Ágrip erinda

Ágrip veggspjalda 85-128

V 85 Áhrif taugaraförvunar gegnum húð (TENS) á sveifluna á milli hvíldar og virkni í ofvirkum börnum

Sólveig Jónsdóttir1, Erik J.A. Scherder2, Anke Bouma3, Joseph A. Sergeant21Barna- og unglingageðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2Dept. of Clinical Neuropsychology, Vrije Universiteit, Amsterdam, 3Dept. of Developmental and Clinical Psychology, Rijksuniversiteit Groningen

soljonsd@landspitali.isInngangur: Athyglisbrestur með ofvirkni er algengasta taugageðröskun barna og unglinga og greinist hjá um helmingi þeirra sem koma til meðferðar á barna- og unglingageðdeildum. Talið er að röskunin stafi af skorti á örvun miðtaugakerfisins og hún hefur tengst skertu katekólamínflæði í framheila og á undirbarkarsvæði heilans. Rannsóknir hafa sýnt að ofvirk börn hreyfa sig meira í svefni en önnur börn og svefn- og vökureglan er óstöðugri. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að taugaraförvun gegnum húð (TENS) bætir sveifluna milli hvíldar og virkni hjá Alzheimersjúklingum. Verulega dró úr eirðarleysi á nóttunni og sjúklingar voru betur vakandi og virkari að deginum.

Efniviður og aðferðir: Í rannsókn þessari var athugað hvort TENS meðferð gæti haft áhrif á sveifluna á milli hvíldar og virkni hjá ofvirkum börnum. Fjórtán drengir á aldrinum 7-14 ára, sem uppfylltu skilmerki um athyglisbrest með ofvirkni samkvæmt DSM-IV og voru án lyfja, fengu TENS meðferð í sex vikur. Drengirnir fengu 2x30 mínútna meðferð á dag með TENS um tvær elektróður aftan á hálsi. Fimm breytur virknimælingar (actigraphy) voru reiknaðar til að meta sveifluna á milli hvíldar og virkni fyrir og eftir meðferð.

Niðurstöður: Virknimynstur frá degi til dags (interdaily stability) varð stöðugra eftir meðferð (Z=2,34; p<0,01). Virknisveiflan milli dags og nætur (relative amplitude) jókst marktækt (Z=1,92; p<0,03). Marktækt dró úr hreyfivirkni að nóttu (Z=2,62; p<0,005). Ekki varð marktæk breyting á hreyfivirkni að degi til (Z=0,45).

Ályktanir: Taugaraförvun gegnum húð bætir marktækt sveifluna á milli hvíldar og virkni hjá ofvirkum börnum. Sú tilgáta er sett fram að áhrif TENS meðferðar sem koma fram í þessari rannsókn, séu vegna örvunar heilasvæða sem stjórna svefni og vöku í gegnum dreifina.

V 86 Langtímaáhrif áfallahjálpar meðal sjómanna. Forkönnun

Eiríkur Líndal, Jón G. StefánssonGeðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss

elindal@landspitali.isInngangur: Mikið hefur verið rætt um gagnsemi áfallahjálpar eftir að farið var að beita henni í svo ríkum mæli og nú er gert. Samhliða því hefur á síðustu misserum verið mikil umræða um gagnsemi hennar. Einnig er það lítið kannað hversu lengi áhrif áfallahjálparinnar vara. Hér er því gerð forkönnun á því hversu lengi áhrif áfallahjálpar hafa varað hjá hópi sjómanna.

Efniviður og aðferðir: Bornir eru saman átta einstaklingar sem höfðu lenti í sama slysi og höfðu fengið áfallahjálp fyrir meira en fimm árum við 15 aðra einstaklinga sem ekki höfðu ekki fengið neina áfallahjálp en lentu í samskonar slysum.

Upplýsinga var aflað með viðtali, sérsniðnum spurningalista og eftirtöldum mælitækjum: CIDI; DIS; GHQ-20; IES og PTSS-10.

Niðurstöður: Niðurstöður þessarar forkönnunar gefa vísbendingu um að áfallahjálp dragi ekki varanlega úr sálfræðilegum afleiðingum áfalla.

Ályktanir: Gera þarf stærri og ýtarlegri rannsókn á áhrifum áfallahjálpar þar sem einnig verður reynt að sjá hversu lengi í árum áhrifin vara.

V 87 Langtímaafleiðingar sjóslysa á áfallastreitu og almennt geðheilsufar

Eiríkur Líndal, Jón G. StefánssonGeðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss

elindal@landspitali.isMarkmið: Markmið verkefnisins var að kanna hvaða langtímaáhrif alvarleg sjóslys, svo sem eldsvoði í skipi, árekstur milli skipa, brotsjór, að skipi hvolfi og strand, hefðu á þá sjómenn sem í slíku lenda og lifa það af.

Efniviður og aðferðir: Alls var rannsakaður 171 sjómaður af 30 skipum. Eitt hundrað og tólf höfðu lent í slysum og 59 voru í samanburðarhópi. Slysin voru öll valin úr skýrslum Rannsóknarnefndar sjóslysa. Flest viðtöl voru tekin í heimabæ viðkomandi sjómanns og voru þau því dreifð um allt land.

Rannsóknin fólst í því að tekið var við þá staðlað greiningarviðtal (CIDI), lagður fyrir þá sérsniðinn spurningalisti ásamt eftirfarandi spurningalistum: IES, PTSS-10, GHQ, PTSD hlutar DIS. Meðalaldur þátttakenda var 38 ár. Meðaltímalengd frá slysinu var átta ár.

Hluti niðurstaðanna er kynntur hér. Ein aðferðin við samanburð gagna var eftirfarandi: Þátttakendum sem lent höfðu í sjóslysum var skipt í tvo hópa. Hópur 1 samanstóð af þeim sem höfðu lent í mannskæðu sjóslysi (fjöldi, 24) og hópur 2 samanstóð af þeim sem höfðu lent í sjóslysi þar sem enginn lést (fjöldi, 88).

Niðurstöður: Þeir sem lentu í alvarlegustu slysunum þar sem mannskaði varð (hópur 1) fengu flest einkenni síðar. Þeir sem voru með einhver sálfræðileg einkenni eftir slysið voru með þau í 18 mánuði að meðaltali. Þó voru 33% þeirra einstaklinga sem lentu í alvarlegu mannskæðu slysi enn með einkenni áfallastreitu (post-traumatic stress) átta árum eftir slysið.

Umræða: Rannsóknin rennir stoðum undir það að nauðsynlegt sé að athuga hvort ekki sé rétt að grípa til ákveðinnar meðferðar og aðgerða í því augnamiði að bæta líðan og að koma í veg fyrir langvinna andlega vanlíðan hjá þeim áhöfnum sem lenda í mannskæðum sjóslysum.Þakkir: Eftirtaldir aðilar styrktu rannsóknina: Rannsóknarnefnd sjóslysa, Siglingamálastofnun, Rannís, VÍS, Tryggingamiðstöðin, SVFÍ og Samgöngumálaráðuneytið.

V 88 Forvörn þunglyndis meðal unglinga á Íslandi

Eiríkur Örn Arnarson1,2,3, Inga Hrefna Jónsdóttir4, Hulda Guðmundsdóttir5, Margrét Ólafsdóttir6, Jóhanna Lilja Birgisdóttir1, W.Ed Craighead71Sálfræðiþjónusta vefrænna deilda og 2endurhæfingarsvið Landspítala háskólasjúkrahúss, 3læknadeid HÍ, 4Reykjalundur, 5skólaskrifstofa Mosfellsbæjar, 6skólaskrifstofa Seltjarnarness, 7Dept. of Psychology, University of Colorado at Boulder

eirikur@landspitali.isInngangur: Rannsakendur hafa þróað forvarnarnámskeið sem miðar að því að koma í veg fyrir þróun meiriháttar þunglyndis (MDE) meðal ungmenna sem talin voru í áhættu að þróa MDE. Í áhættu eru þeir taldir sem aldrei hafa greinst með MDE, en eru með talsverð þunglyndiseinkenni og skýringarstíl sem einkennist af döprum þankagangi. Námskeiðið byggir á hugrænni atferlismeðferð (HAM) sem þróuð hefur verið til meðferðar á MDE. Það er sniðið til að koma í veg fyrir þróun þunglyndis hjá þeim sem enn hafa ekki upplifað MDE. Markmið rannsóknarinnar er að koma í veg fyrir fyrsta þunglyndiskast og þróa árangursríka meðferð við þunglyndi sem fyrirbyggir að þunglyndi taki sig upp. Fylgst verður með geðslagi nema. Depurð og skýringarstíll metinn hálfu ári síðar og árlega eftir það í fjögur ár.

Efniviður og aðferðir: Kvarðarnir CDI og CASQ voru lagðir fyrir nema í níunda bekk í grunnskólum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þeir sem ekki höfðu fengið MDE, en voru með talsvert mörg einkenni á CDI og skoruðu hátt á neikvæðum skýringarstíl á CASQ voru metnir á CAS. Þeir sem uppfylltu skilyrðin tóku þátt í námskeiði sem sálfræðingar stýrðu í 14 skipti. Þátttakendur hittust í hóp tvisvar í viku í þrjár vikur og síðan vikulega í átta vikur. Þátttakendum (N=53, 29 stúlkur og 24 drengir) var dreift af handahófi í tilrauna- og viðmiðunarhóp.

Niðurstöður: Niðurstöður hafa leitt í ljós marktækan mun á skori tilraunahóps á CDI fyrir og eftir meðferð miðað við F(1,55) =6,150; p<0,05. Einnig var marktækur munur á tilraunahópi á jákvæðum skýringarstíl fyrir og eftir meðferð miðað við F(1,49) =5,464: p<0,05.

Ályktanir: Rannsókn mun svara spurningum um 1) skammtíma- og langtímaárangur CBT við meðhöndlun ungmenna sem greinast með mörg einkenni þunglyndis og 2) fylgni þunglyndiseinkenna og annarra fylgibreyta, svo sem skýringarstíl, innibyrgða reiði, félagshæfni og röskun á atferli.

V 89 Meðferð á geðklofasjúklingi með þráhyggju og áráttu

Guðrún Íris ÞórsdóttirLandspítali Kleppi

giristh@landspitali.isInngangur: Þráhyggja og árátta er alvarleg kvíðaröskun. Þráhyggja einkennist af óboðnum og áleitnum hugsunum sem eru óviðeigandi. Áráttan er síendurtekið atferli eða hugsanir sem þjóna þeim tilgangi að draga úr þeim kvíða sem tengist þráhyggjunni.

Efniviður og aðferðir: Rannsókn þessi lýsir meðferð á 22 ára gömlum karlmanni með geðklofa og þráhyggju og áráttu. Kvíði var mældur með kvíðakvarða Becks, BAI. Þunglyndi var mælt með geðlægðarkvarða Becks, BDI. Þráhyggja og árátta var mæld með þráhyggju- og áráttukvarða Maudsley, MOCI.

Atferlismeðferð var notuð til að minnka áráttuna. Þráhyggjan var ekki meðhöndluð sérstaklega. Stigskiptur þrepalisti var gerður þar sem kvíðavekjandi áreiti voru flokkuð eftir því hve mikinn kvíða þau vöktu. Byrjað var á að meðhöndla þau atriði sem vöktu minnstan kvíða. Meðferð tók 22 skipti og stóð yfir í þrjá til fjóra tíma í hvert sinn. Í meðferð var leitast við að koma í veg fyrir að skjólstæðingur endurtæki atferli til að draga úr kvíða en hann var einnig látinn gera hluti sem hann forðaðist.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður voru þær að geðlægð sjúklingsins mældist 24 stig á BDI fyrir meðferð en 2 stig við lok meðferðar. Kvíði hans mældist 30 stig á BAI fyrir meðferð en 14 stig við lok meðferðar og þráhyggja og árátta mældist 22 stig fyrir meðferð en 7 stig við lok meðferðar.

Ályktanir: Það er tímafrekt að meðhöndla þráhyggju og áráttu, en það er hægt einnig hjá geðklofasjúklingum og ekki er nauðsynlegt að meðhöndla hugsanir sérstaklega til að draga úr þráhyggju og áráttu. Meðferðin eykur lífsgæði til muna.

V 90 Örorka vegna taugasjúkdóma á Íslandi

Sigurður Thorlacius1,2, Sigurjón B. Stefánsson1,2,31Tryggingastofnun ríkisins, 2læknadeild HÍ, 3taugalækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

sigurdur.thorlacius@tr.isInngangur: Taugasjúkdómar skerða oft færni fólks og eru algeng orsök örorku. Hér er kannað algengi örorku vegna taugasjúkdóma á Íslandi og hvaða taugasjúkdómar valdi oftast örorku.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar voru unnar úr örorkuskrá Tryggingastofnunar ríkisins um sjúkdómsgreiningar allra sem áttu í gildi hæsta örorkumat (að minnsta kosti 75% örorku) vegna lífeyristrygginga 1. desember 2001. Skoðað var í hve mörgum tilvikum greining taugasjúkdóms kom fyrir sem fyrsta sjúkdómsgreining í örorkumati og um hvaða sjúkdóma var að ræða.

Helstu niðurstöður: Þann 1. desember 2001 voru skráðir hjá Tryggingastofnun 10.588 einstaklingar með hæsta örorkustig. Taugasjúkdómar voru fyrsta sjúkdómsgreining hjá 1416 öryrkjum (13,4%). Um var að ræða heilablóðfall hjá 261 öryrkja, meðfæddar vanskapanir á taugakerfi hjá 201, heila- og mænusigg hjá 180, sjúkdóma í taugum, taugarótum eða taugaflækjum hjá 177, flogaveiki hjá 166, hrörnunarsjúkdóma í taugakerfi hjá 128, sýkingar í taugakerfi hjá 75, afleiðingar taugakerfisáverka hjá 71, vöðvasjúkdóma hjá 52, æxli í taugakerfi hjá 40 og ýmislegt annað hjá 65.

Ályktanir: Um einn af hverjum sjö öryrkjum á Íslandi hefur taugasjúkdóm sem fyrstu sjúkdómsgreiningu í örorkumati. Af einstökum taugasjúkdómum er heilablóðfall algengasta meginorsök örorku.

V 91 Hömlun í hreyfisvæðum heilabarkar eftir segulörvun

Anna L. Þórsdóttir, Sigurjón B. StefánssonTaugalækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

sigurjs@landspitali.isInngangur: Eftir vöðvasvar (motor evoked potentials, MEP) í kjölfar segulörvunar á hreyfisvæði heilabarkar (transcranial magnetic stimulation, TMS) kemur tímabil þar sem ekkert vöðvarit mælist. Þetta tímabil kallast þögla tímabilið (cortical silent period, SP) og varir venjulega í um 100-200 ms. Virkjun hamlandi sambandstaugafrumna í heilaberki er fyrst og fremst talin liggja til grundvallar SP, en tilgátur eru um að ferli frá mænu hafi einnig áhrif, sérstaklega í byrjun SP. Athugað var hvort hömlun er mismunandi mikil á ólíkum tímapunktum innan þögla tímabilsins.

Efniviður og aðferðir: Skráð var útslag MEP frá frá m. abductor pollicis brevis sin. eftir contralateral segulörvun á aðalhreyfisvæði barkar (M1). Skráð var vöðvarit eftir tvo áreitispúlsa með 100 ms millibili og eftir tvo áreitispúlsa með 67 ms millibili. Styrkur segulertingar var stilltur þannig að SP var alltaf rúmlega 100 ms mælt frá toppi vöðvasvars. Þátttakendur voru átta sjálfboðaliðar (36-58 ára).

Niðurstöður: Útslag MEP eftir seinna seguláreiti var minna en útslag MEP eftir fyrra áreiti bæði fyrir 100 ms (p=,012) og fyrir 67 ms (p=,002). Hlutfall útslags (MEP eftir seinni áreiti/MEP eftir fyrra áreiti) var lægra þegar tími milli áreitispúlsa var 67 ms en þegar tími milli áreitispúlsa var 100 ms (p=,018).

Ályktanir: Hömlun sem kemur fram í SP er mismunandi mikil innan tímabilsins. Meiri hömlun kemur fram á fyrra hluta tímabilsins en á seinni hluta þess. Þetta gæti bent til að annaðhvort dragi úr virkni hamlandi taugafrumna þegar líður á tímabilið eða þá að í fyrri hluta SP sé framlag frá öðrum ferlum einnig til staðar, til dæmis frá mænu.

V 92 Taugalíffærafræðileg rannsókn á smátaugaþráðum húðþekjuSigurjón B. Stefánsson
1, Marina Ilinskaia2,3, Finnbogi R. Þormóðsson2, Elías Ólafsson1, Hannes Blöndal2,31Taugalækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2líffærafræðideild HÍ, 3Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði

sigurjs@landspitali.isInngangur: Hjá töluverðum hluta þeirra sem kvarta um einkenni skertrar úttaugastarfsemi eru venjuleg taugaleiðslupróf og vöðvarit eðlileg. Á síðustu árum hefur verið sýnt fram á að slík einkenni geta stafað af meinsemd í smáum C taugaþráðum, en þeir eru um 0,1 mm í þvermál og hafa ekkert mýelín. Litun þessara smátaugaþráða var erfið fyrir tíð mótefnalitanna. Í rannsókn þeirri sem hér er lýst var markmiðið að skoða útbreiðslu þessara smáu taugaþráða í húðþekju með ónæmisfræðilegum aðferðum.

Efniviður og aðferð: Húðsýni 3 mm í þvermál var tekið frá fótlegg hjá heilbrigðum einstaklingum eftir húðdeyfingu með 2% lídókaíni og adrenalíni. Sýnin voru strax sett út í nýlagaðan paraformaldehyde-lysine-peroxidat herðingarvökva og geymd í honum í 24 klukkustundir. Sneiðar, 50 mm þykkar, voru skornar í frystiskurði og þær síðan litaðar með 0,1% kanínumótefni gegn human neuropeptide protein gene product. Í lokin voru sýnin einnig lituð með eósíni. Litunarferlið sjálft tók um þrjá daga. Sýnin voru skoðuð í venjulegri smásjá og einnig í confocal smásjá.

Niðurstöður: Smátaugaþræðir húðarinnar sjást sem örfínir dökkir þræðir sem liðast upp frá grunnlagi húðþekjunnar (stratum basale) í gegnum þyrnalag (stratum spinosum) allt upp að kyrningalaginu (stratum granulosum). Fjöldi þessara taugaþráða er um 10 til 15 á hvern mm.

Ályktanir: Niðurstöðurnar eru í góðu samræmi við niðurstöður annarra sem gert hafa svipaða athugun á smátaugaþráðum húðþekju. Vænta má hagnýts gildis aðferðarinnar við mat á smáþráðataugameinum í úttaugum (peripher neuropathiae) eins og til dæmis í sykursýki, mýlildi (amyloidosis) og eftir langvarandi ofneyslu áfengis. Nauðsynlegt er að þróa þessa aðferð frekar og gera hana hentuga til nota sem þátt í greiningu úttaugaskemmda.V 93 Læknisfræðilegar orsakir örorku hjá flogaveikum skráðum hjá Tryggingastofnun ríkisins með lyfjakort fyrir flogalyf

Sigurjón B. Stefánsson1,2,3, Sigurður Thorlacius1,3, Elías Ólafsson2,31Tryggingastofnun ríkisins, 2taugalækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 3læknadeild HÍ

sigurjs@landspitali.isInngangur: Hjá flestum sjúklingum með flogaveiki er hægt að halda flogum niðri með flogalyfjum. Flogaveiki ætti því ekki að vera algeng orsök örorku. Líklegt er að öryrkjar með flogaveiki hafi flog, sem svara illa meðferð eða einhverja aðra sjúkdóma sem valda örorku. Til að kanna þessa tilgátu voru gögn Tryggingastofnunar ríkisins (TR) um lyfjakort og örorku í lok árs 2001 athuguð.

Efniviður og aðferðir: Sjúkdómsgreiningar allra sem fá lyfjakort eru skráðar hjá TR og sömuleiðis hvort sjúklingarnir eru öryrkjar eða ekki. Tekinn var út allur sá hópur sem var með lyfjakort fyrir flogalyf og með flogaveikigreiningu á aldrinum 16 til 66 ára. Í þessum hópi voru 1100 einstaklingar; 817 af þeim voru ekki á örorku (samanburðarhópur), en 283 voru á örorku (örorkuhópur). Sjúkdómsgreiningar þessara tveggja hópa voru bornar saman.

Niðurstöður: Í samanburðarhópnum voru 83% (676) einungis með flogaveikigreiningu. Hjá hinum í þessum hópi (141) var fyrsta sjúkdómsgreiningin flogaveiki hjá 4,5% (37), aðrir taugasjúkdómar hjá 1,5% (15), geðsjúkdómur hjá 3% (23), þroskahefting hjá 6% (48) og aðrir sjúkdómar hjá 2% (18). Í örorkuhópnum voru 21,5% (60) einungis með flogaveikigreiningu. Hjá hinum í þessum hópi ( 223) var fyrsta greiningin flogaveiki hjá 22% (62), aðrir taugasjúkdómar hjá 3% (9), geðsjúkdómur hjá 15% (43), þroskahefting hjá 30% (85) og aðrir sjúkdómar hjá 8,5% (18).

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að öryrkjar með flogaveiki eru mun oftar með aðra sjúkdómsgreiningu en flogaveiki í samanburði við aðra flogaveika sjúklinga sem fá lyfjakort fyrir flogalyf. Þroskahefting og geðsjúkdómar eru algengustu greiningarnar fyrir utan flogaveiki hjá báðum hópunum.

V 94 Skurðaðgerðir vegna flogaveiki. Árangur brottnáms gagnaugahluta heilans

Elías ÓlafssonLæknadeild HÍ, taugalækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

eliasol@landspitali.isInngangur: Skurðaðgerðir eru árangursrík meðferð við ákveðnum tegundum flogaveiki og notkun þessarar meðferðar hefur aukist verulega á Vesturlöndum á síðasta áratug. Aðgerðirnar eru af ýmsum gerðum og er brottnám gagnaugahluta heilans (temporal lobectomy) algengast.

Rannsókn með heilasírita (long term video/EEG monitoring) er gerð til þess að staðsetja upptök floganna og finna þá einstaklinga sem hægt er að hjálpa með skurðaðgerð. Heilasíritarannsóknir hófust á Landspítala Hringbraut árið 1992.

Efniviður og aðferðir: Á árunum 1992 til 2001 var fjöldi flogaveikra rannsakaður með heilasírita. Við þessar rannsóknir fundust fjölmargir einstaklingar þar sem hægt var að staðsetja upptök floganna, sem síðan leiddi til aðgerðar eftir frekari rannsóknir hjá nokkrum tugum sjúklinga. Við höfum valið úr þessum hópi þá einstaklinga þar sem gagnaugahluti heilans var fjarlægður.

Niðurstöður: Brottnám gagnaugahluta heilans var framkvæmt hjá 23 einstaklingum vegna flogaveiki. Um er að ræða 12 kvenmenn og 11 karlmenn. Allir voru með sögu um tíð flog sem í flestum tilvikum voru af komplex partial gerð. Öllum hefur verið fylgt eftir og árangur aðgerðar hefur verið góður hjá flestum hvað tíðni floga varðar.

Umræða: Brottnám gagnaugahluta heilans er árangursrík meðferð hjá völdum hópi flogaveikra sem ekki svarar lyfjameðferð með fullnægjandi hætti. Aukaverkanir aðgerðar eru fátíðar og vægar. Kynntar verða niðurstöður eftirfylgdar 23 sjúklinga sem gengust undir þessa aðgerð, með tilliti til tíðni floga eftir aðgerð og almennra áhrifa aðgerðarinnar á lífsgæði viðkomandi.

V 95 Myndgreiningarrannsóknir hjá flogaveikum. Þýðisrannsókn á ÍslandiÓlafur Kjartansson1, Elías Ólafsson1,2, Pétur Lúðvígsson2, W. Allen Hauser3, Dale Hesdorffer31Læknadeild HÍ, 2Landspítali háskólasjúkrahús, 3Columbia University, New York

eliasol@landspitali.isInngangur: Árlega greinast um 130 Íslendingar með flogaveiki. Orsök floganna finnst hjá um þriðjungi þessara einstaklinga og röntgenrannsóknir eiga stóran hlut í því. Við höfum gert framskyggna rannsókn þar sem reynt var að ná til allra íbúa Íslands sem greindust með flog og flogaveiki á tveggja ára og þriggja mánaða tímabili.

Efniviður og aðferðir: Á tímabilinu 1. desember 1996 til 28. febrúar 1999 fundum við alla þá íbúa Íslands sem greindust með óvakin flog (unprovoked seizures) eða flogaveiki. Einn okkar (ÓK) hefur skoðað allar myndir sem teknar voru af sjúklingunum.

Niðurstöður: Alls greindist 501 einstaklingur á tímabilinu sem uppfyllti inntökuskilyrði í rannsókninni. Af þeim voru 10,8% rannsökuð með MRI eingöngu, 24,4% bæði með MRI og CT; 50,3% aðeins með CT og hvorug rannsóknin var gerð hjá 14,5%. Algengast var að sjá rýrnun (24,1%), drep (22,8%), háþéttnisvæði (16,3%) og æxli (7,1%).

Umræða: Rannsókn á nýgengi í þýðisrannsókn (population based study) gefur besta mynd af hlutfallslegri tíðni breytinga í heila á myndrannsóknum meðal flogaveikra. Mjög fáar rannsóknir af þessu tagi eru til í heiminum. Við munum fjalla um hinar ýmsu breytingar sem sáust við myndgreininguna og hvernig þær tengjast tegundum floga.

V 96 Heilablóðfall á Landspítala Fossvogi og Landspítala Grensási árið 2001. Afdrif sjúklinga eftir tegundum heilablóðfalls

Einar M. Valdimarsson1, Elías Ólafsson1,21Taugalækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2læknadeild HÍ

eliasol@landspitali.isInngangur: Heilablóðfall er algengur sjúkdómur og ætla má að um 600 Íslendingar veikist árlega. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að heilablóðfall er algengasta ástæða líkamlegrar fötlunar, önnur algengasta ástæða heilabilunar og þriðja algengasta dánarorsökin á Vesturlöndum. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna tíðni og gerð heilablóðfalls og afdrif heilablóðfallssjúklinga á Íslandi. Við framkvæmdum rannsókn til að varpa ljósi á þessa þætti hjá sjúklingum sem leituðu til bráðamóttöku Landspítala Fossvogi á einu ári.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar sem leituðu til bráðamóttöku Landspítala Fossvogi vegna heilablóðfalls og skammvinnrar heilablóðþurrðar á árinu 2001. Jafnóðum voru skráðar staðlaðar upplýsingar um einkenni og rannsóknarniðurstöður, legutíma og afdrif hvers sjúklings.

Niðurstöður: Rannsóknin náði til 242 einstaklinga. Heildarfjöldi heimsókna var 249. Sjö sjúklingar komu oftar en einu sinni. Heilablæðing greindist hjá 10%, heiladrep hjá 72% og skammvinn heilablóðþurrð hjá 18%. Heiladrep voru greind í undirhópa eftir orsökum samkvæmt TOAST flokkun: stóræðasjúkdómur 19%, blóðrek frá hjarta 27% og smáæðasjúkdómur 21%.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að nýgengi heilablóðfalls og dreifing eftir orsökum sé svipað og í nágrannalöndunum. Við munum kynna niðurstöður sem sýna tengsl legutíma og afdrifa við tegund heilablóðfalls.

V 97 Arfgeng heilablæðing. Rannsókn á arfgerðum apólípóprótíns E og breytileika í forröð cystatíns C

Snorri Páll Davíðsson1, Ástríður Pálsdóttir1, Sif Jónsdóttir2, Elías Ólafsson31Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Rannsóknastofa í lífefna- og sameindalíffræði við læknadeild HÍ, 3taugalækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

astripal@hi.isInngangur: Íslenskt afbrigði arfgengrar heilablæðingar (HCCAA-I) er ríkjandi sjúkdómur með mikla sýnd sem leggst jafnt á karla sem konur. Orsök sjúkdómsins er L68Q stökkbreyting í cysteine prótínasahindranum cystatíni C. Afleiðing þess er cystatín C mýlildismyndun í smáum heilaslagæðum arfbera. Uppsöfnun þessi leiðir til æðarofs og endurtekinna heilablæðinga. Fyrsta áfall fá arfberar flestir fyrir þrítugt.

Villigerð cystatíns C finnst einnig í litlum mæli í mýlildi sjúklinga með Alzheimersjúkdóm og erfðabreytileiki í forröð cystatíns C hefur auk þess verið tengdur aukinni hættu á Alzheimersjúkdómi. Mismunandi arfgerðir apólípóprótíns E (ApoE) virðast hafa áhrif á það hvenær Alzheimersjúkdómur kemur fram. Markmið þessarar rannsóknar er að athuga hvort erfðabreytileiki í forröð cystatíns C og/eða arfgerðir apoE hafi áhrif á hvenær HCCAA-I kemur fram eða hver framvinda sjúkdómsins er.

Efniviður og aðferðir: Arfgerðir forraðar cystatíns C og ApoE voru greindar með PCR og skerðibútagreiningu á erfðaefni 30 sjúklinga og 76 ættingjum þeirra. Til viðmiðunar voru greind 32 sýni úr mönnum og 43 sýni úr Alzheimersjúklingum.

Niðurstöður og ályktanir: L68Q stökkbreytingin í cystatín C fylgir samsætu af gerð A en enginn munur er á tíðni samsæta af forröð cystatíns C milli hópa og virðast samsætur forraðar ekki hafa áhrif á upphaf og framgang sjúkdómsins. Tíðni ApoE samsæta í HCCAA-I sjúklingum og ættingjum þeirra reyndist frábrugðin viðmiðunarhópum, bæði Alzheimersjúklingum og almennum en varasamt er að draga víðtækar ályktanir af þeirri niðurstöðu að svo stöddu þar sem breytileiki innan einstakra fjölskyldna getur sveiflast til og frá heildarniðurstöðu. Breytileiki þessara samsæta virðist hvorki hafa áhrif á upphaf né sjúkdómsferil arfgengrar heilablæðingar.

V 98 Rannsókn á próteinsamskiptum príon-próteins (PrP)

Birkir Þór Bragason, Eiríkur Sigurðsson, Guðmundur Georgsson, Ástríður PálsdóttirTilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

birkirbr@hi.isInngangur: Príon-próteinið (PrP) er tjáð í öllum vefjum líkamans, mest í taugafrumum og hangir venjulega utan á frumuhimnunni með GPI-akkeri. Stökkbreytingar í PrP eða gallar í próteasómkerfi frumunnar geta leitt til uppsöfnunar á próteasaþolnu PrP í umfrymi sem veldur apoptósu í taugafrumum. Uppsöfnun á próteasaþolnu PrP í miðtaugakerfi er lykilþáttur í riðusjúkdómum sem eru ólæknandi hæggengir smitandi hrörnunarsjúkdómar, til dæmis riða í sauðfé, BSE í nautgripum og Creutzfeldt-Jakob sjúkdómur í mönnum. Markmið rannsókna okkar er að athuga próteinsamskipti PrP.

Efniviður og aðferðir: Prótein sem tengjast PrP voru veidd með yeast two-hybrid (YTH) skimun á rottuheila-cDNA genasafni. Bútar úr þremur genum veiddust, tjáningarmynstur þeirra var athugað með Northern-Blot. Þau svæði PrP sem máli skipta fyrir tenginguna voru greind með því að prófa mislanga PrP búta á móti bútunum sem veiddust. Áhrif sjúkdómsvaldandi stökkbreytinga í PrP á tenginguna voru prófuð í YTH-kerfinu. Tengingarnar hafa verið athugaðar in vitro með GST fellingu. Mótefni gegn tveimur próteinanna voru framleidd og hafa verið notuð til að ákvarða staðsetningar í frumum með ónæmislitun á vefjasneiðum og frumuræktum, ásamt tjáningu á flúrljómandi PrP. Verið er að bera saman tjáningu genanna í riðusýktum og heilbrigðum vef með Real-time PCR.

Niðurstöður og ályktanir: Bútar úr þremur genum veiddust við skimunina: SODD, NRAGE og KIAA0570. NRAGE og SODD bindast bæði á innanfrumuhluta viðtaka af TNF-fjölskyldunni og hafa áhrif á apoptósu-boðferla. KIAA0570 fellur í hóp með ubiquitin carboxyl-terminal hydrolösum, sem ýmist gera prótein stöðug eða stuðla að niðurrifi þeirra í próteasómum. Ónæmislitanir á vefjasýnum úr miðtaugakerfi sýna sértæka litun fyrir KIAA0570 í taugafrumum.

V 99 Samanburður á klínískum einkennum tveggja hópa sjúklinga með ættlæga Parkinsonsveiki á Íslandi

Sigurlaug SveinbjörnsdóttirTaugadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, samvinnuverkefni við Íslenska erfðagreiningu

sigurlaugs@hotmail.comInngangur: Heilþjóðarrannsókn á faralds- og erfðafræði Parkinsonsveiki á Íslandi hefur leitt í ljós að tæplega þriðjungur sjúklinga getur nefnt einn eða fleiri ættingja með sjúkdóminn.

Efniviður og aðferðir: Með samkeyrslu sjúklingahópsins og hóps úr eldri rannsókn frá árunum 1954-1964 við ættfræðigrunn hefur hins vegar verið sýnt fram á að tveir þriðju sjúklinganna hafa einhvern innbyrðis skyldleika. Fundist hefur 51 fjölskylda með 2-60 sjúklinga innanborðs í sjúklingahópunum tveimur. Nýlega var sýnt fram á erfðasæti (genetic marker) á litningi 1p32 meðal 117 sjúklinga sem raðast í fjölskyldur (lod score 3,9).

Niðurstöður: Í þessum hópi eru 66 einstaklingar sem hafa slíka erfðaröðun en 51 sem ekki hefur hana. Samanburður á klínískum einkennum hópanna tveggja sýnir ekki marktækan mun hvað snertir meðalaldur, kyn, aldur við byrjun einkenna, breytingar á líkamsstöðu og stöðuviðbrögðum, stirðleikaeinkennum, hreyfifrátækt, skjálfta, tíðni ofhreyfinga, ósamhverfu einkenna eða lyfjasvörun. Ekki fannst heldur marktækur munur á algengi heilabilunar eða þunglyndiseinkenna (kí-kvaðratspróf). Unnt var að skoða heilavef látins sjúklings úr hópi þeirra 66 sem höfðu erfðasæti á litningi 1p32 og sáust dæmigerðar meinafræðilegar breytingar sem einkennandi eru fyrir Parkinsonsveiki.

Ályktanir: Í hluta íslenskra Parkinsonssjúklinga með ættlægan sjúkdóm er að finna erfðasæti á litningi 1p32 sem hugsanlega stuðlar að því að sjúkdómurinn komi fram. Klínísk einkenni þessara sjúklinga eru þó hin sömu og annarra sjúklinga sem einnig hafa ættlægan sjúkdóm en ekki framangreint erfðasæti. Parkinsonsveiki er klínískt heilkenni, trúlega orsakað af mörgum erfðagöllum sem hugsanlega valda röskun á sama efnaferli í heila og þar með hrörnun og dauða taugafrumna.

V 100 Caliciveirugreiningar á Íslandi árið 2002

Sigrún Guðnadóttir, Guðrún BaldvinsdóttirVeirufræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss

sigrgudn@landspitali.isInngangur: Veturinn 1997-1998 var fyrst komið upp tækni á Rannsóknastofu í veirufræði til greiningar á Caliciveirum. Þetta eru litlar RNA-veirur sem geta valdið heiftarlegum iðrasýkingum og eru ein helsta orsök hópsýkinga af því tagi. Þær geta borist með ýmsum mat og vatni. Sjúklingur með Caliciveirusýkingu skilur út mikið magn af veirum bæði í saur og uppsölu og því er sýkingarhætta mikil milli manna. Þar sem meðgöngutími sjúkdóms er nokkrir dagar er oft erfitt að finna orsökina. Við iðrasýkingar fengum við í fyrstu yfirleitt til rannsóknar sýni sem reyndust neikvæð í sýklaræktun, þannig að ástand og aldur sýnanna voru ekki til þess fallin að ná góðum árangri í veirurannsókn. Undanfarið hafa okkur borist sýnin samhliða sýnum til sýklafræðideildar og því má ætla að meiri líkur séu á greiningu hópsýkinga.

Efniviður og aðferðir: Sýni til rannsóknar eru saursýni sem berast á veirufræðideild vegna einkenna frá meltingarvegi (uppkasta/niðurgangs). Árið 2002 hafa á fimmta tug sýna verið rannsökuð með tilliti til Caliciveira. Þar sem Caliciveirur vaxa ekki í frumugróðri, eins og margar aðrar veirur, þarf að beita RT-PCR tækni. Þá er kjarnsýran unnin úr sýninu með sértækum aðferðum og hún umrituð yfir í c-DNA og það fjölfaldað með hitaþolnu enzími með hjálp sértækra Caliciprimera. Afurðin er svo rafdregin á PolyAcrylamið geli og litað með efnaljómun og ljósmyndað. Stærð afurðarinnar staðfestir hvort um Caliciveirur sé að ræða í upphaflega sýninu.

Helstu niðurstöður og ályktanir: Tæpur helmingur prófaðra sýna reyndist calicijákvæður, að stærstum hluta úr hópsýkingum. Greindar voru þrjár aðskildar hópsýkingar, í maí, júlí og október. Þær reyndust ekki vera af sömu undirtegund. Þar sem ekki er leitað að Calici í matvælum hérlendis er ekki vitað um uppruna tilfellanna, en augljóst að veirurnar eru hér vandamál eins og víðast hvar annars staðar. Því er full ástæða til að leita þeirra þegar hópsýkingar verða.

V 101 Klónun, einangrun og tjáning á málmháðum innrænum peptíðasa sem er úteitur Aeromonas_salmonicida>Aeromonas salmonicida, stofns 265-87

Íris Hvanndal, Valgerður Andrésdóttir, Bjarnheiður K. GuðmundsdóttirTilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

iriss@hi.isInngangur: Kýlaveikibróðir af völdum bakteríunnar A. salmonicida undirtegund achromogenes er landlæg hér við land og hefur valdið miklum afföllum á eldisfiski. Aðalúteitur bakteríunnar hefur verið einangrað og skilgreint sem málmháður innrænn peptíðasi, AsaP1. Skyldleiki er á milli AsaP1 og A. hydrophila próteinsins EprA1 sem er í fjölskyldu aspzincina. Markmið rannsóknarinnar var að skilgreina fyrstastigs byggingu AsaP1, tjá gen þess í E. coli og athuga eituráhrif endurraðaðs AsaP1.

Efniviður og aðferðir: PCR prímerar smíðaðir eftir basaröð eprA1 gensins voru notaðir til að magna opna lesramma asaP1 gensins og skerðibútar sem innihéldu hluta asaP1 voru notaðir til að ákvarða basaraðir ofan og neðanvert við opna lesrammann. Magnaðir asaP1 bútar voru klónaðir í pUC18 og raðgreindir. Próteintjáandi hluti asaP1 var klónaður neðanvert við GST prótein í pGEX tjáningarvektor og þau tjáð sem blendingsprótein í E. coli. Endurraðað AsaP1 var einangrað úr E. coli leysi með súluskiljun og sprautað i.m. og i.p. í laxaseiði til að meta eituráhrif.

Niðurstöður og ályktanir: Raðgreindir voru 1983 basar, opinn lesrammi er 1029 bp sem þýddur er í 343 amínósýru peptíðkeðju. Merki til útflutnings er á amínóendanum en karboxýlendinn er klofinn frá sem 172 amínósýruvirkt peptíð. Mikil samsvörun fékkst við amínósýruröð EprA1 próteins (87%). AsaP1 er í fjölskyldu aspzincina með vel varðveitta zink bindiröð, HExxH + GTxDxxYG. Endurraðað AsaP1 veldur vefjabreytingum í laxi, sem eru sambærilegar þeim sem villigerð ensímsins veldur, það er þó heldur stærra (22 kDa í stað 19 kDa) en villigerðin. AsaP1 er fyrsta bakteríueitrið sem lýst er í fjölskyldu aspzincina.

V 102 Samanburður á arfgerð og svipfari útensíms AsaP1 meðal fjölbreytilegs hóps Aeromonas>Aeromonas stofna

Íris Hvanndal1, Ulrich Wagner2, Valgerður Andrésdóttir1, Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir11Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Institut für Zoologie, Universität Leipzig

iriss@hi.isInngangur: Bakterían Aeromonas salmonicida veldur búsifjum í fiskeldi víðsvegar um heiminn, faraldrar hafa einnig greinst í villtum fiski. Aðalúteitur sumra stofna er málmháður innrænn peptíðasi, AsaP1. Markmið rannsóknarinnar var að greina úteitrið í seyti 41 Aeromonas stofna, þar á meðal einkennisstofna fjögurra undirtegund A. salmonicida, sem hafa verið einangraðir úr mismunandi fisktegundum víðsvegar um heiminn. Ennfremur að kanna tilvist asaP1 gens hjá sömu stofnum með PCR prófi, auk þess að bera saman basaröð asaP1 í nokkrum stofnum A. salmonicida.

Efniviður og aðferðir: Utanfrumuafurðir hvers stofns voru einangraðir og notaðir í samloku ELISA próf, byggðu á einstofna mótefni gegn AsaP1. Genómískt DNA hvers stofns var einangrað. Til að magna upp asaP1 genið voru tvenns konar PCR þreifarapör notuð. Annars vegar þreifarar byggðir á sitt hvorum enda tjáðs asaP1 gens og hins vegar á vel varðveittu svæði innan gensins. AsaP1 gen þriggja A. salmonicida stofna var klónað í pUC18 og raðgreint.

Niðurstöður: Allir stofnar höfðu vel varðveitt svæði aspzincins próteina. Stærsta hópinn (48%) mynda stofnar sem eru AsaP1 neikvæðir í ELISA prófi en hafa eðlilegt asaP1 gen. Fjörutíu prósent stofnanna voru með AsaP1 arfgerð og svipfar. Aðeins 4% stofnanna voru bæði neikvæðir í ELISA og PCR prófum. Í sömu tilfellum sáust fleiri en ein stærð DNA bands eftir PCR mögnun á varðveitta svæðinu. Einn stofn reyndist jákvæður í ELISA prófi þrátt fyrir að ekki hafi orðið PCR mögnun á asaP1. Samanburðarraðgreiningin sýndi stökkbreytingar sem skýra vöntun á svipfari AsaP1. Mun færri stofnar hafa svipgerð AsaP1 en þeir sem hafa genið.

Ályktanir: Gen AsaP1 er ekki einskorðað við tegundina A. salmonicida. Stökkbreytingar í AsaP1 geni þriggja stofna skýrðu vöntun þeirra á AsaP1 svipfari.

V 103 Áhrif Pseudomonas_aeruginosa>Pseudomonas aeruginosa á öndunarfæraþekju in_vitro>in vitro

Eygló Ó. Þórðardóttir1, Pradeep K. Singh2, Ólafur Baldursson31Læknadeild HÍ, 2University of Iowa Hospitals and Clinics, Iowa City, Iowa, 3Landspítali háskólasjúkrahús

eygloosk@yahoo.comInngangur: Slímseigjusjúkdómur (cystic fibrosis, CF) er banvænn, arfgengur sjúkdómur sem stafar af galla í klóríðjónagöngum. Langvinnar lungnasýkingar af völdum Pseudomonas aeruginosa eru alvarlegasta heilsufarsvandamál þessara sjúklinga. Sýklalyfjameðferð upprætir ekki sýkingarnar að fullu. Það er talið stafa af því að P. aeruginosa, sem yfirleitt eru stakir svifsýklar, myndar samfélag sem kalla má sýklaskænu (biofilm) í lungum sjúklinga með slímseigjusjúkdóm. Skænan er föst við lungnaþekjuna og myndar slím úr fjölsykrungum sem ver sýklana gegn lyfjum og ónæmiskerfi hýsilsins. Fyrsta skrefið í myndun sýklaskænu er viðloðun sýkla við yfirborð. P. aeruginosa loðir illa við heilbrigða öndunarfæraþekju en ef þéttitengsl (zonula occludens) milli frumna hafa orðið fyrir skemmdum komast sýklar að viðtökum sem eru á basolateral hliðum frumna. Bakterían Vibrio cholerae myndar eiturefni, zonula occludens toxin (Zot), sem hefur áhrif á þéttitengsl. Samstarfsmenn okkar uppgötvuðu nýlega að í erfðamengi P. aeruginosa finnst gen fyrir skyldu eiturefni og finnst í V. cholerae (Zot-líkt prótein) og að P. aeruginosa sýklaskæna tjáir tífalt meira af þessu efni en P. aeruginosa svifbakteríur. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort P. aeruginosa sýklaskæna væri skaðlegri öndunarfæraþekju en P. aeruginosa svifbakteríur og hvort slíkur munur stafaði af Zot-líku próteini.

Efniviður og aðferðir: Við notuðum P. aeruginosa af stofni PA01 til að útbúa skænu og svifbakteríur. Við bárum saman áhrif skænu annars vegar og svifsýkla hins vegar á rafviðnám öndunarfæraþekju in vitro. Næst notuðum við stökkbreytt afbrigði af PA01 sem inniheldur plasmíð sem yfirtjáir Zot-líka próteinið og gerðum sams konar samanburð.

Niðurstöður: Rafviðnám öndunarfæraþekju sem var meðhöndluð með PA01 sýklaskænu minnkaði marktækt hraðar en viðnám öndunarfæraþekju sem var meðhöndluð með svifsýklum. Rafviðnám öndunarfæraþekju sem var meðhöndluð með stökkbreyttu afbrigði P. aeruginosa (yfirtjáir Zot-líka próteinið) féll hraðar en viðnám öndunarfæraþekju sem var meðhöndluð með óbreyttum PA01 svifsýklum. Munurinn var ekki marktækur.

Umræða: Niðurstöðurnar benda eindregið til þess að P. aeruginosa sýklaskæna sé skaðlegri en P. aeruginosa svifsýklar fyrir öndunarfæraþekju. Niðurstöður okkar gefa einnig vísbendingu um að Zot-líka próteinið beri ábyrgð á þessum skaða. Frekari rannsókna er þörf til að staðfesta þessar niðurstöður og meta hugsanlegt hlutverk Zot-líks próteins í langvinnum lungnasýkingum af völdum P. aeruginosa.V 104 Sjúkdómar og sníkjudýr í villtum ál, Anguilla>Anguilla spp., á ÍslandiÁrni Kristmundsson, Slavko H. Bambir, Sigurður HelgasonTilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

arnik@hi.isInngangur: Á Íslandi lifa tvær tegundir ála; sá evrópski, Anguilla anguilla, og sá ameríski, A. rostrata. Evrópski állinn er ríkjandi (94%) og er algengur. Markmið rannsóknarinnar er að kanna eðli og tíðni sjúkdóma og sníkjudýra í álum á Íslandi og meta hugsanleg áhrif sýkinganna á náttúrleg afföll þeirra. Engar rannsóknir hafa áður farið fram á sjúkdómum í álum á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Rannsakaðir hafa verið um 350 álar (þar af 86 álaseiði). Þeir voru krufðir í leit að sníkjudýrum og stórsæjum sjúkdómsbreytingum; sjúklegra vefjabreytinga var leitað með vefjarannsókn og skimað eftir sjúkdómsvaldandi bakteríum og veirum.

Helstu niðurstöður: Alls hefur 21 tegund sníkjudýra fundist; 14 í fersku vatni og 11 í sjó. Fjórar af tegundunum fundust í báðum vistkerfum. Einangraðir voru 20 stofnar baktería. Fjórar bakteríutegundir sem greindust, Aeromonas hydrophila, Yersinia ruckeri, Pseudomonas anguilliseptica og P. fluorescens eru þekktir sjúkdómsvaldar í fiskum. Engar veirur hafa greinst.

Vefjabreytingar af völdum sníkjudýra greindust í vefjarannsókn. Einfrumungstegundin Myxidium giardi olli afgerandi sjúkdómsbreytingum, einkum í tálknum og nýrum bæði glerála (álaseiða) og eldri ála.

Ályktanir: Af 21 tegund þeirra sníkjudýra sem fundust í þessari rannsókn eru að minnsta kosti 13 að greinast í fyrsta skipti á Íslandi. Sumar tegundirnar valda sjúkdómsbreytingum í álunum, nokkrar sýkja einnig aðrar tegundir ferskvatnsfiska, svo sem lax og silung.

Tvær bakteríutegundanna (Aeromonas hydrophila og Yersinia ruckeri) sem fundust í álunum, hafa greinst sem sjúkdómsvaldar í laxfiskum hér. Erlendar rannsóknir hafa einnig leitt í ljós meinvirkni þeirra í álum.Þakkir: Verkefnið er styrkt af Rannís.

V 105 Nýlega fundin Trichobilharzia>Trichobilharzia blóðögðulirfa á Íslandi lifir fullorðin í nefholi andfugla

Karl SkírnissonTilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

karlsk@hi.isInngangur: Síðsumars árin 1995 til 1997 sáust iðulega kláðabólur á fótum barna eftir að þau höfðu vaðið í tjörn í Fjölskyldugarðinum í Reykjavík. Rannsóknir sem hófust haustið 1997 leiddu í ljós að útbrotin voru eftir sundlirfur áður óþekktrar tegundar fuglablóðögðu af ættkvíslinni Trichobilharzia. Lirfurnar fjölga sér kynlaust í vatnasniglinum Radix peregra sem er algengur í tjörninni. Hér eru kynntar niðurstöður smittilrauna sem höfðu það markmið að láta sundlirfur úr tjörninni þroskast í fuglum og spendýrum.

Efniviður og aðferðir: Trichobilharzia sundlirfum sem safnað var úr vaðtjörninni haustið 2001 var við tilraunaaðstæður gefinn kostur á því að smjúga í gegnum húð á fótum 12 andarunga (Anas platyrhynchos f. dom.) og húð á baki þriggja tilraunamúsa (BALB/c). Í andarungunum var leitað að fullorðnum ormum og eggjum þeirra í meltingarvegi, lifur, nýrum, lungum, hjarta, nefholi og bláæðum sem liggja að þessum líffærum eftir 18-23 daga. Mýsnar voru rannsakaðar á sama hátt eftir þrjá, sex og 10 daga.

Niðurstöður: Fljótlega eftir smitun tók að bera á gangtruflunum hjá ungunum. Egg og fullorðnar Trichobilharzia blóðögður fundust slímhimnu nefhols í níu unganna (75%) en aldrei í öðrum líffærum. Vaxandi ormar (schistosomulae) fundust í mænu allra músanna og í þeirri sem rannsökuð var þremur dögum eftir smitun fannst sníkjudýrið í lungum.

Ályktanir: Smittilraunirnar sýndu að sundlirfan sem orsakað hefur sundmannakláða á Íslandi telst til svonefndra nasablóðagða. Útlit fullorðinna orma og eggja bendir til þess að hér sé á ferðinni áður óþekkt Trichobilharzia tegund. Náttúrulegur lokahýsill hennar er væntanlega einhver andfugl. Þar sem schistosomulur geta stundum þroskast í spendýrum (mús), með tilheyrandi taugaskemmdum, er hugsanlegt að sama geti gerst í mönnum. Því hefur börnum verið meinað að vaða í tjörn Fjölskyldugarðsins.

V 106 Rannsóknir á lífsferli sníkjuögðu af ættinni Notocotylidea (Digenea) - Yenchingensis I hjúplirfur úr stranddoppum (Hydrobia_ventrosa>Hydrobia ventrosa) ná fullorðinsþroska í andfuglum

Karl Skírnisson1, Kirill Galaktionov21Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2dýrafræðideild rússnesku vísindaakademíunnar í Pétursborg

karlsk@hi.isInngangur: Fuglalíf á Íslandi einkennist af tiltölulega fáum tegundum varpfugla sem oftast mynda stóra stofna. Undanfarin ár hafa höfundar beint sjónum að sníkjudýrasýkingum í fjöru- og sjávarfuglum, einkum ögðusýkingum. Lirfur agða (Digenea) hefja þroskaferil sinn í millihýsli, sem langoftast er einhver snigill og þar fer kynlaus æxlun fram. Hentugt hefur reynst að rannsaka ögðufánu tiltekinna svæða með því að kanna hvaða lirfur finnast í sniglum á viðkomandi landsvæðum. Við slíkar athuganir finnast iðulega lirfur með óþekkta flokkunarfræðilega stöðu. Hér er greint frá tilraun sem nýverið var gerð á Keldum þar sem tókst að láta ögðulirfu sem ekki var vitað hvernig leit út á fullorðinsstigi, verða fullþroska í lokahýsli (fugli).

Efniviður og aðferðir: Um 40 sundlirfur af gerðinni Cercaria Notocotylidae sp. 13, type Yenchingensis (Deblock S, Parassitologia 22: 1-105, 1980), undirgerð I (Galaktionov K, Skírnisson K, óbirtar niðurstöður) úr stranddoppum (Hydrobia ventrosa) frá Melabökkum voru látnar mynda hjúplirfur (metacercaria) á grasblöðum sem önd (Anas platyrhynchos f. dom.) var síðan fóðruð á. Leit var gerð að fullorðnum ormum í meltingarvegi andarinnar eftir 15 daga.

Niðurstöður: Í botnlöngum andarinnar fundust átta fullorðnar, kynþroska ögður af ættinni Notocotylidea. Fimmtungur hjúplirfanna náði því að þroskast í fullorðnar ögður. Tegundagreiningu er enn ólokið þannig að ekki er þekkt hvort hér er á ferðinni tegund sem þegar hefur verið lýst eða ókunn tegund. Bæði lirfu- og fullorðinsstigum tegundarinnar verður lýst bráðlega.

Ályktanir: Tekist hefur að ráða lífsferil umræddrar tegundar. Er það í fyrsta sinn sem lífsferill fuglasníkjudýrs er rannsakaður á Íslandi í smittilraun. Aðstæður hér á landi til athugana á lífsferlum fuglaagða eru einkar ákjósanlegar vegna þess að hér lifa mun færri tegundir milli- og lokahýsla en til dæmis í nágrannalöndunum.V 107 Raðgreining á ITS 1 svæði notuð til að para saman lirfustig og fullorðinsstig sníkjuögðu með óþekktan lífsferilKarl Skírnisson1, Berglind Guðmundsdóttir1, Valgerður Andrésdóttir1, Kirill Galaktionov21Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2dýrafræðideild rússnesku vísindaakademíunnar í Pétursborg, Rússlandi

karlsk@hi.isInngangur: Ögður (Digenea) eru algeng sníkjudýr í villtum fuglum. Þær hafa allar flókinn lífsferil. Lirfuþroskinn hefst yfirleitt í snigli, fyrsta millihýsli lífsferilsins. Iðulega eru millihýslarnir fleiri því margar ögðutegundir auka líkurnar á því að lokahýslar (til dæmis fuglar) smitist með því að taka sér bólfestu í eða á algengum fæðutegundum. Tvær tegundir ögðulirfa af ættinni Renicolidae hafa þegar fundist í lífríki Íslands; Cercaria parvicaudata (Stunkard & Shaw, 1931) í fjörudoppum (Littorina spp.) og Renicola thaidus (Stunkard, 1964) í nákuðungi (Nucella lapillus) (Skírnisson K, Galaktionov K. Sarsia 2002; 87: 144-51. Galaktionov K, Skírnisson K. Systematic Parasitology 2000; 47: 87-101). Aðrir millihýslar og lokahýslar þessara tegunda hafa verið óþekktir. Fullorðnar Renicola ögður (útlitslega gjörólíkar lirfunum) hafa á hinn bóginn fundist á Íslandi í nýrum æðarfugls (Somateria mollissima) og í nýrum silfurmáfs (Larus argentatus). Ögðutegundin í æðarfugli er R. somateriae Belopolskaya 1952 en í silfurmáfi Renicola sp. Hér er gerð grein fyrir tilraun til að para lirfur og fullorðinsstig tegundanna saman með raðgreiningum á erfðaefni þeirra.

Efniviður og aðferðir: DNA var einangrað úr ferskum Renicola lirfum og ormum sem safnað var úr nákuðungum, klettadoppum, æðarfugli og silfurmáf við suðvesturströnd landsins sumarið 2002. ITS 1 röð lífveranna (700 basapör) var mögnuð upp með PCR aðferð og raðgreind á Keldum í ABI Prism 310 Genetic Analyzer.

Niðurstöður: Sömu basaraðir fundust í R. thaidus lirfum úr nákuðungum og í nýrnaögðu æðarfugls, R. somateriae. Ekki tókst að raðgreina ITS 1 svæði C. parvicaudata og Renicola sp.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að lirfustigið R. thaidus og agðan R. somateriae sé sama tegund. Kemur sú niðurstaða ekki á óvart því nýlegar fæðuvalsathuganir hafa sýnt að æðarfuglar éta iðulega nákuðung hér við land.

V 108 Sníkjudýr í og á innfluttum hundum og köttum árin 1989-2000

Matthías Eydal, Sigurður H. Richter, Karl SkírnissonTilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

meydal@hi.isInngangur: Árið 1989 hófst innflutningur hunda og katta um Einangrunarstöð gæludýra í Hrísey, eftir bann eða miklar takmarkanir á innflutningi í áratugi.

Efniviður og aðferðir: Á árabilinu 1989-2000 voru fluttir inn 608 hundar, frá að minnsta kosti 27 löndum og 236 kettir, frá að minnsta kosti 18 löndum og þeir hafðir í sóttkví í Hrísey í 6-12 vikur. Dýrin eru bandormahreinsuð í upprunalandi og meðhöndluð með ormalyfjum tvisvar til þrisvar sinnum í sóttkví, með frumdýralyfi gegn Giardia sp. ef það greinist og að minnsta kosti einu sinni með skordýralyfi gegn ytri sníkjudýrum. Saursýni eru tekin í byrjun og lok dvalar dýranna í Hrísey, send að Keldum og leitað í þeim að sníkjudýrum. Ytri sníkjudýr sem vart verður við eru einnig rannsökuð.

Niðurstöður: Eftirtalin sníkjudýr fundust (h=í hundum, k=í köttum): Frumdýr; Giardia sp. (h,k), Isospora bahiensis* (h), I. canis* (h), I. felis (k), I. rivolta* (h) og Sarcocystis sp. (h). Ormar; Opisthorchis felineus* (k), Ancylostoma sp./Uncinaria stenocephala (h,k), Capillaria aerophila (h), Strongyloides stercoralis* (h), Toxascaris leonina (h,k), Toxocara canis (h), Toxocara cati (k) og Trichuris vulpis* (h). Ytri sníkjudýr; Ctenocephalides felis (h,k), Ixodes ricinus (h) og Ripicephalus sanguineus* (h). Auk þess fundust Cheyletiella parasitovorax* (k), C. yasguri* (h), Demodex canis* (h) og Trichodectes canis* (h) á dýrum eftir að sóttkví lauk, eða á dýrum sem höfðu haft samgang við nýinnflutta hunda eða ketti.

Ályktanir: Um helmingur sníkjudýrategundanna (merktar *) hafði ekki verið staðfestur áður í eða á innlendum dýrum. Aðgerðir gegn sníkjudýrasýkingum í meltingarvegi virtust bera árangur í flestum tilfellum. Aftur á móti leikur grunur á að maurategundirnar C. parasitovorax, C. yasguri og D. canis hafi borist til landsins með innfluttum dýrum.

V 109 Sníkjuormar í skötusel (Lophius_piscatorius>Lophius piscatorius)

við Ísland

Matthías Eydal1, Droplaug Ólafsdóttir21Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Hafrannsóknastofnunin

meydal@hi.isInngangur: Skötuselur (Lophius piscatorius) finnst í Miðjarðarhafinu og í norðaustanverðu Atlantshafi allt til Noregs og Íslands. Við Ísland finnst fiskurinn fyrst og fremst í hlýsjónum frá Suðausturlandi til Vesturlands. Markmið verkefnisins var að að kanna hvaða ormategundir finnast í meltingarfærum skötusels hér við land.

Efniviður og aðferðir: Skoðuð voru meltingarfæri úr 34 skötuselum (lengd 21-119 sm) sem voru veiddir við sunnan- og suðvestanvert land á 120-340 m dýpi árið 1995. Leitað var að fjölfrumna sníkjudýrum, fjöldi einstaklinga talinn eða metinn og sýkingartíðni einstakra tegunda ákvörðuð. Kannað var hvort munur væri á sýkingum milli stórra og smárra fiska og hvort samband væri milli fjölda orma og fisklengdar.

Niðurstöður: Alls fundust að minnsta kosti 18 tegundir sníkjuorma: Ögður (Digenea); Derogenes varicus, Lecithaster gibbosus, Otodistomum sp., Prosorhynchoides gracilescens, Stephanostomum sp., Steringophorus furciger og Zoogonoides viviparus. Bandormar (Cestoda); Grillotia sp. og Tetraphyllidea lirfur. Þráðormar (Nematoda); Anisakis simplex, Capillaria sp., Contracaecum sp./Phocascaris sp., Hysterothylacium aduncum, H. rigidum, Hysterothylacium sp., Pseudoterranova decipiens, Spinitectus sp. og óþekktur þráðormur. Krókhöfði (Acanthocephala); Echinorhynchus gadi.

Einstaklingsfjöldi og sýkingartíðni einstakra tegunda voru mjög breytileg. Ekki reyndist marktækur munur á einstaklingsfjölda stakra tegunda milli smárra og stórra fiska. Aðhvarfsgreining sýndi þó að fjöldi P. gracilescens agða jókst marktækt með lengd fiska.

Ályktanir: Flestar þeirra ormategunda sem áður höfðu greinst í skötusel fundust í þessari rannsókn. Helmingur tegundanna sem fannst hafði hins vegar ekki áður verið staðfestur í skötusel.Þakkir: Rannsóknin var að hluta styrkt af Rannsóknasjóði HÍ.

V 110 Lirfustig sníkjudýrsins Prosorhynchoides_gracilescens>Prosorhynchoides gracilescens (Digenea) finnast í ýsuskel (Abra_prismatica>Abra prismatica) við ÍslandMatthías Eydal1, Sigurður Helgason1, Árni Kristmundsson1, Slavko H. Bambir1, Páll M. Jónsson21Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Rannsóknasetrið Vestmannaeyjum

meydal@hi.isInngangur: Á undanförnum árum hafa rannsóknir okkar leitt í ljós að agðan Prosorhynchoides gracilescens (Digenea) er algengt sníkjudýr í skötusel (lokahýsill) og lirfustig hennar algengt í taugum þorskfiska (2. millihýsill) hér við land. Lífsferill ögðunnar varð ljós þegar lirfustig hennar fundust við Skotland í skelinni Abra alba (Bivalvia), sem er fyrsti millihýsill (Parasitology 1974; 68: 1-12). Síðan þá hafa lirfustig tegundarinnar ekki fundist í skeljum. Meðal markmiða verkefnisins var að finna fyrsta millihýsil ögðunnar hér við land, en eini þekkti millihýsillinn, A. alba, lifir ekki við Ísland.

Efniviður og aðferðir: Ýsuskeljum, Abra prismatica (n=107; lengd 7-21 mm, meðallengd 12,1 mm) og lýsuskeljum, A. nitida (n=18; lengd 8-11 mm, meðallengd 9,5 mm) var safnað á sandbotni á 34-80 m dýpi við Vestmannaeyjar á árunum 1996-2000 og í þeim leitað að lirfum ögðunnar. Sýni voru tekin úr ósýktum og sýktum ýsuskeljum til vefjarannsóknar.

Niðurstöður: Lirfustig P. gracilescens fundust í 17 ýsuskeljum (16% sýkingartíðni). Lirfur fundust einungis í tiltölulega stórum skeljum (12,5-20 mm á lengd, meðallengd 16,1 mm) og í flestum tilfellum voru skeljarnar mikið sýktar. Útlit og bygging lirfanna úr ýsuskeljunum samræmist fyrri lýsingu á lirfum úr skelinni A. alba. Engar sýktar lýsuskeljar fundust.

Ályktanir: Fundur ögðunnar P. gracilescens í sjávardýrum hér við land eykur þekkt útbreiðslusvæði tegundarinnar. Í rannsókninni fannst lirfustig ögðunnar í fyrsta sinn í nýrri samlokutegund, ýsuskel, A. prismatica. Ýsuskel finnst á öllu megin útbreiðslusvæði sníkjudýrsins við strendur Evrópu, og má telja líklegt að skelin gegni hlutverki millihýsils mun víðar en við Ísland.Þakkir: Verkefnið var styrkt af Rannsóknasjóði HÍ.

V 111 Greining á sýkiþáttum í seyti A._salmonicida>A. salmonicida stofna

Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir1, Íris Hvanndal1, Bryndís Björnsdóttir1, Ulrich Wagner21Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Institut für Zoologie, Universität Leipzig

bjarngud@hi.isInngangur: Bakterían Aeromonas salmonicida veldur kýlaveiki og skyldum sjúkdómum í fjölmörgum fisktegundum. Markaðssett bóluefni gefa misgóðan árangur sem sjúkdómsvörn. Aðgreining stofna eftir sýkiþáttum í seyti kann að vera áhugaverð við val bóluefna og bakteríustofna fyrir bóluefnisgerð. A. salmonicida er skipt í fimm undirtegundir (achromogenes, masoucida, pectionolytica, salmonicida, og smithia) en þó er innri flokkunarfræði tegundarinnar enn óljós. Fjórum sýkiþáttum hefur verið lýst í seyti mismunandi bakteríustofna, P1 (serín peptíðasi), GCAT (glycerophospholipid: cholesterol acyltransferase, frumueitur), AsaP1 (eitraður aspzincin peptíðasi) og P2 (málmháður gelatínasi). Markmið rannsóknarinnar var að bera saman næmi og áreiðanleika ensímvirkniprófa og blóðvatnsprófa við greiningu sýkiþátta og ennfremur að bera saman sýkiþætti í seyti A. salmonicida stofna úr ýmsum fisktegundum frá mismunandi búsvæðum.

Efniviður og aðferðir: Útensímalausnir 62 A. salmonicida stofna voru einangraðar frá frumum sem voru ræktaðar á sellófanþöktum agar skálum. Við greiningu sýkiþátta var notað ELISA-próf byggt á einstofna mótefnum, western þrykk þar sem notuð voru fjölstofna músamótefni til að nema vaka, kasínasa og gelatínasa virknipróf með og án ensímhindra, blóðrofspróf, fosfatasapróf og ensímrit (zymograms).

Niðurstöður: ELISA-próf reyndist næmasta aðferðin við greiningu AsaP1 og P2, en ensímrit var næmast við greiningu á GCAT og P1. Ensímvirknipróf (kasínasa-, gelatínasa-, fosfatasa- og blóðrofspróf) reyndust áreiðanleg en ekki nógu næm. Nokkuð góð samsvörun fékkst á milli mælingaaðferða. Á grundvelli niðurstaðna var stofnunum skipt í fimm hópa. A. salmonicida undirtegund achromogenes og 21% stofnanna voru í einum, 20% í öðrum, undirtegund smithia, undirtegund masoucida og 8% stofnanna í þriðja, undirtegund salmonicida og 8% stofnanna í fjórða og 2% stofnanna voru í fimmta hópnum.

Ályktanir: Greining sýkiþátta með ELISA-prófi og ensímriti reyndist næmasta og áreiðanlegasta aðferðin. Stofnarnir skiptust í fimm mismunandi hópa eftir sýkiþáttum sem greindust í seyti.

V 112 Kýlaveikibróðir í hlýra

Slavko H. Bambir, Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, Gísli Jónsson, Sigurður HelgasonTilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

bjarngud@hi.isInngangur: Eitt afbrigða bakteríunnar Aeromonas salmonicida veldur kýlaveikibróður í ýmsum fisktegundum víða um heim. Áður en bóluefni varð til olli bakterían talsverðum afföllum í alifiskum og hefur einnig valdið dauða villtra laxfiska í ám. Tilraunaeldi á hlýra er nýhafið á Austurlandi. Þar hafa orðið afföll á hlýrum í eldiskeri (9°C hiti) og drápust 58% fisksins áður hann var meðhöndlaður með sýklalyfi.

Efniviður og aðferðir: Þrír fiskar bárust til rannsóknar. Blóð var í kviðarholi og blóðsókn (hyperaemia) í innri líffærum hjá einum fiskanna. Önnur einkenni sáust ekki. Sýni voru tekin úr helstu líffærum og unnin til vefjarannsóknar. Sáð var á bakteríuæti úr nýrum, milta og lifur. Kýlaveikibróðurbakterían var einangruð í hreinrækt úr innri líffærum allra fiskanna. Gerð voru lífefnafræðileg greiningarpróf á stofnunum og sýkiþættir bakteríunnar rannsakaðir og bornir saman við sýkiþætti úr íslenskum og norskum stofnum úr mismunandi fisktegundum.

Niðurstöður: Vefjaskemmdir voru mest áberandi í vöðvum. Þar var vefjadrep umhverfis bakteríuhópa einkum í þekju æða og olli æðarofi og blæðingum. Í öðrum líffærum eins og til dæmis hjarta, lifur, nýrum og milta sáust bakteríuhópar umhverfis æðar með svæðabundnu vefjadrepi, einkum í milta og nýra. Rannsóknin leiddi í ljós að íslenski hlýrastofninn tilheyrir þeim flokki stofna, sem bóluefni, sem nú er notað í íslensku laxaeldi, veitir vörn gegn. Hins vegar voru hlýrastofnarnir annarrar gerðar meðal norsku stofnanna.

Ályktanir: Vefjaskemmdirnar í hlýra líkjast bráðri kýlaveikibróðursýkingu í laxi, en breytingarnar eru jafnan minni og vefjadrep er vel afmarkað. Mestu breytingarnar eru í æðaþeli. Íslenski hlýrastofninn er af sömu arfgerð og stofnar sem um árabil hafa valdið afföllum í íslenskum fiskeldisstöðvum.

V 113 Sýkiþættir í seyti bakteríunnar Moritella_viscosa>Moritella viscosa

Bryndís Björnsdóttir1, Páll Líndal1, Hrund Ýr Óladóttir1, Eva Benediktsdóttir2, Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir11Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Líffræðistofnun HÍ, örverufræðistofa

bryndisb@hi.isInngangur: Roðsár af völdum kuldakæru bakteríunnar Moritella viscosa valda árlega afföllum í íslenskum, skoskum, írskum og kanadískum laxeldisstöðvum, jafnvel þar sem bólusett er gegn sjúkdómnum með markaðssettu bóluefni. Enn er lítið vitað um sýkingarmátt bakteríunnar en sýnt hefur verið fram á að seyti ákveðinna stofna valda sjúkdómseinkennum í laxi og geta verið honum banvæn. Markmið rannsóknarinnar var að einangra seyti meinvirks M. viscosa stofns, K58, og skilgreina sýkiþætti þess.

Efniviður og aðferðir: Seyti var framleitt með ræktun bakteríunnar á sellófanþöktum agarskálum og aðgreint frá frumum með skiljun. Ýmis ensímvirknipróf voru gerð á seytinu og út frá þeim valin próf til að gera á hlutum sem komu af Superosa HR12 súlu í FPLC súluskiljunartæki. Að auki var hlutum af súlunni sprautað í laxaseiði.

Helstu niðurstöður: Tvö meinvirk ensím voru einangruð, annað esterasi sem rýfur rauð blóðkorn laxa (MvGCAT) 39 kDa að stærð og hitt málmháður gelatínasi (MvP1) með tvö ísoform, 43 og 45 kDa að stærð. Bæði ensímin framkölluðu sjúklegar breytingar í laxi og ollu frumuskemmdum á frumum í rækt. Ennfremur kom í ljós að bakterían seytir próteini sem er banvænt laxi en hefur hvorki esterasa né gelatínasa virkni.

Ályktanir: Tveir sýkiþættir M. viscosa voru einangraðir og virkni þeirra skilgreind. Sýkiþættirnir ullu sjúklegum breytingum í laxi en voru ekki banvænir. Þriðji sýkiþátturinn, sem ekki tókst að skilgreina, var banvænn en olli ekki miklum vefjabreytingum.

V 114 Hjúpgerðir pneumókokka og breytileiki þeirra

í nefkoki leikskólabarna í Reykjavík

Gunnar Tómasson1, Þórólfur Guðnason2, Karl G. Kristinsson1,31Sýklafræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2Barnaspítali Hringsins, 3Háskóli Íslands

karl@landspitali.isInngangur: Upplýsingar um algengi einstakra hjúpgerða pneumókokka og breytingar á hlutföllum þeirra milli ára eru mikilvægar svo hægt sé að taka ákvörðun um væntanlegar bólusetningar og meta árangur þeirra.

Efniviður og aðferðir: Tekin voru nefkoksstok hjá börnum á fimm leikskólum Reykjavíkur 1992-1999 og pneumókokkar ræktaðir frá þeim með valætum. Hjúpgerðir voru greindar og klónagerð ákvörðuð með pulsed field gel electrophoresis. Upplýsingar um sýklalyfjanotkun voru fengnar með spurningalistum til foreldra.

Niðurstöður: Tekin voru 1228 nefkoksstrok á tímabilinu (217 árið 1992; 239, 1995; 249, 1996; 271, 1997 og 252, 1999) og pneumókokkar uxu frá 640 (52,1%). Pneumókokkar með skert penisillínnæmi (PMSP, MIC0,094, E-test) voru 89 (7,2%). Börn sem fengu sýklalyf við sýnatöku eða mánuðinn á undan voru líklegri til að bera PMSP heldur en þau sem ekki fengu sýklalyf (OR=3,48). Börn sem höfðu ekki fengið sýklalyfjameðferð en voru á leikskóla þar sem sýklalyfjanotkunin var mest voru líklegri til að bera PMSP heldur en börn sem ekki höfðu fengið sýklalyf á leikskólum þar sem sýklalyfjanotkunin var minni (OR=1,99). Fimm hundruð áttatíu og einn stofn var hjúpgreindur og voru 279 (48,0%) af einni af þremur algengustu hjúpgerðunum 6A, 6B eða 23F og 432 (74,4%) á meðal sjö algengustu. Fimmtíu og tvö prósent pneumókokkanna tilheyra hjúpgerðum sem eru í nýju 7-gildu próteintengdu bóluefni. PMSP voru í langflestum tilfellum af hjúpgerð 6B eða 19A. Hlutfall hjúpgerðanna breyttist töluvert milli ára. Sérstaklega var áberandi aukning pneumókokka af hjúpgerð 6A árið 1996, en hún samanstóð af mörgum klónum innan hjúpgerðarinnar.

Ályktanir: Penisillínónæmi á meðal pneumókokka tengdist sýklalyfjanotkun. Hlutfall hjúpgerða getur breyst talsvert milli ára og aðeins helmingurinn var af hjúpgerðum sem eru í nýju 7-gildu bóluefni.

V 115 F._nucleatum>F. nucleatum stofnar úr nefkoki barna með bráðar miðeyra sýkingar eru upprunnir úr munnholi

Gunnsteinn Haraldsson1,2, Eija Könönen2, Hannele Jousimies-Somer2,

W. Peter Holbrook11Tannlæknadeild HÍ, 2National Public Health Institute, Helsinki

Gunnsteinn.Haraldsson@ktl.fiInngangur: Við sýkingar í efri öndunarvegi og miðeyra verða miklar umhverfis- og vistfræðilegar breytingar í nefkoki ungabarna. Iðulega er hægt að einangra loftfirrðar bakteríur úr nefkokssýnum frá börnum með eyrnasýkingar og eru Fusobacterium nucleatum og sykurkljúfandi Prevotella tegundir algengustu hóparnir. Loftfirrðar bakteríur finnast yfirleitt ekki í nefkoki heilbrigðra barna. Þar sem munnvatn er líklegasta flutningsefni þessara þekktu munnholsbaktería frá munni í nefkok var markmið þessarar rannsóknar að bera saman nefkoks og munnvatns F. nucleatum á klónalstigi.

Efniviður og aðferðir: Ellefu F. nucleatum stofnar sem voru einangraðir, í gegnum nefhol, úr nefkoki átta barna með bráða miðeyrasýkingu og 161 F. nucleatum stofnar sem einangraðir voru úr munnvatni fyrir (n=48) og eftir (n=113) sýkingar þessara sömu barna voru bornir saman með AP-PCR aðferð. AP-PCR var framkvæmt með C1 (5&apos;-3&apos; GAT GAG TTC GTG TCC GTA CAA CTG G), C2 (5&apos;-3&apos; GGT TAT CGA AAT CAG CCA CAG CGC C), D8635 (5&apos;-3&apos; GAG CGG CCA AAG GGA GCA GAC), og D11344 (5&apos;-3&apos; AGT GAA TTC GCG GTG AGA TGC CA) prímerum, sem allir hafa verið notaðir áður við greiningu Fusobacterium stofna. DNA var einangrað með suðu nokkurra kólonía í jónabindiefni í 10 mínútur, þá var það hrist stuttlega og spunnið í 10 mínútur. PCR var framkvæmt í 25 µl rúmmáli í 500 µl PCR glasi, og innihélt 5 µl af DNA upplausn og 0,8 µM af einum prímer. PCR afurðirnar voru aðskildar með agarósa rafdrætti, litaðar með ethidíum brómíði og myndaðar stafrænt í útfjólubláu ljósi.

Niðurstöður: Í fimm af átta börnum sem rannsökuð voru fundust sömu AP-PCR gerðirnar í nefkoki og munnvatni.

Ályktanir: Þar sem loftfirrðar bakteríur finnast yfirleitt ekki í nefkoki heilbrigðra barna benda niðurstöðurnar til þess að uppruni þeirra sé í munnholi og að þær berist með munnvatni.

V 116 Algengi síþreytu á meðal Íslendinga á aldrinum

19-75 ára

Sverrir Bergmann1, Eiríkur Líndal2, Jón G. Stefánsson21Taugadeild og 2geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss

eirika@landspitali.isInngangur: Á undanförnum árum hefur orðið mikil aukning á síþreytutilfellum og hefur fjöldi rannsókna á þessu sviði aukist. Þó er margt mjög óljóst við síþreytu. Eitt vandamálið er greiningin sjálf. Greiningin á síþreytu hefur verið nokkuð á reiki og eru ýmsar skilgreiningar notaðar til að komast að niðurstöðu um það hvort einstaklingar séu með síþreytu eða ekki. Sumar skilgreiningarnar eru almennari en aðrar. Aðallega er um að ræða fjórar skilgreiningar sem notast hefur við. Þær eru ástralskar, breskar og bandarískar (eftir þá Holmes, et al 1988, Lloyd, et al 1988, Sharpe, et al 1991 og Fukuda, et al 1994).

Markmið rannsóknarinnar var að fá greinargóða úttekt á þeim fjölda sem telur sig vera með síþreytu á Íslandi, hvernig aldurs- og kynskiptingin er og svo að athuga hvernig skerðingin hefur haft áhrif á líkamlega og andlega getu þeirra. Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar hingað til eru á afmörkuðum hópum síþreyttra, svo sem sjúklingum sem fengu Akureyrarveikina og á öðrum undirflokkum.

Efniviður og aðferðir: Valdir voru af handahófi úr þjóðskrá 4000 einstaklingar, 2000 konur og 2000 karlar á aldrinum 19-75 ára. Tekið var tillit til dreifingar á milli þéttbýlis og sveita. Öllum var sendur sérhannaður 95 atriða spurningalisti þar sem spurt var um einkenni síþreytu. Spurningalistinn var þannig gerður að unnt er að reikna tíðni síþreytu á Íslandi út frá öllum fjórum skilgreiningarkenningunum með því að slá listann inn í sérstakt forrit.

Niðurstöður: Svarhlutfallið við spurningalistanum reyndist 63%. Tíðni síþreytu á Íslandi reyndist vera frá 0-4,9%.

V 117 Notkun stofnfrumna úr fósturvísum til lækninga. Viðhorfskönnun meðal íslenskra lækna, lögfræðinga

og presta

Trausti Óskarsson1, Flóki Guðmundsson2, Jóhann Ágúst Sigurðsson3, Linn Getz4, Vilhjálmur Árnason51Læknadeild HÍ, 2heimspekideild HÍ, 3heimilislæknisfræði HÍ, 4Landspítali háskólasjúkrahús, 5Siðfræðistofnun HÍ

tuddilius@yahoo.comInngangur: Rannsóknir á stofnfrumum hafa gefið mönnum nýja von í baráttunni við fjölmarga erfiða og ólæknandi sjúkdóma. Stofnfrumur fósturvísa eru í dag fjölhæfastar þeirra stofnfrumna sem völ er á og því ákjósanlegastar til notkunar í lækningaskyni. Við það að nálgast þessar stofnfrumur stöðvast þroski fósturvísisins og því hefur þessi framkvæmd vakið upp margar áleitnar siðferðisspurningar. Lítil samstaða hefur náðst erlendis viðvíkjandi þessar spurningar enda takast á ólík viðhorf sem lúta að upphafi lífsins og helgi þess. Læknar, lögfræðingar og prestar eru starfsstéttir með ólíkan bakgrunn og sjónarmið og því áhugavert að kanna viðhorf þeirra til siðferðisspurninga tengdum stofnfrumulækningum. Ekki hefur sambærileg rannsókn verið gerð hér á landi né erlendis eftir því sem rannsakendur best vita.

Tilgangur: Að fá mynd af afstöðu þriggja þjóðfélagshópa sem á einn eða annan hátt láta að sér kveða í umræðunni um siðfræði læknavísinda. Einnig að kanna þörf fyrir þjóðfélagslega umræðu um siðferðisspurningar tengdar stofnfrumulækningum.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti, sem samanstóð af fjórum bakgrunnsspurningum, níu fjölvalsspurningum og þremur tilfellum, var sendur til þátttakenda í júní 2002. Listinn var sendur 300 læknum, 300 lögfræðingum og 169 prestum. Læknar og lögfræðingar voru valdir með slembun, 150 karlar og 150 konur í hvorum hópi fyrir sig. Hópur presta samanstóð af öllum starfandi prestum á Íslandi, 129 körlum og 40 konum. Svör voru fyrst og fremst flokkuð út frá starfi þátttakenda en einnig var kyn notað sem frumbreyta. Jafnframt voru svör skoðuð eftir viðhorfi þátttakenda til siðferðisstöðu fósturvísa.

Niðurstöður: Alls svöruðu 290 þátttakendur spurningalistanum sem er 38,9% svörun. Almennt eru þátttakendur frjálslyndari í garð lækninga sem notast við stofnfrumur fósturvísa en umræðan erlendis gefur til kynna. Munur er á milli stétta og í sumum tilfellum milli kynja.

Ályktanir: Mikill meirihluti þátttakenda var sammála því að þjóðfélagsleg umræða þyrfti að fara fram um lækningar sem notast við fósturvísastofnfrumur, jafnt um kosti slíkra lækninga sem og þær fórnir sem þær krefjast. Flestir þátttakenda sögðust hafa litla yfirsýn yfir efnið. Menn virðast á því að þjóðfélagið í heild eigi að taka veigamiklar ákvarðanir eins og þá hvort leyfa eigi stofnfrumulækningar.

V 118 Með_grátt_í_vöngum_>Með grátt í vöngum - hefur það forspárgildi um beinþynningu?

Kolbrún Albertsdóttir1, Björn Guðbjörnsson1,21Beinþéttnimóttaka Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, 2Rannsóknarstofa í gigtarsjúkdómum Landspítala háskólasjúkrahúsi

bjorngu@landspitali.isInngangur: Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort gráu hárin og þá sérstaklega þau sem koma snemma hafi forspárgildi um beinþynningu síðar á lífsleiðinni.

Efniviður og aðferðir: Þrjú hundruð og fimmtíu konur á aldrinum 50-80 ára, sem vísað var til beinþéttnimóttöku FSA til beinþéttnimælingar og áhættumats með tilliti til beinþynningar voru beðnar að svara stöðluðu spurningakveri. Kverið samanstóð af fjórum spurningum um það hvenær hár þeirra byrjaði að grána og hvenær helmingur og/eða allt hár þeirra var grátt. Auk þess svöruðu þær stöðluðu spurningakveri um heilsufar, áhættuþætti fyrir beinþynningu og hvort þær hefðu beinbrotnað. Beinþéttnimæling var framkvæmd á staðlaðan hátt af hrygg (L-1 - L-4) og af lærlegg með DEXA (Lunar 2000X) og beinþéttnin gefin upp í T-gildum (það er fjöldi staðalfrávika frá hámarksbeinþéttni).

Niðurstöður: Tvö hundruð áttatíu og ein kona svaraði spurningakverinu (83%). Meðalaldur þeirra var 64±8 ár. Hár kvennanna byrjaði að grána við 42 ára aldur (±12 ár) og 115 konur sögðu að meira en helmingur hársins hefði verið orðinn grár við 53 ára aldur (±10). Konur sem höfðu helming hársins gráan fyrir 43 ára aldur voru taldar til þeirra sem urðu gráhærðar óeðlilega snemma (neðan 95% CI). Nítján konur höfðu orðið gráhærðar fyrir 43 ára aldur. Sex af þessum 19 konum (32%) höfðu beingisnun og fimm (26%) höfðu beinþynningu í hrygg miðað við 35% og 24% í viðmiðunarhópnum. ANOVA-reikniaðferðir sýndu ekki heldur samband milli beinþéttnigilda og þess á hvaða aldri hárið byrjaði að grána né hvenær helmingur þess varð grár. Hins vegar höfðu helmingi færri konur, sem voru orðnar gráhærðar fyrir 43 ára aldur, sögu um beinbrot eða 26% miðað við 52% í viðmiðunarhópnum.

Ályktanir: Rannsóknin sýnir að íslenskar konur sem verða gráhærðar snemma á lífsleiðinni hafa ekki aukna áhættu á beinþynningu.

V 119 Lífsgæði íslenskra kvenna með samfallsbrot í hrygg af völdum beinþynningar

Kolbrún Albertsdóttir1, Elvar Örn Birgisson1, Halldór Benediktsson2, Björn Guðbjörnsson1,31Beinþéttnimóttaka og 2myndgreiningardeild Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, 3Rannsóknarstofa í gigtarsjúkdómum Landspítala háskólasjúkrahúsi

bjorngu@landspitali.isInngangur: Hér á landi er talið að árlega megi rekja 1000-1200 beinbrot til beinþynningar. Samfélagskostnaður er mikill, bæði vegna sjúkrahúskostnaðar og félagsþjónustu. Þá eru ótalin áhrif brotsins á lífsgæði þess sem fyrir brotinu verður. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna lífsgæði þeirra sem hafa orðið fyrir samfallsbrotum í hrygg.

Efniviður og aðferðir: Þrjú hundruð og fimmtíu konum á aldrinum 50-80 ára sem komu til beinþéttnimælingar við FSA var boðin þátttaka í lífsgæðarannsókn, þar sem borin eru saman áreiðanleiki tveggja staðlaðra spurningakvera. Annað er hið íslenska spurningakver Heilsutengd lífsgæði (IQL) og hið síðara er sjúkdómasérhæft spurningakver fyrir einstaklinga með beinþynningu (QUALEFFO). Auk þess svöruðu þátttakendur stöðluðu spurningablaði um áhættuþætti og almenn heilsufarsatriði. Beinþéttnimæling af mjöðm og hrygg var framkvæmd með DEXA-mæli og beinþéttnin gefin upp í T-gildum. Þá voru allar röntgenmyndir sem til voru af þátttakendum skoðaðar með tilliti til samfallsbrota í hrygg. Verkefni þetta er hluti af stærri lífsgæðarannsókn sem verður kynnt á öðrum vettvangi.

Niðurstöður: Af konunum svöruðu 83% spurningakverunum, meðalaldur þeirra var 64±8 ár. Þær höfðu T-gildi að meðaltali -1,2±1,6 í hrygg og -2,22±1,26 í mjöðm. Þrjátíu og tvær konur höfðu sögu um samfallsbrot í hrygg, sem staðfest var með myndatöku. T-gildi þessa hóps var -2,90±1,21. Til samanburðar voru 72 konur sem höfðu ekki sögu um samfallsbrot í hrygg (T-gildi -1,6±1,25). Marktækur munur var á upplifun kvennanna á lífsgæðum sínum mælt með IQL, en munurinn var enn meiri ef stuðst var við QUALEFFO. Nánari niðurstöður verða kynntar á þinginu.

Ályktanir: Rannsóknin sýnir að samfallsbrot í hrygg meðal íslenskra kvenna hefur veruleg áhrif á getu kvennanna til athafna daglegs lífs, hreyfifærni og félagslífs. Þá hafa þær meiri verki og telja sig hafa lakara heilsufar. Ennfremur telja þær konur sem höfðu fengið samfallsbrot í hrygg sig hafa verri fjárhagsstöðu. Langtímaáhrif samfallsbrota í hrygg eru umtalsverð á heilsu kvenna og því mikilvægt að efla forvarnir og koma í veg fyrir beinbrot af völdum beinþynningar.V 120 Ungmenni sem leituðu athvarfs í Rauðakrosshúsinu 1996 til 2000Haukur Hauksson1, Eiríkur Örn Arnarson2,3,41Rauðakrosshúsið, 2sálfræðiþjónusta vefrænna deilda og 3endurhæfingarsvið Landspítala háskólasjúkrahúss, 4læknadeild HÍ

eirikur@landspitali.isInngangur: Rauðakrosshúsið (RKH) var fyrsta athvarf sinnar tegundar í heiminum og hóf starfsemi árið 1985. Hlutverk þess er að auðvelda ungmennum í neyð að leita sér hjálpar með því að veita húsaskjól, fæði, stuðning og ráðgjöf. Flestir unglingar sem koma stríða við vandamál á heimili og/eða persónuleg vandamál.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um ungmenni hafa verið staðlaðar og nafnlausar frá upphafi. Skráðar eru lýðfræðilegar breytur, nám, neysla síðastliðna þrjá til sex mánuði og fleira. Unnið var úr gögnum frá 1996-2000.

Niðurstöður: Að meðaltali komu 137 á ári 1996-2000, sem er um 30% aukning miðað við fyrstu 10 ár starfsins. Meðalaldur heimanfarinna var 16,2 ár, heimanrekinna 16,4 ár og heimilislausra 17,2 ár.

Hærra hlutfall heimilislausra, en heimanfarinna og -rekinna (68%) hafði notað fíkniefni (x2 (2, 318) =19,0; p<0,001) og helmingur heimilislausra nefndi "eigin neyslu" sem ástæðu komu í athvarfið (x2 (2, 318) = 20,6; p<0,0001). Hærra hlutfall pilta en stúlkna var iðjulaus í hópum heimanfarinna (x2 (2, 206) = 22,5; p<0,0001) og heimanrekinna (x2 (2, 84) = 10,4; p<0,005). Heimanfarnar stúlkur lýstu, frekar en piltar, ofbeldi á heimili (x2 (1, 206) = 4,5; p<0,05).

Ályktanir: Þörf fyrir Rauðakrosshúsið virðist fara vaxandi. Hlutverk athvarfsins er að vinna gegn því að heimanfarnir og -reknir fylli hóp heimilislausra, sem virðast frekar vera iðjulaus, stunda afbrot og vera í neysluvanda. Aukning í hópi heimanfarinna og -rekinna og fækkun heimilislausra bendir til að vandamál í samskiptum unglinga og forráðamanna fari vaxandi og samfélagið, þar með talið Rauðakrosshúsið, nái betur en fyrr að leysa vanda brotthlaupinna ungmenna áður en þau slíti tengsl við fjölskyldu og flokkist sem heimilislaus.

V 121 Rannsókn á sambandi endurtekinnar riðu á Íslandi og arfgerðum príongensins

Stefanía Þorgeirsdóttir1, Sigurður Sigurðarson2, Ástríður Pálsdóttir11Tilraunastöð HÍ í meinafræði og 2rannsóknadeild dýrasjúkdóma að Keldum

astripal@hi.isInngangur: Riða í sauðfé er talin hafa borist til Íslands fyrir 120 árum og um miðja síðustu öld hafði hún breiðst út um mest allt land. Varnargirðingar sem skipta landinu í 36 varnarhólf urðu þess valdandi að riðan barst ekki inn á sex þessara svæða, það er Strandir, Snæfellsnes og Öræfi. Síðan 1986 hefur stefna stjórnvalda verið að útrýma sjúkdómnum, og er því öllu fé fargað á bæjum þar sem riða greinist. Eftir sótthreinsun fjárhúsa og þrjú fjárlaus ár geta bændur endurnýjað fjárstofn sinn, en eingöngu með fé frá riðulausum svæðum, en innan þessara svæða eru margar kindur með áhættuarfgerð. Undanfarið hafa komið upp nokkur tilfelli á ári og athyglisvert er að í sumum tilvikum er um endurtekna riðu að ræða, það er sjúkdómurinn er að koma upp á sama bæ nokkrum árum eftir sótthreinsun og fjárskipti.

Efniviður og aðferðir: Síðan 1980 hefur riða komið endurtekið upp á 30 bæjum, en heildarfjöldi riðubæja á sama tíma var 362. Þessir 30 bæir eru staðsettir innan 10 varnarsvæða á Norður- og Austurlandi þar sem riða er landlæg. Þessi tilfelli voru rannsökuð nánar með tilliti til PrP arfgerða og aldurs og borin saman við önnur riðutilfelli á sama tíma.

Helstu niðurstöður: Arfgerðagreining 25 kinda frá 22 þessara bæja leiddi í ljós að 40% báru áhættuarfgerðina, VRQ, en á meðal 118 riðutilfella sem rannsökuð voru frá sama tímabili var þetta hlutfall nokkuð hærra eða 56%. Á sex bæjum þar sem viðmiðunarsýni úr einkennalausum kindum voru til staðar reyndist arfgerð riðutilfella endurspegla tíðni mismunandi arfgerða í hjörðunum. Í þremur tilfellum var arfgerð fyrra tilfellis einnig kunn, og reyndist hún vera sú sama og seinna tilfellis.

Ályktanir: Niðurstöður okkar benda ekki til að áhættuarfgerðin, VRQ, auki líkur á endurtekinni riðu. Líklegir áhættuþættir eru meðal annars smitmagn í umhverfi.

V 122 Geimgeislamengun sem flugmenn verða fyrir

Vilhjálmur Rafnsson1, Patrick Sulem1, Hrafn Tulinius1,2, Jón Hrafnkelsson3, Ásta Guðjónsdóttir1, Giovanni De Angelis41Rannsóknastofa í heilbrigðisfræði HÍ, 2Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 3krabbameinsdeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 4Old Dominon University, Norfolk

vilraf@hi.isInngangur: Rannsóknir á flugmönnum hafa sýnt að þeir eru í meiri hættu að fá sortuæxli og grunnfrumuæxli í húð og í nokkrum rannsóknum hefur fundist aukin hætta á hvítblæði. Þó að það sé ósannað hefur mjög verið rætt um hvort að þessi aukning krabbameina stafi af geimgeislun, sem flugmenn verða fyrir í vinnu sinni. Geislamagnið er háð flughæð, breiddargráðu og sólarvirkni. Tilgangur þessarar rannsóknar var að ákvarða það geislamagn sem flugmenn verða fyrir.

Efniviður og aðferðir: Allar flugáætlanir Loftleiða, Flugfélags Íslands og síðar Flugleiða hafa verið færðar á tölvu. Auk þessa einnig flugsnið frá brottfararstöðum til áfangastaða eftir flugvélagerðum. Með þessum upplýsingum og tölvuforritinu CARI-6 hefur verið reiknaður út geislaskammtur á flugtíma eftir árum og flugvélagerð. Tölvuforritið CARI er hannað af bandarískum flugmálayfirvöldunum til þess að ákvarða verkunarskammta geimgeislunar fyrir menn í flugvélum sem ferðast milli tveggja staða.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu 1958 til 1996 hafa verið notaðar ýmsar gerðir flugvéla. Fram að 1971, áður en þotur voru almennt teknar í notkun í millilandaflugi og flogið var í lægri hæð, var meðal geislaskammturinn á ári á hvern floginn tíma á bilinu 0,08-0,26 mícróSívert (mSv) í innanlandsflugi en 0,30-2,01 mSv í millilandaflugi. Árið 1971 og síðar, þegar flogið var í meiri hæð, var samsvarandi skammtur 0,22-0,34 mSv í innanlandsflugi og 3,56-5,12 mSv í millilandaflugi. Geislaskammtarnir voru mismunandi eftir flugvélagerðum allt rannsóknartímabilið.

Umræða: Út frá niðurstöðunum verður hægt að reikna út geislaskammta einstakra flugmanna þar sem fyrir liggja upplýsingar um árlegan flugtíma þeirra eftir flugvélagerðum. Þessar upplýsingar verða notaðar í frekari rannsóknum á krabbameinshættu meðal flugmanna.

V 123 Nýgengi brjóstakrabbameins meðal flugfreyjaVilhjálmur Rafnsson1, Hrafn Tulinius1,2, Jón Gunnlaugur Jónasson3, Jón Hrafnkelsson41Rannsóknastofa í heilbrigðisfræði HÍ, 2Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 3Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði, 4krabbameinsdeild Landspítala háskólasjúkrahúss

vilraf@hi.isInngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga hvort krabbamein, sem í öðrum rannsóknum hafa tengst jónandi geislun, væru tíðari meðal flugfreyja en annarra þar sem starfstími var notaður sem vísbending um geimgeislamengun.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um rannsóknarhópinn var aflað hjá stéttarfélagi flugfreyja og tveimur flugfélögum. Í hópnum voru 1532 flugfreyjur, sem bornar voru saman á kennitölum við Krabbameinsskrána til þess að finna krabbamein á árunum 1955 til 1997. Staðlað nýgengishlutfall (SIR) og 95% öryggisbil (CI) voru reiknuð með óbeinni stöðlun miðað við nýgengi krabbameina hjá öllum íslenskum konum. Upplýsinga um barneignir var aflað með tölvutengingu við skrá Erfðafræðinefndar.

Niðurstöður: Hjá flugfreyjunum fundust 64 krabbamein þegar vænta mátti 51,63 (SIR 1,2; 95% CI 1,0-1,6) og það var tölfræðilega marktæk aukning á áhættu vegna sortuæxla í húð (SIR 3,0; 95% CI 1,2-6,2). Þegar lagður var á 15 ára biðtími var aukin áhætta af öllum krabbameinum (SIR 1,3; 95% CI 1,0-1,8) og brjóstakrabbameini (SIR 1,6; 95% CI 1,0-2,4). Flugfreyjur sem ráðnar voru 1971 eða síðar og höfðu því orðið fyrir mestri geimgeislamengun á ungum aldri (flestar byrjuðu um 20 ára aldur) höfðu tölfræðilega marktæka aukningu á öllum krabbameinum (SIR 2,8; 95% CI 1,4-4,9) og brjóstakrabbameini (SIR 4,1; 95% CI 1,7-8,5). Samkvæmt barneignamunstri voru spágildi vegna brjóstakrabbameins lág, það var til dæmis 1,1 fyrir aldur við fæðingu fyrsta barns.

Umræða: Tíðari brjóstakrabbamein og sortuæxli í húð meðal flugfreyja en annarra kvenna virðast vera tengd starfi flugfreyjanna. Nauðsynlegt er að meta þýðingu geimgeisla, röskunar á tímaklukku, rafsegulsviðs og sólarljós fyrir tilurð þessara krabbameina þar sem truflandi áhrifa barneigna virðist hafa verið útilokuð.

V 124 Nýgengi krabbameina meðal íslenskra vélstjóra

Vilhjálmur Rafnsson, Patrick SulemRannsóknastofa í heilbrigðisfræði HÍ

vilraf@hi.isInngangur: Vélstjórar verða í vinnu sinni fyrir mengun ýmissa efna, svo sem lífrænna leysiefna, útblásturslofti véla, olíum, efnum unnum úr jarðolíu og asbesti. Tilgangurinn var að athuga nýgengi krabbameina, með sérstakri áherslu á lungna- og þvagblöðrukrabbamein, meðal íslenskra vélstjóra og meta á óbeinan hátt þýðingu tóbaksreykinga.

Efniviður og aðferðir: Hópi 6603 karlkyns vélstjóra var fylgt eftir frá árinu 1955 til ársins 1998. Skrá yfir vélstjórana var með kennitölum tengd lýðskrám til þess að fá upplýsingar um dánardag, hvort menn hefðu flust af landi brott og hvort þeir hefðu greinst með krabbamein. Staðlað nýgengishlutfall (SIR) og öryggisbil (95% CI) voru reiknuð fyrir öll krabbamein og ýmsar staðsetningar krabbameina. Upplýsingum um reykingavenjur var safnað með spurningalistum sem sendir voru í pósti til hluta hópsins (n=1501).

Niðurstöður: Í öllum hópnum höfðu greinst 810 krabbamein en búast mátti við 794 (SIR 1,0; 95% CI 1,0-1,1) og það var tölfræðilega marktæk aukning á áhættu vegna magakrabbameins (SIR 1,3; 95% CI 1,0-1,5) og lungnakrabbameins (SIR 1,2; 95% CI 1,0-1,5). Þegar lagður var á 40 ára biðtími var aukin áhætta af öllum krabbameinum (SIR 1,2; 95% CI 1,1-1,3), magakrabbameini (SIR 1,5; 95% CI 1,1-1,9), lungnakrabbameini (SIR 1,4; 95% CI 1,2-1,8), mesóþelíóma (SIR 4,8; 95% CI 1,3-12,3) og þvagblöðrukrabbameini (SIR 1,3; 95% CI 1,0-1,8). Reykingavenjur vélstjóranna voru svipaðar því sem gerist hjá körlum almennt. Samkvæmt reykingavenjunum var spágildi vegna lungnakrabbameins 1,03.

Umræða: Aukið nýgengi mesóþelíóma og lungnakrabbameins getur verið afleiðing fyrri asbestmengunar. Hátt nýgengi maga-, lungna- og blöðrukrabbameins gæti tengst því að vélstjórarnir hafa orðið fyrir mengun af olíum og olíuvörum, þar sem þáttur reykinga virðist vera útilokaður.

V 125 Brjóstakrabbamein meðal flugfreyja. Tilfellaviðmiðarannsókn skipulögð innan hóps

Vilhjálmur Rafnsson1, Patrick Sulem1, Hrafn Tulinius1,2, Jón Hrafnkelsson31Rannsóknastofa í heilbrigðisfræði HÍ, 2Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 3krabbameinsdeild Landspítala háskólasjúkrahúss

vilraf@hi.isTilgangur: Að athuga hvort lengd starfstíma sem flugfreyju tengist brjóstakrabbameinshættu að teknu tilliti til barneigna.

Efniviður og aðferðir: Hópurinn er 1532 flugfreyjur tveggja íslenskra flugfélaga. Tilfellin voru fundin úr Krabbameinskránni og barneignaþættirnir úr skrá Erfðafræðinefndar Háskólans með tölvutengingu kennitalna. Starfstími flugfreyjanna hjá flugfélögunum og barneignir (aldur við fyrstu fæðingu og fjöldi barna) höfðu verið skráð kerfisbundið áður en krabbamein greindust í hópnum. Alls voru 35 brjóstakrabbamein og valin voru fjórum sinnum fleiri viðmið úr flugfreyjuhópnum mátuð fyrir aldri.

Niðurstöður: Með fjölbreytugreiningu var mátað áhættuhlutfall fyrir brjóstakrabbamein þegar tilfelli voru borin saman við viðmið 5,24 (95% CI 1,58-17,38) fyrir þær sem unnið höfðu fimm eða fleiri ár fyrir 1971 þar sem tekið var tillit til aldurs við fæðingu fyrsta barns og lengd starfstíma 1971 og síðar. Þegar lagður hafði verið á 20 ára biðtími var mátað áhættuhlutfall fyrir brjóstakrabbamein þegar tilfelli voru borin saman við viðmið 3,42 (95% CI 1,05-11,20) fyrir þær sem unnið höfðu fimm eða fleiri ár þar sem tekið var tillit til aldurs við fæðingu fyrsta barns.

Umræða: Tengslin milli lengdar starfstíma og hættunnar á brjóstakrabbameini að teknu tilliti til barneigna bendir til þess að eitthvað bundið starfinu geti verið þýðingarmikil orsök brjóstakrabbameins meðal flugfreyja og þessi tengsl koma heim við að það sem veldur krabbameinunum hafi langan aðdraganda.V 126 Kynhegðun ungs fólks. Að byrja fyrr eða seinna að hafa kynmökSóley S. BenderHjúkrunarfræðideild HÍ, læknadeild HÍ

ssb@hi.isInngangur: Þungun unglingsstúlkna er algengari á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum. Margt getur skýrt þungunartíðni meðal unglingsstúlkna. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna aldur við fyrstu kynmök og hvaða þættir gætu skýrt hvenær ungt fólk byrjar að hafa kynmök.

Efniviður og aðferðir: Sendur var spurningalisti til 2500 ungmenna á aldrinum 17-20 ára sem valin voru eftir lagskiptri slembiúrtaksaðferð úr þjóðskrá, 20% piltar og 80% stúlkur. Kyngreind voru svör þeirra sem voru kynferðislega virkir, það er 224 strákar og 1181 stúlka. Greindur var meðalaldur við fyrstu kynmök og munur á kynjum gagnvart því að byrja snemma (15ára) eða seinna (16 ára) að stunda kynmök. Gagnagreining byggðist á krosstöflum, kí-kvaðratsútreikningum og fjölbreytuaðhvarfsgreiningu (logistic regression).

Niðurstöður: Svarhlutfall var 70%. Alls höfðu 83,4% haft kynmök einu sinni eða oftar. Meðalaldur þeirra sem voru byrjaðir að hafa kynmök var 15,4 ár. Ekki var marktækur munur milli kynja. Fleiri stelpur byrjuðu snemma að hafa kynmök en strákar. Bæði strákar og stelpur byrjuðu seinna að hafa kynmök ef þau höfðu sterk viðhorf til ótímabærrar þungunar en fyrr ef margir vinir voru byrjaðir að hafa kynmök. Búseta hjá einu foreldri og að vera ekki í skóla virðist auka líkur á því að byrja fyrr að hefja kynmök.

Ályktanir: Ungt fólk hérlendis byrjar fyrr að hafa kynmök en víða í nágrannalöndum okkar. Þeir sem hafa ákveðin viðhorf til ótímabærrar þungunar og búa við aðhaldsmeira umhverfi virðast byrja seinna að hafa kynmök. Snemm kynlífsreynsla felur það í sér að einstaklingurinn er ungur að árum og óþroskaðri. Hjá yngri unglingum er getnaðarvarnanotkun oft ómarkmissari en hjá þeim sem eldri eru og því auknar líkur á þungun. Mikilvægt er að kynfræðsla sé markviss bæði innan veggja heimila og skóla.

V 127 Notkun getnaðarvarna meðal ungs fólks. Er munur

á kynjum?

Sóley S. BenderHjúkrunarfræðideild HÍ, læknadeild HÍ

ssb@hi.isInngangur: Lítið er vitað hérlendis um notkun ungmenna á getnaðarvörnum. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða út frá kynjum hver væri notkun getnaðarvarna við fyrstu kynmök og viðhorf þeirra til notkunar getnaðarvarna.

Efniviður og aðferðir: Landskönnun var send til 2500 ungmenna á aldrinum 17-20 ára sem valin voru eftir lagskiptri slembiúrtaksaðferð úr þjóðskrá, 20% piltar og 80% stúlkur. Gagnagreining byggðist á svörum þeirra sem voru kynferðislega virkir, það er 224 strákar og 1181 stúlka. Gagnagreining byggðist á krosstöflum með kí-kvaðratsútreikningum og fylgniútreikningum.

Niðurstöður: Svörun var 70%. Meðalaldur við fyrstu kynmök var 15,4 ár. Þau hófu notkun getnaðarvarna að meðaltali 15,8 ára og byrjuðu að leita til læknis vegna getnaðarvarna að meðaltali 16,2 ára. Ekki reyndist marktækur munur milli kynja. Alls notuðu 60% getnaðarvörn við fyrstu kynmök og þar af var pillan og smokkur notað í 9% og 76% tilvika. Stúlkur sem byrjuðu fyrr að hafa kynmök (15 ára) notuðu síður pilluna við fyrstu kynmök en ef þær byrjuðu seinna (16 ára). Strákar sem byrjuðu fyrr að hafa kynmök notuðu síður smokkinn heldur en ef þeir byrjuðu seinna. Stúlkur virðast að ýmsu leyti hafa jákvæðari viðhorf til notkunar getnaðarvarna en strákar og vísbendingar eru um að foreldrar komi meir að notkun getnaðarvarna meðal stúlkna en drengja.

Ályktanir: Samkvæmt niðurstöðum tóku 40% ungmenna áhættu með þungun og kynsjúkdóma með því að verja sig ekki við fyrstu kynmök. Þeir sem byrja fyrr að hafa kynmök sýna að jafnaði ekki eins ábyrga notkun getnaðarvarna og þeir sem byrja seinna. Það líður um ár frá því að ungt fólk byrjar að meðaltali að hafa kynmök og þar til það leitar til læknis vegna getnaðarvarnar (pillunnar). Það er mikilvægt að leggja áherslu á heildræna kynfræðslu og jafnframt greiðan aðgang að kynheilbrigðisþjónustu.

V 128 Samanburður á áhættuþáttum meðhöndlaðra

og ómeðhöndlaðra karla og kvenna með háþrýsting. Hjartaverndarrannsóknin

Lárus S. Guðmundsson1, Magnús Jóhannsson1, Guðmundur Þorgeirsson1,2, Nikulás Sigfússon2, Helgi Sigvaldason2, Jacqueline C. Witteman31Lyfjafræðistofnun HÍ, Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði, 2Rannsóknarstöð Hjartaverndar, 3Dept. of epidemiology and biostatistics, Erasmus University Medical School, Rotterdam

magjoh@hi.isInngangur: Samanburður á meðhöndluðum og ómeðhöndluðum einstaklingum með háþrýsting hafa stundum leitt í ljós mismun á horfum, sem stafa af truflandi þáttum vegna ábendinga um meðferð (confounding by indication).

Efniviður og aðferðir: Körlum (9328) og konum (10.062) af Reykjavíkursvæðinu sem komu einu sinni eða oftar í Hjartaverndarrannsóknina á tímabilinu 1967 til 1996 var fylgt eftir í allt að 30 ár.

Niðurstöður: Við fyrstu komu voru skilgreindir tveir hópar með háþrýsting (slagbils 160 og/eða hlébilsþrýsting 95 mmHg): 1) þeir sem voru á háþrýstingsmeðferð og 2) þeir sem ekki voru á meðferð. Fyrstu fjögur til sex árin höfðu karlar án meðferðar marktækt minni líkur á hjartadrepi, dauða vegna hjarta- og æðasjúkdóma eða dauða af hvaða orsök sem er. Enginn munur var á dánarlíkum milli hópanna næstu 24 ár eftirfylgnitímabilsins. Í samsvarandi hópum kvenna fannst að þær sem voru með háþrýsting án meðferðar höfðu marktækt minni líkur á dauða vegna hjarta- og æðasjúkdóma á 10- til 30 ára tímabili eftirfylgnitímabilsins. Enginn munur fannst fyrstu 10 árin og ekki heldur á áhættu á hjartadrepi eða dauða af hvaða orsök sem er. Rannsókn á undirhópum, sem komu tvisvar til skoðunar með fimm ára millibili, sýndi að þeir karlar sem höfðu háþrýsting og vissa áhættuþætti (meðal annars ST-breytingar og prótín og sykur í þvagi) við fyrri komu voru líklegri til að vera komnir á háþrýstingsmeðferð við seinni komu, en hinir sem ekki höfðu þessa áhættuþætti.

Ályktanir: Karlar með háþrýsting og á háþrýstingsmeðferð höfðu verri horfur í byrjun en þeir sem ekki voru á meðferð. Skýringin á þessu er að öllum líkindum fleiri og alvarlegri áhættuþættir hjá þeim sem voru meðhöndlaðir, það er vitneskja um áhættuþætti hefur haft áhrif á ákvörðun um meðferð.
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica