Umræða fréttir
  • Mynd 1

Norræna læknaráðið Jón Snædal kjörinn formaður

Á fundi Norræna læknaráðsins sem haldið var í Osló í lok maímánaðar bar það til tíðinda að Jón Snædal var kosinn formaður ráðsins til næstu tveggja ára. Kosning hans tengist því að röðin er komin að Íslandi að halda næsta fund ráðsins en þeir eru haldnir á tveggja ára fresti til skiptis í löndunum fimm. Verður næsti fundur þess haldinn á Akureyri vorið 2004.

Stjórn Norræna læknaráðsins hittist tvisvar á ári og er sameiginlegur vettvangur norrænu læknafélaganna. Annað hvert ár er öllum stjórnarmönnum félaganna og ýmsum embættismönnum boðið til fundar í ráðinu sjálfu. Læknafélag Íslands hefur þó aldrei sent fleiri en tvo eða þrjá fulltrúa á þessa fundi enda er þátttaka í þeim kostnaðarsöm fyrir félagið.

Á þessum fundum ráðsins eru tekin fyrir ákveðin mál og reynt að kryfja þau til mergjar. Aðalmál fundarins í Osló voru tvö: öryggi sjúklinga og skipulag og fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Jón sagði í samtali við Læknablaðið að það sem helst hefði komið mönnum á óvart í umræðum um öryggi sjúklinga hefði verið að rannsóknir í Danmörku bendi til þess að því sé ábótavant og að það sé minna en almennt er álitið.

"Ég sé enga ástæðu til að ætla að þessu séu öðruvísi hagað hér á landi. Meðferð sjúklinga verður æ flóknari og þar með eru svo mörg atriði sem verða að ganga rétt. Mælingum, bæði sjálfvirkum og handvirkum, hefur fjölgað og í þeim getur margt brugðist. Á fundinum var varpað fram þeirri spurningu hvort ekki væri rétt að taka upp sömu vinnubrögð og viðhöfð eru í flugrekstri þar sem menn skoða öll atvik sem kalla má næstum því óhöpp og reyna að draga af þeim ályktanir til þess að auka öryggið. Einnig var bent á að öryggisleysi sjúklinga á sér ekki eingöngu rætur í mannlegum mistökum heldur valda því einnig kerfislægar ástæður," sagði Jón.

Skipulag og fjármögnun heilbrigðisþjónustu er stöðugt til umræðu meðal norrænna lækna. Þar hafði Þórður Sverrisson framsögu fyrir hönd Læknafélags Íslands en auk hans töluðu Finnar og Norðmenn. Í Noregi hafa orðið miklar breytingar á uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og kom ýmislegt forvitnilegt fram í umræðunum sem of langt mál yrði að tíunda hér.





Símenntun og kjaramál

Auk þessara umræðna á ráðsfundum hefur stjórnin ýmis hagsmunamál lækna til umfjöllunar. Þar má nefna símenntun lækna sem oft er til umræðu. Þar er staða íslenskra lækna önnur og betri en kollega á Norðurlöndum hvað varðar rétt til að sækja námskeið og ráðstefnur því víðast hvar á Norðurlöndum fá eingöngu þeir sem halda fyrirlestra að sækja ráðstefnur.

Norræna læknaráðið fylgist með því hvaða þjónustu læknar sem starfa tímabundið í öðru aðildarlandi geta fengið hjá læknafélagi gistilandsins. Er hægt að sjá á heimasíðum læknafélaganna hver þessi þjónusta er og hvaða stuðnings menn geta vænst, svo sem í kjaramálum. Fyrir nokkru kom upp hugmynd um að gera samanburð á kjörum norrænna lækna en frá því var horfið vegna þess hversu ólík launakerfin eru og einnig störf lækna frá einu landi til annars. Nefna má að víða er farið að gera vinnustaðasamninga. Þá koma umræður um lækna í vanda ávallt til umræðu á fundum ráðsins af og til enda um sambærileg vandamál að ræða í öllum löndunum.

Loks ber að nefna að vettvangi ráðsins og stjórnar þess er mótuð sameiginleg stefna norrænna lækna út á við. Norrænu læknafélögin reyna að tala sem mest einum rómi í samstarfi evrópskra lækna og í Alþjóðafélagi lækna og Norræna læknaráðið er kjörinn vettvangur til þess að samstilla raddirnar.

SumariÐ er vinsæll tími fyrir læknaþing, í það minnsta hér á Íslandi. Það færist í vöxt að haldin séu alþjóðleg læknaþing hér á landi og má því til sönnunar benda á tvö fjölmenn þing á sviði taugalækninga og bráðalækninga sem haldin voru í maí og júní. Og í ágúst er röðin komin að meinefnafræðinni en dagana 10.-13 verður þingið Molecular Medicine 2002 haldið í Borgarleikhúsinu í Reykjavík.

Það er Félag um lækningarannsóknir á Íslandi sem heldur utan um þetta þinghald en raunar er hér um að ræða tvö norræn þing: 28. norræna þingið um meinefnafræði og 35. norrænu ráðstefnuna um storkufræði. Blaðamaður Læknablaðsins mætti á fund undirbúningsnefndar þingsins á dögunum til þess að forvitnast um þetta þinghald.

Í nefndinni eiga sæti Þorvaldur Veigar Guðmundsson sem er forseti þingsins, Ísleifur Ólafsson, Leifur Franzson, Elín Ólafsdóttir, Ingunn Þorsteinsdóttir, Jón Jóhannes Jónsson og Ólöf Sigurðardóttir. Leifur er formaður Félags um lækningarannsóknir á Íslandi sem í eru um 30 skráðir félagsmenn.

Þorvaldur Veigar upplýsir að þetta sé í þriðja sinn sem þing af þessu tagi sé haldið hér á landi. Þau fyrri voru haldin 1981 og 1992. Norrænu þingin í meinefnafræði eru haldin á vegum Nordisk Forening for Klinisk Kemi annað hvort ár til skiptis á Norðurlöndum en félagið í hverju landi annast þinghaldið að öllu leyti og bera alla ábyrgð á því. Storkufræðiráðstefna er haldin árlega. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi tvö náskyldu svið sameina krafta sína í þinghaldi.

Að sögn nefndarmanna verður þetta þing fjölmennt því um miðjan júní höfðu tæplega fimm hundruð manns boðað þátttöku sína og þeim á væntanlega eftir að fjölga. Þátttakendur koma frá 20 löndum en flestir koma frá Norðurlöndum. Þeir sem koma lengsta leið eru frá Ástralíu og Kína. Fyrirlesararnir koma frá ýmsum löndum Evrópu og Ameríku en stærsti hlutinn er frá Norðurlöndum. Alls er 56 manns boðið að halda fyrirlestra og eru nokkrir Íslendingar meðal þeirra.

"Þetta er metnaðarfullt þing og við bjóðum upp á fyrirlestra heimsþekktra vísindamanna á sviði storku- og meinefnafræði," segja nefndarmenn og nefna til sögunnar athyglisverða fyrirlestra um erfðafræði storkufræði og upplýsingatækni á rannsóknastofum. Á ráðstefnunni er rætt bæði um grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir. Ráðstefnan fer fram í fyrirlestrum, málþingum og kynningu veggspjalda. Alls verða yfir 100 veggspjöld kynnt. Í tengslum við ráðstefnuna er stór tækjasýning.

Líkt og á öðrum sviðum læknisfræði hafa orðið verulegar framfarir í meinefna- og storkufræði á undanförnum árum. Ný mælitæki hafa komið til sögunnar sem gera mönnum kleift að mæla ný efni og með stóraukinni nákvæmni, auk þess sem nýjar rannsóknaraðferðir hafa verið þróaðar, ekki síst í erfðafræði- og prótínrannsóknum. "Það er mikið rætt um gen og þá má ekki gleyma því að gen eru sameindir og sameindir eru viðfangsefni klínískra rannsóknarstofa. Þetta hefur í för með sér að það sem í dag kallast grunnrannsóknir á sameindum eru viðfangsefni klínískra rannsóknarstofa á morgun þar sem þekkingin er nýtt til að greina sjúkdóma, meta árangur meðferðar og við áhættumat," segir Jón Jóhannes.

Að sjálfsögðu er reynt að gera vel við hina erlendu gesti og standa þátttakendum og fylgdarliði þeirra til boða ýmsar skoðunarferðir um landið, bæði meðan á þinginu stendur og eftir að því lýkur. Félagið fékk fyrirtækið Ráðstefnur og fundir í Kópavogi til að annast skipulag og umgjörð þingsins en mikið starf hefur lent á undirbúningsnefndinni sem ber ábyrgð á öllu saman.

Sækja má einstök málþing á ráðstefnunni en dagskrá og aðrar upplýsingar er að finna á heimsíðu ráðstefnunnar: www2.landspitali.is/mm2002/

-ÞH

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica