Umræða fréttir

Haustnámskrá Endurmenntunar HÍ Nám með starfi og skemmri námskeið

Haustnámskrá Endurmenntunar HÍ er komin út. Hátt í þrjú hundruð námskeið eru í boði á meira en þrjátíu fræðasviðum, enda er námskráin afrakstur af samstarfi við fagfélög, fyrirtæki, menningarstofnanir, frjáls félagasamtök, kennara og viðskiptavini. Sex fagfélög háskólafólks eiga nú fulltrúa í stjórn Endurmenntunar HÍ.

Í námskránni er greint frá nýjum námsbrautum sem stunda má samhliða starfi, svo sem nám í sálgæslu, sem boðið er upp á í samstarfi við guðfræðideild HÍ, og heildstætt nám í verkefnastjórnun. Þá stendur hjúkrunarfræðingum nú til boða að ljúka endurmenntunarnámskeiðum sem meta má til eininga í meistaranámi og MBA-nám er að fara af stað í annað sinn í samstarfi við viðskipta- og hagfræðideild HÍ.

Kvöldnámskeið Endurmenntunar fyrir almenning njóta vinsælda og eru óvenjumörg námskeið í boði að þessu sinni eða á þriðja tuginn. Meðal þeirra má nefna námskeið í Njálu, Þingeyingasögum og Sturlungu, óperunámskeið um Rakarann í Sevilla, námskeiðs um sögu og náttúru Þingvalla, sögu og menningu palestínsku þjóðarinnar og um tónlist og menningu á Kúbu.

Þá er mikið úrval af sérhæfðari fræðslu fyrir fagfólk, svo sem fólk í heilbrigðis- og félagsþjónustu og í uppeldisstörfum. Framboð á fræðslu fyrir stjórnendur hefur verið aukið og eru hátt á fjórða tug slíkra stjórnunarnámskeiða í boði.

Meðal námskeiða sem ætluð eru heilbrigðisstéttum má nefna Samningastjórnun í heilbrigðisþjónustu sem haldið er í samvinnu við Norræna heilbrigðisháskólann en það fer frá 13. september. Hugræn atferlismeðferð við kvíða heitir annað námskeið sem verður 21.-22. október og 23. október hefst hið fyrsta af fjórum hálfs dags námskeiðum um stjórnun í heilbrigðisþjónustu sem verða vikulega fram til 13. nóvember.

Skólaárið hjá Endurmenntun HÍ hefst nú fyrr en áður og er vakin athygli á því að fjölmörg starfstengd námskeið eru haldin strax í september. Námskrá Endurmenntunar er komin á heimasíðuna www. endurmenntun.is og þar er jafnframt hægt að skrá sig.Þetta vefsvæði byggir á Eplica