Ritstjórnargreinar
  • Karl Andersen

Bráðameðferð á háskólasjúkrahúsi

Fyrirsjáanlegum skorti á unglæknum hefur verið afstýrt tímabundið með samningi Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH) við læknanema á elleftu stundu. Læknanemar gengu til fundar við lækningaforstjóra og sviðsstjóra lyflækningadeildar þar sem lýst var vilyrði fyrir ákveðinni hækkun á launum nemanna í því skyni að fá fleiri til starfa í sumar þegar ljóst var að í óefni stefndi með mönnun. Læknanemarnir gerðu ráð fyrir því að yfirmenn sjúkrahússins hefðu eitthvert samningsumboð, nokkuð sem síðar reyndist ekki vera. Boð kom frá ráðuneyti fjármála um að engar launahækkanir skyldu koma til framkvæmda. Þessi ákvörðun væri einfaldlega ekki í höndum stjórnenda spítalans. Lendingu var síðan náð á síðustu dögum maímánaðar með samkomulagi um að launað starf nemanna á sjúkrahúsinu skyldi metið sem liður í klínísku námi. Þessi samningur er á margan hátt merkilegur og vekur upp margar spurningar.

Kennarar læknadeildar spyrja auðvitað hvort íhlaupavinna læknanema á vöktum teljist jafngild í kennslufræðilegu tilliti þeim skipulögðu kúrsum sem deildin hefur staðið fyrir til þessa? Af hálfu læknadeildar hefur verið lögð áhersla á að bjóða upp á samfellda formlega kennslu í klínískri læknisfræði til jafns við vetrarnámið. Hins vegar er leiðsögn og handleiðsla sérfræðinga brotin upp vegna yfirstandandi sumarleyfa og kennarar deildarinnar margir fjarverandi. Á sumarleyfistíma er mönnun sérfræðinga í lágmarki og augljóst að lítill tími verður til að sinna daglegri handleiðslu á deildum svo sem hefð er fyrir á sjúkrahúsinu. Við þetta bætast áhrif af nýgerðum kjarasamningi þar sem stór hluti sérfræðinga fer í lækkað stöðuhlutfall. Því er augljóst að innihald og form þessa sumarnáms læknanema verður í meginatriðum annað en hinir hefðbundnu kúrsar hafa byggt á. Meira verður lagt upp úr því að stúdentar fái að spreyta sig sjálfir við úrlausnir klínískra viðfangsefna, undir eftirliti sérfræðinga.

Stjórnendur spítalans hljóta að spyrja ráðuneytið hvernig þeir eigi að geta stjórnað fyrirtæki á borð við LSH ef ákvarðanir um daglegan rekstur eru teknar úr þeirra höndum. Þeir þurfa líka að gera það upp við sig hvort sú læknisþjónusta sem almenningur fær á bráðamóttökum í sumar uppfylli þær gæðakröfur sem gerðar eru til sjúkrahússins þegar uppistaðan í framvarðasveitinni hefur nánast enga klíníska reynslu að styðjast við.

Yfirlæknar heilsugæslu víðs vegar um landið spyrja hvort sömu reglur eigi ekki að gilda um læknanema í afleysingastöðum á þeirra vegum?

Læknanemarnir þurfa að spyrja sig þeirrar spurningar hvert sé stéttarfélag þeirra og hver standi vörð um starfsréttindi þeirra og skyldur á vinnumarkaði? Nú þegar unglæknar hafa sagt sig úr Læknafélagi Íslands og boðað til aðgerða hafa læknanemar lýst yfir samstöðu með unglæknum og hyggjast taka þátt í aðgerðum þeirra. Því geta fylgt eftirmálar og spurningar vakna um hver sé ábyrgur fyrir afleiðingum aðgerðanna þegar til þeirra kemur. Læknanemar þurfa að gera sér grein fyrir því að eitt af megin hagsmunamálum þeirra er að njóta góðrar kennslu í klínískum fræðum, ekki að þeir komist sem fyrst í gegnum deildina.

Allir læknar þurfa að huga að starfsheiðri sínum, ábyrgð og skyldum í ljósi læknalaga og Codex Ethicus. Læknar verða að gera sér ljósa þá ábyrgð sem þeim er lögð á herðar við uppfræðslu og þjálfun læknanema. Þess vegna snertir þessi samningur alla lækna.

Innan læknadeildar hafa um nokkurt skeið verið uppi áform um að viðurkenna launuð störf læknanema sem hluta af klínískri þjálfun þeirra. Prófessorar í þeim greinum sem hér um ræðir taka fulla ábyrgð á að hvergi verði slakað á kröfum um gæði þeirrar kennslu sem þar fer fram. Jafnframt eru hugmyndir um að þessi sumarnámskeið gefi svigrúm til stúdentaskipta við erlenda læknaskóla á öðrum tímum námsársins. Því er augljóst að þarna er um ýmis sóknarfæri að ræða, bæði fyrir læknadeildina og stúdenta. Mikilvægt er að þessi frumraun takist vel.

Annað mál þessu skylt eru árviss vandræði við mönnun á sjúkrahússvöktum unglækna. Undirrót alls þessa vanda felst annars vegar í því að þriggja mánaða héraðsskylda var endurvakin án þess að gert væri ráð fyrir þeim auknum mannafla sem þessi breyting kallaði á. Eðlilegt er að unglæknar sæki út á land í hérað að sumarlagi til að uppfylla héraðsskyldu, enda er hún forsenda fyrir veitingu lækningaleyfis. Í annan stað hefur nýliðun innan stéttarinnar ekki verið í samræmi við breytingar á hvíldartímaákvæðum í kjarasamningum.

Því verður að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar. Læknadeildin verður að mæta þessum breytingum með skipulagningu formlegrar sumarkennslu þar sem hvergi er slakað á gæðakröfum. Rýmka þarf um fjöldatakmarkanir í læknadeild vegna síaukins skorts á unglæknum og breyttra aðstæðna á vinnumarkaði. Sjúkrahúsið þarf að bæta vinnuaðstöðu og vinnutilhögun og reyna að standa undir nafni sem háskólasjúkrahús. Læknanemar og unglæknar þurfa að sjá sér hag í því að tilheyra öflugu stéttarfélagi. Þeir þurfa að nýta sér þá möguleika sem nýir kennsluhættir leiða til. Læknastéttin verður öll að halda vöku sinni í þessu máli og axla í sameiningu þá ábyrgð að miðla áfram þekkingu sinni til komandi kynslóða lækna.Gleðilegt sumar.Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica