Ágrip erinda

Ágrip veggspjalda 129-173

V 129 Líkamsþyngdarstuðull Íslendinga fer hækkandiÞórarinn Sveinsson, Svandís J. SigurðardóttirSjúkraþjálfunarskor læknadeild HÍ

thorasve@hi.isInngangur: Líkamsþyngdarstuðull (body mass index, BMI) hefur mikið verið notaður til að meta holdafar í faraldsfræðilegum rannsóknum undanfarin ár. Sýnt hefur verið fram á að þessi stuðull hefur hækkað töluvert á undanförnum áratugum hjá vestrænum þjóðum, þar á meðal hjá Íslendingum. Markmiðið með þessari rannsókn var að kanna breytingar á líkamsþyngdarstuðli meðal Íslendinga undanfarin ár og hvort tengja mætti breytingar við reglubundna hreyfingu þeirra.

Efniviður og aðferðir: Höfundar gerðu könnun á hreyfingu, heilsu og þreki meðal 20-80 ára Íslendinga árin 1997 og 2000. Spurningalistarnir voru unnir í samvinnu við UKK-stofnunina í Finnlandi. Handahófsval á 1650 Íslendingum var fengið úr þjóðskrá og fengu þeir spurningalista senda í pósti. Svörun var 51% árið 1997 og 49% árið 2000, 36% svöruðu bæði árin.

Niðurstöður: Marktæk hækkun varð á líkamsþyngdarstuðli á milli áranna en hann var 25,3 kg/m2 (SD 3,9) árið 1997 og 25,8 kg/m2 (SD 4,0) árið 2000 (p=0,003). Meðalþyngd jókst um 1,6 kg á þessum þremur árum. Marktækur munur var á líkamsþyngdarstuðli eftir því hve mikla hreyfingu fólk stundar í frítímum, bæði árið 1997 og árið 2000 (p=0,02 og p=0,01). Þeir sem hreyfa sig meira höfðu lægri líkamsþyngdarstuðul. Hins vegar var ekki marktækur munur á aukningu í þyngd eða hækkun á líkamsþyngdarstuðli eftir því hversu mikla hreyfingu fólk stundaði í frítímum og heldur ekki hvort fólk stundar almenningsíþróttir eða ekki.

Ályktanir: Skýringin gæti legið í því að tiltölulega fáir tilheyra sama hreyfingarhópi til lengri tíma litið eða að fólk hreyfir sig almennt ekki nóg til að halda þyngdinni í skefjum. Önnur skýring væri sú að aðrir þættir í umhverfinu eins og mataræði skipti hér líka máli.Þakkir: Rannsóknin var styrkt af Rannsóknasjóði HÍ, Aðstoðarmannasjóði HÍ og Íþróttasjóði.

V 130 Tengsl líkamsástands og líkamlegrar virkni hjá níu ára börnum í Reykjavík

Þórarinn Sveinsson1, Sigurbjörn Árni Arngrímsson2, Brynhildur Briem3, Þórólfur Þórlindsson4, Erlingur Jóhannsson21Sjúkraþjálfunarskor læknadeild HÍ, 2Íþróttafræðasetur KHÍ að Laugarvatni, 3Kennaraháskóli Íslands, 4félagsvísindadeild HÍ

thorasve@hi.isInngangur: Mjög takmarkaðar rannsóknir hafa verið gerðar á Íslandi á holdafari, líkamshreyfingu og líkamsástandi og hvort þessir þættir séu í einhverju samhengi við aukna kyrrsetu og breytta lifnaðarhætti. Markmið rannsóknarinnar var að kanna holdafar, með því að mæla líkamsþyngdarstuðul, líkamsástand með þrekmælingu og virkni meðal níu ára barna í Reykjavík.

Efniviður og aðferðir: Úrtak rannsóknarinnar var 308 níu ára gömul börn úr fjórum grunnskólum í Reykjavík, Fellaskóla, Laugarnesskóla, Melaskóla og Seljaskóla. Foreldrar og forráðamenn 237 barna gáfu samþykki fyrir þátttöku barna sinna í rannsókninni og var hún framkvæmd á þeim í september og október árið 2002. Þátttökuhlutfallið var því 76,9%. Þrek var metið með svokölluðu fjölþrepaprófi af íþróttakennurum hvers skóla. Virkni var mæld með hröðunarmælum hjá 57 börnum en þau báru á sér mælana í fimm heila daga, þar á meðal laugardag og sunnudag. Gögn frá 50 börnum reyndust nothæf.

Niðurstöður: Marktæk neikvæð fylgni var á milli þykktar húðfellinga og árangurs í fjölþrepaprófinu (r=-0,62) og einnig á milli þykktar húðfellinga og virkni (r=-0,42). Hins vegar var fylgnin á milli árangurs í fjölþrepaprófinu og virkni ekki marktæk. Með fjölþátta aðhvarfsgreiningu fannst að hægt er að skýra 50% af breytileikanum í húðfitu með þreki og virkni (r=-0,706) þar sem báðar breyturnar höfðu marktæk áhrif.

Ályktanir: Við ályktum því að þrek og virkni séu óháðar breytur sem hvor um sig hafi óháð áhrif á magn líkamsfitu hjá níu ára börnum. Börn með litla virkni og með lélega útkomu úr þrekprófinu eru því líklegust til að hafa mikla líkamsfitu á meðan börn með mikla virkni og góða útkomu úr þrekprófinu hafa minnstu líkamsfituna.Þakkir: Rannsóknin var styrkt af Rannís.

V 131 Vitneskjan um hollustu hreyfingar dugir ekki til

Svandís J. Sigurðardóttir, Þórarinn SveinssonSjúkraþjálfunarskor læknadeildar HÍ

thorasve@hi.isInngangur: Erlendar rannsóknir sýna að vitneskjan um heilsubætandi áhrif hreyfingar er ekki alltaf nóg til þess að fólk fari eftir þeim ráðleggingum sem kynntar eru. Vitneskjan um hollustu hreyfingar er þó fyrsta skrefið í því ferli að breyta um lífsstíl frá kyrrsetu í reglubundna hreyfingu. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hversu meðvitaðir Íslendingar eru um þessi áhrif og hvort þeir hafi orðið varir við hvatningu til að stunda heilsubætandi hreyfingu. Einnig að kanna hvaðan þessi vitneskja kemur og hvort hún skilar sér í aukinni hreyfingu fólks.

Efniviður og aðferðir: Höfundar gerðu könnun á hreyfingu, heilsu og þreki meðal 20-80 ára Íslendinga árin 1997 og 2000. Spurningalistarnir voru unnir í samvinnu við UKK-stofnunina í Finnlandi. Handahófsval á 1650 Íslendingum var fengið úr þjóðskrá og fengu þeir spurningalista senda í pósti bæði árin. Spurningarnar voru 49 árið 1997 en 24 árið 2000. Svörun var 51% árið 1997 og 49% árið 2000, 36% svöruðu bæði árin.

Niðurstöður: Af þeim sem svöruðu árið 2000 höfðu einungis 1,6% aldrei orðið varir við hvatningu til almennings um að hreyfa sig reglulega undangengin þrjú ár. Langflestir eða 94,6% svarenda höfðu orðið varir við hvatningu í fjölmiðlum, 17,4% á vinnustað, 4,1% hjá vinum og vandamönnum, 1,9% hjá heilbrigðisstofnunum eða heilbrigðisstarfsfólki og 2,7% nefndu annað. Hins vegar eru 25,8% svarenda kyrrsetufólk eða stunda einungis hæga og rólega hreyfingu og það sjaldnar en fjórum sinnum í viku. Þá hafa 23,4% ekki áhuga á að stunda almenningsíþróttir.

Ályktanir: Þrátt fyrir að fólk verði vart við hvatningu til að stunda hreyfingu sér til heilsubótar eru margir sem ekki verða við þeim tilmælum. Nauðsynlegt er að rannsaka nánar hvers vegna fólk hreyfir sig ekki meira þrátt fyrir að það verði vart við hvatningu til þess. Athygli vekur hversu fáir nefna heilbrigðisstarfsfólk og íþróttahreyfinguna þegar spurt er um hvar þeir verða varir við hvatningu um að hreyfa sig reglubundið.Þakkir: Rannsóknin var styrkt af Rannsóknasjóði HÍ, Aðstoðarmannasjóði HÍ og Íþróttasjóði.V 132 Tap á arfblendni á litningi 5 í æxlum sjúklinga

með og án kímlínubreytinga í BRCA1 eða BRCA2Hrefna K. Jóhannsdóttir
1, Guðrún Jóhannesdóttir1, Bjarni A. Agnarsson2, Aðalgeir Arason1, Valgarður Egilsson1, Åke Borg3, Heli Nevanlinna4, Rósa B. Barkardóttir11Frumulíffræðideild Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði, 2Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði, 3Dept. of Oncology, University Hospital, Lundi, 4Dept. of Obsterics and Gynecology, Helsinki University Central Hospital, Helsinki

hrefnakj@landspitali.isInngangur: Sjúkdómsþróun krabbameins, hvort sem um ræðir ættgengt eða stök tilfelli, er háð uppsöfnun erfðaefnisbreytinga í æxlisfrumunni. CGH-aðferð (Comparative Genomic Hybridisation) hefur verið notuð til að greina mynstur stærri magnana og úrfellinga í æxlisfrumum á mismunandi stigum æxlisvaxtar sem og í sjúklingahópum með mismunandi erfðafræðilegan bakgrunn. Nýlegar CGH-rannsóknir á brjóstakrabbameinsæxlum hafa sýnt fram á mun á tíðni og staðsetningu erfðaefnisbreytinga, ekki einungis milli sjúklinga með og án kímlínubreytinga heldur einnig milli sjúklinga eftir því hvort þeir hafa kímlínubreytingu í BRCA1 eða BRCA2. Einn þeirra litningaarma sem samkvæmt CGH sýna háa tíðni úrfellinga (yfir 80%) í æxlum sjúklinga með kímlínubreytingu í BRCA1 er 5q. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja nánar erfðaefnisbreytingar á litningi 5 með það fyrir augum að staðsetja þau sameiginlegu svæði sem oftast sýna úrfellingu og gætu því verið mikilvæg fyrir framvindu meinsins.

Efniviður og aðferðir: Skimuð voru 173 blóð- og æxlissýnapör með 23 erfðamörkum sem afhjúpað gátu úrfellingar (LOH), það er sýnt hvort æxli hefðu tapað arfblendni.

Niðurstöður: Fyrir einstök erfðamörk var tíðni úrfellinga á bilinu 19-69% í BRCA1 æxlum á meðan samsvarandi gildi voru 11-43% fyrir BRCA2 æxli og 8-27% í sporadískum æxlum.

Ályktanir: Niðurstöður kortlagningar benda til að um sjö afmörkuð svæði á litningi 5 sé að ræða, sem í stórum hluta brjóstakrabbameinsæxla hafa orðið fyrir úrfellingu. Af þessum sjö svæðum virðast sex vera sameiginleg æxlum allra þriggja undirflokka brjóstakrabbameinssjúklinga. Svæðið sem eingöngu greindist í æxlum með kímlínubreytingu er líklegt til að innihalda gen sem koma aðeins við sögu í framvindu ættgengs brjóstakrabbameins.

V 133 Tengsl fjölbreytni í MnSOD geni við áhættu

á brjóstakrabbameini

Kristjana Einarsdóttir1, Katrín Guðmundsdóttir1, Laufey Tryggvadóttir2, Jórunn E. Eyfjörð1,31Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 2Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 3Háskóli Íslands

kristjana@krabb.isInngangur: Arfgengir áhættuþættir eru taldir gegna mikilvægu hlutverki í brjóstakrabbameini. Stökkbreytingar í BRCA genunum tengjast aukinni brjóstakrabbameinsáhættu. Þær eru sjaldgæfar en hafa tiltölulega mikla sýnd. Algeng genafjölbreytni (polymorphism) getur einnig haft áhrif á sjúkdómsáhættu hópa þrátt fyrir litla sýnd í einstaklingum. Manganese superoxíð dismutasi (MnSOD) sér um niðurbrot hvarfgjarnra sameinda í hvatberum. T-C basafjölbreytni í MnSOD geninu getur orsakað minni flutningshæfni próteinsins inn í hvatbera. Það gerir það að verkum að hvatberar geta að hluta til orðið varnarlausir gegn ágangi hvarfgjarnra sameinda og þetta getur leitt til oxunarálags. Svo virðist sem krabbameinsfrumur séu oft undir oxunarálagi en það getur valdið ýmsum skemmdum á frumum. Markmið verkefnisins var að kanna áhættu á brjóstakrabbameini tengda basafjölbreytni í MnSOD geninu.

Efniviður og aðferðir: Sýni úr 233 brjóstakrabbameinssjúklingum og 382 viðmiðum voru arfgerðargreind með tilliti til MnSOD basafjölbreytni. Arfgerðargreiningin var gerð með PCR, rafdrætti og skerðibútagreiningu.

Niðurstöður: Aukin brjóstakrabbameinsáhætta tengd TT arfgerð MnSOD gensins kom í ljós bæði hjá konum undir 45 ára og konum yfir 55 ára. Sú áhættuaukning reyndist hins vegar ekki tölfræðilega marktæk.

Ályktanir: Hugsanlegt er að fjölbreytni í MnSOD auki áhættu íslenskra kvenna á brjóstakrabbameini. Þessi frumkönnun bendir til að áhugavert væri að athuga MnSOD fjölbreytni í stærri hópi.

V 134 Áhrif áhættuþátta og fjölbreytni á brjóstakrabbameinsáhættu hjá arfberum BRCA1 og BRCA2 stökkbreytinga og þeim sem ekki bera stökkbreytingarnar

Sigrún Stefánsdóttir1, Hólmfríður Hilmarsdóttir1, Katrín Guðmundsdóttir1, Hafdís Hafsteinsdóttir1, Elínborg J. Ólafsdóttir2, Jón G. Jónasson2,3,4, Helga M. Ögmundsdóttir1,3, Laufey Tryggvadóttir2, Jórunn E. Eyfjörð1,31Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 2Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 3Háskóli Íslands, 4Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði

jorunn@krabb.isInngangur: Ein stökkbreyting í hvoru BRCA brjóstakrabbameinsgeni, sjaldgæf BRCA1 splæsisets breyting í tákna 17, 5193G->A, og algengari úrfelling í tákna 9, 999del5, í BRCA2 valda um 40% ættlægra brjóstakrabbameina í Íslendingum. Fyrri rannsóknir okkar gefa til kynna að sýnd BRCA2 breytingarinnar sé mjög breytileg, sem bendir til að aðrir erfða- og/eða umhverfisþættir hafi áhrif. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna hvort áhættuþættir og fjölbreytni (polymorphism) í efnaskiptaensímum hafi áhrif á sýnd BRCA stökkbreytinga og jafnframt hvort þessir þættir hafi áhrif í hópi þeirra sem ekki bera þessar breytingar.

Efniviður og aðferðir: Öllum konum á Íslandi sem greinst hafa með brjóstakrabbamein og nánustu ættingjum þeirra er boðin þátttaka. Einnig er leitað til hóps viðmiða á sama aldri og ábenditilfellin, samtals um 5000 manns. Í september 2002 höfðu 1142 einstaklingar sem greinst hafa með sjúkdóminn auk 2205 ættingja og viðmiða tekið þátt í rannsókninni, gefið blóðsýni og svarað ítarlegum spurningalista.

DNA greining: Kímlínubreytingar í BRCA1 og BRCA2; fjölbreytni í CYP17, CYP19, GSTM1, GSTP1, GSTT1 og TP53.

Áhættuþættir: Fæðinga- og blæðingasaga, hormónanotkun, geislun, líkamleg áreynsla, áfengis- og tóbaksnotkun, hæð og þyngd.

Niðurstöður: Í september 2002 var lokið greiningu á BRCA1 í sýnum frá 1142 einstaklingum og BRCA2 í 2487. Greiningu á fjölbreytni var lokið í 300-600 sýnum með tilliti til ólíkra gena. Af ábenditilfellum reyndust 0,7% hafa BRCA1 breytingu og 6,3% BRCA2. Fyrstu niðurstöður um áhrif áhættuþátta benda til að verndandi áhrif fjölda fæðinga séu ekki til staðar í BRCA2 arfberum eins og í öðrum konum.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður gefa vísbendingu um að áhrif hormóna séu ólík í arfberum BRCA2 stökkbreytingar borið saman við aðra með tilliti til brjóstakrabbameinsáhættu.

V 135 Áhrif extrakta íslenskra Sedum>Sedum tegunda

á krabbameinsfrumur og malaríusníkil
in_vitro_>in vitro

Edda Hafsteinsdóttir1, Elín S. Ólafsdóttir1, Jerzy Jaroszewski2, Helga Ögmundsdóttir31Lyfjafræðideild HÍ, 2Dept. of Medicinal Chemistry, Danish School of Pharmacy, Kaupmannahöfn, 3Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði

elinsol@hi.isInngangur: Fjórar tegundir af hnoðrum (Sedum) vaxa Íslandi, það er Sedum acre, S. annuum, S. villosum og S. reflexum og hafa ekki verið efnagreindar svo vitað sé. Erlendar hnoðrategundir framleiða mörg efnasambönd, meðal annars alkalóíða. Markmið verkefnisins var að kanna hvort íslensku hnoðrarnir framleiði alkalóíða og að kanna áhrif extrakta þeirra á malaríusníkilinn P. falciparum og á krabbameinsfrumulínuna T-47D in vitro.

Efniviður og aðferðir: Plöntuefni var úrhlutað með petroleum ether í Soxhlet og með MeOH/CH2Cl2 (50:50) á hristara. Þunnlagsgreining og framköllun með Dragendorff reagens var notuð til að kanna hvaða fraktionir innihéldu alkalóíða. Próf á hamlandi áhrifum á krabbameinsfrumulínu T-47D in vitro, var framkvæmt með ljósmælingu (570 nm) eftir litun frumnanna með Crystal violet lit. Antimalaríuvirkni var metin með því að mæla upptöku geislavirks phenýlalaníns í frumdýrið.

Niðurstöður: TLC af extröktum gáfu til kynna að einungis S. acre og S. annuum innihéldu alkalóíða. Byggingar þeirra voru ekki skilgreindar frekar. Í frumuprófunum sýndu extraktar S. acre, S. annuum og S. villosum einungis litla virkni, en extrakt S. reflexum sýndi aftur á móti um 50% hamningu strax í minnsta styrk (12,5 µg/ml). Í antimalaríu-prófunum var virkni lítil fyrir S. acre og S. annuum, heldur meiri fyrir S. villosum en langmest fyrir S. reflexum, sem sýndi yfir 60% hamningu í minnsta styrk (12,5 µg/ml).

Ályktanir: S. reflexum sýndi langmesta og áhugaverða hamlandi virkni bæði á malaríusníkilinn og brjóstakrabbameinsfrumur í frumurækt og eru það því ekki alkalóíðarnir sem eru virkir. Í undirbúningi er að rannsaka nánar innihaldsefni S. reflexum til að ákvarða hvaða efnasamband/efnasambönd það eru, sem eru virk í þessum tveimur lífvirkniprófunum.

V 136 Vaxtarhindrandi áhrif 5-lípoxygenasa hindra

úr íslenskum fléttum á illkynja frumur
in_vitro>in vitro

Sigurdís Haraldsdóttir1,2, Erna Guðlaugsdóttir1,2, Kristín Ingólfsdóttir3, Helga M. Ögmundsdóttir1,21Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 2læknadeild og 3lyfjafræðideild HÍ

sigurdis@hi.isInngangur: Á undanförnum árum hafa menn beint sjónum sínum í auknum mæli að efnum sem hindra virkni lípoxygenasa (LOX) sem hugsanlegri meðferð gegn krabbameinum. Lípoxygenasar hvata myndun leukotríena og HETE úr arakídónsýru og eiga sér þrjú ísóform en tvö þeirra, 5- og 12-LOX, hafa fundist yfirtjáð í krabbameinsfrumum. Markmið þessa verkefnis var að kanna vaxtarhindrandi áhrif þriggja 5-LOX hindra úr íslenskum fléttum og eins sértæks 5-LOX hindra á 12 illkynja frumulínur af mismunandi vefjauppruna og einnig að kanna tjáningu 5- og 12-LOX í þremur þessara lína.

Efniviður og aðferðir: Tólf illkynja frumulínur voru keyptar hjá ATCC. Fléttuefnin voru einangruð við lyfjafræðideild; prótólichesterínsýra (PA) úr fjallagrösum, lóbarínsýra (LA) úr grábreyskju og baeomýcesínsýra (BA) úr ormagrösum. Zileuton (Zil) er sértækur 5-LOX hindri. Vaxtarhindrandi verkun var metin með thymidínupptöku. Tjáning 5- og 12-LOX var metin með mótefnalitun.

Niðurstöður: PA hafði mest vaxtarhindrandi áhrif með ED50 á bilinu 2,4-18,1 mg/ml, LA fylgdi í kjölfarið (ED50=15,2-65,5 mg/ml) en verkun BA og Zil var minni (ED50=20->80 mg/ml). Frumulínur úr brjósti, blöðruhálskirtli og brisi voru næmastar fyrir PA en ristilkrabbameinslínan var minnst næm. Tjáning 5- og 12-LOX var mest í bris- og brjóstakrabbameinslínum en minnst í ristilkrabbameinslínunni. 5-LOX var staðsett í kjarnahjúp og var háð staðsetningu í frumuhring. Ennfremur sást 5-LOX í kjarna í brjóstakrabbameinslínunni.

Ályktanir: PA og LA höfðu meiri vaxtarhindrandi verkun heldur en BA og Zil og hafa því líklega einhverja virkni fram yfir 5-LOX hindrun, hugsanlega 12-LOX hindrun. Tjáning 5-LOX var meiri í þeim línum sem voru næmar fyrir fléttuefnunum. Auk þess var ensímið staðsett í kjarnahjúp sem bendir til þess að það sé á virku formi.

V 137 Áhrif furanocoumarina úr ætihvönn á vöxt krabbameinsfrumna úr mönnum

Steinþór Sigurðsson1, Helga Ögmundsdóttir2, Sigríður Jónsdóttir1, Sigmundur Guðbjarnason11Raunvísindastofnun HÍ, 2Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands

í sameinda- og frumulíffræði

sts@raunvis.hi.isInngangur: Furanocoumarin eru, ásamt ilmolíum, talin helstu virkniefni í ætihvönn. Þau hafa mikið verið rannsökuð og rannsóknir hafa aukist á undanförnum árum, meðal annars í sambandi við bælandi áhrif á vöxt krabbameinsfrumna. Í þessari rannsókn var kannað (i) magn einstakra furanocoumarina í fræjum íslenskrar ætihvannar og (ii) áhrif tveggja algengra furanocoumarina og furanocoumarinríkrar jurtaveigar úr ætihvannarfræjum á krabbameinsfrumur úr mönnum.

Efniviður og aðferðir: Ætihvannarfræjum var safnað víða um landið. Imperatorin var einangrað úr ætihvönn, en xanthotoxin keypt frá Sigma. Magnmælingar voru gerðar með útdrætti og vökvaskilju (HPLC). Rannsóknir á virkni sýna voru gerðar með því að mæla áhrif þeirra á fjölgun briskrabbameinsfrumna úr mönnum (PANC) í rækt, en þá var mæld upptaka á 3H-thýmídín eftir að frumurnar höfðu vaxið með sýnunum í sólarhring.

Niðurstöður: Allt að fjórfaldur munur reyndist á magni furanocoumarina í fræjum eftir því hvar það var tekið. Furanocoumarinin imperatorin og xanthotoxin eru í miklu magni í ætihvannarfræjum, eða allt að 10000 og 2400 ppm. Helmingsvirkni xanthotoxins var 3,7 µg/mL, eða 17 µM, en imperatorins við 2,7 µg/mL, eða 10 µM. Áhrif jurtaveigar bentu til þess að önnur furanocoumarina hefðu virkni innan þessa bils, að því gefnu að önnur innihaldsefni hefðu óveruleg áhrif. Tilsvarandi niðurstöður fengust við rannsóknir á brjósta- og ristilkrabbameinsfrumum úr mönnum (T47D og WiDr).

Ályktanir: Mikill munur er á magni furanocoumarina í íslenskum ætihvannarfræjum, en óvíst hvort munurinn ræðst af erfðafræðilegum þáttum eða umhverfi. Efni úr ætihvannarfræjum hindrar vöxt krabbameinsfrumna og niðurstöðurnar benda til þess að furanocoumarina valdi þar mestu.

V 138 Ilmolíur úr ætihvannarfræjum og áhrif þeirra

á krabbameinsfrumur í rækt

Steinþór Sigurðsson1, Helga Ögmundsdóttir2, Haraldur Ágúst Sigurðsson1, Sigmundur Guðbjarnason11Raunvísindastofnun HÍ, 2Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands

sts@raunvis.hi.isInngangur: Ilmolíur eru litlar sameindir sem ráða mestu um ilm jurta. Áhrif þeirra hafa mikið verið rannsökuð á síðustu árum, meðal annars vegna bælandi áhrifa sumra ilmolía á vöxt krabbameinsfrumna. Ilmolíur er að finna í nokkrum íslenskum jurtum, einkum ætihvönn, vallhumli og blóðbergi.

Efniviður og aðferðir: Ætihvannarfræjum var safnað í nágrenni Reykjavíkur. Ilmolíur fengust úr þeim með gufueimingu og samsetning þeirra var skoðuð með gasskilju og massagreini. Áhrif á krabbameinsfrumur voru mæld sem minnkuð efnaskipti frumurækta eftir að þær höfðu vaxið með sýnunum í sólarhring. Könnuð voru áhrif íslensku olíanna á krabbameinsfrumur úr mönnum: bris- (PANC), brjósta- (T47D) og ristilkrabbameinsfrumur (WiDr) og áhrif samsvarandi enskrar olíu á briskrabbameinsfrumurnar.

Niðurstöður: Um er að ræða að minnsta kosti tvær gerólíkar íslenskar ilmgerðir. Ilmgerð A inniheldur 50-70% b-fellandren, en ilmgerð B er gersneydd því. Mun meira er af ilmolíum hjá ilmgerð A. Samsetning enskrar ætihvannarfræjailmolíu á markaði var skoðuð og svipaði henni til ilmgerðar A. Íslensku olíurnar hindruðu efnaskipti í öllum frumulínum. Helmingsvirkni, ED50, það er það magn sem helmingar efnaskipti, ilmgerðar B á briskrabbamein var 38 µg/mL, á brjóstakrabbamein 56 µg/mL, en 233 µg/mL á ristilkrabbamein. ED50 fyrir ilmgerð A á frumulínurnar í sömu röð var 197 µg/mL, 185 µg/mL og 293 µg/mL. Enska ilmolían hafði engin áhrif á briskrabbameinsfrumur í styrknum 500 µg/mL. Samanburður á virkni ólíkra olía útilokar öll helstu efnin sem "virka þáttinn".

Ályktanir: Erfðaþættir virðast valda miklum mun á ilmgerð fræja. Sumar ilmolíur virðast innihalda mjög virkt efni, því magn algengari efna virðist ekki skipta máli, nema samvirkni eigi hlut að máli.

V 139 Er æxlisvöxtur af b-eitilfrumuuppruna ættlægur?

Helga M. Ögmundsdóttir1, Guðríður H. Ólafsdóttir1, Hrafn Tulinius1, Helgi Sigvaldason1, Guðmundur M. Jóhannesson2, Vilhelmína Haraldsdóttir21Krabbameinsfélag Íslands, 2blóðmeinafræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss

helgam@krabb.isInngangur: Lýst hefur verið í heimildum fáeinum tugum tilvika þar sem saman fara í fjölskyldu æxlissjúkdómar af B-eitilfrumuuppruna sem lýsa sér með framleiðslu á einstofna mótefni, það er mergfrumuæxli (multipel myeloma), Waldenströms makróglóbúlínemía (WM) og góðkynja mónóklónal gammópatía (monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS). Þetta hefur þó aldrei verið kannað á skipulegan hátt.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin grundvallast á upplýsingum Krabbameinsskrár um illkynja sjúkdóma í blóðmyndandi vef (ICD-7 200-205) og sérstakri skrá Krabbameinsskrár um alla sem greindust með MGUS á Íslandi árin 1978-1997. Raktar voru ættir í þriðja lið frá öllum 188 íslenskum sjúklingum, sem greindust með mergfrumuæxli á tímabilinu 1955-1989. Reiknuð var hlutfallsleg áhætta á blóðmeinum og MGUS með íslensku þjóðina sem viðmið.

Niðurstöður: Kvenkyns ættingjar reyndust hafa nokkuð aukna áhættu á að fá mergfrumuæxli (OR=3,23; vikmörk 1,17-7,01) en að öðru leyti var ekki aukin áhætta meðal ættingja á mergfrumuæxli, MGUS eða illkynja sjúkdómum í blóðmyndandi vef almennt. Í átta fjölskyldum reyndust þrír eða fleiri hafa slíka sjúkdóma, þar af allavega einn með mergfrumuæxli og einn með MGUS. Í tveimur fjölskyldum fannst einnig WM, og í öllum fjölskyldunum einn eða fleiri með annars konar illkynja sjúkdóm í blóðmyndandi vef, ýmist lýmfóíð eða mýelóíð. Eina af þessum fjölskyldum höfum við áður rannsakað nánar og fundið tengsl við ofurtjáningu á langlífisprótíninu Bcl-2.

Ályktanir: Þessi rannsókn bendir því til að ættgengi sé ekki algengur áhættuþáttur fyrir illkynja sjúkdóma af B-eitilfrumuuppruna, en þó sé um það að ræða í fáeinum ættum.

V 140 Stökkbreytingar í p53 eru algengar í flatskæningi

í munni. Tengsl við krabbameinsáhættu?

W. Peter Holbrook1, Helga M. Ögmundsdóttir2, Hólmfríður Hilmarsdóttir2, Jóhann Heiðar Jóhannsson31Tannlæknadeild HÍ, 2Rannsóknarstofa Krabbameinsfélag Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 3Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði

phol@hi.is     Inngangur: Flöguþekjukrabbamein í munni (oral squamous cell carcinoma, OSCC) eru útbreitt heilbrigðisvandamál um allan heim. Þekktir eru ytri áhættuþættir, svo sem reykingar og áfengisneysla, en einnig auka sumir slímhúðarsjúkdómar í munni líkur á krabbameinsmyndun, svo sem hvítskellur (leukoplakia), rauðskellur (erythroplakia) og flatskæningur í munni (oral lichen planus, OLP). Stökkbreytingar á p53 eru allalgengar í OSCC en mjög lítið hefur verið kannað hvort þær finnast í hugsanlegum forstigum krabbameins.

Efniviður og aðferðir: Á Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði voru fengin 55 sýni úr OSCC, 47 sýni úr flöguþekjuþykknun (hyperkeratosis, HK), klínískt greint sem hvítskellur, og 48 sýni úr flatskæningi í munni. Stökkbreytingar í p53 voru greindar úr örsýnum teknum með nál og notuð constant denaturation gel electrophoresis (CDGE) aðferð. Litað var fyrir p53 próteini með mótefnalitun. Kannaðar voru sjúkrasögur níu sjúklinga með sérstöku tilliti til þróunar OSCC frá forstigsbreytingum.

Niðurstöður: Stökkbreytingar í p53 fundust í 22% af OSCC, 15% af HK og 33% af OLP. Jákvæð litun fyrir p53 próteini var algeng en sýndi engin tengsl við stökkbreytingar. Sjö af sjúklingunum níu fengu OSCC, 0-76 mánuðum eftir greiningu hugsanlegs forstigs sem í fimm tilvikum var OLP. Í einu tilviki var staðfest p53 stökkbreyting í OLP-sýni. Unnið er að frekari athugunum á þessum sjúklingahópi.

Ályktanir: OLP uppfyllir skilmerki Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um forstig að illkynja sjúkdómi, en mjög hefur verið umdeilt hversu mikil krabbameinsáhættan er. Niðurstöður okkar benda til hugsanlegra tengsla við stökkbreytingar í p53, sem virðast furðu algengar og gætu einkennt undirhóp sjúklinga með flatskæning í munni, sem raunverulega eru í krabbameinsáhættu.

V 141 Leiðir til að auka leysni náttúruefna til prófana

á illkynja frumumÞórdís Kristmundsdóttir
1, Ólafur Axel Smith1, Kristín Ingólfsdóttir1, Helga Ögmundsdóttir21Lyfjafræðideild HÍ, 2Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði

thordisk@hi.isInngangur: Nokkur fléttuefni úr íslenskum fléttum hafa þegar sýnt áhugaverða in vitro vaxtarhindrandi verkun á ræktaðar illkynja mannafrumur. Fléttuefnin eru hins vegar mörg svo torleyst að erfitt er að leysa þau upp fyrir slíkar prófanir. Markmið verkefnisins var tvíþætt. Annars vegar að auka leysni torleystu fléttuefnanna (+)-usnínsýru og atranoríns með hjálparefnum, svo sem yfirborðsvirkum efnum, leysiefnablöndum og komplexmyndun. Hins vegar að skoða áhrif leysa á illkynja frumulínu (hvítblæðilínu K-562). Leitast var við að finna hentug leysiefni sem ekki hafa áhrif á vöxt illkynja frumna. Þeir leysar sem höfðu lítil áhrif á frumuvöxt voru notaðir til að leysa fléttuefnin til að meta frumudrepandi áhrif þeirra.

Efniviður og aðferðir: Leysni fléttuefnanna í mismunandi leysum við mismunandi sýrustig var metin með háþrýstivökvagreiningu. Virkni leysa og fléttuefna voru könnuð á frumuvöxt K-562. Áhrif efnanna voru mæld með [3H]-thymidínupptöku sem gefur mælikvarða á fjölda frumna í S fasa.

Niðurstöður: Mesta leysni (+)-usnínsýru var í óþynntu leysunum 2-fenoxyetanól og DMSO, en þessir leysar eru hins vegar óhentugir í frumuprófunum. Leysni atranoríns var mest í PEG400. Í frumuprófunum reyndust própylenglykól, PEG400 og 2-hydroxyprópyl-b-cyklodextrín (HPbCD) hafa minnst frumudrepandi áhrif. Atranorín hafði ekki virkni á frumlínuna í þeirri þéttni sem það var prófað en (+)-usnínsýra sýndi talsverða frumuhemjandi virkni á K-562, með ED50 gildið 4,7 mg/ml.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að hægt er að auka leysni torleystra plöntuefna með hjálparleysum eða breytingu á sýrustigi. Prófanir á áhrifum leysa á frumulínur sýndu að áhrif própylenglykóls, PEG400 og HPbCD voru ekki mikil og benda þessar niðurstöður til að hægt væri að nota þessa leysa við rannsóknir á virkni torleystra plöntuefna á illkynja frumulínur.

V 142 Gerð og skilgreining nýrrar brjóstaþekjufrumulínu frá sjúklingi með sterka fjölskyldusögu

Agla J.R. Friðriksdóttir1, Þórarinn Guðjónsson1, Margrét Steinarsdóttir2, Óskar Þ. Jóhannsson3, Helga M. Ögmundsdóttir11Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 2Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði, 3krabbameinsdeild Landspítala háskólasjúkrahúss

agla@krabb.isInngangur: Arfgengir áhættuþættir gegna mikilvægu hlutverki í myndun og framþróun brjóstakrabbameins. Um 15% brjóstakrabbameinssjúklinga á Íslandi hafa sterka fjölskyldusögu og um 8% af þeim hafa landnemabreytinguna 999del5 í brjóstakrabbameinsgeninu BRCA2. Þekjuvefur brjóstkirtils skiptist í innra lag af skautuðum kirtilþekjufrumum og ytra lag af vöðvaþekjufrumum. Brjóstakrabbamein á nánast alltaf upptök sín í kirtilþekjufrumunum. Mikill skortur er á brjóstaþekjufrumulínum frá sjúklingum með sterka fjölskyldusögu. Þessar frumulínur eru ómetanlegur efniviður til rannsókna á frumulíffræði og erfðafræði brjóstakrabbameina. Markmið þessarar rannsóknar (sem ekki er alveg lokið) er að búa til frumulínur úr þekjuvef brjóstakrabbameinssjúklinga með sterka fjölskyldusögu. Eftirfarandi er lýsing á gerð og skilgreiningu frumulínunnar A163.

Efniviður og aðferðir: Vefjabiti var fenginn úr brjóstaæxli sjúklings með sterka fjölskyldusögu en ekki með 999del5 stökkbreytinguna. Kirtilþekjufrumur voru einangraðar frá frumræktum með sértækum mótefnum gegn yfirborðsviðtökum á mótefnasúlu (miniMACS). Frumurnar voru gerðar ódauðlegar með innskoti á retrógenaferju, sem skráir fyrir human papilloma veiru-16 æxlisgenunum E6 og E7.

Niðurstöður: Frumulínan A163 hefur nú verið í rækt í tvö ár. Í fyrstu sýndi hún hefðbundna svipgerð kirtilþekju og snertitálmun í tvívíðum ræktum. Mótefnalitunin sýndi jákvæða svörun gegn sértækum brjóstaþekjukennipróteinum. Eftir að frumulínan hafði verið ræktuð í nokkurn tíma fóru að koma fram tvenns konar svipgerðir af frumum. Þessi munur var bæði útlitslegur og einnig var munur á próteintjáningu þessara tveggja frumuhópa. Próteintjáning þessara frumurækta sýndi bæði kirtilþekju- og vöðvaþekjusérhæfingu sem benti til að innan frumulínunnar væri að finna frumur með stofnfrumueiginleika.

Ályktanir: Áðurnefndur stofnfrumueiginleiki frumulínunnar A163 gerir hana að áhugaverðum efnivið til rannsókna á frumusérhæfingu í brjóstkirtli og myndun brjóstakrabbameina.

V 143 Notkun niðurbrotsrannsókna til að rannsaka sýklódextrínfléttur lyfja

Már Másson, Kristján Matthíasson, Þorsteinn LoftssonLyfjafræðideild HÍ

mmasson@hi.isInngangur: Niðurbrotsrannsóknir eru ein af mörgum aðferðum til að meta stöðugleika sýklódextrínfléttna. Við höfum rannsakað niðurbrot nokkurra lyfja í sýklódextrínlausnum. Sérstök áhersla var lögð á að kanna notagildi þessarar aðferðar til að ákvarða stöðugleikastuðul (Kc) fyrir sýklódextrínfléttur og einnig hvaða þættir hafa áhrif til að auka eða draga úr notagildi þessarar aðferðar.

Efniviður og aðferðir: Venjulega aðferðin fyrir niðurbrotsrannsóknir er sem hér segir: 15uL af metanól stofnlausn af lyfinu er bætt út í glas sem inniheldur 1,5mL af stuðpúðaðri sýklódextrínlausn eða hreinum stuðpúða, sem er haldið við fast hitastig með hitastýrandi grind. Með jöfnu millibili eru tekin sýni úr lausnunum og þau greind með HPLC. Fyrstu gráðu hraðafastarnir (kobs eða k0) má fá með línulegri nálgun, af náttúrulegum logariþma HPLC topphæðarinnar á móti tíma.

Niðurstöður: Niðurbrot klórambúsíls og indómetasíns var mælt við mismunandi sýklódextrínstyrk, pH og jónstyrk. Sýklódextrínfléttun hlífir lyfjunum við niðurbroti af völdum vatnsrofs. Við ákveðnar aðstæður sést allt að 100-föld aukning stöðugleika lyfjanna. Ólínulegar aðferðir eru betri en línulegar aðferðir þegar niðurbrotsgögn eru notuð til að ákvarða Kc og kc. Aðferðin er best þegar kc/k0 er lítil tala en er ekki eins nákvæm þegar þetta gildi nálgast einn. Nákvæmnin í ákvörðun á þessum föstum er meiri í tilviki klórambúsíls þar sem niðurbrotið er af fyrstu gráðu og ekki háð pH. Sýklódextrínfléttun virðist ekki hafa áhrif hvarfgang en verndandi áhrif sýklódextrínfléttunarinnar er háð jónun lyfjanna og ríkjandi hvarfgangi.

Ályktanir: Það er hægt að nota niðurbrotsrannsóknir til að fá upplýsingar um eðli sýklódextrínflétta. Í ákveðnum tilvikum er hægt að nota niðurbrotsrannsóknir til að ákvarða Kc með meiri nákvæmni en er mögulegt með öðrum aðferðum.

V 144 Efnasmíð og rannsóknir á eiginleikum metrónídazól forlyfja

Már Másson, Ólöf Guðrún Helgadóttir, Guillaume Médard, Þorsteinn Þorsteinsson, Þorsteinn LoftssonLyfjafræðideild HÍ

mmasson@hi.isInngangur: Við útvortis lyfjagjöf er helsta hindrunin í ysta lagi húðarinnar, hornhúðinni. Til að lyf komist í gegnum hornhúðina er æskilegt að það hafi tvíleysnieiginleika. Það þarf að vera fituleysanlegt, til að frásogast í húðina, og vatnsleysanlegt, til að leysast í gjafafasanum. Metrónídazól er vatnssækið lyf sem kemst treglega í gegnum húð. Við höfum áður sýnt fram á að það má auka flutning metrónídazóls í húð með forlyfjum sem eru fitusýruafleiður.

Efniviður og aðferðir: Í þessu verkefni voru smíðaðar mismunandi metrónídzólýl-súkksenatafleiður og forlyfjaeiginleikar þeirra rannsakaðir. Átta efni voru smíðuð og prófuð. Bygging og hreinleiki voru staðfest með 1H-NMR, 13C-NMR og HPLC.

Niðurstöður: Metrónídazólýl-súkksenatafleiðurnar voru stöðugar í súrri lausn en brotnuðu hratt niður í basískri lausn. Oktnól-vatnsdreifistuðullinn var á bilinu <0,05-4,4 við pH 7,4, en þetta gildi var hærra við hærra sýrustig. Flutningur metrónídazóls gegnum húð hárlausra músa var rannsakaður með própýlenglýkóli og fosfatstuðpúða, pH 5, sem gjafafasa. Best frásog metrónídazóls fékkst með forlyfjunum etýl-(metrónídazólsúkksenat) og oktýl- (metrónídazólsúkksenat) en mjög lítið frásog fékkst með forlyfjunum etýl-1,2-dímetrónídazólsúkksenat og glýserýl-1,2,3-trímetrónídzólsúkksenat.

Ályktanir: Það var hægt að nýta þessi forlyf til að fá aukna losun á metrónídazóli í húð hárlausra músa. Eingild (mono-functional) forlyf gáfu betri niðurstöður en tvígild og þrígild forlyf.

V 145 Þróun nýrra ensímhvarfefna fyrir rafefnafræðilega lífsækninema

Már Másson1, Ögmundur V. Rúnarsson1, Fjalar Jóhannsson1, Masuo Aizawa21Lyfjafræðideild HÍ, 2Tokyo Institute of Technology, Tokyo

mmasson@hi.isInngangur: Lífsækninemar sem byggja á rafefnafræðilegum ferjöldum hafa ýmsa kosti en það sem hefur hamlað þróun þeirra er skortur á heppilegum ensímhvarfefnum. Hér er greint frá efnasmíði fjögurra ensímhvarfefna og rannsóknum á notkunarmöguleikum þeirra fyrir lífsækninema sem byggja á rafefnafræðilegum ferjöldum.

Efniviður og aðferðir: Fjögur hvarfefni, 4-amínófenýlfosfat (4AFF), 4-hýdroxýnafþýl-1-fosfat (4HNF) og 4-amínónafþýl-1-fosfat (4ANF), sem eru hvarfefni fyrir alkalínskan fosfatasa (AlF) og 4-amínófenýl-b-D-galaktópýranósíð (4AFG), sem er hvarfefni fyrir galaktósíðasa (GA), voru smíðuð eins til þriggja skrefa efnasmíðaferlum. Eiginleikar efnanna voru rannsakaðir með hringstraumsspennumælingu og styrkur mældur með rafefnafræðilegu flæðisinnskotskerfi (AFIA kerfi).

Niðurstöður: Hringstraumsmælingarnar á myndefnum ensímhvarfanna sýna afturkræfan eða hálfafturkræfan elektrónuflutning. Hjá hvarfefnunum kemur fram óafturkræf oxun þar sem Eox er um það bil 500 mV hærri en Eo fyrir myndefni ensímhvarfsins. 4AF, sem er myndefni hvarfa 4AFF var mælt við 300 mV á móti Ag/AgCl. 4AN, myndefni hvarfa 4ANF og NQ, myndefni hvarfa 4HNF, voru mæld við -300 mV. 4AF sýndi 40% niðurbrot á 30 mínútum en NQ 5% og 4AN 10% niðurbrot í TRIS stuðpúða. Greiningarmörk NQ eru 60 nM og greiningarmörk ensímsins voru 300 fM þegar 4HNF er notað sem hvarfefni. 4AF í AFIA var hægt að greina niður í 50 nM og greiningarmörk fyrri GA 100 fM þegar 4AFG var notað sem hvarfefni. Sýnt var fram á notagildi þessara hvarfefna fyrir ELISA ónæmisefnamælingu.

Ályktanir: Kostur þessara nýju hvarfefna er að myndefnin hafa lágt Eo. Þessi hvarfefni eru því hentug fyrir ónæmisgreiningar þar sem mikil næmni og lítið interference er æskilegt.

V 146 Fiskiroð notað sem himnulíkan til að rannsaka áhrif sýklódextrína á flutning lyfja

Birna Vigdís Sigurðardóttir, Sigurður Daði Sigfússon, Már Másson, Þorsteinn LoftssonLyfjafræðideild HÍ

mmasson@hi.isInngangur: Sýklódextrín er hægt að nota til að auka flutning lyfja yfir lífrænar himnur. Sýklódextrín verka á annan hátt en hefðbundnir frásogshvatar þar sem þau auka flæðið í vatnsflæðilögum í himnunni en hafa engin áhrif á flæði í fitusæknum lögum. Vatnsflæðilagið í húð er ekki vel skilgreint en þó er líklegt að það sé tilkomið vegna flutnings lyfja með hársekkjum, svitaholum og í millifrumulagi. Það hefur skort hentugt himnulíkan til að rannsaka þessa tegund flæðis. Hér er greint frá rannsóknum á notkun fiskiroðs sem himnulíkans til að rannsaka þessa tegund flæðis.

Efniviður og aðferðir: Flæðið var ákvarðað með því að nota Franz diffusion cell. Fiskiroð ýmissa saltvatnsfiska var notað. Gjafafasinn innihélt lausn með efnum sem höfðu mólþyngdina 60-1300g/mól. Í þeim tilfellum þar sem lyf leystust illa var 2-hýdroxý-própýl-b-sýklódextrín sett í gjafafasann og móttökufasann.

Niðurstöður: Fiskiroðið var mjög gegndræpt fyrir mörgum efnasamböndum. Mælt flæði hýdrókortisóns (1% lausn) var tvisvar sinnum hægara en flæði í gegnum sellófanhimnur en 10.000 sinnum hraðara en flæði í gegnum slönguskinn. Breytileiki á flæði hýdrókortisóns innan tegunda var minni en 30% fyrir vatnslausnir. Steinbítsroð var notað til frekari rannsókna þar sem það var auðvelt í meðhöndlun og flæði gegnum það var frekar hratt. Gegndræpi fiskiroðsins minnkaði með aukinni mólþyngd en fitusækni hafði lítil áhrif á flæðið. Flæði veika basíska lyfsins lídókaíns var ekki háð sýrustiginu og fiskiroðið var gegndræpt fyrir náttúrulegu sýklódextríni. Flæði úr mettaðri hýdrókortisónlausn jókst með auknum sýklódextrínstyrk en yfirmagn af sýklódextrínum hafði ekki áhrif á flæðið.

Ályktanir: Fiskiroð er gott himnulíkan til að rannsaka áhrif sýklódextrína á flæði. Lyf flytjast um vatnsflæðilag í gegnum fiskiroð.

V 147 Slímhimnuviðloðandi kerfi byggt á katjónískri fjölliðu og anjónísku sýklódextríniHákon Hrafn Sigurðsson
1,2, Elín Knudsen1, Jóhanna F. Sigurjónsdóttir3, Þorsteinn Loftsson11Lyfjafræðideild HÍ, 2Íslensk erfðagreining, 3Íslenskar lyfjarannsóknir

hhs@hi.isInngangur: Sýklódextrín eru hringlaga fásykrungar sem geta aukið leysni ákveðinna fitusækinna lyfja í vatnslausnum með því að mynda svokallaðar gest-gestgjafa fléttur við lyfið. Að auki virðast sýklódextrín mynda fléttur við fjölliður og þá er um þrífléttu að ræða. Þessar fléttur geta verið jákvætt hlaðnar, ójónaðar eða neikvætt hlaðnar. Slímhimnur hafa yfirleitt einhverja hleðslu á yfirborði sínu og því er það verðugt rannsóknarverkefni að kanna jónískar verkanir á milli fléttnanna og slímhimnunnar.

Markmið: Að þróa slímhimnuviðloðandi kerfi sem byggir á katjónískri fjölliðu og anjónísku sýklódextríni. Einnig að kanna losun lyfs (tríklósan) úr þessu kerfi samanborið við svipuð kerfi án hlaðinna sameinda.

Efniviður og aðferðir: Losun tríklósans úr fjórum mismunandi samsetningum var könnuð. Tvær samsetningar voru seigar lausnir og tvær samsetningar voru þunnfljótandi lausnir með sömu samsetningu nema án seigjuaukandi fjölliðu. Seigu lausnirnar voru prófaðar með paddle aðferð og þunnfljótandi lausnirnar voru prófaðar með sérstakri flæðiselluaðferð.

Niðurstöður: Tríklósan myndar 1:1 fléttu við bæði HPbCD og SBEbCD. Seigjustig SBEbCD og HPbCD lausnanna mældist 1,1 and 1,9 mPas. Seigjustig seigu lausnanna var eins og sýndi pseudoplastic eiginleika. Losunarhraði tríklósans úr seigu lausnunum var helmingi meiri úr HPbCD lausnunum heldur en úr SBEbCD lausnunum. Flæðiselluaðferðin mældi bindingu samsetningarinnar við slímhimnu úr munnholi svína. Tríklósan hélst betur við slímhimnuna ef það var í SBEbCD/HDMBr lausn heldur en ef það var í HPbCD/HDMBr lausn.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að jónískar samverkanir milli anjónískra HDMBr fjölliðu og katjónísks SBEbCD sýklódextríns geti verið notaðar til þess að þróa slímhimnuviðloðandi lyfjalosunarkerfi.

V 148 Efnasmíði, bakteríu- og veiruvirkni, genaflutningur og stöðugleiki á mjúkum fjórgildum ammóníumefnum

Þorsteinn Þorsteinsson1,2, Már Másson1, Karl G. Kristinsson3, Martha A. Hjálmarsdóttir3, Hilmar Hilmarsson4, Þórir Benediktsson1, Þorkell Andrésson2, Þorsteinn Loftsson11Lyfjafræðideild HÍ, 2Íslensk erfðagreining, 3sýklafræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss, 4Líffræðistofnun HÍ

thorstt@hi.is Inngangur: Til þess að efni geti talist umhverfisvænt verður það að geta brotnað niður í náttúrunni án þess að valda einhverjum skaða. Fjórgild ammóníumefnasambönd hafa sýnt fram á góð bakteríudrepandi áhrif. Efnafræðileg uppbygging samanstendur af löngum fituhala sem er tengdur við skautaðan fjórgildan ammóníumhóp með efnafræðilega óstöðugu tengi. Mjúk bakteríudrepandi efnasambönd úr fituefnum, meðal annars úr fiskiolíu, voru búin til og virkni þeirra og eiginleikar prófaðir.

Efniviður og aðferðir: Sería af um 30 mjúkum bakteríudrepandi efnum var smíðuð og nokkur svipuð þekkt efni til viðbótar einnig prófuð. Efnin voru greind með NMR, HPLC og frumefnagreiningu til að ákvarða efnabyggingu og hreinleika. Þessi efni líkjast efnafræðilega (hermar) þekktum bakteríudrepandi efnum eins og cetýlpýridín-klóríði en geta brotnað niður mun auðveldar í umhverfinu. Virkni þessara efna gegn fjórum bakteríutegundum og einni veirutegund var rannsökuð. Götunaráhrif sumra efna á frumuhimnu til að auka flutning gena með lipofectamine plusTM, DEAE-dextran og beru DNA voru rannsökuð.

Niðurstöður: Mjúku efnin mældust með virkni (MIC) allt að 1 mg/ml gegn Staphylococcus aureus og sýndu góða virkni gegn Enterococcus faecalis og E. coli en minni virkni gegn Pseudomonas aeruginosa. Virkni gegn Herpes Simplex veiru var mjög góð og efnin sýndu mun minni eituráhrif gegn hýsilfrumunum. Genaflutningur var verulega aukinn fyrir lipofectamine plusTM.

Ályktanir: Mjúku bakteríudrepandi efnin náðu álíka góðri virkni og hefðbundin "hörð" bakteríudrepandi efni, en þessi efni brotna mun auðveldar niður í náttúrunni í óvirk efnasambönd og teljast umhverfisvæn. Einnig hafa þau sýnt fram á að þau geta aukið genaflutning verulega með hjálparefnum eins og lipofectamine plusTM.

V 149 Eðlislyfjafræðilegir eiginleikar og stöðugleiki nýrra, umhverfisvænna, mjúkra, bakteríudrepandi lyfja

Þorsteinn Þorsteinsson1,2, Már Másson1, Þorsteinn Loftsson11Lyfjafræðideild HÍ, 2Íslensk erfðagreining

thorstt@hi.isInngangur: Efnafræðileg uppbygging mjúkra lyfja sem við smíðuðum samanstendur af löngum fituhala sem er tengdur við skautaðan hóp með efnafræðilega óstöðugu tengi. Þessi efni líkjast efnafræðilega (hermar) þekktum bakteríudrepandi efnum, eins og cetýlpýridínklóríði og benzalkóníumklóríði, en geta brotnað niður mun auðveldar í umhverfinu. Mjúk lyf eru skilgreind sem líffræðilega virk efnasambönd (lyf) sem brotna niður með fyrirsjáanlegum hraða og hætti í líkamanum (in vivo) í óeitruð efni eftir að þau hafa haft tilætluð áhrif.

Efniviður og aðferðir: Eðlislyfjafræðilegir eiginleikar og stöðugleiki mjúkra bakteríudrepandi efna voru rannsakaðir. Þeir eðlislyfjafræðilegu eiginleikar sem voru rannsakaðir voru meðal annars yfirborðsvirkni og fitusækni. Í stöðugleikarannsóknum voru nokkur efni brotin niður við mismunandi pH, buffera, hitastig, skautun, ísótópa og þær niðurstöður notaðar til að áætla hvernig niðurbrotið á sér stað. Kannað var hugsanlegt samband milli virkni og eðlislyfjafræðilegra eiginleika.

Niðurstöður: Stöðugleiki efnanna var misjafn og fór það eftir nálægð tengis við skautaða hópinn. Þessi tengi voru rofin með bimolecular reaction í vatnslausnum. Niðurstöðurnar bornar saman við virkni gegn bakteríum og kom þá í ljós að helmingunartími (t1/2) efnanna þarf að vera >1,5 klukkustund við 60,0ºC og pH 6 til að hafa nægilega bakteríuvirkni.

Ályktanir: Mjúku bakteríudrepandi efnin náðu álíka góðri virkni og hefðbundin "hörð" bakteríudrepandi efni, en þessi efni geta brotnað mun auðveldar niður í náttúrunni í óvirk efnasambönd og geta því talist umhverfisvæn. Efnin mega ekki brotna of hratt niður vegna þess að áður en það gerist þurfa þau að ná tilætluðum áhrifum.

V 150 Samanburður á stöðugleika mónókapríns

í mismunandi lyfjaformum

Þórunn Ósk Þorgeirsdóttir1, Halldór Þormar2, Þórdís Kristmundsdóttir11Lyfjafræðideild og 2Líffræðistofnun HÍ

thoth@hi.isInngangur: Mónókaprín (1-mónóglýseríð af kaprínsýru) er eitt af mörgum náttúrulegum fituefnum sem sýnt hafa mikla virkni gegn ýmsum bakteríum og veirum. Hönnuð hafa verið lyfjaform, hlaup og lausnir, sem innihalda mónókaprín. Þar sem mónókaprín hefur takmarkaða leysni í vatni var notuð blanda leysis og yfirborðsvirks efnis til að ná því í lausn. Lyfjaformin hafa sýnt mikla virkni gegn bakteríum og veirum en mónókaprín reyndist ekki stöðugt í lausnum. Markmið verkefnisins var að kanna hvaða þættir hafa áhrif á stöðugleika mónókapríns í lausnunum.

Efniviður og aðferðir: Framleiddar voru lausnir og hlaup sem innihéldu mónókaprín. Breytur í forskriftunum voru magn leysisins própýlenglýkól svo og styrkur yfirborðsvirka efnisins pólýsorbat 20, en lausnirnar voru að auki framleiddar með og án antioxidants. Hlaupin og lausnirnar voru geymdar við 4, 30 og 60°C. Virkni mónókapríns í hinum ýmsu samsetningum á herpes simplex veiru af tegund 1 var könnuð (HSV-1) in vitro.

Niðurstöður: Breyting á hlutföllum leysis og yfirborðsvirks efnis hafði meiri áhrif á virkni mónókapríns gegn HSV-1 en á geymsluþol efnisins. Öll lyfjaformin sýndu mikla virkni gegn HSV-1 strax að lokinni framleiðslu svo og eftir geymslu í 15 vikur, að undanskildum þeim lyfjaformum sem innihéldu 3% pólýsorbat 20 og hvorki antioxidant né hlaupmyndandi efnið karbomer. Hvorki hærra hlutfall af leysinum própýlenglýkóli né viðbót antioxidants virðist auka geymsluþol lausnanna.

Ályktanir: Hlaupefnið karbomer virðist auka stöðugleika mónókapríns til muna þar sem geymsluþol hlaups er mun betra en samsvarandi lausnar. Stöðugleika mónókaprínlyfjaforma má einnig auka með geymslu í kæli. Niðurbrotsleið mónókapríns í lausn virðist þó ekki vera oxun þar sem íbót antioxidants bætir ekki stöðugleika þess.

V 151 Sýkladrepandi krem til notkunar á húð. Þróun

og prófanir

Þórunn Ósk Þorgeirsdóttir1, Halldór Þormar2, Þórdís Kristmundsdóttir11Lyfjafræðideild og 2Líffræðistofnun HÍ

thoth@hi.isInngangur: Nokkur mismunandi lyfjaform eru notuð til að gefa lyf á húð. Virkni lyfs sem gefið er í húðlyfjaformi er meðal annars háð samsetningu lyfjaformsins og því hvernig það losnar úr burðarefninu. Hlaup sem innihalda náttúrulega fituefnið mónókaprín hafa reynst virk gegn bakteríum og veirum. Hlaup er mjög heppilegt lyfjaform til lyfjagjafar á slímhúð þar sem góðir viðloðunareiginleikar eru nauðsynlegir. Mónókaprín hefur hins vegar mjög breiða örverudrepandi eiginleika og kæmi því til greina til notkunar við sýkingum á húð. Lyfjaformið krem gæti verið æskilegra en hlaup til notkunar á húð. Markmið þessa verkefnis var að kanna áhrif ýmissa breyta á eiginleika krems (o/v-fleytu) sem inniheldur mónókaprín.

Efniviður og aðferðir: Breytur í framleiðslu kremanna voru: mismunandi hjálparleysar (sorbítól og própýlenglýkól) í vatnsfasanum; hlutfall vatns og fitufasa; vatnsfasinn gerður þykkur með mismiklu magni af karbopoli; mónókaprín í vatnsfasa eða í fitufasa. Framkvæmdar voru virkniprófanir gegn herpes simplex veiru af tegund 1 (HSV-1) og gerð voru losunarpróf og viðloðunarpróf við gervihimnu á þeim kremum sem sýndu virkni gegn HSV-1.

Niðurstöður: Kremin þar sem mónókaprín var leyst upp í fitufasanum reyndust ekki virk gegn HSV-1 og kremin þar sem það var leyst upp í sorbítóli voru lítið virk. Kremin þar sem mónókaprín var leyst upp í própýlenglýkóli voru misjafnlega virk og jókst virknin með auknu karbomermagni. Niðurstöður sýndu að hlutfall fitufasa svo og karbomers í forskriftinni hafði áhrif á losun virka efnisins svo og virkni gegn HSV-1. Viðloðunarprófin sýndu að mónókaprín minnkar viðloðunareiginleika kremsins.

Ályktanir: Niðurstöður benda til að tekist hafi að þróa stöðugt krem en bæta má losun mónókapríns og virkni á örverur með litlum breytingum á formúleringu.

V 152 Notkun gervihimnu við mælingar

á slímhimnuviðloðun hlaupa

Eysteinn Ingólfsson1,2, Skúli Skúlason1,2, Þórdís Kristmundsdóttir21Líf-Hlaup ehf., 2lyfjafræðideild HÍ

skulis@hi.isInngangur: Ýmsar fjölliður hafa þá eiginleika að loða við líffræðilegan vef. Vaxandi áhugi er á að nota slíkar fjölliður í lyfjaform þar sem það gæti haft ýmsa kosti, einkum þá að á þennan hátt er hægt að staðbinda lyfið og tryggja langan snertitíma. Fjölliður sem loða vel við slímhúð hafa verið notaðar við gerð lyfjaforma til lyfjagjafar í munnholi, svo sem töflur, himnur eða hlaup. Nokkrar aðferðir hafa verið notaðar til að mæla slímhimnubindingu efna, en það in vitro líkan sem oftast er notað fyrir munnslímhúð er munnslímhúð svína, en henni svipar á margan hátt til munnþekjuvefs manna. Markmið þessarar rannsóknar var að þróa in vitro aðferð þar sem notuð væri gervihimna til að meta og spá fyrir um bindingu vatnshlaupa (hydrogel) við slímhúð.

Efniviður og aðferðir: Mismunandi gervihimnur (SpectraPhor; DuoDerm®) voru bornar saman við munnslímhimnur svína. Notaður var TA-XT2i texture analyser til að mæla viðloðunarkraft fjölliðuhlaupa (Carbopol 981, Carbopol 1382, xanthan og natríum carboxymethylcellulosa) við himnurnar.

Niðurstöður: Besta samsvörun gervihimnu við munnslímhúð fékkst þegar notuð var hýdrókollóíð himna (DuoDerm) sem 17% mucin var dreift yfir. Röð bindingar fjölliða við gervi- og lifandi himnur var sú sama. Samsvörun var allt að 98% fyrir Carbopol 981 mælt með svínaslímhúð og gervihimnu, samsvörun fór hins vegar minnkandi með lækkandi viðloðunarstyrk fjölliða.

Ályktanir: Mælingar á bindingu mismunandi fjölliðuhlaupa við hýdrókollóíð himnu með mucin lagi gefur mjög góða samsvörun við mælingar á bindingu við munnslímhúð svína. Samsvörun var betri eftir því sem binding fjölliðu var sterkari. Aðferðin gefur kost á að takmarka notkun dýraslímhúðar við mælingar á viðloðun fjölliða og getur þannig flýtt fyrir mælingum og dregið úr kostnaði sem fylgir notkun dýrahimna.

V 153 Þróun HPLC-mæliaðferðar til að greina doxýcýklín og niðurbrotsefni þess í vatnssæknu hlaupi og í sermi

Eysteinn Ingólfsson1,2, Skúli Skúlason1,2, Þórdís Kristmundsdóttir11Lyfjafræðideild HÍ, 2Líf-Hlaup ehf.

skulis@hi.isInngangur: Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að tetracýklínsýklalyfin hafa ekki einungis sýkladrepandi áhrif, heldur einnig hemjandi áhrif á ensímin matrix metallópróteinasa (MMP), en þessi verkun virtist vera alveg óháð sýklahemjandi áhrifum lyfjanna. MMP eru ensím sem gegna hlutverki í ónæmissvörun og bólgumyndun í líkamanum, svo sem í munnangri og tannholdsbólgu. Tetracýklín, og þá sérstaklega hálfsamtengdu afbrigðin doxýcýklín og mínócýklín, safnast upp í millifrumuvökva tannholds þannig að styrkur þeirra verður mun hærri þar en í sermi. Í ljós hefur komið að af tetracýklínlyfjunum hefur doxýcýklín mest hemjandi áhrif á MMP. Helstu markmið þessa verkefnis er að þróa einfalda magngreiningaraðferð fyrir doxýcýklín og niðurbrotsefni þess í smáskammta doxýcýklin (SSD) hlaupi svo og í sermi. Margar HPLC aðferðir hafa verið notaðar til að greina doxýcýklín í lyfjaformum en flestar eru þær tímafrekar og flóknar, sumar eru mjög dýrar og aðrar geta ekki greint á milli doxýcýklíns og niðurbrotsefna þess.

Efniviður og aðferðir: SSD hlaup var magngreint hreint og í sermi kinda með HPLC tækni og prófaðar voru mismunandi aðstæður og gerðir súlna við greininguna.

Niðurstöður: Til að magngreina doxýcýklín og niðurbrotsefnin 6-epídoxýcýklín og metacýklín reyndist best að nota Phenomenex® Luna 5 m C8 súlu með Phenomenex® C8 forsúlu, ferðafasi samanstóð af acetonitril:vatni:perklórsýru (26:74:0,25) sem stillt var á pH 2,5 með 5 M natríumhýdroxíði, flæðihraði var 1,0 ml/mín og greint var með U.V. gleypnimæli við 350 nm. Fyrstu niðurstöður benda til að þessa aðferð megi einnig nota til að skilja að önnur tetracýklínafbrigði.

Ályktanir: Kostirnir við þessa greiningaraðferð fyrir doxýcýklín og niðurbrotsefni þess eru að hún er áreiðanleg, einföld og ódýr, einkum í samanburði við aðferð Ph. Eur.

V 154 Flæðihraði sameinda gegnum einangraðar lyktarþekjur úr nautum

Brynjar Örvarsson1, Sighvatur Sævar Árnason2, Davíð Ólafsson3, Jóhannes Helgason3, Kristinn Johnsen3, Sigríður Ólafsdóttir3, Sveinbjörn Gizurarson1,31Lyfjafræðideild og 2Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 3Lyfjaþróun hf.

brynjar.orvarsson@lyfogheilsa.isInngangur: Aðgengi flestra lyfja inn í miðtaugakerfi er lítið eða ekkert vegna takmarkaðs flæðis yfir blóð/heila þröskuldinn. Lyktarþekjan efst í nefholinu er einn sá staður líkamans þar sem frumur miðtaugakerfisins eru í beinni snertingu við ytra umhverfi. Rannsóknir in vivo benda til þess að hægt sé að gefa lyf úr nefholi um lyktarþekjuna inn í miðtaugakerfið. Í þessari rannsókn var sett upp in vitro kerfi til að mæla samband mólþunga og flæðihraða sameinda yfir lyktarþekju úr nautgripum. Ennfremur voru notaðar raflífeðlisfræðilegar aðferðir til að meta lifun þekjunnar.

Efniviður og aðferðir: Lausnir af fjórum mismunandi fluorescein isothiocyanate (FITC) merktum dextrönum (FD) með mólþunga á bilinu 4 til 150 kDa, voru settar á holhlið einangraðra lyktarþekja sem komið var fyrir í láréttum Ussing kerjum. Sýni voru tekin úr móttökulausninni á blóðhlið þekjunnar og styrkur FD sem fall af tíma ákvarðaður með mælingum á flúrljómun. Rafvirkni þekjanna var mæld með spennuþvingunartækni bæði fyrir og eftir ásetningu FD. Sértækir hindrar, ouabain (2 mM) og amílóríð (100 mM), voru notaðir til að meta tilvist og virkni Na+/K+-ATPasa og Na+-ganga.

Niðurstöður og ályktanir: Mælingar á rafvirkni þekjanna sýndi að lifun lyktarþekja úr nautgripum í Ussing keri var að minnsta kosti sex klukkustundir. Viðbrögð lyktarþekjanna við hindrunum sýndu að þær hafa ouabain-næman Na+/K+-ATPasa á blóðhlið og amílóríðnæm Na+-göng á holhlið þekjunnar. Allar stærðir af merktum dextrönum sem prófaðar voru mældust í móttökulausninni en breytileiki var mikill í flæðihraða innan hvers stærðarflokks. Flæðihraði efnanna yfir himnuna minnkaði mikið með vaxandi mólþunga þannig að merktar 4 kDa sameindir flæddu að meðaltali með 1,9 mg/mín/ cm2, 20 kDa með 1,0 mg/mín/cm2 og 150 kD með 0,1 mg/mín/cm2 hraða gegnum himnur sem sýndu rafvirkni.

V 155 Einangrun anthrakínón afbrigðis úr klettaglæðu, Xanthoria_elegans_>Xanthoria elegans

Kristín Ingólfsdóttir1, Anna Sif Paulson1, Hörður Kristinsson21Lyfjafræðideild HÍ, 2Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyrarsetur

kring@hi.isInngangur: Annars stigs efni (secondary metabolites) sem myndast í fléttum gegna oft hlutverki varnarefna gegn örverum og skordýrum, enda vaxa fléttur hægt og við erfið skilyrði. Í fyrri rannsóknum hafa annars stigs efni úr flokki depsíða, trídepsíða, orsínól afbrigða, depsídóna, alkylamíða og fitusýrulaktóna verið einangruð úr íslenskum blaðfléttum (meðal annars fjallagrösum, dílaskóf, geitanafla) og runnfléttum (meðal annars grábreyskju, hreindýrakrókum) og hafa mörg þeirra sýnt áhugaverða lífvirkni, svo sem sýklahemjandi-, veiruhemjandi-, lípoxýgenasahemjandi- og vaxtarhindrandi áhrif á illkynja frumur. Rannsóknir okkar hafa ekki áður beinst að hrúðurfléttum eða fléttum eins og klettaglæðu (Xanthoria elegans), sem er sterk-appelsínugul skóf sem vex á klettum og steyptum veggjum.

Efniviður og aðferðir: Útdráttur var gerður á malaðri klettaglæðu í Soxhlet búnaði. Útdrátturinn var þáttaður (fractionated) með kíselgel-súluskiljun (súla A) þar sem ferðafasi var díklórmetan með vaxandi styrk metanóls. Einn af þeim þáttum sem skilinn var á súlu A var aðgreindur á annarri súlu (súlu B). Af súlu B greindist þáttur sem innihélt hreint efni á formi appelsínugulra nála.

Niðurstöður: Kjarnarófsmælingar (1H NMR og 13C NMR) sýndu að einangraða efnið var anthrakínón afbrigði (C16H12O5); 1,8-díhydroxy-3-metyl-6-metoxy-9,10-anthracendíón, öðru nafni paríetín.

Ályktanir: Þetta er fyrsta efni úr flokki anthrakínóna sem einangrað hefur verið úr íslenskri fléttu. Anthrakínón afbrigði eru mörg þekkt sem litarefni en einnig vegna áhugaverðrar lífvirkni. Einangrunarferill sá sem hér var þróaður verður því notaður til að tryggja meira magn paríetíns fyrir fjölþættar virknimælingar. Jafnframt er stefnt að efnagreiningu annarra fléttutegunda glæðuættar (Teloschistaceae), svo sem veggjaglæðu (X. parietina) og hellisglæðu (X. sorediata).

V 156 Notkun lausasölulyfja, náttúruefna og bætiefna. Hönnun og prófun spurningalistaAnna Birna Almarsdóttir
1, 2, Magnús Sigurðsson21Lyfjafræðideild HÍ, 2Íslensk erfðagreining

annaba@hi.isInngangur: Lítið er vitað um notkun náttúru- og fæðubótarefna, vítamína, stein- og snefilefna auk lausasölulyfja á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var í fyrsta lagi að hanna og prófa spurningalista sem ætlaður er til rannsókna á notkun ofangreindra efna og lyfja og í öðru lagi að gera könnun á notkun þeirra.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti um notkun ofangreindra efna síðustu tvær vikur var hannaður. Að því loknu var hann prófaður í þrem áföngum í febrúar og mars 2002. Fyrstu tveir áfangarnir voru framkvæmdir með lítinn hóp þátttakenda (10 og 30 manns). Í þriðja áfanganum var spurningalistinn sendur til 350 manna slembiúrtaks af lista Hjartaverndar.

Helstu niðurstöður: Almennt gekk þátttakendum vel að svara spurningalistanum og voru einungis gerðar smávægilegar breytingar á honum milli prófunaráfanganna. Svarhlutfall í þriðja áfanga var 64,7%. Náttúru- og fæðubótarefni voru notuð af 46,8% þeirra sem svöruðu spurningalistanum og var notkunin heldur meiri meðal kvenna. Vítamín, stein- og snefilefni notuðu 75,9% svarenda og reyndist notkunin mest meðal eldra fólks (>60 ára). Notkun lausasölulyfja var 69,5% og var mjög lítill munur á notkun milli kynja og aldurshópa. Algengustu lausasölulyfin voru íbúprófen, parasetamól með kódeini og lágskammta magnýl. Mest notuðu náttúru- og fæðubótarefnin voru hvítlaukur, glúkósamín+kondríotín og grænt te. Í flokki vítamína, stein- og snefilefna bar lýsi af, ásamt fjölvítamínum.

Ályktanir: Spurningalistinn virðist vel nothæfur eftir þessa rannsókn. Enginn staðalspurningalisti er til sem nota má til viðmiðunar. Frekari rannsóknir þarf að framkvæma til að gilda og meta áreiðanleika hans í stærra úrtaki. Notkun náttúru-, fæðubótarefna, vítamína, stein- og snefilefna auk lausasölulyfja virðist meiri en rannsóknir framkvæmdar erlendis hafa sýnt.

V 157 Azíþrómýcín breytir rafviðnámi í þekjuvef

lungna
in_vitro_>in vitro

Ólafur Baldursson1, Guðmundur H. Guðmundsson21Lyflækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2Líffræðistofnun HÍ

olafbald@landspitali.isInngangur: Erýþrómýcín í lágum skammti (400 mg/dag) bætir líðan og lungnastarfsemi sjúklinga með dreifða fjölberkjubólgu (diffuse panbronchiolitis). Þetta leiddi til rannsókna á notkun makrólíðsýklalyfja meðal sjúklinga með slímseigju (cystic fibrosis). Í nýlegri lyfleysu-, slembi- og samanburðarrannsókn á sjúklingum með slímseigju kom í ljós að azíþrómýcín (250 mg) bætti líðan og lungnastarfsemi. Pseudomonas aeruginosa er helsti sýkingarvaldur þessara sjúklinga en makrólíðsýklalyf eru hins vegar ekki kjörlyf gegn þessari bakteríu. Það er því óljóst með hvaða hætti makrólíðsýklalyf koma að gagni í þessum tilfellum. Grunnrannsóknir benda til að jónasamsetning vökvaþynnu ofan á þekjuvef lungna hafi áhrif á sýkingar í berkjum.

Efniviður og aðferðir: Azíþrómýcín breytir rafhrifum í þekjuvef lungna. Við mældum þessi áhrif með því að koma þekjuvef lungna fyrir í Ussing hylkjum. Við mældum straum (short circuit current), spennu og viðnám (transepithelial resistance) yfir þekjuvefinn fyrir og eftir íkomu azíþrómýcíns (100-500 mg/ml). Ýmist var mælt strax eftir íkomu lyfsins ofan á þekjuna eða 22 klukkustundum eftir íkomu lyfs undir þekjuna. Amílóríði, DIDS, forskólíni, IBMX og búmetaníði var beitt til þess að hafa áhrif á natríum- og klóríðjónagöng.

Niðurstöður: Azíþrómýcín í mjög háum skammti (500 mg/ml) olli því að viðnám minnkaði mjög hratt, sem samrýmist best skemmdum á þekjunni. 100 mg/ml ofan á þekjuna höfðu engin áhrif. Hins vegar jókst viðnám þekjunnar talsvert eftir 22 klukkustunda dvöl azíþrómýcíns (100 mg/ml) undir henni (n=3).

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að azíþrómýcín auki rafviðnám lungnaþekju. Til að staðfesta þetta þarf fleiri tilraunir. Ef þetta reynist rétt er um nýja verkun makrólíða að ræða, sem gæti átt þátt í að skýra óvænta verkun þeirra í sjúklingum með slímseigju og verkun þeirra í pseudomonas berkjubólgu almennt.

V 158 Erfðabreytileiki í MCP-1 og CCR2 og kransæðasjúkdómar

Kristjana Bjarnadóttir1, Guðný Eiríksdóttir1, Vilmundur Guðnason1,21Rannsóknarstöð Hjartaverndar, 2læknadeild HÍ

kristjana@hjarta.isInngangur: MCP-1 (monocyte chemotactic protein-1) er efnatogi fyrir einkjörnunga og hefur fundist hækkað í sjúklingum með bráða kransæðastíflu og sjúklingum með hvikula hjartaöng. OxLDL getur kallað fram MCP-1. MCP-1 binst og örvar CCR2 viðtaka. Mýs sem skortir genið fyrir MCP-1 eða genið fyrir CCR2 viðtakanum hafa mun minni söfnun fitu í æðaveggjum og einnig mun færri átfrumur í ósæðaveggjum. MCP-1 finnst í auknu magni í æðakölkunarskellum í mönnum. Þetta bendir til þess að söfnun einkjörnunga í gegnum samspil MCP-1 og CCR2 hafi þýðingu við myndun æðakölkunar. Áður hefur fundist hækkuð tíðni GG í stöðu -2518 á stýrisvæði MCP-1 gensins í tilfellahóp. Í þessari rannsókn var kannað hvort breytileikinn A/G í stöðu -2518 á stýrisvæði MCP-1 gensins eða breytileikinn G/A í stöðu 190 í CCR2 geninu hefði áhrif á tilhneigingu manna til að mynda æðakölkun.

Efniviður og aðferðir: Rannsakaðir voru þrír hópar: 1. Viðmiðahópur 1950 heilbrigðra einstaklinga. 2. Tilfellahópur 530 einstaklinga sem lifað hafa af kransæðastíflu. 3. Almennt þýði 330 einstaklinga á aldrinum 16-60 ára. Arfgerðargreining var gerð með PCR, skerðiensímum og rafdrætti á MADGE gelum.

Niðurstöður: Tíðni A allels í MCP-1 var 0,65 en G allels 0,35 í viðmiðahópi. Tíðni G allels í CCR2 var 0,91 en tíðni A allels 0,09. Tíðni arfgerða var í öllum tilfellum í Hardy Weinberg jafnvægi. Ekki reyndist marktækur munur á tíðni arfgerða milli tilfellahóps, viðmiðahóps og almenns þýðis p=0,64 fyrir breytileikann í MCP-1 og p=0,89 fyrir breytileikann í CCR2.

Ályktanir: Erfðabreytileiki í stöðu -2518 á stýrisvæði MCP-1 gensins og í stöðu 190 í CCR2 geninu hefur ekki áhrif á tilhneigingu manna til myndunar æðakölkunar.

V 159 Breytingar í p53 og BRCA2 genum í stórum óvöldum hópi brjóstakrabbameinssjúklingaSigfríður Guðlaugsdóttir1, Hólmfríður Hilmarsdóttir1, Jón Gunnlaugur Jónasson2,4, Baldur Sigfússon3, Laufey Tryggvadóttir2, Helga M. Ögmundsdóttir1,4, Jórunn Erla Eyfjörð1,41Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 2Krabbameinsskrá, 3Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands, 4Háskóli Íslands

jorunn@krabb.isInngangur: Talið hefur verið að stökkbreytingar í p53 geni séu nauðsynlegt skref í æxlisþróun hjá arfberum BRCA kímlínubreytinga. Fyrri rannsóknir okkar og annarra hafa sýnt hærri tíðni p53 stökkbreytinga í æxlum BRCA arfbera en þeirra sem ekki hafa slíkar breytingar. Dreifing stökkbreytinga innan p53 gensins virðist einnig ólík. Langflestar p53 stökkbreytingar í brjóstaæxlum finnast á svokölluðum hotspot svæðum innan gensins. Í BRCA arfberum virðist dreifingin önnur.

Efniviður og aðferðir: Sýni úr 1283 brjóstakrabbameinsæxlum voru skoðuð með tilliti til stökkbreytinga í BRCA2 og p53 genum auk p53 próteinlitunar. Landnemabreyting 999del5 í BRCA2 var greind með PCR og rafdrætti. Stökkbreytingar í táknröðum 5-8 í p53 geninu voru greindar með CDGE og þær staðfestar með raðgreiningu. Að auki voru allar táknraðir p53 raðgreindar í sýnum með BRCA2 kímlínubreytingu (n=87).

Niðurstöður og ályktanir: Aukin tíðni p53 stökkbreytinga fannst í brjóstaæxlum arfbera BRCA2 kímlínubreytingar miðað við þá sem ekki hafa breytinguna. Munurinn er þó ekki tölfræðilega marktækur. Raðgreining á öllu p53 geninu bætti aðeins við þremur stökkbreytingum í BRCA2 arfberum. Marktækt fleiri p53 stökkbreytingar fundust á non-hotspot svæðum hjá BRCA2 arfberum en í heildarhópnum. Dreifing p53 stökkbreytinganna var hins vegar eins hjá heildarhópnum og þeim sem höfðu sterka fjölskyldusögu um brjóstakrabbamein en voru ekki BRCA2 arfberar. Þessar niðurstöður benda til að "vægari" breytingar í p53 geni geti leitt til æxlismyndunar í BRCA2 arfberum en í einstaklingum án BRCA kímlínubreytinga. P53 breytingar í æxlisvef tengdust stigun æxla þannig að þær greindust oftar í lengra gengnum æxlum.

V 160 Ræktun á riðuþolnu sauðfé

Stefanía Þorgeirsdóttir1, Steinunn Jóhannsdóttir1, Sigurður Sigurðarson2, Ástríður Pálsdóttir11Tilraunastöð HÍ í meinafræði og 2rannsóknadeild dýrasjúkdóma að Keldum

steinaj@hi.isInngangur: Sauðfé er misnæmt fyrir riðu eftir arfgerð príongensins. Sauðfé með arfgerðina AHQ (táknar 136,154 og171) virðist hafa vernd gegn riðu en sauðfé með arfgerðina VRQ er mjög næmt fyrir riðu. Það hefur einnig sýnt sig að sauðfé sem er með sjaldgæfan breytileika í tákna 151(R/C) hefur aldrei greinst með riðu. Bærinn Hjarðarfell á Snæfellsnesi er á riðulausu svæði og selur fé til fjárskipta á riðubæi. Á Hjarðarfelli er óvenju hátt hlutfall af sauðfé með þessar hagstæðu arfgerðir og stefnir bóndinn þar að því að auka tíðni þessara hagstæðu arfgerða en útrýma áhættuarfgerðinni úr hjörðinni og byggja þannig upp riðuþolinn stofn til að nýta í frekari kynbótum. Markmiðið er að nota þennan stofn til fjárskipta á riðubæi eftir riðufaraldur.

Efniviður og aðferðir: Blóðsýni úr 74 kindum voru tekin, DNA var einangrað og príongenið magnað upp. Síðan voru skerðiensím notuð til að greina breytileika í táknum 136, 151 og 154. Tíðni mismunandi arfgerða var skoðuð og borin saman við fyrri athuganir á þessari hjörð.

Helstu niðurstöður og ályktanir: Af þessum 74 kindum voru 11 með valín í tákna 136 (14,86%), átta með histidín í tákna 154 (10,81%) og sjö með cystein í tákna 151 (9,46%), þar af var ein kind arfhrein um cystein (C/C). Fyrri rannsókn frá 1998 á 40 kindum sýndi aðeins lægra hlutfall áhættuarfgerðar í hjörðinni (10%) en þó nokkuð hærra hlutfall verndandi arfgerða (37,5% með H-154 og 20% með C-151). Þessar niðurstöður benda til að tíðni ákveðinna arfgerða innan einnar hjarðar geti breyst á skömmum tíma.

V 161 Leit að einkennalausum smitberum riðu. Rannsókn á sambandi arfgerða príongensins og uppsöfnunar riðusmitefnis

Stefanía Þorgeirsdóttir1, Guðmundur Georgsson1, Eyjólfur Reynisson1, Sigurður Sigurðarson2, Ástríður Pálsdóttir11Tilraunastöð HÍ í meinafræði og 2rannsóknadeild dýrasjúkdóma að Keldum

stef@hi.isInngangur: Rannsóknir okkar á basabreytileika innan príongensins (PrP) í íslensku sauðfé hafa sýnt að arfgerðin VRQ er tengd auknu næmi fyrir riðusmiti, en AHQ arfgerðin virðist bera í sér verndandi eiginleika (Þorgeirsdóttir, et al. J Gen Virol 1999; 80: 2527-34). Markmið þessarar rannsóknar var meðal annars að athuga hvort einkennalausir smitberar riðu fyndust meðal þeirra kinda sem bæru verndandi arfgerð hvað varðar riðunæmi.

Efniviður og aðferðir: Sýni úr einni riðuhjörð (n=65) voru greind með tilliti til PrP arfgerðar (skerðibútagreining, bræðslugel og raðgreining) og riðusmits (vefjameinafræði og ónæmislitun/blottun fyrir PrPSc).

Helstu niðurstöður: Fimm kindur, tveggja til þriggja ára, voru með klínísk einkenni riðu auk einkennandi vefjaskemmda í heila, en merki um sýkingu greindust í 25 af 60 einkennalausum kindum með einhverri af ofantöldum aðferðum, en þær kindur voru á aldrinum 1-10 ára. Riðusmitefnið (PrPSc) fannst síðan í 23 þeirra með ónæmislitun, en 19 með ónæmisblottun (ein ekki prófuð). Tíðni áhættuarfgerðar reyndist óvenjuhá innan þessarar hjarðar, 53,8% borið saman við 15-20% almennt, en meðal kinda með staðfesta sýkingu var tíðnin enn hærri, 80% meðal klínísk jákvæðra og 86,4% af hinum einkennalausu. Sjaldgæfur breytileiki í tákna 151 (R151C) fannst einnig í óvenjuhárri tíðni, 24,5%, en aðeins í einni kind með riðusmitefni. Engin þeirra kinda sem reyndust PrPSc jákvæðar báru hins vegar AHQ arfgerðina (Þorgeirsdóttir, et al. Arch Virol 2002; 147: 709-22).

Ályktanir: Niðurstöður okkar benda ekki til að íslenskar kindur með AHQ arfgerð séu einkennalausir smitberar riðu og teljum við óhætt að mæla með fjölgun þeirra með kynbótum til varnar riðusmiti. Einnig er mikilvægt að draga úr tíðni áhættuarfgerðarinnar, VRQ, einkum á svæðum þar sem riða er landlæg.V 162 Mitf umritunarþátturinn í ávaxtaflugunni Drosophila_melanogastera_>Drosophila melanogasteraJón H. Hallsson
1,3, Benedikta S. Hafliðadóttir1,2, Heinz Arnheiter3, Francesca Pignoni2, Eiríkur Steingrímsson1,41Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 2MEEI, Harvard Medical School, Boston, 3NINDS, NIH, Bethesda, Maryland, 4Urður, Verðandi, Skuld

eirikurs@hi.isInngangur: Microphthalmia genið skráir fyrir umritunarþættinum Mitf sem er í MYC fjölskyldu basic Helix-Loop-Helix Leucine Zipper próteina (bHLHZip). Mitf gegnir mikilvægu hlutverki fyrir fjölmargar frumutegundir, einkum í þroskun litfrumna í húð og auga (retinal pigment epithelium). Hér athugum við hlutverk Mitf gensins í ávaxtaflugunni Drosophila melanogaster.

Efniviður og aðferðir: Mitf gen Drosophilu (dMitf) fannst þegar vel varðveitt hneppi Mitf próteinsins úr mús var notað til að leita í gagnagrunnum. RNA in situ hýbrisering var notuð til að skilgreina tjáningu dMitf gensins í Drosophilu. Frumuræktartilraunir voru notaðar til að rannsaka virkni dMitf próteinsins og bera saman við þekkta virkni Mitf úr mús. Einnig var dMitf genið yfirtjáð í auga Drosophilu með því að útbúa transgenískar flugur.

Niðurstöður: Við höfum sýnt að bygging Mitf gensins er varðveitt í flugunni auk þess sem tjáning gensins er að hluta til varðveitt. dMitf genið er tjáð í ósérhæfðum frumum augndisksins í flugunni líkt og í mús. Eins og í auga músarinnar hverfur tjáning þessi þegar sérhæfing frumnanna hefst og til verða taugafrumur. Tilraunir sýna að dMitf próteinið er staðsett í kjarna, það bindst sömu DNA bindisetum og Mitf úr mús og á samskipti við sambærileg prótein og músagenið. Yfirtjáning dMitf í öllum frumum augans hindrar myndun augans.

Ályktanir: Í hryggdýrum er eitt hlutverk Mitf að bæla starfsemi Pax6 gensins í þeim frumum augans sem ekki verða taugafrumur. Ef virknin er eins í Drosophilu er líklegt að svipgerðin sem sést þegar dMitf er yfirtjáð í auganu sé vegna hindrunar dMitf á starfsemi Pax6 en það er lykilgen í augnþroskun allra sjáandi lífvera. Bygging og hlutverk Mitf gensins er því líklega varðveitt í þroskun augans í Drosophilu.

V 163 Er virkni Mitf umritunarþáttarins stjórnað

með SUMO-leringu?

Karen Pálsdóttir1, Gunnar J. Gunnarsson2, Jón H. Hallsson1, Alexander Schepsky1, Eiríkur Steingrímsson1,21Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 2Urður, Verðandi, Skuld

eirikurs@hi.isInngangur: Microphthalmia genið tjáir fyrir Mitf próteininu sem er basic Helix-Loop-Helix-leucine zipper umritunarþáttur. Mitf hefur áhrif á þroskun ýmissa frumugerða, svo sem litfrumna, mastfrumna, beinátfrumna og litfrumna augans. Fjölmargar stökkbreytingar eru þekktar í Mitf geni músar og hafa þær veitt okkur mikilvæga innsýn í starfsemi próteinsins. Til að auka enn frekar skilning okkar á virkni Mitf próteinsins höfum við notað tvíblendingskerfi í gersvepp til að einangra samstarfsþætti Mitf próteinsins. Meðal þeirra þátta sem einangraðir voru eru nokkur mismunandi Pias prótein (protein inhibitor of activated STAT) en þau eru þekkt sem stjórnprótein umritunarþátta af fjölskyldu STAT próteina. Nýlegar rannsóknir benda til að Pias gegni hlutverki SUMO E3 lígasa og miðli áhrifum á samstarfsprótein sín með því að festa á þau SUMO-hóp, en það eru próteinskyld ubiquitin. Hér athugum við samskipti Mitf og Pias próteina með sameindalíffræðilegum aðferðum.

Efniviður og aðferðir: Til að meta samvirkni Mitf og Pias próteina var tvíblendingskerfi í gersvepp notað ásamt b-galactosíðasa fílter prófi og GST pulldown. Notast var við Mitf úr mús og ávaxtaflugu til að skoða þróunarlega varðveislu samstarfsins milli þessara próteina. SUMO-lering Mift próteinsins var athuguð í frumuræktartilraunum með próteinsamfellingu og með því að nota confocal smásjá til að ákvarða hvort þau eru á sama stað í kjarna.

Niðurstöður: Rannsóknir okkar hafa staðfest samvirkni Mitf og þriggja próteina af Pias fjölskyldunni, það er Miz1, Pias1 og Pias3. Við höfum auk þess einangrað vel varðveitt svæði í Pias próteinunum sem virðast gegna lykilhlutverki í samskiptum Mitf og Pias.

Ályktanir: Tilraunir okkar benda til að Mitf próteinið sé SUMO-lerað en ekki er enn ljóst hvert hlutverk SUMO-hópsins er í starfsemi Mitf.

V 164 Staðsetning á geni sem stuðlar að sóragigt

og erfist aðallega gegnum karllegg

Ari Kárason1, Jóhann E. Guðjónsson2, Rudi Upmanyu1, Arna Antonsdóttir1, Valdimar B. Hauksson1, Hjaltey Rúnarsdóttir1, Hjörtur Jónsson1, Daníel Guðbjartsson1, Michael C. Frigge1, Augustine Kong1, Kári Stefánsson1, Jeffrey Gulcher1, Helgi Valdimarsson21Íslensk erfðagreining, 2ónæmisfræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss

helgiv@landspitali.isInngangur: Nokkrum litningasvæðum hefur verið lýst með genum sem tengjast sóra. Hins vegar hefur ekkert þessara gena verið tengt sóragigt sem hrjáir um 20% sórasjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Klínísk skoðun og erfðafræðileg tengslagreining var gerð á 906 sjúklingum með sóra, þar af höfðu 178 sóragigt og reyndist unnt að tengja 100 þeirra í 39 fjölskyldur. Unnið var úr niðurstöðum tengslagreiningarinnar með Allegro forriti.

Niðurstöður: Tengsl við sóra fundust á langa armi 16. litnings (LOD skor 2,17). Þegar tengslagreiningin var miðuð við erfðir gegnum karllegg hækkuðu þessi tengsl upp í 4,19 en reyndust ekki vera nema 1,03 þegar miðað var við erfðir gegnum kvenlegg.

Ályktanir: Gen á langa armi 16. litnings virðist stuðla að sóragigt. Þetta gen virðist eiga mun greiðari leið til afkvæmis frá föður en frá móður.* Þessar niðurstöður munu birtast í American Journal of Human Genetics í janúar 2003.

V 165 Eyðing litningaenda og endasamruni litninga í brjóstaæxlum

Sigríður Klara Böðvarsdóttir1, Margrét Steinarsdóttir2, Hólmfríður Hilmarsdóttir1, Katrín Guðmundsdóttir1, Sigfríður Guðlaugsdóttir1, Kesara Anamathawat-Jónsson3, Jórunn E. Eyfjörð1,31Rannsóknarstofa Krabbameinsfélag Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 2Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði, 3Háskóli Íslands

skb@krabb.isInngangur: Eyðing litningaenda á sér stað í hverri frumuskiptingu. Ef galli verður í stjórnun frumuhringsins veldur það streituástandi og stjórnlausri frumuskiptingu með áframhaldandi eyðingu litningaenda. Pökkun litningaenda skerðist við eyðingu þeirra og standa þeir þá eftir óvarðir líkt og tvíþátta DNA brot. Fruman reynir að gera við opna enda sem leiðir oft til endasamruna litninga og þar með myndunar hringlaga litninga og litninga með tvö eða fleiri þráðhöft. Þegar slík fruma fer í skiptingu brotna litningarnir upp og ólíkum brotum er skeytt saman sem ýtir undir myndun flókinna litningagalla. Markmið rannsóknarinnar er að kanna tengsl endaeyðingar litninga við aukinn litningaóstöðugleika í brjóstaæxlum; meta endasamruna litninga með tilliti til endaeyðingar og aukins litningaóstöðugleika; og kanna hugsanleg áhrif stökkbreytinga í p53 og BRCA2 á endaeyðingu litninga og aukinn litningaóstöðugleika.

Efniviður og aðferðir: Alls voru 82 brjóstaæxli valin til rannsóknarinnar sem öll hafa litningagalla greinda með G-böndun. Endaeyðing litninga var greind með slot-blot aðferð og miðaðist við meira en 50% eyðingu. Endasamruni litninga var greindur. p53 stökkbreytigreining var gerð á táknröðum 5-8 með CDGE aðferð og raðgreiningu og greint fyrir 999del5 BRCA2 kímlínubreytingunni.

Niðurstöður og ályktanir: Nánast helmingur æxlanna sýndi endaeyðingu samanborið við staðla og tvö æxli sýndu mögnun á litningaendum. Aðeins lítill hluti aðlægs brjóstavefs sýndi endaeyðingu litninga. Endasamruni litninga greindist í um 30% brjóstaæxlanna og í sumum tilfellum mátti greina anafasabrýr milli kjarna í lok frumuskiptingar. Brjóstaæxli með p53 stökkbreytingu tengjast auknum litningafjölda, ásamt endaeyðingu litninga og endasamruna. BRCA2 breytingar tengjast hins vegar litningayfirfærslum en ekki auknum litningafjölda og endaeyðingu.

V 166 Áhrif fjölbreytni í viðgerðargenum á sýnd BRCA2 breytinga

Valgerður Birgisdóttir1, Katrín Guðmundsdóttir1, Guðríður H. Ólafsdóttir2, Laufey Tryggvadóttir2, Jórunn E. Eyfjörð1,31Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði og 2Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 3læknadeild HÍ

valgerdurb@krabb.isInngangur: Rannsóknir hafa sýnt að arfberar BRCA2 breytinga eru í aukinni áhættu að fá brjóstakrabbamein. Áhættan virðist hins vegar vera mismikil sem bendir til þess að ákveðnir erfða-/ og eða umhverfisþættir hafi áhrif á sýnd BRCA2 breytinga. Hvaða þættir þetta eru er ekki ljóst en markmið þessarar rannsóknar er að kanna hvort fjölbreytni (polymorphism) í viðgerðargenunum XRCC1, XPD og RAD51 hafi áhrif á sýnd BRCA2 breytinga.

XRCC1 genið skráir fyrir próteini sem tekur þátt í basa skerðiviðgerðarferlinu (BER). Þekktur er amínósýrubreytileiki Arg-Gln í tákna 399 og hefur 399Gln arfgerðin verið tengd við ýmis krabbamein. XPD er helikasi í kirna skerðiviðgerðarferlinu (NER). Þekktur er amínósýrubreytileiki Lys-Gln í tákna 751 og hefur 751Lys arfgerðin verið tengd við brjóstakrabbamein. Sýnt hefur verið fram á að BRCA2 binst RAD51 sem er vel varðveittur og mikilvægur þáttur í homologous endurröðun og í viðgerð á tvíþátta rofi. Þekktur er breytileiki á 5&apos;enda óþýdds svæðis RAD51 gens á seti 135 G->C sem hefur verið tengdur myndun brjóstakrabbameins.

Efniviður og aðferðir: Arfgerðir voru skoðaðar í 87 kvenkynsviðmiðum og í 264 kvenkyns brjóstakrabbameinssjúklingum sem skipt var niður í hópa eftir því hvort þeir voru arfberar 999del5 stökkbreytingar í BRCA2 (n=55) eða ekki (n=210). Arfgerðargreining var gerð með PCR, klippingu með skerðiensímum og rafdrætti.

Niðurstöður: Enginn marktækur munur fékkst á tíðni áhættuarfgerða XPD, XRCC1 or RAD51 milli hópa brjóstakrabbameinssjúklinga með þekkt BRCA2 ástand og viðmiðunarhóps.

Ályktanir: Þessar fyrstu niðurstöður benda til þess að viðgerðargenin XPD, XRCC1 og RAD51 hafi ekki áhrif á sýnd 999del5 stökkbreytingarinnar í BRCA2. Rannsóknin er enn í gangi og unnið er að því að stækka hópana.

V 167 Pökkunarmerki mæði-visnuveiru er tvíþætt

og hlutar þess mismikilvægir eftir frumutegund

Helga Bjarnadóttir1,2, Bjarki Guðmundsson1, Janus Freyr Guðnason1, Jón Jóhannes Jónsson1,21Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeilar HÍ, 2erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss

hbjarna@rhi.hi.is    Inngangur: Pökkunarmerki víxlveira eru stöðugir RNA strúktúrar sem eru almennt staðsettir á 5&apos; enda erfðamengis á milli aðalsplæsgjafa (SD) og upphafstákna Gag. Þetta svæði er splæst út við umritun mRNA sameinda og ætti því að tryggja að einungis RNA erfðaefni veirunnar sé pakkað í veiruagnir. Pökkunarraðir í lentiveirum eru ekki vel skilgreindar að undanskildum röðum í HIV. Markmið verkefnisins er að skilgreina þessar raðir hjá mæði-visnu lentiveirunni (MVV).

Efniviður og aðferðir: Þrjár mismunandi úrfellingar voru gerðar á MVV klóni LV1-1KS2. Úrfelling D190-290 fjarlægði 100 bp svæði 5&apos; við SD (305) en þetta svæði hafði 51% samsvörun við consensus pökkunarröð HIV auk þess að mynda svipaða RNA strúktúra samkvæmt tölvugreiningu. Úrfelling D312-480 fjarlægði 168 bp svæði 3&apos; við SD þar sem pökkunarvirkni liggur almennt í víxlveirum. Úrfelling DM fjarlægði bæði svæðin. Úrfellingaafbrigðin voru innleidd ásamt villigerð MVV í manna 293T frumur og kinda FOS frumur. Erfðaefni úrfellingaafbrigða, villigerðar og vif mRNA var magngreint með rauntíma RT-PCR.

Niðurstöður og umræða: Pökkunarvirkni D190-290 úrfellingarinnar í 293T var nær engin eða um 1% af villigerð. Pökkunarvirkni þessa afbrigðis var hins vegar eðlileg í FOS (119%). Úrfelling D312-480 hafði lítil áhrif á pökkunarvirkni í 293T (60%) miðað við einungis 9% pökkunarvirkni í FOS. Til staðfestingar sýndum við fram á að pökkunarvirkni vif mRNA (sem er með svæði 312-480 splæst út) var 65% í 293T en 4% í FOS. Pökkunarvirkni DM úrfellingarinnar var engin í 293T en aftur á móti um 20% í FOS.

Raðir staðsettar 5&apos; við SD, sem samsvara HIV pökkunarröðum, eru nauðsynlegar fyrir pökkun í sumum frumum en eru með enga merkjanlega virkni í öðrum tilvikum. Auk þessara raða eru pökkunarmerkisraðir staðsettar 3&apos; við SD. Virkni þeirra mældist mismikil í frumutegundunum tveimur.V 168 Erfðir háþrýstings á meðgöngu. Framhaldsrannsókn á íslenskum sjúklingum

Valgerður Steinþórsdóttir1, Sigrún Hjartardóttir2, Reynir T. Geirsson2, Guðrún M. Jónsdóttir1, Jeffrey Gulcher1, Kári Stefánsson11Íslensk erfðagreining, 2kvennadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

vstein@decode.isTilgangur: Meðgönguháþrýstingur einkennist af hækkun blóðþrýstings eftir 20. viku meðgöngu (gestational hypertension). Alvarlegri formum sjúkdómsins fylgir eggjahvíta í þvagi (meðgöngueitrun, pre-eclampsia) og krampar (eclampsia). Sumar konur hafa háþrýsting greindan fyrir meðgöngu eða greinast á fyrstu vikum meðgöngu (chronic hypertension). Fyrri rannsóknir benda til mikilvægis erfðaþáttar í þessum sjúkdómi og með tengslagreiningu á íslenskum sjúklingum var sýnt fram á að svæði á litningi 2p13 hefur marktæk tengsl við sjúkdóminn (Arngrímsson, et al. 1999). Hér er notuð nákvæmari svipgerðarflokkun sjúkdómsins til að meta niðurstöður tengslagreiningar í nýju þýði.

Efniviður og aðferðir: Um 4500 konur á Íslandi greindust með eitthvert form af háþrýstingi á meðgöngu á tímabilinu 1984-1999. Ættfræðigrunnur Íslenskrar erfðagreiningar var notaður til þess að greina skyldleika þeirra og 1200 konum úr 200 stærstu fjölskyldunum var boðin þátttaka í rannsókninni. Svipgerð sjúkdóms var skilgreind með því að fara yfir allar mæðraskrár hvers þátttakanda. Erfðaefni kvenna með háþrýsting á meðgöngu og ættingja þeirra var greint með 1100 erfðamörkum og tengslagreiningu beitt í leit að svæðum þar sem líklegt er að áhættuþátt sé að finna. Könnuð voru áhrif mismunandi flokkunar svipgerða á niðurstöður tengslagreiningar.

Niðurstöður: Erfðaþáttur á litningi 2p13 kom fram sem mikilvægur áhættuþáttur í þróun háþrýstings á meðgöngu en virðist ekki tengjast fyrirverandi háþrýstingi. Annar erfðaþáttur gæti tengst svæði á litningi 5q.

Ályktanir: Með því að nota nákvæmar svipgerðir má sjá að meðgönguháþrýstingur og meðgöngueitrun eru hluti sama sjúkdómsheilkennis sem tengist svæði á litningi 2. Ætla má að breytileiki í erfðavísi á litningasvæði 2p13 sé mikilvægur áhættuþáttur í þróun háþrýstings á meðgöngu.

V 169 Erfðatæknileg framleiðsla trypsíns I-K

Guðrún Jónsdóttir, Ágústa GuðmundsdóttirRaunvísindastofnun Háskólans

gudrjon@rhi.hi.isInngangur: Trypsín I-K (K=klónað) úr þorski hefur verið tjáð á forveraformi. Forveraform trypsíns I-K var framleitt í nýju E. coli His-Patch ThioFusion tjáningarkerfi, sem býður upp á hreinsun ensímsins á málmbindisúlu. pThioHis tjáningarferjan er þannig að á þeim enda, sem næstur er 5&apos;-enda trypsín I-K gensins, hefur verið komið fyrir HP-thioredoxin genabúti. Thio hluti tjáðu afurðarinnar eykur leysni trypsíns I-K auk þess sem hann binst ProBond súluefni. Stökkbreyting var gerð í geni trypsíns I-K til að freista þess að auka stöðugleika ensímsins.

Efniviður og aðferðir: Við tjáninguna var framleitt samrunaprótein ThioHis-trypsín I-K, sem var einangrað á ProBond súlu. Því næst var virki hluti trypsíns I-K klipptur frá með örlitlu magni af trypsíni I-N (N=náttúrulegt). Virkjaða ensímið var hreinsað á p-amínóbenzamidín súlu.

Niðurstöður: Virknimælingar trypsíns I-K gagnvart tilbúnu trypsín hvarfefni Gly-Pro-Arg-pNA sýna að virkjun forveraformsins lýtur allt öðrum hraðafræðilegum lögmálum en rof tilbúinna hvarfefna með trypsíni I-N. Virkjunarskrefið er mjög vandasamt og krefst mikillar nákvæmni vegna viðkvæmni ensímsins fyrir óvirkjun með hita og sjálfmeltu. Engu að síður tókst að tjá trypsín I-K á forveraformi og virkja það með örlitlu magni af trypsíni I-N. Rannsóknir hafa leitt í ljós að yfirgnæfandi líkur eru á að trypsín I-K og I-N séu sama ensímið.

Ályktanir: Niðurstöður rannsókna sýna að hið nýja ThioFusion tjáningarkerfi leysir flest þau vandamál, sem lengi hefur verið glímt við varðandi tjáningu trypsíns I-K og annarra kuldavirkra ensíma úr sjávarlífverum. Amínóendi trypsíns I-K er verndaður með samruna við thioredoxin bút, sem að auki eykur leysni tjáða próteinsins og auðveldar hreinsun ensímsins. Fyrstu rannsóknir á stökkbreytta afbrigðinu benda til aukins stöðugleika ensímsins.

V 170 Erfðabreytileiki íslenska hestastofnsins

Viktor Mar Bonilla1, Valgerður Andrésdóttir1, Eggert Gunnarsson1, Sigríður Björnsdóttir2, Ágúst Sigurðsson3, Sigurður Ingvarsson1, Vilhjálmur Svansson11Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2embætti yfirdýralæknis, 3Bændasamtök Íslands

viktormb@hekla.rhi.hi.isInngangur: Íslenski hesturinn hefur þróast sem einangraður hrossastofn frá landnámi á 9. og 10. öld og hefur frá þeim tíma aðlagast íslenskri veðráttu og fæðuvali með náttúruvali. Mikill breytileiki er í svipgerð hrossanna, svo sem lit, ganglagi og byggingu miðað við flest önnur hrossakyn. Með öflugu ræktunarstarfi undanfarna áratugi er stofninn þó að verða einsleitari. Landfræðileg einangrun hefur meðal annars orðið til þess að til eru hópar innan hrossastofnsins sem ekki hafa blandast hrossum frá öðrum landsvæðum og hafa sterk svipfarseinkenni.

Markmið verkefnisins er að kanna erfðabreytileika íslenska hrossastofnsins með tilliti til 10 þekktra erfðamarka sem gefa upplýsingar um erfðabreytileika stofnsins á ákveðnum erfðaeigindasvæðum. Einnig að kanna hvort einangraðir hópar innan stofnsins hafi minni erfðabreytileika og séu marktækt frábrugðnir stofninum í heild sinni.

Efniviður og aðferðir: Blóðsýnum var safnað úr tilviljanakenndu úrtaki íslenska hrossastofnsins (n=100) og úr fjórum einangruðum hópum (n=10-25). DNA var einangrað úr hvítum blóðfrumum og PCR aðferð notuð til að magna upp erfðamörkin. Út frá tíðni og dreifingu erfðamarkanna var ákvarðað hvort marktækur munur væri á milli hópanna.

Niðurstöður: Niðurstöður liggja fyrir um einangruðu hópana og benda þær til skyldleika milli þriggja þeirra. Einnig er komið í ljós að breytileiki í erfðum þessara 10 erfðamarka nýtist til ætternisgreininga á íslenskum hrossum eins og öðrum hrossakynjum.

Ályktanir: Rannsóknin eykur skilning á erfðamengi íslenska hrossastofnsins og hjálpar þannig til að viðhalda erfðabreytileika innan stofnsins. Ef lítill breytileiki kemur fram gefur það upplýsingar um hugsanlega hættu á innræktun og hættu á að mikilvægir eiginleikar tapist úr hrossastofninum.

V 171 Innangensuppbót MITF>MITF stökkbreytingarinnar í mús

Aðalheiður Gígja Hansdóttir1, Jón H. Hallsson1,2, Heinz Arnheiter2, M. Lynn Lamoreoux3, Neal G. Copeland3, Nancy A. Jenkins4, Eiríkur Steingrímsson11Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 2NINDS, NIH, Bethesda, MD, 3Texas A and M University, College Station, TX, 4Mouse Cancer Genetics Program, NCI-FCRDC, Frederick, MD

adalheid@hi.isInngangur: Stökkbreytingar í microphthalmia (Mitf) geninu hafa meðal annars áhrif á þroskun litfrumna, mastfrumna og litfrumna augans. Mitf próteinið er af Myc fjölskyldu basic-Helix-Loop-Helix-Leucine-Zipper (bHLHZip) umritunarþátta. Mitf getur örvað tjáningu litfrumusérhæfðra gena með því að bindast stýrlum þeirra ýmist sem einstvennd eða mistvennd með skyldum próteinum. Sumar stökkbreytingar í Mitf geninu sýna innangensuppbót þar sem svipgerð samsett arfblendinna dýra er eðlilegri en svipgerð hvorrar stökkbreytingar um sig í arfhreinni stöðu. Markmið þessarar rannsóknar var að leita sameindalíffræðilegra skýringa á innangensuppbót þeirri sem tengist Mitf geninu í mús.

Efniviður og aðferðir: Mismunandi Mitf samsætum var æxlað saman til að fá mýs arfblendnar um hinar ólíku Mitf samsætur. Mýsnar voru skoðaðar með tilliti til uppbótar. Ef samsæta sýndi innangensuppbót voru áhrif hennar á stjórn umritunar skoðuð með innleiðslutilraunum í 293T frumum.

Niðurstöður: Niðurstöður okkar sýna að innangensuppbót er takmörkuð við eina ákveðna Mitf samsætu, MitfMi-white (MitfMi-wh). Stökkbreyting þessi hefur áhrif á DNA bindigetu Mitf próteinsins. Innangensuppbót sást í svipgerð augna og háralitar og kemur fram hvort sem MitfMi-wh stendur með stökkbreytingum sem valda minnkaðri eða aukinni virkni. Einnig kemur hún fram ef stökkbreytingin hefur áhrif á DNA bindisvæðið. Innleiðslutilraunir sýna að MitfMi-wh próteinið virkjar umritun betur en villigerðar Mitf próteinið.

Ályktanir: Við setjum fram þá tilgátu að MitfMi-wh próteinið sé ofvirkt sem umritunarvirki, hafi breytta sértækni og virki nú á neikvæðan hátt í frumunni. Innangensuppbót kemur fram þegar neikvæð áhrif MitfMi-wh próteinsins minnka, til dæmis þegar samsætan er í arfblendinni stöðu með núll-samsætu.

V 172 Jákvætt samband milli andoxunarvirkni í plasma

og ómega-3 fitusýra í himnum rauðra blóðkorna

Auður Ý. Þorláksdóttir1, Guðrún V. Skúladóttir2, Laufey Tryggvadóttir3, Sigrún Stefánsdóttir3, Hafdís Hafsteinsdóttir3, Helga M. Ögmundsdóttir3, Jórunn E. Eyfjörð3, Jón J. Jónsson1, Ingibjörg Harðardóttir11Lífefna- og sameindalíffræðistofa og 2Lífeðlisfræðistofnun læknadeild HÍ, 3Krabbameinsfélag Íslands

ih@hi.isInngangur: Fjölómettaðar fitusýrur eru næmari fyrir oxun en mettaðar fitusýrur. E-vítamín verndar fitusýrur gegn oxun og virkni vítamínsins er hluti af andoxunarvirkni í blóði. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort tengsl væru milli fjölómettaðra ómega-3 og ómega-6 fitusýra í himnum rauðra blóðkorna og andoxunarvirkni í blóði.

Efniviður og aðferðir: Heildarfituefni rauðra blóðkorna var einangrað úr blóði 79 kvenna með klóróform-ísóprópanól blöndu. Fitusýrur voru metýleraðar og metýlesterar greindir á gasgreini.

Andoxunarvirkni í plasma var mæld með TEAC aðferð (trolox equivalent antioxidant capacity assay). Aðferðin byggir á hindrandi áhrifum andoxunarefna á gleypni frá 2,2&apos;-azinobis(3-ethylbenzothiazoline) stakeindum (ABTS·+). Fyrir tilstuðlan vetnisperoxíðs myndast ABTS·+ og er gleypni þess mæld í ljósmæli.

Gögn voru greind með Statsdirect tölfræðiforriti. Samband milli breytna var kannað með Pearsons fylgnistuðli og einfaldri línulegri aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna marktækt jákvætt samband milli andoxunarvirkni í plasma og ómega-3 fitusýra í himnum rauðra blóðkorna (r = 0,34; p=0,002 (DHA; r=0,36; p=0,001) (EPA; r=0,26; p=0,02)). Einnig sýna þær marktækt neikvætt samband milli andoxunarvirkni í plasma og hlutfalls ómega-6/ómega-3 fitusýra í himnum rauðra blóðkorna (r =-0,30; p=0,008). Ekki var marktækt samband milli andoxunarvirkni og annarra breytna (hlut mettaðra-, einómettaðra- og fjölómettaðra ómega-6 fitusýra).

Ályktanir: Ómega-3 fitusýrur eru viðkvæmar fyrir oxun. Þrátt fyrir það benda þessar niðurstöður til að aukinn hlutur þeirra í himnum rauðra blóðkorna tengist aukinni andoxunarvirkni í plasma.

V 173 Trypsín Y-klónun, tjáning og eiginleikar nýstárlegs trypsíns úr Atlantshafsþorski

Helga Margrét Pálsdóttir, Ágústa GuðmundsdóttirRannsóknastofa í matvælaefnafræði, Raunvísindastofnun HÍ

helgap@hi.isInngangur: Nýstárlegur hópur trypsína, flokkur III, var nýlega skilgreindur. Í dag eru átta trypsín þekkt sem tilheyra þessum flokki sem öll finnast í fiskum sem lifa við mjög kaldar aðstæður (C). Þessum próteinum hefur verið lýst sem ofur kuldavirkum ensímum, byggt á rannsóknum á amínósýrubyggingu þeirra en hún er mjög frábrugðin öðrum þekktum trypsínum (1). Ekkert trypsín úr flokki III hefur verið einangrað úr fiskunum sem þau finnast í, líklega vegna sjálfmeltu og niðurbrots og því eru engar lífefnafræðilegar upplýsingar til um hið náttúrulega form þeirra.

Trypsín Y úr Atlantshafsþorski (Gadus morhua) tilheyrir flokki III (2). Trypsín Y hefur margar varðveittar amínósýrur sem einkenna hryggdýratrypsín, svo sem Asp189, Tyr172, Gly216 og Gly226. Þó finnast margar breytingar í röð þess til dæmis í yfirborðslykkjum, í kringum hvötunarþrennuna (His57, Asp102 og Ser195) og í og kringum hvarfstöðina. Trypsín Y hefur aðeins fimm dísúlfíðbrýr í byggingu sinni á meðan önnur hryggdýratrypsín hafa sex dísúlfíðbrýr.

Efniviður og aðferðir: Þorskatrypsín Y cDNA var einangrað, raðgreint og klónað inn í pPICZaA plasmíð og ummyndað inn í Pichia pastoris frumur. Trypsín Y próteinið var tjáð, hreinsað að hluta úr P. pastoris flotinu og virkjað og voru eiginleikar próteinsins kannaðir.

Niðurstöður og ályktun: Við höfum birt fyrstu lífefnafræðilegu upplýsingarnar um trypsín af flokki III. Trypsín Y er breiðvirkt ensím sem hefur bæði trypsín- og chymotrypsínvirkni en chymotrypsínvirkni hefur aldrei sést í trypsínum áður. Trypsín Y er einnig ofur kuldavirkt ensím sem er virkt við lægra hitastig en þekkist hjá áður skilgreindum kuldavirkum ensímum.

Heimildir

1. Roach JC. A Clade of Trypsins Found in Cold-Adapted Fish. Proteins 2002; 47: 31-44.

2. Spilliaert R, Guðmundsdóttir Á. Atlantic Cod Trypsin Y. Member of a Novel Trypsin Group. Mar Biotechnol 1999; 1: 598-607.

Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica