Umræða fréttir

Gerbreytt aðstaða og 40 nýir starfsmenn

Hjartavernd er að flytja í nýtt húsnæði en í framtíðinni verður þátttakendum í hóprannsóknum og öðrum sem erindi eiga við samtökin stefnt í Holtasmára 1 í Kópavogi. Þar er nýrisið stórt og glæsilegt hús og fær Hjartavernd til umráða hálfa þriðju hæð, alls 2500 fermetra. Við þetta gerbreytist öll starfsaðstaða félagsins eins og blaðamanni Læknablaðsins varð ljóst þegar hann gekk um salarkynnin í Holtasmáranum með Vilmundi Guðnasyni forstöðulækni.

Húsaskipan á nýja staðnum er þannig að á neðstu hæð er myndgreiningardeild þar sem gefur að líta fullkomnustu tæki sinnar tegundar hér á landi. Þar er fyrst til að taka segulómtæki sem varð frægt fyrir það að hrynja úr krana og eyðileggjast þegar verið var að koma því fyrir í húsinu. Höfð voru snör handtök og nýtt tæki útvegað sem komið er á sinn stað. Einnig er þarna öflugt tölvusneiðmyndatæki, ómtæki og sægur af tölvum sem notaðar eru við myndgreiningu. Sú tíð er liðin að menn séu að rýna í filmur á ljósatöflum, allar myndir eru á rafrænu og tölvutæku formi sem auðveldar greiningu, vinnslu og varðveislu þeirra.

Á næstu hæð er móttaka og hefðbundin aðstaða til sýnatöku, mælinga og viðtala við sjúklinga og þátttakendur í rannsóknum. Þar eru einnig rammgerðar skjalageymslur og vinnuaðstaða fyrir vísindamenn. Á efstu hæðinni sem Hjartavernd ræður yfir er svo rannsóknarstofa með fjölda nýrra tækja, kæli- og frystigeymsla fyrir sýni og skrifstofur stjórnenda.

Viðamesta rannsóknin að hefjast

Þeir sem þekkja til fyrra húsnæðis samtakanna í Lágmúla sjá fljótt að aðstaða til rannsókna og annarra starfa er allt önnur. Vilmundur staðfesti það og bætti því við að nýju húsakynnin gerðu samtökunum kleift að bæta við sig allt að 40 nýjum starfsmönnum, þar á meðal mörgum læknum og vísindamönnum.

"Með þessum nýja tækjabúnaði og fjölgun starfsfólks getum við tekist á hendur rannsóknir sem ekki hefur verið hægt að gera hér á landi."

Helsta ástæða flutninganna er sú að Hjartavernd fékk stóran styrk frá bandarísku heilbrigðisstofnuninni til þess að ráðast í nýja öldrunarrannsókn. Það er viðamesta rannsókn samtakanna hingað til og er gerð í samvinnu við Öldrunarstofnun bandaríska heilbrigðisráðuneytisins. Tilgangur hennar er að afla þekkingar og upplýsinga um samhengið á milli mælanlegra þátta snemma á ævi einstaklingsins og heilbrigði öldrunar. Þessa þekkingu verður hægt að nota í fyrirbyggjandi læknisfræði til þess að auka færni og þar með lífsgæði einstaklingsins á efri árum, seinka sjúkdómum og fækka sjúkrahúslegum.

"Þessi rannsókn er gerð í framhaldi af Reykjavíkurrannsókninni sem var að mestu einskorðuð við hjarta- og æðasjúkdóma. Nú rannsökum við alla króníska sjúkdóma og skoðum starfsemi heilans, ástand hjarta og æðakerfis, beinþéttni, vöðva- og fitudreifingu, jafnvægi og hreyfigetu fólks. Við byrjum að kalla fólk inn til rannsóknar um miðjan maí en framkvæmd og úrvinnsla þessa áfanga mun standa yfir næstu sjö ár.

Rannsóknin opnar nýja möguleika á akademísku starfi enda eru þegar komin í gang tvö doktorsverkefni og nokkur meistaraverkefni sem byggjast á henni. Hjartavernd er í samstarfi við háskólastofnanir beggja vegna Atlantshafs svo segja má að hér sé starfrækt fullgild háskóladeild enda starfa hér margir stúdentar. Við störfum líka mikið með Íslenskri erfðagreiningu og höfum gert ýmsar rannsóknir í því samstarfi sem hafa skilað áhugaverðum niðurstöðum."

Óskabarn þjóðarinnar

Hjartaverndarsamtökin voru stofnuð fyrir 38 árum en árið 1967 hófst starfsemi Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar. Allan þann tíma má segja að samtökin hafi verið eitt af óskabörnum þjóðarinnar. Þau hafa notið velvildar almennings og skilað þjóðinni mikilli þekkingu sem hefur beinlínis aukið lífsgæðin í landinu. En hvert er mat Vilmundar á afstöðu almennings til starfsemi samtakanna? Hefur velvildin lifað af allt moldrykið sem þyrlað var upp í umræðunni um gagnagrunninn?

"Við höfum ekki merkt að viðhorfin séu að breytast. Almenningur er mjög velviljaður í okkar garð og þátttaka í rannsóknum hefur ekki minnkað. Fólk er orðið upplýstara en áður og meðvitaðra um rétt sinn sem er af hinu góða, enda erum við að vinna að því að efla æðsta rétt hverrar manneskju sem er rétturinn til lífs og heilsu," sagði Vilmundur Guðnason forstöðulæknir Hjartaverndar.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica