Umræða fréttir

Skráður ungbarnadauði meiri og ævilíkur styttri þar sem einkarekstur er mestur í heilbrigðisþjónustu

Samanburður á heilsufari milli þjóða er flókið viðfangsefni. Nákvæmustu upplýsingar varða ungbarnadauða og ævilíkur. Í tugi ára hafa alþjóðlegar nefndir á Norðurlöndum og á vegum OECD unnið að þessum samanburði. Telja menn góðan árangur hafa náðst um reglur og aðferðir við þessar skráningar á Norðurlöndunum og í OECD-löndum, enda skýrslur birtar árlega. OECD-löndunum er skipt í þrjá flokka eftir því hve hárri upphæð er varið til einkareksturs af heildarfjárhæð eins og fram kemur í þessari grein. Í fyrri grein (Læknablaðið 2002; 88: 440) kom fram að heildarrekstur mælist sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er hærri í löndum er verja mestum fjárhæðum til einkareksturs en í löndum þar sem samfélagsrekstur vegur þyngra.

Heilsufar barna og eldra fólks tekur vissulega mið af fjölbreyttum þáttum, meðal annars næringu, efnahag, erfðum og fleiru.

En þessar upplýsingar koma frá vestrænum löndum sem búa við lýðræði, góða heilbrigðisþjónustu, til dæmis á hátæknisviðinu, og verja mestu fjármagni til heilbrigðisþjónustu í veröldinni.

Niðurstöður eru að skráður barnadauði er hærri og ævilíkur eru styttri meðal þeirra þjóða er búa við mestan einkarekstur. Líkleg skýring er að þar sem samfélagsþjónustan er viðamest er heilsugæsluþjónustan öflugri, meðal annars með samstarfi lækna og hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta, og þar af leiðandi er forvörnum og aðstoð við aldraða betur sinnt en í læknastofum í einkarekstri. Kostnaður er mestur í löndum þar sem einkarekstur vegur þyngst enda er oft krafist verulegra eigin greiðslna fyrir forvarnir. Nefna má sem dæmi að þó að hérlend heilbrigðisþjónusta hafi verið gagnrýnd eiga allir jafnt aðgengi að hverskyns forvörnum og kostnaður er yfirleitt lítill sem enginn. Í löndum þar sem einkarekstur vegur þungt, til dæmis í Bandaríkjunum, búa tæp 20% af börnum og fullorðnu fólki ekki við neinar tryggingar og verða því frekar útundan varðandi ungbarnavernd, mæðravernd og bólusetningar. Ungbarnadauði í "slömm"-hverfum margra stórborga vestrænna ríkja er svipaður og hjá þróunarríkjunum. Áður en menn hækka trommusláttinn fyrir einkarekstri má huga að þessu.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica