Ritstjórnargreinar
  • Kristinn Tómasson

Vinnuumhverfi á Íslandi - þörf fyrir meiri umræðu

Mikið er rætt um vinnumarkað og umhverfismál í fjölmiðlum hérlendis og tengist sú umræða ekki síst áformum um ný eða aukin tækifæri á vinnumarkaði og/ eða hagræðingu sem leiðir yfirleitt af sér samruna fyrirtækja í stærri einingar og fækkun starfsfólks.

Í fréttum sem Morgunblaðið er með á vef sínum (26.8.2002) er fjallað ítarlega um ýmsa þætti sem lúta að álveri á Austurlandi. Í þessum pistlum er ekki aðaláhersla á heilsu starfsmanna sem hugsanlega muni vinna í verksmiðjunni eða í tengslum við smíði hennar, heldur er áherslan fyrst og fremst á áhrif verksmiðjunnar og byggingu hennar á efnahagslíf þjóðarinnar og á umhverfismál í víðtækri merkingu þess orðs, það er hver verða áhrif á hálendið og lítt snortna náttúru þess, hver verða áhrif á loft, lands- og sjávargæði í nágrenni við verksmiðjuna? Lítið hefur hins vegar borið á umfjöllun um heilsufar væntanlegs starfsfólks og fjölskyldna þeirra. Ekki er ljóst hvað veldur því. Hugsanlega getur það verið vegna þess að stóriðjufyrirtæki hérlendis hafa haft nokkra forgöngu um eftirlit með heilsufari hjá starfsfólki sínu og má þar benda á álverin, járnblendið og steinullarverksmiðjuna og þar af leiðandi finnist stjórnmálamönnum og öðrum ekki þörf á að þessi mál séu í brennidepli umræðunnar. Þetta er mögulega rétt. Lýsir það sér ekki hvað síst í því að eitt af álfyrirtækjunum setur sér þau markmið á heimasíðu sinni að fyrir árið 2004 verði búið að ljúka áhættumati með tilliti til hættu fyrir heilsu starfsmanna og fylgst verði með að minnsta kosti 95% af áhættuvöldunum jafnframt því sem dregið verði úr efnamengun og mestu hávaðavöldum um 40%. Jafnframt þessu verði vinnuvistfræðilegra sjónarmiða betur gætt á hverri vinnustöð og slysagildrum fækkað og að starfsmannaheilsuvernd með viðeigandi sérfræði þekkingu verði til staðar í hverri verksmiðju (1).

Þetta eru virðingarverð markmið en til þess að við sem læknar og málsvarar íslensku þjóðarinnar í heilbrigðismálum getum tekið við þeim þurfum við að skoða hvaða kröfur við viljum gera um vinnuumhverfi og hættu af því fyrir einstaklinga á íslenskum vinnumarkaði og fjölskyldur þeirra. Til þess að við getum komið fram með slíkar kröfur þurfum við að afla meiri upplýsinga um þær hættur, jafnt líffræðilegar, sálfræðilegar og félagslegar, sem tengjast vinnu hérlendis og svara því hvaða áhrif þær hafa á heilsu starfsmanna og fjölskyldna þeirra. Nauðsynlegt er að athuga að umræða sem þessi er grundvölluð á áhætttumati sem er lykilþáttur í öflugri starfsmannaheilsuvernd. Það þarf einnig að spyrja hvernig á að bregðast við hættunni? Er hægt að fjarlægja hana eða fjarlægja starfsmann frá hættunni? Ef það er ekki unnt hvernig er þá hægt að veita starfsmanninum nægilega vernd á annan hátt? Og ef það er ekki hægt þá þarf að spyrja hvort áhættan sé ásættanleg? Ef svo er þarf að spyrja hvaða og hvers konar heilbrigðiseftirlit þarf og er hægt að veita það? Þetta síðastnefnda atriði er sérstaklega mikilvægt þegar litið er til framkvæmda í strjálbýli þar sem langt er í þjónustu ef skyndileg eða mikil óhöpp verða.

Nú þegar einhverjar mestu framkvæmdir Íslandssögunnar eru að hefjast er mikilvægt að læknar taki virkan þátt í öllu sem lýtur að starfsmannaheilsuvernd, þar með töldu áhættumati, og tryggi að slíkt mat og nauðsynleg þjónusta verði raunverulega veitt hér á landi. Nauðsynlegt er að undirstrika að slík þjónusta verði ekki einvörðungu bundin stóriðnaðarfyrirtækjum sem sögulega séð fylgir veruleg áhætta vegna efnamengunar eða slysahættu heldur verði hún tengd við öll fyrirtæki.

Þetta verður ekki gert nema með því að verulega aukið fjármagn verði lagt af hálfu opinberra aðila, fyrirtækja og rannsóknasjóða til rannsókna á vinnuslysum, áhættuþáttum, (líffræði-, sálfræði-, vinnuvistfræði- og félagslegra), sem og til rannsókna á heilsufari fólks í hinum ýmsu starfsgreinum. Það er ábyrgð okkar lækna að kalla eftir þessu!1. Sjá heimasíðu Alcoa:

www.alcoa.com/global/en/environment/goals.aspTengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica