Umræða fréttir

Broshorn 28: Af tungutaki og barnsförum

Tungutak þeirra dönsku

Kona af dönsku bergi brotin hafði verið búsett á Íslandi um árabil. Hún talaði nokkuð góða íslensku en með vissum skafönkum þó. Annað hnéð hafði verið að gera henni lífið leitt og þar kom að því að hún spurði heimilislækninn hvort það væri ekki viturlegt að "fara með hnéð til bæklingalæknis".

Önnur kona af sama uppruna hafði búið hér á landi í áratugi. Tungutak hennar var með svipuðum hætti og þeirrar fyrrnefndu. Hún vildi hafa samráð við heimilislækni sinn um hitt og þetta. Í hvert einasta skipti tjáði hún hug sinn á sömu lund: "Ég þarf að hafa samræði við þig um ..."Kona í barnsnauð

Maður kom á hlaupum inn á fæðingardeildina og hrópaði: "Konan mín er komin í fæðingu í leigubíl hér fyrir utan."

Ungi aðstoðarlæknirinn sem var alltaf viðbúinn enda verið skáti frá unglingsárum þreif akúttöskuna og hentist eins og byssubrandur út í leigubíl. Hann lyfti upp kjól konunnar og tók að klæða hana úr nærbuxunum. Þá fyrst áttaði hann sig á því að nokkrir leigubílar voru á stæðinu og hann var ekki í þeim rétta!Eyrnabruni

Maður af Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu kom á slysadeild með brunablöðrur á báðum eyrum. "Hvað kom fyrir þig?" spurði vakthafandi læknir á deildinni.

"Ég var að strauja skyrtuna mína þegar síminn hringdi og ég "svaraði" alveg óvart með járninu," sagði maðurinn skömmustulegur.

"Það skýrir af hverju þú ert brenndur á öðru eyranu, en hvað kom fyrir hitt eyrað?"

"Ég reyndi að hringja á sjúkrabíl," svaraði maðurinn.Fæðingarsaga úr sveitinni

Héraðslæknirinn var kallaður í vitjun til bóndakonu sem var komin að því að fæða barn. Konan og bóndi hennar bjuggu mjög afskekkt og höfðu ekki fengið rafmagn í bæinn. Læknirinn bað bóndann um að halda lukt á lofti til þess að hann gæti séð betur til verka. Eftir stutta stund kom drengur í heiminn. "Haltu luktinni lengur á lofti því ég held að það sé annað á leiðinni," sagði læknirinn. Og mikið rétt, það fæddist stúlka nokkrum mínútum seinna. "Lýstu áfram," sagði læknirinn, "ég held svei mér þá að þriðja barnið sé að koma." Bóndinn klóraði sér þá í kollinum og spurði forviða: "Heldurðu að það geti verið að þau laðist að ljósinu?"

Ekki fyrir sjúklinga á skurðstofu

"Bíddu nú hægur, ef þetta hérna er miltað, hvað er þá þetta?""Bara ef ég gæti munað hvernig þau gerðu þetta í síðasta þætti af "Bráðavaktinni".""Klaufi var ég að gleyma gleraugunum heima."

Úr prófverkefnum (lækna)nema

"Æðakerfið samanstendur af þremur tegundum æða; slagæðum, bláæðum og blóðæðum.""Blóðið rennur niður aðra löppina og upp hina.""Áður en sjúklingi er gefið blóð verður að ganga úr skugga um hvort það sé jákvætt, neikvætt eða hlutlaust.""Við endurlífgun verður að blása í sjúklinginn þangað til hann deyr."

Sýnilegt ör?

Ung og glæsileg kona íklædd mjög stuttu pilsi og gegnsærri blússu meldaði sig inn til aðgerðar á skurðdeild. Deildarlæknirinn tók á móti henni og eftir hefðbunda töku sjúkraskýrslu spyr konan: "Geturðu sagt mér hversu áberandi örið verður eftir aðgerðina?"

"Það er nú alveg undir þér sjálfri komið," sagði læknirinn rjóður í framan.

Ráð við kvefi

"Læknirinn sagði að ég gæti losnað fyrr við kvefið ef ég fengi mér sítrónusafa á eftir heitu baði. Ég átti reyndar í mesta basli að klára baðvatnið."

Að vera tengd

Ungur læknir, gift og þriggja barna móðir, var að opna stofu á besta stað í Mjóddinni. Af þessu tilefni var hún nokkuð spennt á taugum. Þegar móttökuritarinn tilkynnti henni að karlmaður væri kominn til að hitta hana bað hún um að honum yrði vísað inn.

Lækninum var í mun að láta líta út eins og hún væri mjög upptekin. Rétt í þann mund sem maðurinn birtist tók hún upp símtólið. "Já, það er alveg rétt. Heildarkostnaðurinn verður eitthvað um fimmtán þúsund krónur. Ég á þá von á þér um tvöleytið og alls ekki seinna því ég er mjög þétt bókuð í dag. Við segjum það þá, blessuð." Síðan lagði hún tólið á og sneri sér að manninum. "Góðan daginn, hvað má gera fyrir þig?"

"Fyrirgefðu, vænan, ég kom bara til að tengja símann hjá þér."

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica