Umræða fréttir
  • Ólafur Ólafsson

Útgjöld til ungbarnagjörgæsludeilda í Bandaríkjunum leiða ekki til betri árangurs

Í Bandaríkjunum starfa tvisvar sinnum fleiri sérfræðingar að ungbarnalækningum (neonatologists) og þar eru mun fleiri vistrými á ungbarnagjörgæsludeildum en í Bretlandi, Kanada og Ástralíu. Eigi að síður er þar hærri tíðni léttburafæðinga (< 2500 gr) og ungbarnadauða (dánir innan mánaðar eftir fæðingu) en í síðastnefndu löndum.

Þessar upplýsingar koma fram í breska læknablaðinu (BMJ) 8. júní 2002 og er vitnað í niðurstöður rannsókna sem birtust í Pediatric (2002: 109; 1036-43). Rannsóknin var gerð af Dartmouth læknaskólanum í Bandaríkjunum. Ungbarnadauði (neonatal mortality) var 23-56% hærri í Bandaríkjunum en í hinum löndum. Léttburafæðingar voru einnig algengastar í Bandaríkjunum. Fjöldi ungbarna með fæðingarþyngd undir 1500 gr var 1,45% í Bandaríkjum en um 1% í hinum löndunum. Leitað var skýringa á þessu. Fram kemur að í Bandaríkjunum búa aðeins um 86% af börnum og 78% af konum við tryggingar, en í hinum löndum búa börn undir 18 ára aldri og konur 18-44 ára við almannatryggingar.

Í Ástralíu, Kanada og Bretlandi er ungbarna- og mæðravernd kostuð af almannatryggingum. Í Bandaríkjum eru táningafæðingar algengastar og táningar eru oft ótryggðir og félitlir og leita því síður til mæðraverndar vegna fjárskorts. Fram kemur að há tíðni léttburafæðinga er ein aðalskýringin á fjölgun ungbarnadánartilfella.

Fyrir um tíu árum, í tíð Sighvatar Björgvinssonar þáverandi heilbrigðisráðherra, kom fram tillaga um eigin greiðslur fyrir ungbarna- og mæðravernd. Tillagan var jarðsett af ráðherra er landlæknir og fleiri aðilar lögðu fram svipaðar skýringar og hér hafa komið fram. Við Íslendingar erum ennþá með einna sjaldgæfustu tilfellin af burðarmálsdauða í heimi.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica