun. Við notuðum þrívíðar litmyndir, þrívíddarsjá og alþjóðlega flokkunar- og stigunarkerfið fyrir ellihrörnun í augnbotnum.

Niðurstöður: Myndir með fullnægjandi gæði, þar með talin þrívídd, voru til af 1021 hægri makúlu og 1020 vinstri makúlum. Það var ekki tölfræðilega marktækur munur milli hægra og vinstra auga. Hjá þátttakendum 50-59 ára reyndust 4,8% (95% CI 2,6-7,0) hafa mjúkt drusen af stærðinni 63-125 micron, að minnsta kosti í öðru auga, 1,2% (95% CI 0,0-2,3) hafa stór vel afmörkuð drusen >125 micron og 0,6% (95% CI 0,0-1,4) hafa stór mjúk kölkuð eða hálfþétt drusen og sömu tölurnar fyrir þá sem voru 80 ára og eldri voru 18,2% (95% CI 9,8-26,6), 10,9% (95% CI 4,0-17,8) og 25,5% (95% CI 18,4-32,6). Algengi þurrar ellihrörnunar var 9,2% hjá þátttakendum 70 ára og eldri (95% CI 5,6-12,7) og votrar ellihrörnunar var 2,3% hjá þeim sem voru 70 ára og eldri (95% CI 0,5-4,1).

Ályktun: Þurr ellihrörnun er algengari á Íslandi en meðal annarra þjóða.

V 10 Fólk með stóran sjóntaugarós í aukinni hættu á að fá gláku. Augnrannsókn ReykjavíkurFriðbert Jónasson1, Lan Wang2, Karim Damji2, Ársæll Arnarsson1, Hiroshi Sasaki31Augnlækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2augnlækningadeild Háskólans í Ottawa, 3augnlækningadeild Háskólans í Kanazawa

sirrybl@landspitali.isInngangur: Tengsl stórrar sjóntaugar við gláku eru könnuð.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur í Augnrannsókn Reykjavíkur voru 1045. Teknar voru þrívíðar myndir af augum og voru til myndir af 1040 hægri sjóntaugarósum. Fullnægjandi gæði, það er þrívídd og skerpa, voru talin í myndum af 952 augum. Lárétt og lóðrétt þvermál sjóntaugaróss var mælt blint af sérfræðingi í gláku (KFD) og notuð aðferð Wisconsin hópsins. Öll þvermál voru leiðrétt fyrir sjónlagsgalla.

Niðurstöður: Þvermál sjóntaugarósa glákuaugna (42 augu, 0,206± 0,029 in), augna með glákugrun (51 auga, 0,202±0,020 in) voru stærri en þvermál sjóntaugarósa heilbrigðra augna (859 augu, 0,189± 0,018 in). Þessi munur var tölfræðilega marktækur (p<0,05).

Ályktanir: Sjóntaugarósar með breytingar sem samræmast gláku eða eru grunsamlegir með tilliti til gláku voru hvorutveggja marktækt stærri en heilbrigðar sjóntaugar.

V 11 Tíðni tannleysis hjá 65 ára og eldri Íslendingum

Elín Sigurgeirsdóttir1, Sigrún Helgadóttir2, Guðjón Axelsson11Tannlæknadeild HÍ, 2Ráðabót ehf.

es@hi.isInngangur: Breytingar á tíðni tannleysis hafa verið notaðar til þess að fylgjast með breytingum á tannheilsu þjóða og þjóðarbrota. Upplýsingar um tannheilsu aldraðra ættu að auðvelda yfirvöldum heilbrigðismála að móta stefnu um tannheilsugæslu aldraðra og gera áætlanir til úrbóta.

Efniviður og aðferðir: Í póstkönnun sem gerð var árið 2000 var aflað upplýsinga um tíðni tannleysis hjá 65 ára og eldri Íslendingum. Aflað var upplýsinga um kyn, aldur, búsetu, búsetu mestan hluta ævi, hjúskaparstöðu, starf, starf maka, starf föður, starf móður, menntun, tíðni tannlæknisheimsókna, tíma frá síðustu tannlæknisheimsókn og aldur þegar fyrst var farið til tannlæknis. Notað var ólínulegt aðhvarf með umhverfðum veldisvísisferli (logistic regression) til þess að kanna hvort samband væri milli þessara breytna og tíðni tannleysis.

Tekið var 5% slembiúrtak úr þjóðskrá eins og hún var 1. desember 1999. Valdir voru 1612 einstaklingar, 723 karlar og 889 konur, úr hópi íslenskra ríkisborgara sem voru 65 ára og eldri og áttu lögheimili á Íslandi. Spurningalisti, ásamt kynningarbréfi og svarumslagi sem láta mátti ófrímerkt í póst, var sendur í pósti til allra í úrtakinu. Svarhlutfall var 66,1%.

Niðurstöður: Tannlausir voru 54,6%; 64,4% kvenna og 44,3% karla. Niðurstöður voru bornar saman við sambærilegar kannanir frá 1985, 1990 og 1995 og niðurstöður Dunbars og samstarfsmanna frá 1962. Svo virðist sem tekist hafi að ná alheimsmarkmiðum FDI og WHO varðandi tíðni tannleysis árið 2000 fyrir þennan aldurshóp. Aðhvarfsgreining sýndi marktækt samband milli tannleysis og skýribreytnanna aldurs, kyns, búsetu, menntunar, tíma frá síðustu tannlæknisheimsókn og tíðni tannlæknisheimsókna.

Ályktanir: Niðurstöður benda til að tannheilsa aldraðra Íslendinga fari ört batnandi.V 12 Erfðastuðull íslenskra barna við foreldra sína greindur á vangaformi af hliðarröntgenmyndum

Berglind Jóhannsdóttir1, Freyr Þórarinsson2, Árni Þórðarson1, Þórður Eydal Magnússon11Tannlæknadeild HÍ, 2Íslensk erfðagreining

bj@centrum.isInngangur: Vöxtur og þroski andlits-, höfuð-, kjálka-, og tannbogaforms er flókið fyrirbæri sem bæði umhverfis- og erfðaþættir hafa áhrif á. Kannanir á arfgengi eða fylgni, á bitskekkjum, biteinkennum, vanga- og andlitsformi hafa verið gerðar í hópi systkina og hafa tvíburarannsóknir verið þar fremstar í flokki. Fáar rannsóknir hafa aftur á móti verið gerðar á fylgni fyrrgreindra þátta milli foreldra og barna. Tilgangur rannsóknarinnar var að finna erfðastuðul (h2) sex og 16 ára íslenskra barna við foreldra sína greindan á vangaformi með mælingum á hliðarröntgenmyndum.

Efniviður og aðferðir: Hliðarröntgenmyndir af höfði voru teknar af 363 íslenskum sex ára börnum. Tíu árum síðar komu 182 barnanna aftur í myndatöku, þá 16 ára. Sams konar röntgenmyndir voru teknar af foreldrum þessara barna. Gögn voru til af 324 foreldrum til að bera saman við börnin við sex ára aldur. Til samanburðar við börnin 16 ára gömul voru notaðar röntgenmyndir af 173 foreldrum þeirra. Á hverri röntgenmynd voru 22 mælipunktar staðsettir með hjálp rafræns hnitaborðs og 33 einkennisbreytur reiknaðar út frá þeim. Erfðastuðull (h2) drengja og stúlkna við sex og 16 ára aldur var reiknaður við mæður annars vegar og feður hins vegar.

Niðurstöður og ályktanir: Í flestum tilvikum jókst erfðastuðullinn frá sex til 16 ára aldri. Erfðastuðull stúlkna við foreldra var hærri og náði oftar marktæki en hjá drengjum. Drengir höfðu greinilega hærri erfðastuðul við mæður sínar en feður. Erfðastuðull stúlkna var svipaður við báða foreldra en þó náðu fleiri breytur meira marktæki (P 0,001) í hópi sex og 16 ára stúlkna við feður sína. Þær breytur sem höfðu hæstan erfðastuðul voru: framstæði neðri kjálka (s-n-pg); anterior og posterior andlitshæð; lengd neðri kjálka (ar-pgn); og form og lengd kúpubotns (n-s-are, s-n, s-ba og n-ba).

V 13 Byrjandi tannskemmdir metnar af röntgenmyndum

í tveimur rannsóknum á íslenskum unglingum,

1985 og 1996

Álfheiður Ástvaldsdóttir, Inga B. Árnadóttir, W. Peter HolbrookTannlæknadeild HÍ

alfast@mi.isInngangur: Tannskemmdatíðni hjá íslenskum unglingum hefur lækkað síðustu tvo áratugi. Markmið þessarar rannsóknar var að nota gögn úr tveimur rannsóknum, sem gerðar voru á Íslandi með 10 ára millibili, til að bera saman tíðni byrjandi tannskemmda á grannflötum tanna.

Efniviður og aðferðir: Sami aðili safnaði gögnum í báðum rannsóknunum. Gögnin samanstóðu af bitröntgenmyndum sem teknar voru af 16 ára íslenskum unglingum (n=144). Greiningaraðferðir rannsakandans voru staðlaðar í upphafi. Allar myndirnar voru skoðaðar á ljósaborði með stækkara til að greina byrjandi tannskemmdir á grannflötum. Skemmdirnar voru flokkaðar í fjóra flokka. Prósentuhlutfall einstaklinga án tannskemmda var borið saman milli rannsókna, sem og meðalfjöldi byrjandi tannskemmda (flokkar 1 og 2) hjá þeim einstaklingum sem greindust með tannskemmdir. Prósentuhlutfall einstaklinga með byrjandi tannskemmdir á ákveðnum flötum var einnig skoðað.

Niðurstöður: Niðurstöðurnar sýndu að einungis 9,1% voru án tannskemmda árið 1985 en það hlutfall var komið upp í 23,8% árið 1996 (P<0,02). Hjá einstaklingum með tannskemmdir virtist ástandið hins vegar ekki mikið hafa breyst. Meðalfjöldi byrjandi skemmda var 3,9 árið 1985 en 4,1 árið 1996 (n.s.). Þegar við skoðuðum hvaða fletir skemmdust helst fannst ekkert ákveðið munstur. Tilhneiging var til að jaxlar væru frekar með byrjandi skemmdir í rannsókninni frá 1996, en forjaxlar í rannsókninni 1985 (n.s.). Þetta má mögulega skýra með fleiri fyllingum í rannsókninni frá 1985. Einungis 7,0% flata voru fyllt í seinni rannsókninni en hins vegar 18,2% flata í þeirri fyrri.

Ályktanir: Þrátt fyrir almennt bætta tannheilsu hjá þessum aldurshópi virðist enn vera hópur einstaklinga sem er mjög útsettur fyrir tannskemmdum.

Framhald rannsóknarinnar er að skoða vöxt og vaxtarhraða þessara skemmda.

V 14 Huglæg myndgæði og greiningarhæfni fimm mismunandi stafrænna orthopan röntgentækja

Ingibjörg S. Benediktsdóttir1,2, A. Wenzel2, H. Hintze2, J.K. Petersen31Tannlæknadeild HÍ, 2röntgendeild og 3munn- og kjálkaskurðlæknadeild Tannlæknaskólans í Árósum

ingaben@torg.isTilgangur: Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta huglæg myndgæði (subjective image quality) fimm mismunandi stafrænna orthopan röntgentækja og bera greiningarhæfni þeirra saman við hefðbundar filmur.

Efniviður og aðferðir: Alls voru 497 myndir metnar. Þær komu frá þremur PSP kerfum: það er DenOptix frá Gendex, Mílanó 118 myndir; DigiDent DIT, Nesher, Ísrael, 114 myndir og Digora frá Soredex, Helsinki, 86 myndir og tveimur CCD kerfum það er Planmeca from Planmeca Group, Helsinki, 75 myndir og Sirona Orthophos DS Ceph from Sirona, Bensheim, Þýskalandi 104 myndir. Fjórir rannsakendur, einn almennur tannlæknir, einn munn- og kjálkaskurðlæknir og tveir sérfræðingar í tann- og munnholsröntgenfræði, skoðuðu myndirnar hver fyrir sig með tilliti til myndgæða en almennur tannlæknir og munn- og kjálkaskurðlæknir greindu enn fremur ákveðin atriði sem viðkomu endajöxlum í neðri góm bæði með stafrænu röntgenmyndunum og hefðbundum myndum. Þeirra niðurstöður voru síðan bornar saman við raunverulega útkomu, það er að segja það sem munn- og kjálkaskurðlæknarnir fundu þegar endajaxlarnir voru fjarlægðir.

Niðurstöður: Í fyrri hluta rannsóknarinnar gáfu allir rannsakendur tveimur kerfum (DenOptix og DigiDent) mun lakari einkunn fyrir myndgæði en hinum þremur kerfunum og var það marktækur munur (P<0,005) Í síðari hluta rannsóknarinnar reyndist enginn kerfisbundinn marktækur munur vera á milli greiningarhæfni einstakra stafrænna kerfa og samsvarandi hefðbundinna mynda.

Ályktanir: Þrátt fyrir að myndir frá hinum ýmsu stafrænu röntgenkerfum séu ekki fagrar á að líta virðist sem greiningarhæfni þeirra minnki ekki.

V 15 Stuðpúðavirkni, magn basa til hlutleysingar og sýrustig drykkja í tengslum við upplausn tannflísa in_vitro>in vitro

Þorbjörg Jensdóttir1, Allan Bardow2, W. Peter Holbrook11Háskóli Íslands, 2tannlæknadeild Kaupmannahafnarháskóla

TJE@odont.ku.dkInngangur: Markmið rannsóknarinnar var að meta samband stuðpúðavirkni (buffer capacity, b), magn basa til hlutleysingar (titratable acid, TA) og pH drykkja í tengslum við upplausn tannflísa in vitro.

Efniviður og aðferðir: Sextán drykkir, þar með taldir þrír tilraunadrykkir, voru valdir frá flokkunum; ávaxtasafar, djús, mjólkurdrykkir, gosdrykkir, íþrótta- og orkudrykkir. b var metið sem meðaltals pH gildi 4,5, 6,3 og 8,5 þegar mmól H+ / (1L af drykk x pH eining). TA var mælt sem rúmmál í millilítra (ml) af 1,0 M NaOH sem þurfti til að hækka sýrustigið í 50 millilítra af drykk að pH 5,5, 7,0 og 10,0. Upphaflegt sýrustig í drykk var metið fyrir títrun. Tannflísarnar voru fengnar úr mannstönnum (meðalþyngd 452 mg). Flísarnar voru settar í 10ml af hverjum drykk í 24 klukkustundir og hrært stöðugt.

Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að þyngdartap tannflísanna spannaði 0 til 9,9% af heildarþyngd. Meðaltals b þessara 16 drykkja mældist hæst við pH 4.5 þar sem stuðpúðagildið var 37 mmól H+ / (1L drykkur x pH eining) og lægst við pH 8,5. Við pH 4,5 var sítrónukonsentrat talið hafa hæsta b með 129 mmól H+ / (1L drykkur x pH eining) og Coca Cola® hafði lægsta b með 5 mmól H+ / (1L drykkur x pH eining). Marktæk fylgni fannst milli upplausnar tannflísa í 24 klukkustundir og stuðpúðavirkni við pH 4,5 og 8,5 (p<0,05); TA við pH 5,5, 7,0 og 10,0 (p<0,01, p<0,01 og p<0,05); og pH (p<0,01).

Ályktanir: Magn basa til hlutleysingar að pH 5,5 segir best til um upplausn tannflísa í drykk.

V 16 Ný aðferð til að meta glerungseyðingarmátt drykkja

Þorbjörg Jensdóttir1, W. Peter Holbrook1, Allan Bardow21Tannlæknadeild HÍ, 2tannlæknadeild Kaupmannahafnarháskóla

TJE@odont.ku.dkInngangur: Markmið rannsóknarinnar var að finna nýja og raunhæfari en jafnframt einfalda aðferð til að meta glerungseyðingarmátt drykkja.

Efniviður og aðferðir: Tíu drykkir voru valdir úr flokkunum, ávaxtasafar, djús, gosdrykkir, íþrótta- og orkudrykkir. Sýrustig hvers drykkjar var mælt (pH1). Næst var 500 mg af hreinum hýdroxíðapatít krystöllum (HA) bætt í 50 ml af hverri drykkjartegund og pH gildin voru skráð á 15 sekúnda fresti í 3 mínútur (pH2-pH13), eftir 30 mínútur (pH14) og 60 mínútur (pH15). Allir drykkir voru títraðir með 1N NaOH og glerungseyðingarmáttur drykkjanna var skráður sem magn basa til hlutleysingar í mg H+ frá pH1, til pH2, frá pH2 til pH3 frá pH4 ... til pH15. Magn HA sem leystist upp í drykknum var reiknað í mg frá mólþunganum og hlutföllunum 1 HA fyrir 14 H+. Allir 10 drykkirnir voru mettaðir með tilliti til HA eftir 30 mínútur.

Niðurstöður: Niðurstöðurnar sýndu að tímaþátturinn hefur mikið að segja þegar verið er að meta glerungseyðandi áhrif drykkja og að glerungseyðandi áhrif drykkja breytist eftir því sem lengra líður. Eldri aðferðir hafa sýnt fram á að ávaxtasafar hafi meiri glerungseyðandi áhrif en gosdrykkir en þegar tímaþátturinn er tekinn með í reikninginn þá er þessu öfugt farið og gosdrykkir reynast meira glerungseyðandi en safarnir.

Ályktanir: Þessi nýja aðferð gefur raunhæfari niðurstöður á glerungseyðandi áhrif drykkja.

V 17 Neysla drykkja og glerungseyðing tanna

Þorbjörg Jensdóttir1,2, Inga B. Árnadóttir1, Inga Þórsdóttir2, Allan Bardow3, W. Peter Holbrook11Tannlæknadeild og 2raunvísindadeild HÍ, 3tannlæknadeild Kaupmannahafnarháskóla

TJE@odont.ku.dkInngangur: Með aukinni neyslu súrra drykkja síðastliðin 10-15 ár virðist tíðni glerungseyðingar hjá Íslendingum fara stigvaxandi. Markmið þessarar rannsóknar var þess vegna að meta tíðni glerungseyðingar hjá tveimur hópum Íslendinga, ungum fullorðnum (meðalaldur 21 árs) og bakflæðissjúklingum (GERD) (meðalaldur 35 ára), með tilliti til neyslu svaladrykkja.

Efniviður og aðferðir: Áttatíu tóku þátt í rannsókninni, 57 ungir fullorðnir og 23 GERD sjúklingar. Þátttakendurnir svöruðu ítarlegum spurningalista þar sem áhersla var lögð á drykkjarvenjur. Að auki voru tennur skoðaðar, þar sem tannlæknir greindi glerungseyðingu ef hún var til staðar. Lýsandi skráningarform var notað við greiningu glerungseyðingar. Alvarleiki glerungseyðingar var skráður, þar sem 0=engin eyðing, 1=fyrsta stigs eyðing (byrjunarstig), 2=annars stigs eyðing og 3=þriðja stigs eyðing (veruleg eyðing).

Niðurstöður: Marktæk jákvæð fylgni var fengin milli neyslu Coca Cola®, tíðni (p<0,05; rho=0,23) og alvarleika (p<0,05; rho=0,25) glerungseyðingar í jöxlum og framtönnum. Engin fylgni var fengin þegar aðrar einstakar tegundir drykkja voru skoðaðar með tilliti til tíðni eða alvarleika glerungseyðingar. Þrisvar sinnum meiri líkur voru á að fá glerungseyðingu í jöxlum eða framtönnum ef neysla Coca Cola® var þrisvar sinnum í viku eða oftar auk þess sem þrisvar sinnum meiri líkur voru á að geta fengið glerungseyðingu ef neysla gosdrykkja almennt var meiri en einn lítri á viku.

Ályktanir: Það er ályktað að tíðni neyslu svaladrykkja sé stór áhættuþáttur í aukinni tíðni og alvarleika glerungseyðingar hjá Íslendingum.

V 18 Tíðni glerungseyðingar í áhættuhópum

Inga B. Árnadóttir, Þorbjörg Jensdóttir, Inga Þórsdóttir, W. Peter HolbrookTannlæknadeild HÍ

iarnad@rhi.hi.isInngangur: Glerungseyðing er margþættur sjúkdómur sem er ólíkur tannskemmdum eða tannátu vegna þess að um er að ræða efnafræðilega upplausn tanna, en ekki samspil sykurs og örvera. Ungmenni (meðalaldur 21 árs) flokkast í áhættuhóp á glerungseyðingu tanna vegna tíðrar gosdrykkjaneyslu. Sjúklingar með bakflæði (GERD) flokkast í áhættuhóp vegna brjóstsviða. Markmið rannsóknarinnar var að meta tíðni og alvarleika glerungseyðingar í þessum tveimur ólíku áhættuhópum.

Efniviður og aðferðir: Greint var á milli staðsetningar á eyðingu (jaxla- og framtannasvæðis) og flokkað eftir stigi eyðingarinnar. Áttatíu einstaklingar, 57 ungmenni og 23 GERD sjúklingar, voru valdir. Þátttakendur svöruðu ítarlegum spurningum um lífsstíl og mataræði. Gengu undir klíníska, blindaða skoðun og munnvatnspróf. Glerungseyðing var greind fyrir framtennur og jaxlasvæði aðskilið og flokkuð í fjóra mismunandi flokka eftir stigum (0-3).

Niðurstöður: Enginn marktækur munur fannst á tíðni eða stigi glerungseyðingar á milli þessara hópa og aðeins átta af 23 sjúklingum (35%) með GERD greindust með glerungseyðingu. Marktækur munur fannst á milli tíðni á glerungseyðingu á jöxlum þeirra sem höfðu brjóstsviða þegar þessir tveir hópar voru bornir saman í heild.

Ályktanir: Glerungseyðing er margþættur sjúkdómur og stuðla þarf að fleiri rannsóknum vegna aukinnar tíðni í þjóðfélaginu.

V 19 Greining skerts sykurþols og sykursýki á Íslandi. Fastandi blóðsykur eða sykurþolspróf?

Gísli Björn Bergmann1,2, Vilmundur Guðnason1,2, Rafn Benediktsson1,2,31Læknadeild HÍ, 2Hjartavernd, 3lyflækningadeild Landspítala Fossvogi

gislibe@hotmail.comInngangur: Lagt hefur verið til að greining sykursýki (SS2) byggist eingöngu á mælingu fastandi blóðsykurs (FBS). Þetta getur stangast á við greiningu einstaklinga samkvæmt 75g sykurþolsprófi og misst af greiningu hjá sjúklingum sem hafa skert sykurþol (SSÞ) en það eykur líkur á að fá SS2 og fylgikvilla. Þetta hefur ekki verið rannsakað á Íslandi þar sem 50g sykurþolspróf hefur verið viðtekin venja. Við gerðum því 75g sykurþolspróf í íslensku þýði. Við reyndum að bera kennsl á þá sem eru í mestri hættu á fylgikvillum vegna skertra sykurefnaskipta, með mati á þáttum kviðfituheilkennis.

Efnviður og aðferðir: Fimmtíu og sex einstaklingum, sem tóku þátt í rannsókn Hjartaverndar og Íslenskrar erfðagreiningar á erfðum SS2 og höfðu FBS 6,1 mmól/l og <11,1 mmól/l, var boðið að gangast undir sykurþolspróf. Aldur, blóðþrýstingur, þyngd, hæð, blóðsykur, HbA1c, kólesteról, HDL og þríglýseríð voru mæld. Þátttakendur voru 37 karlmenn og 19 konur, miðgildi aldurs var 54,9 ár (á bilinu 23-81 ár).

Niðurstöður: Meðalþyngdarstuðull (BMI) var 30,6±0,8 kg/m2.

Sex af þeim 16 einstaklingum sem voru skilgreindir með SS2 við fyrstu komu (FBS1 7,0 mmól/l) höfðu eðlilegan FBS2 (6,0 mmól/l), en allir 16 höfðu ýmist SSÞ eða SS2 samkvæmt sykurþolsprófi (2t blóðsykur 7,8 mmól/l).

Af þeim 40 einstaklingum, sem höfðu háan fastandi blóðsykur við fyrstu komu (HFS: 6,1-6,9 mmól/l), höfðu aðeins 12 SSÞ eða SS2 samkvæmt sykurþolsprófi. Þegar þeir sem höfðu SSÞ eða SS2 eru bornir saman við þá sem höfðu eðlilegt sykurþol sést að þeir höfðu: lægra HDL (1,12±0,06 á móti 1,37±0,07; p<0,04), hærri þríglýseríð (2,18±0,34 á móti 1,55±0,15; p<0,05), hærri FBS1 (6,5±0,1 á móti 6,4±0,1; p<0,04), hærri FBS2 (6,3±0,2 á móti 5,8±0,1; p<0,01) og hærra HbA1c (6,2±0,2 á móti 5,8±0,1; p<0,02). Enginn þessara þátta gat með vissu spáð fyrir um útkomu sykurþolsprófsins. Því var leidd út reikniformúla sem tók tillit til ofangreindra þátta og átti að spá fyrir um útkomuna. Næmi og sértæki reikniformúlunnar voru 92% og 75%.

Ályktanir: Ef greina á einstaklinga í mestri hættu á að þróa með sér sykursýki og fylgikvilla hennar, þá er ein mæling á FBS 7,0 mmól/l nóg á Íslandi. Hægt er að koma að mestu í veg fyrir ranga greiningu meðal einstaklinga með háan fastandi blóðsykur með því að íhuga þætti kviðfituheilkennisins.

V 20 Skimun á sykursýki með notkun ættfræðiupplýsinga og fastandi blóðsykurs greinir einstaklinga í áhættu fyrir hjarta- og æðasjúkdómum

Friðný Heimisdóttir1,2, Vilmundur Guðnason2,3, Inga Reynisdóttir4, Gunnar Sigurðsson1,2,3, Rafn Benediktsson1,2,31Læknadeild HÍ, 2Hjartavernd, 3lyflækningadeild Landspítala Fossvogi, 4Íslensk erfðagreining

fridnyh@simnet.isInngangur: SS2 (tegund 2 sykursýki) hrjáir um 3% Íslendinga 30 ára og eldri. Því er skimun ekki vænlegur kostur. Skoðaður var möguleiki að nota ættfræðiupplýsingar Íslendinga og fastandi blóðsykur (BS) til að auka gagnsemi skimunar og finna einstaklinga í mestri áhættu fyrir hjarta- og æðasjúkdómum (CVD).

Efniviður og aðferðir: Ættingjum innan sex meiósa frá einstaklingum með þekkta SS2 úr Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar, mökum og þeirra fyrstu gráðu ættingjum var boðið að taka þátt í Fullorðinssykursýkirannsókn Hjartaverndar (NIDDM). Þrjú þúsund níu hundruð tuttugu og tveir tóku þátt 1998-2000 en niðurstöður byggja á 3096 sem ekki höfðu þekkta SS2. Hlutfall nýgreindra (BS7,0mmól/L í tvígang) var kannað og hefðbundnir áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma metnir. Samanburðarhópur (SB) voru þeir með eðlilegan BS (6,0 mmól/L).

Niðurstöður: Af þátttakendum höfðu 21,5% óeðlilegan BS en af þeim voru 243 (7,8%) með SS2 og 422 (13,6%) með BS 6,1-6,9 mmól/L; 7,7% karla og 2,7% kvenna á aldrinum 35-49 ára greindust með SS2 en 12,4% karla og 4,2% kvenna á aldrinum 50-64 ára. Hlutfall 50-64 ára karla á blóðþrýstingslækkandi lyfjum var 35,6% ±14,0% CI í SS2 en 21,4%±5,3% CI hjá SB (p<0,04). Hlutfall 50-64 ára karla á blóðfitulækkandi lyfjum var 8,9%±8,3% CI í SS2 en 5,7%±8,4% CI í SB (p=ns). Hefðbundnir áhættuþættir karla 50-64 ára sem hvorki voru á blóðþrýstings- né blóðfitulækkandi lyfjameðferð voru marktækt sterkari hjá SS2. Með greindan hjarta- og æðasjúkdóm voru 16,9%±4,7% CI SS2 en 8,8%±1,1% CI SB (p<0,001) sem gefur líkindahlutfall upp á 2,0 (95% CI 1,5-3,0) fyrir þekktan hjarta- og æðasjúkdóm.

Ályktanir: Við teljum að skimun með hjálp ættfræðiupplýsinga og BS meira en tvöfaldi greiningartíðni SS2. BS er nægjanlegur til finna einstaklinga í hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Há tíðni hjarta- og æðasjúkdóma og mikil notkun á blóðþrýstings- og blóðfitulækkandi lyfjum bendir til þess að þann hóp einstaklinga ætti að skima reglulega fyrir sykursýki.V 21 Algengi taugaskemmda hjá einstaklingum með fullorðinssykursýki á ÍslandiFriðný Heimisdóttir1,2,Vilmundur Guðnason2,3, Gunnar Sigurðsson1,2,3, Rafn Benediktsson1,2,31Læknadeild HÍ, 2Hjartavernd Kópavogi, 3lyflækningadeild Landspítala Fossvogi

fridnyh@simnet.isInngangur: Sykursýki af tegund 2 (SS2) hefur flókna sjúkdómsmynd og margir þjást af fylgikvillum. Erlendar rannsóknir telja að 40-50% sykursjúkra hafi taugaskemmdir. Algengi einkenna og teikna um taugaskemmdir hjá sjúklingum með SS2 er ekki kunn hérlendis og því vert að kanna það.

Efniviður og aðferðir: Þrjú þúsund níu hundruð tuttugu og tveir tóku þátt í Fullorðinssykursýkirannsókn Hjartaverndar (NIDDM) og Íslenskrar erfðagreiningar 1998-2000. Fjörutíu og einum úr NIDDM-rannsókninni var boðið að taka þátt. Sá hópur voru sykursjúkir (SS2), fæddir 1925-1965, með greindan sjúkdóm í að minnsta kosti átta ár, bjuggu á og nærri höfuðborgarsvæðinu og áttu maka (SB) sem voru í NIDDM-rannsókninni. Fjörutíu og einn sjúklingur með SS2 og 37 makar tóku þátt.

Niðurstöður: Meðalaldur þátttakenda (±staðalfrávik; SD) var 70,3±6,7 ár hjá sjúklingum með SS2 og 69,7±7,4 ár hjá SB (p=ns). SS2 höfðu greinda sykursýki að meðaltali í 17,1±8,3 ár; 48,8%±15,3 CI í SS2 sögðust hafa einkenni um taugaskaða samkvæmt NSS (Neuropathy Symptom Score) en 35,3%±16,1 CI hjá SB (p=ns); 24,4%±13,1 CI sögðust hafa mikil einkenni (7-9) samkvæmt NSS hjá SS2 en 5,9%±7,9 CI hjá SB (p<0,03). Marktækt algengara var að SS2 höfðu óeðlilega klíníska fótaskoðun. Samkvæmt því höfðu 34,2%±14,5 CI SS2 teikn um taugaskaða samkvæmt NDS (Neuropathy Disability Score) í samanburði við 11,8%±10,8 CI hjá SB (p<0,02). Hins vegar voru aðeins tveir SS2 sjúklingar með NDS6. Marktæk fylgni var á milli VPT (vibration perception test) og NDS hjá SS2 (p<0,001; R=0,7). Fylgni var á milli aldurs og NDS hjá SS2 (p<0,01; R=0,4) en ekki marktækt milli sjúkdómslengdar og NDS. HbA1c-mælingar frá þessum tíma voru tiltækar fyrir 15 SS2 sjúklinga og var marktæk fylgni milli þeirra og NDS (p<0,03; R=0,6).

Ályktanir: Um þriðjungur sykursjúkra eru með merki um taugaskemmdir. Algengi taugaskemmda hjá íslenskum SS2 sjúklingum er lágt og flest tilfelli eru væg.

V 22 Öryggi rabeprazóls og ómeprazóls í viðhaldsmeðferð á vélindabakflæði. Áhrif fimm ára meðferðar á gastríni

í sermi

Bjarni Þjóðleifsson1, Hallgrímur Guðjónsson1, Einar Oddsson1, Neil Miller21Rannsóknarstofa í meltingarsjúkdómum Landspítala Hringbraut, 2Eisai Ltd, London

bjarnit@landspitali.isInngangur: Hækkun á gastríni í sermi er eðlileg lífeðlisfræðileg afleiðing af meðferð með sýrulækkandi lyfjum og er í réttu hlutfalli við virkni lyfjanna. Ómeprazól er brotið niður af CYP2C19 ensíminu og er virkni breytileg milli einstaklinga og getur því gefið mismunandi sýruhemlun. Rabeprazól brotnar niður óháð CYP2C19 og virkni milli einstaklinga er lítið breytileg. Hækkun á gastríni í sermi veldur carcinoid æxlum hjá rottum en það hefur ekki fundist hjá mönnum.

Tilgangur: Að kanna áhrif fimm ára meðferðar með ómeprazóli 20 mg eða rabeprazóli 10 eða 20 mg á gastríni í sermi hjá mönnum.

Efniviður og aðferðir: Skilyrði fyrir þátttöku var vélindabakflæði með bólgu, sem hafði gróið á PPI meðferð, hvort tveggja staðfest með speglun. Tvö hundruð fjörutíu og þremur sjúklingum var síðan gefið ómeprazól 20 mg eða rabeprazól 10 eða 20 mg, sem var ákveðið með tvíblindu slembivali. Eitt hundrað tuttugu og þrír luku fimm ára meðferð. Gastrín í sermi var mælt eftir 13, 26 og 52 vikur og síðan árlega eftir það.

Staðtölulegur samanburður var gerður með ANOVA líkani af logariþma breyttu svæði undir gastrínblóðþéttnikúrfu (AUC).

Niðurstöður: Enginn staðtölulegur munur var á AUC milli meðferðarhópa og meðalgildi rabeprazólhópanna var rétt um og yfir normalgildum (150 ng/l) og enginn hafði mikið hækkað gildi. Í ómeprazólhópnum voru meðalgildi á bilinu 200-300 ng/l en þar voru hins vegar fimm einstaklingar með gastrín á bilinu 500-2050 ng/l. Engin marktæk breyting var á ECL frumum hjá þessum sjúklingum.

Ályktanir: Hækkun á gastríni í sermi var óveruleg hjá miklum meirihluta sjúklinga sem fengu ómeprazól- og rabeprazólmeðferð. Engin merki komu fram um forstig carcinoid æxla. Rannsóknin bendir til að langtímameðferð með PPI lyfjum sé áhættulaus að minnsta kosti til fimm ára.

V 23 Áhrif pentavac og MMR bólusetningar á þarma

hjá ungbörnum

Bjarni Þjóðleifsson1, Katrín Davíðsdóttir2, Úlfur Agnarsson3, Arndís Theodórs1, Aðalbjörg Gunnarsdóttir1, Elva Möller2, Guðmundur Sigþórsson4, Matthías Kjeld1, Ingvar Bjarnason41Landspítala Hringbraut, 2Miðstöð heilsuverndar barna Barónsstíg, 3Heilbrigðisstofnun Suðurnesja Reykjanesbæ, 4GKT læknaskólinn London

bjarnit@landspitali.isInngangur: Á seinustu árum hafa komið fram tilgátur um að MMR bólusetning geti leitt til þarmabólgu með leka á þörmum. Skaðleg efni geti þannig komist útí blóðið sem trufla þroska heilans á viðkvæmu stigi og það síðar komið fram sem einhverfa.

Þetta er hægt að rannsaka þar sem nú eru til næm og sértæk próf til að meta þarmabólgu hjá börnum. Eitt slíkt próf er mæling á kalprótektíni í hægðum sem gefur nákvæma vísbendingu um bólgu í þörmum. Við könnuðum merki um þarmabólgu með kalprótektínaðferðinni fyrir og eftir pentavac bólusetningu og fyrir og eftir MMR bólusetningu í hópi barna.

Efniviður og aðferðir: Eitt hundrað og níu börn sem komu til bólusetningar á Miðstöð heilsuverndar barna á Barónsstíg eða á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja Reykjanesbæ tóku þátt í rannsókninni. Börnin voru rannsökuð með því að fá hægðasýni og var mælt í því kalprótektín (Calprest, Calprotech Ltd., London) fyrir pentavac (við 12 mánaða aldur) og fyrir MMR (við 18 mánaða aldur) bólusetningu og tveimur, fjórum og 12-18 vikum síðar. Staðtölulegur munur var prófaður með Wilcoxons "ranked sums test" og pöruðu t-prófi.

Niðurstöður: Alls byrjuðu 109 börn í tilrauninni og 100, 88 og 79 skiluðu sýnum tveimur, fjórum og 18 vikum eftir pentavac bólusetningu (tafla I). Eftir MMR bólusetningu skiluðu 61, 56 og 20 börn sýnum tveimur, fjórum og 12 vikum eftir MMR. Það er enginn staðtölulegur munur í kalprótektíngildum á neinum tímapunkti (p>0,25) hvorki fyrir eða eftir pentavac eða MMR bólusetningu.

Umræða: Niðurstöður okkar benda ekki til að MMR bóluefnið valdi bólgu í þörmum hjá heilbrigðum börnum og mælir það eindregið gegn tilgátunni um að MMR bólusetning veki upp þarmabólgu sem aftur leiði til einhverfu.

V 24 Rabeprazól samanborið við ómeprazól í sjö daga, þriggjalyfja meðferð til upprætingar á Helicobacter_pylori>Helicobacter pylori

Bjarni Þjóðleifsson1, Hallgrímur Guðjónsson1, Einar Oddsson1, C.J. Hawkey31Rannsóknastofa í meltingarsjúkdómum Landspítala Hringbraut, 2Eisai Ltd, London, 3University Hospital Nottingham

bjarnit@landspitali.isInngangur: Kjörmeðferð til að uppræta H. pylori er sjö daga meðferð með tveimur sýklalyfjum og prótonpumpuhemjara (PPH). Prótonpumpuhemjandi lyfið er gefið til að hækka pH í maga en við það eykst virkni sýklalyfjanna. Rabeprazól er nýtt prótonpumpuhemjandi lyf sem nær fullri virkni á öðrum degi meðferðar. Sum eldri prótonpumpuhemjandi lyf þurfa átta daga til að ná fullri virkni. Tilgangur var að sjá hvaða áhrif þessi munur á prótonpumpuhemjandi lyfjum hefur á árangur meðferðarinnar.

Efniviður og aðferðir: Rannsakaðir voru tveir sýklalyfjakúrar með rabeprazóli og tveir með ómeprazóli, báðir gefnir í sjö daga:

RCA = rabeprazól 20 mg x 2, klaritrómýsín 500 mg x 2 og amoxicillín 1 gr x 2.

RCM = rabeprazól 20 mg x 2, klaritrómýsín 500 mg x 2 og metrónídazól 400 mg x 3.

OCA = ómeprazól 20 mg x 2, klaritrómýsín 500 mg x 2 og amoxicillín 1 gr x 2.

OCA = ómeprazól 20 mg x 2, klaritrómýsín 500 mg x 2 og metrónídazól 400 mg x 3.

Rannsóknin var fjölþjóðleg og alls voru teknir inn 345 H. pylori sýktir sjúklingar með tvíblindu slembivali. Uppræting var skilgreind þannig að blásturspróf væri neikvætt 12 vikum eftir meðferð.

Niðurstöður: Uppræting hjá sjúklingum sem fengu rabeprazól samkvæmt meðferðaráætlun (per protocol) var 87% og 85% hjá þeim sem fengu ómeprazól. Besti árangur náðist í RCA meðferðarhópi, eða 94%, en verstur árangur var í RCM hópi, eða 79%.

Ályktanir: Rannsóknin sýnir að rabeprazól með klaritrómýsíni og amoxicillíni gefur mjög góðan árangur í upprætingu Helicobacter pylori. Ómeprazól með báðum sýklalyfjunum gefur einnig góðan árangur sem er svipaður og fundist hefur í öðrum rannsóknum.

V 25 Virkni rabeprazóls og ómeprazóls í viðhaldsmeðferð á vélindabakflæði. Tvíblind slembirannsókn sem stóð í fimm ár

Bjarni Þjóðleifsson1, Einar Oddsson1, Hallgrímur Guðjónsson1, Tom Humphries21Rannsóknastofa í meltingarsjúkdómum Landspítala Hringbraut, 2Eisai Ltd, London

bjarnit@landspitali.isInngangur: Vélindabakflæði er langvinnur sjúkdómur og viðhaldsmeðferð með lyfjum er oft nauðsynleg til fjölda ára. Rannsóknir á virkni viðhaldsmeðferðar eru flestar gallaðar, með fáa sjúklinga og stóðu aðeins í eitt til þrjú ár.

Tilgangur: Að bera saman virkni ómeprazóls 20 mg og rabeprazóls 10 og 20 mg í viðhaldsmeðferð við vélindabakflæði í fimm ár.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var fjölþjóðleg með 21 stöð í Evrópu. Stjórnandi var BÞ og Ísland tók inn flesta sjúklinga. Skilyrði fyrir þátttöku var vélindabakflæði með bólgu, sem hafði gróið eftir prótonpumpuhemja- (PPH) meðferð og hvort tveggja staðfest með speglun. Sjúklingar fengu síðan meðferð með ómeprazóli 20 mg eða rabeprazóli 10 eða 20 mg, sem var ákveðin með tvíblindu slembivali. Árangur var metinn með speglun eftir 13, 26 og 52 vikur og síðan árlega eftir það. Bólga var metin með Hetzel Dent kvarða og skor yfir 1 var flokkað sem misheppnuð meðferð.

Niðurstöður: Rannsóknin tók til 243 sjúklinga og 123 luku öllum fimm árunum. Meðferð reyndist misheppnuð hjá 9,9% í rabeprazól- 10 mg hópnum (8/82), 11,5% í rabeprazól- 20 mg hópnum (9/78) og 13,3% í ómeprazól- 20 mg hópnum (11/83). Engar alvarlegar aukaverkanir komu fram. Enginn staðtölulegur munur var á meðferðarhópum.

Ályktanir: Viðhaldsmeðferð á vélindabakflæði með prótonpumpuhemjandi lyfjum er virk og örugg. Rabeprazól 10 mg er jafnvirkt og rabeprazól 20 mg og ómeprazól 20 mg.

V 26 Einkennalaus þarmabólga hjá aðstandendum sjúklinga með Crohns sjúkdóm greind með hvítfrumuskanni

Þurý Ósk Axelsdóttir1, Inga Skaftadóttir1, Eysteinn Pétursson1, Guðmundur Jón Elísson2, Ingvar Bjarnason3, Bjarni Þjóðleifsson1, Ásbjörn Sigfússon1=1Landspítali Hringbraut, 2Röntgen Domus Medica, 3GKT læknaskólinn London

=Höfundur lést árið 2001

bjarnit@landspitali.isInngangur: Fyrri rannsóknir hafa sýnt að ~50% skyldmenna sjúklinga með Crohns sjúkdóm höfðu hækkun á kalprótektíni í hægðum, sem benti til þarmabólgu. Dreifing þarmabólgu meðal ættingja samrýmdist ríkjandi erfðum. Staðsetning bólgunnar í þörmum var hins vegar óviss.

Tilgangur: Að meta algengi og staðsetningu þarmabólgu með hvítfrumuskanni hjá skyldmennum sjúklinga með Crohns sjúkdóm.

Efniviður og aðferðir: Þrjátíu ættingjar úr fyrri rannsókn, 12 með kalprótektín yfir 37mg/L og 18 með kalprótektín undir 10mg/L, eðlileg gildi sem samanburðarhópur. Þátttakendur fóru í hvítfrumuskann, þar sem hvítfrumur úr blóði þeirra voru einangraðar, geislamerktar og gefnar aftur. Hálfri og tveimur klukkustundum eftir gjöf voru teknar ísótópamyndir af kvið. Lesið var úr myndunum án upplýsinga um kalprótektínmælingar. Myndunum voru gefnar einkunnir, 0-1: fullkomlega eðlileg, 1: ómarktækar breytingar, 2: augljós merki um bólgu. Þátttakendur skiluðu nýju saursýni til kalprótektínmælingar.

Niðurstöður: Níu af 12 ættingjum með hækkað og átta af 18 ættingjum með eðlilegt kalprótektíngildi tóku þátt, eða alls 17 ættingjar. Fimmtán skiluðu saursýni til kalprótektínmælingar nú. Fimm einstaklingar voru með hækkun á kalprótektíni í saur nú og voru fjórir með öruggar bólgubreytingar á hvítfrumuskanni. Allir fimm voru með hækkun á kalprótektíni fyrir þremur árum. Tíu einstaklingar voru með eðlileg kalprótektíngildi, sjö þeirra voru einnig með eðlilegt hvítfrumuskann. Staðsetning bólgunnar var mest í mjógirni.

Ályktanir: Rannsóknin sýnir að einkennalaus þarmabólga er algeng hjá aðstandendum sjúklinga með Crohns sjúkdóm.

V 27 Öryggi rabeprazóls og ómeprazóls í viðhaldsmeðferð á vélindabakflæði. Áhrif fimm ára meðferðar á magaslímhúð

Einar Oddsson1, Bjarni Þjóðleifsson1, Hallgrímur Guðjónsson1, Roberto Fiocca21Rannsóknastofu í meltingarsjúkdómum Landspítala Hringbraut, 2Eisai Ltd, London

bjarnit@landspitali.isInngangur: Langtímameðferð með prótonpumpuhemjum (PPH) er oft nauðsynleg og það er því mikilvægt að rannsaka vel öryggi þessarar meðferðar. Það er vel þekkt að sýrulækkandi meðferð hjá rottum veldur carcinoid æxlum en þessi fylgikvilli hefur ekki fundist hjá mönnum. Það er einnig þekkt að langtímameðferð með sýrulækkandi lyfjum veldur rýrnun á magaslímhúð hjá mönnum og stundum fylgja breytingar sem flokkast sem forstig magakrabbameins. Það er hins vegar ekki ljóst hvort þessar breytingar stafa af sýrulækkandi meðferð einni saman eða hvort þær koma fyrst og fremst hjá þeim sem eru sýktir af Helicobacter pylori.

Tilgangur: Að kanna áhrif fimm ára meðferðar með ómeprazóli 20 mg eða rabeprazóli 10 eða 20 mg á magaslímhúð hjá mönnum.

Efniviður og aðferðir: Skilyrði fyrir þátttöku var vélindabakflæði með bólgu, sem hafði gróið á meðferð með prótonpumpuhemjum, hvort tveggja staðfest með speglun. Tvö hundruð fjörutíu og þrír sjúklingar fengu síðan meðferð með ómeprazóli 20 mg eða rabeprazóli 10 eða 20 mg, sem var ákveðin með tvíblindu slembivali og 123 luku fimm ára meðferð. Áhrif á magaslímhúð voru metin með sýnum frá antrum og corpus maga, sem tekin voru eftir 13, 26 og 52 vikur og síðan árlega eftir það. ECL forstigsbreytingar voru metnar á Solcia kvarða.

Niðurstöður: Við upphaf rannsóknar voru um 40% sjúklinga sýktir í antrum og corpus af H. pylori, jafnt í öllum meðferðarhópum. Við lok rannsóknar hafði sýkingartíðni fallið í antrum í öllum meðferðarhópum en sýkingartíðni í corpus féll aðeins í hópnum sem tók rabeprazól 10 mg (niður í 20%). Magabólga og rýrnun á magaslímhúð voru mun algengari hjá sjúklingum með H. pylori sýkingu. Bólga í antrum var minni í lok meðferðar í öllum meðferðarhópum en bólga í corpus minnkaði aðeins í hópnum sem tók rabeprazól 10 mg. Rýrnun á magaslímhúð jókst við meðferð í öllum meðferðarhópum en forstigsbreytingar fyrir magakrabbamein sáust ekki. Ofvöxtur á argyrophyl ECL frumum var vægur í upphafi meðferðar og hafði minnkað í lok meðferðar hjá rabeprazólhópunum en aukist hjá ómeprazólhópnum. Carcinoid forstigsbreytingar sáust ekki hjá neinum sjúklingi, hvorki í upphafi né við lok meðferðar.

Ályktanir: Langtímameðferð með ómeprazóli 20 mg og rabeprazóli 10 og 20 mg hefur engar alvarlegar aukaverkanir á slímhúð maga. Þær breytingar sem sáust voru mest tengdar sýkingu með Helicobacter pylori. Ráðlegt er að uppræta sýkilinn hjá sjúklingum sem eiga að fá langtímameðferð með prótonpumpuhemjum.V 28 Tengsl serum tartrat ónæms súrs fosfatasa við aldur, beinþéttni og aðra beinumsetningarvísaÓlafur S. Indriðason, Leifur Franzson, Díana Óskarsdóttir, Guðrún Kristinsdóttir, Edda Halldórsdóttir, Gunnar SigurðssonLandspítali háskólasjúkrahús

osi@tv.isInngangur: Tartrat ónæmur súr fosfatasi (TÓSF) er nýr beinumsetningarvísir sem hægt er að mæla í sermi og endurspeglar virkni osteoclasta. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna fylgni hans við beinþéttni og beinumsetningarvísa sem áður hafa verið rannsakaðir.

Efniviður og aðferðir: Þýðið samanstóð af slembiúrtaki 40-85 ára einstaklinga af höfuðborgarsvæðinu sem komu til beinþéttnimælingar (DEXA), svöruðu spurningalistum um heilsufar og lyfjanotkun og gáfu blóðsýni. Tartrat ónæmur súr fosfatasi var mældur með ELISA og önnur efni með hefðbundnum aðferðum. Fyrir þessa rannsókn útilokuðum við sjúklinga með sjúkdóma eða á lyfjum er áhrif hafa á bein- og kalkefnaskipti. Við notuðum fylgnistuðul Spearmans til að kanna fylgni milli TÓSF og annarra breyta. Einnig könnuðum við fylgni milli beinþéttni og TÓSF leiðrétt fyrir aldur með hlutafylgni og fjölþátta aðhvarfsgreiningu. Konur og karlar voru athuguð sérstaklega.

Niðurstöður: Af 747 einstaklingum sem komu til rannsóknarinnar uppfylltu 244 konur og 210 karlar skilyrði fyrir þessa rannsókn. Serum TÓSF var 4,7±1,1 hjá konum og 4,7±1,0 hjá körlum, en hækkaði marktækt með aldri meðal kvenna en ekki meðal karla. Meðal kvenna fannst marktæk fylgni milli TÓSF og beinþéttni í hrygg (r=-0,43; p<0,001) og mjöðm (r=-0,41; p<0,001), en leiðrétt fyrir aldur var fylgnin minni, við beinþéttni í hrygg (r=-0,18; p<0,005) og mjöðm (r=-0,14; p<0,04). Meðal karla var fylgni milli TÓSF og beinþéttni í hrygg (r=-0,19; p<0,006) og mjöðm (r=-0,26; p<0,001) og leiðrétt fyrir aldur var fylgnin við beinþéttni í hrygg (r=-0,16; p<0,02) og mjöðm (r=-0,26; p<0,001). Fylgnin milli TÓSF og beinþéttni var ekki betri en milli beinþéttni og osteókalsíns eða kollagen krosstengja, hvort heldur sem leiðrétt var fyrir aldur eða ekki. Sterk fylgni fannst milli TÓSF og annarra beinumsetningarvísa. Forspárgildi TÓSF á beinþéttni var ekki marktæk við fjölþátta aðhvarfsgreiningu.

Ályktanir: Tartrat ónæmur súr fosfatasi sýnir sterka fylgni við beinþéttni sem þó er ekki betri en fyrir aðra beinumsetningarvísa. Þessi fylgni er til staðar þó aldursbundnar breytingar á beinþéttni séu teknar til greina, sem bendir til að TÓSF geti haft nokkurt gildi við greiningu eða meðferð beinþynningar. Slíkt gildi er ef til vill mest til að meta líkur á breytingu á beinþéttni en þörf er á framskyggnri rannsókn til að kanna það.V 29 Spáir styrkur vascular endothelial growth factors í plasma sjúklinga með nýgreinda iktsýki fyrir um liðskemmdir?

Brynja Gunnlaugsdóttir1, Arnór Víkingsson2,3, Ólafur Kjartansson4, Þóra Víkingsdóttir2, Árni J. Geirsson3, Björn Guðbjörnsson1Rannsóknastofurnar í 1gigtarsjúkdómum og 2ónæmisfræði, 3gigtlækningadeild og 4myndgreiningardeild Landspítala háskólasjúkrahúsi

bjorngu@landspitali.isInngangur: Vascular endothelial growth factors (VEGF) er æðavaxtarþáttur sem talinn er hafa þýðingu í meingerð iktsýki. Styrkur VEGF er hækkaður í liðvökva og sermi sjúklinga með liðbólgusjúkdóma. Nýleg rannsókn sýndi að styrkur VEGF í sermi spáir fyrir um hraðari sjúkdómsframvindu og liðskemmdir. Hins vegar sýnir önnur rannsókn að ekki sé unnt að greina á milli liðbólgusjúkdóma með styrk VEGF í liðvökva. Þar sem blóðflögur framleiða VEGF er mögulegt að styrkur VEGF í sermi gefi ekki rétta mynd af meinferli þeim sem á sér stað við iktsýki. Hægt er að sneiða hjá þessum vanda með því að mæla VEGF í plasma. Markmið þessa verkefnisins var að meta hvort styrkur VEGF í plasma sjúklinga með byrjandi iktsýki spái fyrir um framvindu iktsýki tveimur árum eftir að sjúkdómsgreiningin er staðfest.

Efniviður og aðferðir: Fimmtíu og níu sjúklingar með iktsýki, samkvæmt skilmerkjum ACR tóku þátt í rannsókninni. Meðalaldur þeirra var 53±16 ár og 60% þeirra voru konur. Meðaltími frá upphafi sjúkdómseinkenna voru 3±3 mánuðir. Virkni sjúkdómsins var metin með sjálfsmati sjúklinga með sjónskala (VAS) (verkir og almenn vellíðan) og þeir svöruðu stöðluðum spurningalista. Fjöldi bólginna og aumra liða voru skráðir. Þá voru gigtarþættir (RAPA) og undirflokkar þeirra (IgM og IgA) ásamt CRP mældir með stöðluðum aðferðum. Röntgenmyndir af höndum og fótum við upphaf rannsóknar og tveimur árum síðar voru stigaðar samkvæmt aðferð Van der Heijde/Sharp. Styrkur VEGF var mældur í plasma (Quantikine R&D) við sömu tímapunkta.

Niðurstöður: Styrkur VEGF við sjúkdómsgreiningu hafði fylgni við CRP (r=0,558; p<0,0001) en ekki við aðra mælda þætti. Þá lækkaði styrkur VEGF marktækt á rannsóknartímabilinu (p<0,001), hins vegar hafði þessi lækkun ekki samband við klínískan bata sjúklinganna. Styrkur VEGF hafði hvorki í upphafi né eftir tvö ár fylgni við myndun úráta eða stigunareinkunn samkvæmt Van der Heijde/ Sharp.

Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda ekki til þess að styrkur VEGF í plasma hjá nýgreindum sjúklingum með iktsýki spái fyrir um alvarlegri sjúkdóm með tilliti til almennrar líðunar sjúklinganna, fjölda aumra og/eða bólginna liða né myndun úráta á röntgenmyndum.

V 30 Styrkur "basic fibroblast growth factor" og "vascular endothelial growth factor" í liðvökva greinir ekki á milli mismunandi liðbólgusjúkdóma

Björn Guðbjörnsson1, Rolf Christofferson2, Anders Larsson31Rannsóknastofa í gigtarsjúkdómum Landspítala háskólasjúkrahúsi, 2barnaskurðdeild og 3lífefnafræðideild Akademíska sjúkrahúsinu, Uppsölum

bjorngu@landspitali.isInngangur: Markmið þessa rannsóknarverkefnis er að kanna hvort styrkur basic fibroblast growth factor (bFGF) og vascular endothelial growth factor VEGF í liðvökva greinir á milli mismunandi liðbólgusjúkdóma. Sérstaklega verður skoðað hvort þessir æðavaxtarþættir greina á milli iktsýki, sem einkennist af úrátum og alvarlegum liðbreytingum, og annarra liðbólgusjúkdóma.

Efniviður og aðferðir: Liðvökva var safnað frá 66 einstaklingum sem komu til meðferðar þar sem steragjöf í lið var ráðgerð vegna mikilla liðbólgueinkenna á göngudeild gigtardeildar. Þrjátíu og fimm einstaklingar höfðu iktsýki, níu sóragigt, 11 viðbragðsbólgu og aðrir 11 höfðu óflokkaðan liðbólgusjúkdóm. Jafnframt var tekið blóðsýni svo unnt væri að mæla umrædda æðavaxtarþætti í sermi. Áttatíu blóðgjafar voru notaðir sem viðmiðunarhópur. Við mælingarnar var notuð samloku ELISA aðferð (Quantikine R&D Systems).

Niðurstöður: Styrkur VEGF í liðvökva var hærri í öllum hópunum miðað við styrk þess í sermi. Styrkur bFGF og VEGF í sermi hafði marktæka fylgni við CRP (r=0,45; p<0,001 og r=0,56; p<0,0001). Ekki var marktækur munur á styrk bFGF og VEGF í liðvökva þeirra sem höfðu iktsýki og hinna sjúkdómaflokkanna. Sjúklingar með iktsýki og á sjúkdómsdempandi meðferð höfðu lægri styrk af bFGF og VEGF í liðvökva miðað við þá sem ekki voru á sérhæfðri gigtarmeðferð og sykursteranotendur höfðu einnig lægri styrk af VEGF í liðvöka en þeir sem ekki notuðu sykurstera. Þessi munur var þó ekki marktækur.

Ályktanir: Styrkur bFGF og VEGF í sermi var hækkaður hjá sjúklingum með iktsýki. Styrkur þessara æðavaxtaþátta voru verulega hækkaðir í liðvökva sjúklinga með iktsýki, en greindu þó ekki þann sjúklingahóp frá öðrum liðbólgusjúkdómum.

V 31 Berkjuauðertni og skert lungnastarfsemi við heilkenni Sjögrens. Rannsókn yfir átta ára tímabil

Dóra Lúðvíksdóttir1, Sigríður Þ. Valtýsdóttir2, Hans Hedenström3, Roger Hällgren2, Björn Guðbjörnsson2,41Lungnadeildir og 2gigtlækningadeildir Landspítala háskólasjúkrahúss og Akademíska sjúkrahúsinu Uppsölum, 3rannsóknastofa í lífeðlisfræði Akademíska sjúkrahúsinu Uppsölum, 4Rannsóknastofa í gigtarsjúkdómum Landspítala háskólasjúkrahúsi

bjorngu@landspitali.isInngangur: Loftvegaeinkenni eru algeng hjá sjúklingum með heilkenni Sjögrens. Áður hefur verið lýst hárri tíðni berkjuauðertni hjá þessum sjúklingahópi. Hvort og þá hvaða þýðingu berkjuauðertni hefur við heilkenni Sjögrens með tilliti til lungnastarfseminnar, ef litið er til lengri tíma, er óþekkt í dag. Í þessari rannsókn höfum við skoðað hóp sjúklinga með heilkenni Sjögrens með tillliti til lungnastarfseminnar.

Efniviður og aðferðir: Lungnastarfsemin var rannsökuð með átta ára millibili hjá 15 sjúklingum, 14 konum og einum karli. Staðlaðar öndunarmælingar og loftdreifipróf fyrir CO (DLCO) voru gerð og berkjuauðertni var mæld með metakólín innöndunarprófi.

Niðurstöður: Marktæk minnkun yfir tímabilið sást í total lung capacity (TLC) vital capacity (VC), forced vital capacity (FVC), functional residual capacity (FRC), expiratory midflows (FEF) og static lung compliance (Cst) (p<0,05). Marktæk fylgni var á milli teppu í smærri loftvegum (FEF50) í byrjun og VC eftir átta ár (r=0,8; p<0,003). Aukning á berkjuauðertni á rannsóknartímabilinu sást hjá fimm einstaklingum og lækkuðu þeir allir í DLCO (r=0,9; p<0,05). Versnandi DLCO sást alls hjá sjö sjúklingum og sex þeirra hlutu versnun á fráblástursprófi.

Ályktanir: Á þessu átta ára tímabili sáum við að 30% af sjúklingum með heilkenni Sjögrens versnuðu á öndunarprófum og fengu klínísk einkenni um lungnasjúkdóm. Niðurstöður þessar gefa til kynna að spágildi sé á milli teppu í smærri loftvegum og berkjuauðertni í upphafi sjúkdómsferilsins og við síðari lækkun í VC og DLCO, sem getur samrýmst hægfara þróun á interstitial lungnasjúkdómi hjá einstaklingum með heilkenni Sjögrens.

V 32 Samanburður á færni, líðan og félagslegum aðstæðum aldraðra við innlögn á bráðadeild og fjórum mánuðum síðar. Fyrstu niðurstöður íslenska hluta samnorrænnar RAI-AC rannsóknarÓlafur Samúelsson1, Sigrún Bjartmarz1, Pálmi V. Jónsson1,2, Anna Birna Jensdóttir1 og norræni MDS-AC rannsóknarhópurinn1Rannsóknastofa HÍ og Landspítala háskólasjúkrahúss í öldrunarfræðum, 2læknadeild HÍ

olafs@landspitali.isInngangur: Stór hluti þeirra sem leggjast brátt inn á sjúkrahús eru aldraðir og hlutfall þeirra mun aukast. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi heildræns öldrunarmats í þjónustu við aldraða sjúklinga. Resident Assessment Instrument (RAI) er tæki til heildræns öldrunarmats. RAI-AC er afbrigði þessa mats, sérhannað til notkunar í bráðaþjónustu. Þessi rannsókn lýsir prófun þessa mælitækis á bráðalyflækningadeildum á Norðurlöndunum fimm. Hér er sýnd greining á niðurstöðum varðandi færni og félagslega aðstöðu við innlögn og eftir fjóra mánuði.

Efniviður og aðferðir: Með slembiúrtaki voru valdir 160 af 252 sjúklingum, 75 ára og eldri, sem lögðust inn brátt á lyflækningadeildir Landspítala Fossvogi á tímabilinu maí til desember 2001. Af þeim 92 sem ekki voru með neituðu 23 þátttöku, 29 töldust of veikir og 40 náðist ekki að meta innan ramma rannsóknarinnar. Sjúklingar voru metnir innan sólarhrings frá innlögn og fjórum mánuðum eftir innlögn. Sýndur er samanburður á búsetu þátttakenda við innlögn og eftir útskrift, samanburður á vitrænni getu (CPS) og getu til athafna daglegs lífs (ADL). Breytingar á vitrænni færni og getu til athafna daglegs lífs eru einnig bornar saman við niðurstöður frá hinum Norðurlöndunum. Loks eru sýndar niðurstöður varðandi verkjaupplifun og áhrif verkjameðferðar.

Niðurstöður: Af þeim sem bjuggu heima fyrir innlögn þurftu 8% á hjúkrunarheimili að halda eftir bráðainnlögn. Fjöldi þeirra sem útskrifaðist á hjúkrunarheimili var þrefaldur miðað við fjölda þeirra sem innritaðist frá hjúkrunarheimili. Langvinnir verkir eru algengir og hafa áhrif á líf þessara einstaklinga. Há tíðni er á bráðum verk við komu og 50% þeirra sjúklinga töldu sig ekki nægilega verkjastillta sólarhring eftir innlögn. Mat á getu til athafna daglegs lífs og sérstaklega á vitrænni getu geta verið spáþættir fyrir útkomu við fjóra mánuði.

Ályktanir: Með RAI-AC mælitækinu eru skráðar mikilvægar breytur við komu á bráðasjúkrahús sem hafa með lífsgæði og horfur hinna öldruðu sjúklinga að gera.

V 33 Reglulegar lágtíðnisveiflur í blóðflæði í smáæðum þarmaslímhúðar

Gísli H. Sigurðsson1, Vladimir Krejci2, Luzius Hiltebrand21Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Inselspital háskólasjúkrahússins í Bern, Sviss*

gislihs@landspitali.isInngangur: Á síðustu árum hafa leysi Doppler blóðflæðimælingar svo og smásjármælingar á líffærum (intravital microscopy) sýnt að blóðflæði (flow motion) í smáæðum (microcirculation) sveiflast reglulega (um það bil 15-25 sinnum á mínútu, cpm) í húð, slímhúð og ómentum. Þetta hefur ekki verið rannsakað í kviðarholslíffærum nema í ómentum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort sveiflur væru á blóðflæði í smáæðum þarmaslímhúðar við eðlilegar hemódýnamískar aðstæður eða við sjokk. Einnig, ef slíkar sveiflur í blóðflæði fyndust, þá rannsaka útlit og eðli þeirra.

Efniviður og aðferðir: Blóðflæði í smáæðum var mælt stöðugt í nýrum, lifur, brisi og maga-, smáþarma- og ristilslímhúð með leysi Doppler flæðimæli (LDF) í 20 svæfðum svínum. Súrefnismettun í þarmaslímhúð var stöðugt mæld með near-infrared spectoroscopy (NIRO).

Helstu niðurstöður: Við eðlilegar hemódýnamískar aðstæður sáust reglulegar sveiflur í blóðflæði í smáæðum í þarmaslímhúð í öllum dýrunum, sem voru rannsökuð. Tíðni sveiflanna var 3,0-5,5 cpm í maga-, 2,8-7,1 cpm í smáþarma- og 3,5-4,5 cpm í ristilslímhúð. Blóðflæðisveiflurnar höfðu mismunandi tíðni frá einum stað til annars, þótt aðeins nokkrir millimetrar væru á milli. Það voru samsvarandi sveiflur í súrefnismettun í slímhúðinni, eins og sást á LDF.

Ályktanir: 1. Það virðist sem reglulegar lágtíðnisveiflur blóðflæði í smáæðum séu eðlilegt fyrirbæri í þarmaslímhúð, en ekki í lifur, brisi eða nýrum. 2. Þessar reglulegu sveiflur í blóðflæði virðast vera undir stjórn gangráðs, sem liggur perifert í smáæðum. 3. Þessar sveiflur í blóðflæði orsaka mótsvarandi sveiflur í súrefnismettun í þarmaslímhúð. 4. Þessum sveiflum í blóðflæði í þarmaslímhúð fylgja að öllum líkindum breytingar í hýdróstatískum þrýstingi í háræðum sem hafa áhrif á trans-capillary vökvaskipti í þörmunum.* Samstarfsverkefni HÍ og UniBE.

V 34 Þarmablóðflæði í septísku sjokki

Gísli H. Sigurðsson1, Luzius Hiltebrand2, Vladimir Krejci21Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Inselspital háskólasjúkrahússins í Bern, Sviss*

gislihs@landspitali.isInngangur: Það er þekkt samband milli skaða á gut-mucosa-barrier, fjöllíffærabilunar (multi-organ failure) og dauða hjá bráðveikum gjörgæslusjúklingum. Lítið er vitað um dreifingu á blóðflæði innan mismunandi svæða þarmanna þegar súrefnisflutningur verður háður flæði. Markmið þessarar rannsóknar var að mæla dreifingu á blóðflæði í smáæðum (microcirculation) í mismunandi lögum þarmaveggsins og mismunandi hlutum maga og þarma í septísku sjokki.

Efniviður og aðferðir: Systemískt flæði (CI), regionalt flæði (mesenteric artery; SMA) og blóðflæði í smáæðum voru mæld í 11 sederuðum og ventileruðum svínum (20-24 kg). Blóðflæði í smáæðum var mælt með margrása (multichannel) leysi Doppler flæðimæli í maga, smáþarma- og ristilslímhúð og mótsvarandi muscularis. Dýrin voru gerð septísk með faecal peritonitis. Eftir 240 mínútur var gefinn i.v. vökvi til að breyta hýpódýnamísku sjokki yfir í hýperdýnamískt septískt sjokk.

Helstu niðurstöður: Fyrstu 240 mínúturnar (hýpódýnamískt sjokk) lækkaði systemískt flæði, regionalt flæði og blóðflæði í smáæðum í magaslímhúð um helming meðan blóðflæði í smáæðum í smáþarma- og ristilslímhúð var óbreytt. Í muscularishluta smáþarma og ristils minnkaði blóðflæði í smáæðum hlutfallslega mun meira en systemískt flæði og regionalt flæði. Við hýperdýnamískt sjokk hækkaði systemískt flæði og regionalt flæði og einnig blóðflæði í smáæðum í slímhúð maga, smáþarma og ristlis. Það var mjög lítil breyting á blóðflæði í smáæðum í muscularis í smáþörmum og ristli, sem bendir til langvarandi blóðþurrðar (endothelin).

Ályktanir: 1. Blóðflæði í smáæðum í slímhúð smáþarma og ristils minnkaði ekkert þrátt fyrir helmingsminnkun á systemísku og regional flæði, sem bendir til að sjálfstjórnun (autoregulation) sé virk í septísku sjokki.

2. Flutningur á blóðflæði frá muscularis til slímhúðar í smáþörmum og ristli veldur sennilega alvarlegri blóðþurrð í muscularis sem gæti verið skýringin á þarma-spennuleysi (atonia) (paralytic ileus) sem oft sést hjá alvarlega veikum gjörgæslusjúklingum.* Samstarfsverkefni HÍ og UniBE.

V 35 Áhrif dópamíns og dópexamíns á blóðflæði

í smáæðum í kviðarholslíffærum í sepsis

Gísli H. Sigurðsson1, Luzius Hiltebrand2, Vladimir Krejci21Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Inselspital háskólasjúkrahússins í Bern, Sviss*

gislihs@landspitali.isInngangur: Blóðflæði í kviðarholslíffærum er oft skert í sepsis. Þess vegna eru beta-agónistar oft notaðir til að auka systemískan súrefnisflutning með það að markmiði að auka einnig blóðflæði til kviðarholslíffæra. Þetta er þó erfitt að mæla hjá sjúklingum og ekki verið kannað til hlítar í dýratilraunum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að mæla áhrif dópexamíns og dópamíns á systemískt flæði (cardiac index; CI), regionalt flæði (superior mesenteric artery; SMA) og blóðflæði í smáæðum (microcirculation) í kviðarholslíffærum á svínum í septísku sjokki.

Efniviður og aðferðir: Átta svín voru svæfð, ventileruð og septískt sjokk var framkallað með faecal peritonitis. Systemískt flæði var mælt með thermodilution, regionalt flæði með ultrasound transit time flow metry og blóðflæði í smáþörmum var mælt stöðugt með leysi Doppler flæðimæli (flow metry) í nýrum, lifur, brisi, maga-, smáþarma- og ristilslímhúð. Hvert dýr fékk í slembiröð (random order), cross-over design, 5 og 10 mcg/kg/mín dópamín og 1 og 2 mcg/kg/mín dópexamín. Lyfið var gefið í 20 mínútur en eftir það var 40 mínútna aðlögunartími þar sem blóðþrýstingur og systemískt flæði voru látin jafna sig áður en hitt lyfið var gefið.

Helstu niðurstöður: Bæði lyfin juku systemískt flæði; dópamín um 18% og dópexamín um 35%, miðað við grunnlínu (baseline) (p<0,001 í báðum). Regionalt flæði jókst um 33% með dópamíni (p<0,01) og 13% með dópaexamíni (p<0,05). Blóðflæði í smáæðum jókst örlítið í magaslímhúð undir dópexamíngjöf, að öðru leyti voru engar marktækar breytingar á blóðflæði í smáæðum undir meðferð þessara lyfja.

Ályktanir: Bæði lyfin dópaexamín og dópamín juku systemískt og regionalt blóðflæði í septísku sjokki, en hvorugt lyfið hafði merkjanleg áhrif á blóðflæði í smáæðum í nokkru þeirra kviðarholslíffæra sem rannsökuð voru. Það er því engin trygging fyrir að blóðflæði í smáæðum aukist í kviðarholslíffærum í sepsis enda þótt systemískt blóðflæði sé aukið.* Samstarfsverkefni HÍ og UniBE.

V 36 Áhrif endóþelíns á blóðflæði í kviðarholslíffærum í sepsisGísli H. Sigurðsson1, Vladimir Krejci2, Luzius Hiltebrand21Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Inselspital háskólasjúkrahússins í Bern, Sviss*

gislihs@landspitali.isInngangur: Minnkað blóðflæði til lifrar og þarma í sepsis eykur líkur á að sjúklingar fái fjöllíffærabilun (multible organ failure). Það hefur nýlega verið sýnt fram á að endóþelín, sem er kröftugt (potent) og langverkandi æðaherpandi peptíð, er hækkað í blóði í sepsis. Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga áhrif af endóþelínmótlyfi (antagonist) á blóðflæði í smáæðum (microcirculation) í kviðarholslíffærum í sepsis.

Efniviður og aðferðir: Fimmtán svæfð og ventileruð svín voru útsett fyrir sepsis (fecal peritonitis). Eftir 120 mínútur fengu átta svín i.v. bolus af bosentan og síðan i.v. dreypi, en sjö (samanburðarhópur) fengu saltvatn. Eftir 240 mínútur fengu báðir hóparnir i.v. vökva, sem breytti hýpódýnamískum sepsis í hýperdýnamískan sepsis. Blóðflæði í smáæðum var mælt með leysi Doppler flæðimæli í mörgum kviðarholslíffærum.

Helstu niðurstöður: Eftir 120 mínútur hafði blóðflæði í smáæðum í brisi og lifur minnkað um 20% og í muscularis þarma um 40% (p<0,01) meðan blóðflæði í smáæðum var óbreytt í slímhúð maga, smáþarma og ristils. Eftir 240 mínútur hafði systemískt flæði, MAP, pHi og blóðflæði í smáæðum í magaslímhúð, ristilslímhúð, muscularis smáþarma og brisi minnkað enn frekar í viðmiðunarhópi, meðan mótsvarandi gildi höfðu batnað í hópnum sem fékk bosentan. Í hýperdýnamískum sepsis hækkaði systemískt flæði yfir grunnlínu (baseline) í báðum hópunum, en mun meira í hópnum sem fékk bosentan. Í viðmiðunarhópi jókst blóðflæði í smáæðum í flestum vefjum nema í þverrákóttum vöðvum og muscularis smáþarma. Í hópnum sem fékk bosentan jókst blóðflæði í smáæðum í öllum vefjum nema muscularis smáþarma.

Ályktanir: Bosentan sem er endóþelín receptor mótlyf bætti blóðflæði í smáæðum í mörgum kviðarholslíffærum og í periferum vefjum í sepsis. Þessar niðurstöður benda til þess að endóþelín hafi allvíðtæk áhrif á blóðflæði í smáæðum í kviðarholslíffærum í sepsis.* Samstarfsverkefni HÍ og UniBE.

V 37 Lækkandi dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms

á Íslandi. Hversu mikið er vegna lækkandi tíðni sjúkdómsins, vegna færri endurtekinna tilfella eða vegna færri dauðsfalla meðal þeirra sem fá kransæðastíflu?

Gunnar Sigurðsson1,2, Nikulás Sigfússon1, Inga Ingibjörg Guðmundsdóttir1, Uggi Agnarsson1,2, Helgi Sigvaldason1, Vilmundur Guðnason11Rannsóknarstöð Hjartaverndar, 2Landspítali háskólasjúkrahús

mariah@landspitali.isInngangur: Dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms hefur lækkað mikið á Íslandi síðan 1980. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað lægi að baki þeirri lækkun, breytt tíðni sjúkdómsins eða bætt meðferð kransæðasjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Hjartavernd hefur annast skráningu á öllum tilfellum kransæðastíflu á Íslandi síðan 1981 í aldurshópum 25-74 ára samkvæmt skilmerkjum MONICA rannsóknarinnar. Byggt hefur verið á sjúkraskýrslum allra spítala landsins, niðurstöðum krufninga og dánarvottorða. Poisson aðhvarfsgreining var notuð.

Niðurstöður: Alls fengu 378 einstaklingar kransæðastíflu árið 1999 (293 karlar og 85 konur), af þeim lést 141 einstaklingur, 109 karlar og 32 konur. Ef allar tíðnitölur (nýgengi, endurtekin tilfelli og dánartíðni) hefðu haldist óbreyttar frá 1981 hefðu 738 fengið kransæðastíflu árið 1999 og 316 látist, 252 karlar og 64 konur. Í staðinn lést 141 og heildarlækkun því um 55,4%. Af heildarlækkuninni má reikna út að 73 færri einstaklingar létust vegna færri nýrra tilfella (23,1%), 72 færri einstaklingar létust vegna færri endurtekinna kransæðastíflutilfella (22,8%) og 30 færri létust vegna færri dauðsfalla meðal þeirra sem fengu kransæðastíflu (9,5%).

Ályktanir: Um 40% af heildarlækkun dauðsfalla af völdum kransæðastíflu má rekja til fækkandi nýrra tilfella, 40% vegna færri endurtekinna kransæðastíflutilfella og 20% vegna lækkunar á dánartíðni þeirra sem fengu kransæðastíflu. Væntanlega endurspeglar þetta árangur bæði forvarna og bættrar meðferðar. Meirihluti þeirra sem dóu af völdum kransæðastíflu náðu ekki að komast á sjúkrahús og það hlutfall kransæðastíflusjúklinga hefur lítið breyst á tímabilinu. Því er mikilvægt að fræða almenning um fyrstu einkenni kransæðastíflu og rétt viðbrögð.

V 38 T-frumuræsing í bráðu hjartadrepi

Emil Árni Vilbergsson1, Óskar Ragnarsson2, Guðmundur Þorgeirsson2, Björn Rúnar Lúðvíksson31Læknadeild HÍ, 2lyflækningadeild Landspítala Hringbraut, 3Rannsóknastofnun í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúsi

bjornlud@landspitali.isInngangur: Brátt hjartadrep er lífshættulegt ástand sem krefst skjótrar og réttrar meðferðar. Meðferð felst í því að opna lokaðar kransæðar með segaleysandi lyfjameðferð eða blásningu (percutaneous transluminal coronary angioblasty, PTCA). Nýlegar rannsóknir hafa bent til að vefjaskaða hjartadreps megi að hluta til rekja til ræsingar á bólgusvari ónæmiskerfisins. Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að athuga hvort finna mætti merki um ræsingu ónæmissvars við brátt hjartadrep.

Efniviður og aðferðir: Öllum einstaklingum með brátt hjartadrep er komu á bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss frá og með janúar 2002 var boðin þátttaka. Einstaklingunum var skipt í fjóra hópa eftir því hvaða meðferðarúrræði voru veitt: A) engin meðferð, B) lýtísk meðferð er leiðir til opnunar æðar, C) lýtísk meðferð er opnar ekki og D) æð er opnuð með blásningu. Blóðsýni voru fengin á fjórum tímapunktum á fyrsta sólarhring eftir komu. Ræsing komplementkerfisins var metin með mælingum á CH50, C4, C3, virkni styttri ferilsins, C3d, Factor B og CR-1 á rauðum blóðkornum. Einnig var ræsing hvítra blóðkorna metin með mótefnalitun og frumutalningu í frumuflæðisjá.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu fengust 16 einstaklingar til þátttöku í rannsókninni. Hjá 10 af 16 tókst að enduropna kransæð. Hlutfall CD4+/CD25+ T-frumna var aukið hjá öllu rannsóknarþýðinu við komu. Auk þess virðist enduropnun kransæða með blásningu auka enn frekar á hlutfall þessara T-frumna. Hjá sama hópi fylgdi óveruleg hækkun á C3d opnun kransæða.

Ályktanir: Þrátt fyrir niðurstöður dýratilrauna og post-mortem meinafræðilegar rannsókna um ræsingu komplementkerfisins við brátt hjartadrep, sjáum við einungis óveruleg merki um slíka ræsingu í heilblóði. Hins vegar benda bráðabirgðaniðurstöður okkar til að T-frumuræsing fylgi blóðflæði til blóðþurrðarsvæða hjartans.

V 39 Stjórnun á fosfórun próteinkínasans Akt og Forkhead umritunarþátta í æðaþeli

Haraldur Halldórsson1, Brynhildur Thors1, Guðmundur Þorgeirsson1,21Rannsóknastofa HÍ í lyfjafræði, 2lyflækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

brynhit@hi.isInngangur: Nýlega var sýnt að próteinkínasinn Akt fosfórar umritunarþættina FOXO4, FOXO1 og FOXO3 en þeir eru meðlimir Forkhead fjölskyldunnar (einnig kallaðir AFX, FKHR og FKHRL1). Hjá spendýrum samsvara þessir umritunarþættir DAF-16, sem gegnir veigamiklu hlutverki í stjórnun lífsferlis Caenorhabditis elegans.

Ófosfóruð form FOXO umritunarþáttanna eru staðsett í kjarna frumna þar sem þau gegna hlutverki umritunarþátta. Við fosfórun á tveimur til þremur serín eða treonín amínósýrum af völdum Akt, fyrir tilstilli lifunarþátta, tengjast FOXO umritunarþættirnir 14-3-3 próteinum. Þeir haldast í kjölfar þess í umfrymi og markgen þeirra eru því ekki tjáð. Í fjarveru lifunarþátta eru þessir umritunarþættir ekki fosfóraðir, þeir komast þá inn í kjarna og virkja umritun stýrigena sinna. Akt hefur þannig neikvæð stjórnunaráhrif á FOXO1, FOXO4 og FOXO3 með fosfórun.

Efniviður og aðferðir: Æðaþelsfrumur úr bláæðum naflastrengja voru ræktaðar uns þær náðu samfellu á ræktunarskálum. Eftir meðhöndlun með áverkunarefnum og/eða hindrum var fosfórun á FOXO1 á seríni 256 metin með sérhæfðu mótefni sem var greint með rafljómun.

Niðurstöður: Eftir örvun með EGF fosfórast Akt, eNOS og FOXO1. Wortmannin (Wm) hindrar í öllum tilvikum. Trombín og histamín hindruðu fosfórun á Akt og er sú hindrun háð PKC. Hins vegar örvuðu bæði áverkunarefnin fosfórun á FOXO1 og eNOS og Wm hafði þar engin áhrif.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda þannig til að þó að trombín og histamín hindri Akt í æðaþeli valdi þau samt fosfórun á Forkhead umritunarþættinum FOXO1 og haldi honum þar með frá kjarnanum. Þessu hefur ekki verið áður lýst og boðleiðin er enn óþekkt.

V 40 Mótefni gegn pneumókokkum hindra bólfestu pneumókokka í nefkoki

Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1, Karl G. Kristinsson2, Gunnhildur Ingólfsdóttir1, Þórólfur Guðnason3, Katrín Davíðsdóttir4, Sveinn Kjartansson3,4, Mansour Yaich5, Ingileif Jónsdóttir11Rannsóknastofnun í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúss, 2sýkladeild og 3barnadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 4Miðstöð heilsuverndar barna, 5Aventis Pasteur, Frakklandi

ingileif@landspitali.isInngangur: Ellefugildu Pnc, (hjúpgerðir 1, 3, 4, 5, 6B, 7F, 9V, 14, 18C, 19F og 23F tengd tetanus próteini eða diphtheria toxoid ) eru örugg og mótefnavekjandi í ungbörnum. Athugað var IgG ónæmissvar Pnc bólusettra barna sem báru pneumókokka af hjúpgerðum bóluefnisins í nefkoki og borið saman við IgG svar þeirra sem aldrei báru sömu hjúpgerðir í nefkoki.

Efniviður og aðferðir: Eitt hundrað fjörutíu og sex ungbörn voru bólusett með Pnc við þriggja, fjögurra, sex og 13 mánaða aldur (mán) og ræktað úr nefkoki barnanna þegar þau voru fjögurra, sjö, 10, 14, 18 og 24 mánaða. Ræktun úr nefkoki og mótefnamæling var gerð hjá 105 óbólusettum tveggja ára börnum úr sama leikumhverfi.

Niðurstöður: Af 146 bólusettum börnum voru 14 með hjúpgerð 6B, 20 með 19F og 29 með 23F að minnsta kosti einu sinni. Þessi börn höfðu lægra IgG gegn sömu hjúpgerðum við sjö og 14 mánaða aldur en þau sem aldrei báru þær í nefkoki.

Bólusett börn höfðu marktækt hærra IgG gegn hjúpgerðum bóluefnisins við 24 mánaða aldur en óbólusett börn, þó ekki væri munur á beratíðni.

Ályktanir: Börn sem svara illa Pnc bóluefni eru líklegri til að bera hjúpgerðir bóluefnisins á slímhúð nefkoksins sem bendir til að IgG hafi hlutverk í vörn slímhúða. Virkt Pnc bóluefni getur minnkað beratíðni og pneumókokkasjúkdóma.

V 41 T- og B-frumusvörun fullorðinna gegn ellefugildu próteintengdu fjölsykrubóluefni gegn pneumókokkum

Gunnhildur Ingólfsdóttir1, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1, Ásbjörn Sigfússon1=, Jean-Michel Chapsal2, Emmanuelle Trannoy2, Ingileif Jónsdóttir11Rannsóknastofnun í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúsi, 2Aventis Pasteur, Frakklandi

ingileif@landspitali.is

=Höfundur lést árið 2001Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að meta T-frumusvörun gegn burðarpróteinum (tetanus toxoid, TT og dipteria toxoid, DT) og B-frumusvörun gegn fjölsykrum (PPS), DT og TT, í einstaklingum bólusettum með 11-gildu próteintengdu fjölsykrubóluefni pneumókokka gegn pneumókokkum (PNC).

Efniviður og aðferðir: Tíu heilbrigðir fullorðnir einstaklingar voru bólusettir með PNC. Eitilfrumur voru einangraðar úr blóði á degi (D) 0, D7 og D14 og örvaðar með DT, TT, 18C-DT og 19F-TT, og T-frumusvörun metin sem frumufjölgun, fjöldi boðefnamyndandi frumna (ELISPOT) og boðefna í frumufloti (ELISA og CBA). IgG mótefni gegn PPS hjúpgerðum bóluefnisins (1, 3, 4, 5, 6B, 7F, 9V, 14,18C, 19F, 23F) voru mæld (ELISA) á D0, D7 og D14, IgG1 og IgG2 gegn 18C og 19F, IgG gegn TT og DT og sækni mótefna, gegn 18C og 19F.

Niðurstöður: Frumufjölgun var marktækt hærri á D7 en D0, eftir örvun með öllum mótefnavökum og á D14 gegn DT og 18C-DT. IFNg-, IL-4- og IL-5-myndandi frumur reyndust marktækt fleiri eftir örvun með DT, TT, 18C-DT og 19F-TT á D7 og D14 en D0, með örfáum undantekningum, en aukning á boðefnum var sjaldnar marktæk mæld með ELISA og CBA. Aðferðum bar vel saman og var góð fylgni fyrir boðefnin þrjú milli fjölda boðefnamyndandi frumna og boðefnamagns í floti. Frumufjölgun og boðefnamyndun eftir örvun með TT og 19F-TT, DT og 18C-DT var sambærileg. Marktæk hækkun var á mótefnum gegn öllum hjúpgerðum PPS, TT og DT á D7 og D14 miðað við D0.

Ályktanir: Niðurstöður sýndu að sterkt T- og B-frumusvar myndaðist eftir einn skammt af PNC. Ekki var fylgni milli T-frumusvörunar á D7 eða D14 og mótefnamagns á D14, eða milli IL-4, Il-5, IFNg og IgG1, IgG2. Skortur á fylgni milli T- og B-frumusvörunar og Th1/Th2 svörunar og IgG undirflokka gæti skýrst af breytilegri svörun einstaklinga, sem voru fáir og fyrri kynnum þeirra af mótefnavökunum.V 42 Bólusetning þungaðra músa til verndunar afkvæma gegn sýkingum fjölsykruhjúpaðra bakteríaMargrét Y. Richter
1, Håvard Jakobsen1, Alda Birgisdóttir1, Jean-François Haeuw2, Ultan F. Power2, Ingileif Jónsdóttir11Rannsóknastofnun í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúsi, 2Centre d&apos;Immunologie Pierre-Fabre, St. Julien en Genevois, Frakklandi

ingileif@landspitali.isInngangur: Vegna óþroska í ónæmiskerfi nýbura reynist erfitt að fá fram verndandi ónæmi við bólusetningu snemma á ævinni. Bólusetning kvenna á meðgöngu gegn sýkingum af völdum hjúpaðra baktería gæti verið sérstaklega ákjósanleg þar sem ungabörn mynda ekki ónæmissvör gegn hreinum fjölsykrum (PPS).

Efniviður og aðferðir: Flutningur sértækra móðurmótefna yfir fylgju og/eða með móðurmjólk og vernd afkvæma gegn sýkingum af völdum pneumókokka var athuguð í músamódeli gegn blóðsýkingu og lungnabólgu af völdum pneumókokka. Fullorðnar kvenmýs voru bólusettar með PPS af hjúpgerð 1, 6B og 19F eða með próteintengdum fjölsykrum (Pnc-TT) og hjúpgerðarsértæk PPS-mótefni voru mæld með ELISA í mæðrum og afkvæmum þeirra.

Niðurstöður: Styrkur PPS-sértækra IgG mótefna í þriggja vikna gömlum ungum bólusettra mæðra var 73-137% af mótefnum í blóði mæðranna einni viku eftir fæðingu. Einnig var marktæk fylgni milli mótefnamagns í blóði mæðra og afkvæma. Þetta sýnir fram á virkan flutning mótefna frá móður til afkvæma á meðgöngu/með móðurmjólk. PPS-sértæk mótefni héldust í að minnsta kosti sex vikur í afkvæmum en lækkuðu lítillega á tímabilinu. Einnig var sýnt fram á virkan flutning móðurmótefna til afkvæma fullorðinna kvenmúsa bólusettra með próteintengdu fjölsykrubóluefni gegn meningókokkum af hjúpgerð C (MenC-CRM). Afkvæmi Pnc-TT bólusettra mæðra voru vernduð gegn pneumókokkasýkingum og í samræmi við lágt mótefnamagn í PPS bólusettum kvenmúsum veittu móðurmótefnin afkvæmum þeirra litla vernd. Ekki var unnt að meta vernd MenC mótefna í afkvæmum bólusettra mæðra þar sem meningókokkar sýkja ekki mýs, en drápsvirkni mótefnanna in vitro verður mæld.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að þetta músamódel er vel til þess fallið að rannsaka móðurbólusetningar til verndunar afkvæmum gegn hjúpuðum bakteríum og áhrif móðurmótefna á ónæmissvör afkvæmanna.
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica