Umræða fréttir

Broshornið 26: Af hiksta og beinagrind

Í gegnumlýsingu

"Heyrðu mig læknir, hvað er eiginlega að manninum mínum?" spurði Lára áhyggjufull.

"Það er ekki alveg á hreinu," sagði læknirinn, "og þess vegna ætla ég að senda hann í gegnumlýsingu."

"Það er nú algjör óþarfi því ég er búin að sjá í gegnum þann ímyndunarveika mann frá því við kynntumst."

Lækning við hiksta

Maður nokkur kom hlaupandi inn á bráðamóttökuna. Hann var mjög áhyggjufullur á svip og gekk að fyrsta lækninum sem hann sá og spurði: "Hver er besta leiðin til að stöðva hiksta?" Eins og hendi væri veifað löðrungaði læknirinn manninn. Sá síðarnefndi varð vægast sagt mjög undrandi og var greinilega brugðið. "Hvað á svona háttarlag að þýða?" spurði hann og varð hinn argasti. "Eins og þú veist þá ertu ekki með hiksta núna," sagði læknirinn eins blíðlega og hann gat. "Það getur vel verið," sagði maðurinn, "en það er konan mín sem bíður í bíl hérna fyrir utan sem er enn að hiksta."

Við dauðans dyr

Hjartalínuritið gaf til kynna að hjartað hætti að slá og gamli maðurinn missti meðvitund. Eftir endurlífgun í um það bil tuttugu sekúndur fór hjartað í gang aftur og nokkru síðar komst maðurinn til meðvitundar á ný. Þegar sá gamli var orðinn málhress greindi læknirinn honum frá því að hjartað hefði stoppað og spurði hvort hann gæti munað eftir einhverju sérstöku frá þeirri stund. "Ég sá skært ljós," sagði maðurinn, "og fyrir framan mig stóð hvítklæddur maður." Læknirinn varð mjög forvitinn að heyra meira af reynslu mannsins sem staðið hafði við dauðans dyr. "Gætirðu nokkuð lýst þessari mannveru nánar sem þú sást standa fyrir framan þig?" spurði læknirinn. "Alveg sjálfsagt. Það varst þú."

Við fjórða mann

Læknirinn fékk símtal frá starfsbróður sínum. "Okkur vantar fjórða mann í póker," sagði röddin í símanum. "Ég kem strax," sagði læknirinn.

Þegar hann var að fara í frakkann spurði frúin: "Er það eitthvað alvarlegt?"

"Já, það má eiginlega segja það. Þeir þurftu að kalla í þrjá lækna til viðbótar."Beinagrind í skápnum

Læknissonurinn fimm ára var að leika sér ásamt vini sínum inni á skrifstofu föður síns sem nýbúið var að taka í gegn í hólf og gólf. Leikfélaginn reif upp hurð á skáp og þar blasti við honum beinagrind sem hékk á slá. Drengurinn varð logandi hræddur en sonur læknisins greip í handlegginn á honum og reyndi að róa hann með því að segja að pabbi sinn væri búinn að eiga beinagrindina í mörg ár.

"Af einhverri undarlegri ástæðu þykir honum vænt um beinagrindina," sagði læknissonurinn.

"Af hverju?" spurði vinurinn.

"Ég veit það ekki," sagði sonurinn, "ef til vill er hún af fyrsta sjúklingnum hans."

Lestur vísindarita

Læknanemar: lesa heila grein í læknablaði en skilja lítið sem ekkert af því sem um er fjallað.

Læknakandídatar: nota læknablöð sem kodda þegar þeir halla sér á næturvaktinni.

Aðstoðarlæknar: lesa útdráttinn úr grein en kæra sig kollótta um sjálfa greinina.

Heimilislæknar: lesa ekki læknablöð en hafa augun opin fyrir greinum um læknisfræði í Time og Newsweek.

Yfirmenn læknadeilda: lesa heila grein í læknablaði en skilja lítið sem ekkert af því sem um er fjallað.

Ein með útferð

Alexandrína hitti heimilislækninn sinn og kvartaði um útferð. Hann bað hana að klæða sig úr og halla sér á skoðunarbekkinn. Síðan setti hann á sig gúmmíhanskana og tók að skoða konuna neðan beltis. "Ertu eitthvað aum hérna?" spurði læknirinn. "Nei, alls ekki, ég er með útferð úr eyranu."

Fyrir lífstíð

Konan hringdi í öngum sínum til læknisins. "Er það satt að ég þurfi að taka lyfið alla ævi sem þú ert nýbúinn að skrifa út fyrir mig?"

"Já, það verður víst að vera svo," sagði læknirinn.

Það var dauðaþögn í símanum en svo hélt konan áfram: "Þá verður þú að segja mér hvað ég er alvarlega veik því á lyfseðlinum stóð: "Afgreiðist einu sinni.""

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica