Umræða fréttir

Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Kjaramál sjúkrahúslækna - sameiginleg barátta eða sértæk!

Atkvæðagreiðsla fór nýlega fram um nýjan kjarasamning sjúkrahúslækna sem Læknafélag Íslands (LÍ) gerði fyrir hönd félaga sinna við hið opinbera. Af þeim læknum sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni var meirihluti honum samþykkur. Ekki verður sagt að einhugur hafi verið um samninginn þar sem um 37% lækna greiddu atkvæði gegn honum. Fulltrúi Félags ungra lækna (FUL) í samninganefnd LÍ neitaði að skrifa undir samninginn og félagar í FUL ákváðu að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslunni. Stjórn Skurðlæknafélags Íslands mælti gegn samningnum við sína félagsmenn.

Lengi vel hefur kjarabarátta lækna sem og annarra snúist að mestu um launahækkanir. Í dag eru breyttir tímar. Það er ljóst að launahækkanir skipta enn miklu máli. En í hugum margra þurfa ævilaun, lífeyrissjóðamál sem taka mið af lækkuðum eftirlaunaaldri, endurmenntun, starfsaðstaða og fleira að koma æ meira inn í samning sem þennan.

Við skulum láta einstök ágreiningsmál samningsins liggja á milli hluta en huga í stað þess að þeirri umræðu sem Skurðlæknafélag Íslands hóf áður en kjarasamningurinn var undirritaður og jafnframt að samþykkt aðalfundar FUL nú í kjölfar undirskriftar samningsins.

Í desember á síðasta ári fór stjórn Skurðlæknafélag Íslands fram á það við stjórn LÍ að aðilar leituðu eftir því í sameiningu að Skurðlæknafélag Íslands fengi í sínar hendur samningsumboð fyrir félagsmenn sína, skurðlækna, gagnvart ríkinu. Skurðlæknafélag Íslands hefur verið að vinna að þessu nokkur undanfarin ár. Með þessu hafa skurðlæknar ekki verið að kasta rýrð á störf samninganefndar LÍ. Skurðlæknar hafa átt og eiga enn sinn fulltrúa í samninganefnd LÍ og það væri því að skjóta sig í fótinn að fara að setja út á störf nefndarinnar. Á hinn bóginn hafa skurðlæknar með setu sinni í samninganefndinni áttað sig á því að þeir eiga fátt sameiginlegt með mörgum öðrum hópum lækna þegar kemur að kjarabaráttu. Það eru sjálfsagt mörg atriði sem hægt er að tína til sem sameina hina ýmsu hópa lækna. Lækna sem vinna einvörðungu hjá hinu opinbera, lækna sem vinna bæði hjá hinu opinbera og sjálfstætt og lækna innan sömu sérgreinar eins og skurðlækna.

Samninganefnd LÍ á og hefur reynt að taka mið af hagsmunum allra lækna og því er það augljóst að sérhagsmunir einstakra hópa, eins og skurðlækna, hafa þurft að víkja fyrir heildarhagsmunum, hvað svo sem einstökum hópum lækna kann að finnast um það. Hópar lækna eins og skurðlæknar telja kjaramálum sínum best komið í eigin höndum. Það er alveg ljóst á máli þeirra að þar eru þeir ekki að vísa til þess að aðrir læknar hafi ekki sérstöðu sem krefjist sértækra kjarasamninga heldur til þess að þeir þekki betur en aðrir til sinnar sérstöðu og séu því best fallnir til að semja um eigin kjör. Vandi skurðlækna er aftur á móti sá að þeir eru meðlimir í LÍ í gegnum hin ýmsu svæðafélög eins og Læknafélag Reykjavíkur, Læknafélag Vesturlands og svo framvegis. Samkvæmt 16. grein laga LÍ sér félagið um gerð kjarasamninga lækna í samráði við svæðafélög og önnur félög lækna eftir því sem við á hverju sinni.

Skurðlæknafélag Íslands samþykkti á aðalfundi sínum 22. febrúar síðastliðinn ný lög félagsins þar sem fram kemur að tilgangur þess sé meðal annars sá að koma fram fyrir hönd félagsmanna sinna við gerð kjarasamninga. Samkvæmt lögmanni félagsins standast ekki þær takmarkanir sem lögin um kjarasamninga opinberra starfsmenn setja félagi eins og Skurðlæknafélagi Íslands sé vilji félagsmanna annar.

FUL á hinn bóginn er eins og hvert annað svæðafélag innan LÍ sem gerir þeirra stöðu aðra en Skurðlæknafélags Íslands. Í kjölfar undirritunar samningsins á aukaaðalfundi FUL þann 10. maí síðastliðinn voru samþykkt ný lög FUL sem ekki gera ráð fyrir aðild að LÍ. Á þann hátt hyggst FUL afla sér viðurkenningar sem stéttarfélag og fá til sín samningsréttinn.

Að mati sumra virðist það ekki vera einfalt mál að óbreyttu fyrir einstaka hópa lækna sem eru bundnir hinum ýmsu svæðafélögum að fá samningsréttinn í sínar hendur. Vísað er til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986, 4.-6. grein. Mér skilst að lögfróðir menn séu ekki sammála um hvernig túlka eigi þessi lög. Sumir segja að vilji sé allt sem þarf eins og fram kom hér að framan. Einnig hefur verið nefnt að það sé ekki nægilegt að til sé félag sem hefur vilja til samninga heldur þurfi einnig að vera til mótaðili sem vill og hægt er að semja við sem í þessu tilviki er hið opinbera. Vilji hins opinbera til þessa er enn ekki ljós.

Nokkur umræða hefur farið fram innan stjórnar LÍ um það hvernig hægt er að koma því við að einstakir hópar lækna fái til sín samningsréttinn. Vilji er fyrir hendi en engin ályktun eða samþykkt hefur verið gerð. Vitað er að skoðanir eru mismunandi meðal félagsmanna LÍ en einhvers staðar þarf að byrja. Fjórar hugsanlegar leiðir hafa verið nefndar til sögunnar til að leysa þetta mál en formaður LÍ kynnti þær á formannafundinum 12. apríl síðastliðinn til að hefja umræðuna. Þær eru eftirfarandi:1. Óbreytt skipulag LÍ og afskiptaleysi varðandi fyrirætlanir einstakra læknahópa eins og skurðlækna. Að öllu óbreyttu yrðu þeir læknar þá að segja sig úr LÍ og síðan að afla sér viðurkenningar sem stéttarfélag. Þeir læknar færu eignalausir út úr LÍ.

2. Óbreytt skipulag LÍ en einstök félög eins og Skurðlæknafélag Íslands og FUL fengju viðurkenndan samningsrétt fyrir félagsmenn sína. Stjórn LÍ tæki hér virkan þátt í og styddi við bak félaganna til að ná fram samningsrétti þeirra. Aðkoma lækna að LÍ væri að öðru leyti óbreytt frá því sem er í dag.

3. Óbreytt skipulag LÍ en einstök félög fengju viðurkenndan samningsrétt fyrir félagsmenn sína. Líkt og í atriði 2 hér að framan en einstakir hópar lækna nytu ekki atkvæðisréttar innan svæðafélaga en ættu atkvæðisrétt á aðalfundi LÍ.

4. Breytt skipulag LÍ. Meginstoðir félagsins yrðu stéttarfélög lækna, í stað svæðafélaganna, til dæmis stéttarfélag skurðlækna, lyflækna, heimilislækna, rannsóknarlækna og ungra lækna. Stjórn LÍ yrði skipuð til dæmis fjórum læknum kjörnum á aðalfundi, formanni, varaformanni, ritara og gjaldkera en aðrir stjórnarmenn væru sjálfkjörnir, það er formenn félaganna fimm. Hér þyrfti að breyta lögum LÍ. Stéttarfélögin rækju LÍ, þar með talið hinn faglega hluta þess, stofnanir og erlend samskipti en kjaramál yrðu í höndum einstakra stéttarfélaga.Á fundinum voru fulltrúar svæðafélaganna ekki fráhverfir því að gera mætti skipulagsbreytingar á LÍ en að málið þarfnaðist frekari umræðu. Stjórn LÍ mun vinna úr þessum hugmyndum og fleirum fyrir aðalfund félagsins og jafnvel koma fram með lagabreytingartillögur ef þess er þörf að mati stjórnar. Ef fram koma tillögur um skipulagsbreytingar á LÍ þyrftu meðal annars svæðafélögin að breyta sínum lögum og því er ljóst að víðtæk samstaða þyrfti að nást um það mál og verður það ekki afgreitt einhliða á aðalfundi LÍ.

Ég held að það megi fullyrða að það sé vilji meirihluta lækna að vera áfram aðili að LÍ þar sem LÍ er ekki aðeins félag sem fer með kjaramál heldur gegnir það ýmsum öðrum hlutverkum sem eru læknum sameiginleg. Má í því sambandi nefna lífeyrissjóðsmál, útgáfustarfsemi, málefni er varða siðfræði og ýmis fagleg mál.

Það er vilji stjórnar LÍ og stjórnar Skurðlæknafélags Íslands, sem hóf þessa umræðu nú, að fram fari á næstunni ýtarleg umræða um samningamál einstakra læknahópa og henni verði haldið áfram á aðalfundi LÍ í október næstkomandi. Hvað svo sem mönnum finnst þá er það ljóst að þetta mál varðar fleiri en skurðlækna og unglækna og þarfnast því umræðu og ákvarðana svo að allir megi vel við una hvort heldur sem er innan eða utan LÍ.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica