Umræða fréttir

Sjálfsagður réttur lækna að nýta lækningaleyfið

Eins og fram kemur í umræðum um stofnun Læknalindar er þar farið inn á nýja braut í fjármögnun heilbrigðisþjónustu. Íslenskir læknar hafa hingað til aðhyllst það sem meginreglu að ríkið greiði fyrir þjónustuna þó svo að reksturinn sé í mörgum tilvikum í höndum einstaklinga eða fyrirtækja í einkaeigu. Í Læknalind er stigið einu skrefi lengra og almenningi boðið upp á einskonar einkasjúkrasamlag. Læknablaðinu lék forvitni á að vita hver væri afstaða Sigurbjörns Sveinssonar formanns Læknafélags Íslands til þess rekstrarforms sem þarna er bryddað upp á.

"Það hefur stundum verið orðað þannig að lögin um heilbrigðisþjónustu séu einskonar sáttmáli þar sem sett er á blað meginefni þess sem þjóðin vill að gert sé í heilbrigðismálum og hvernig það er framkvæmt. Í upphafi laganna segir að ríkið eigi að veita eins góða heilbrigðisþjónustu og hægt er að veita á hverjum tíma og að allir hafi jafnan rétt til að njóta hennar, óháð stétt, efnahag eða búsetu. Þetta er meginstefnan og góður meirihluti lækna hefur verið á þeirri skoðun að hún sé rétt.

Það er hins vegar réttur hvers læknis að nýta sitt lækningaleyfi og bjóða sína þjónustu. Það helgast af stjórnarskrárvörðum rétti manna til atvinnufrelsis og á þeim grundvelli hafa læknarnir í Læknalind og aðrir boðið fram þjónustu sína. Það er samkomulag um að sumir læknar, til dæmis lýtalæknar, geti boðið hluta af sinni þjónustu með þessum hætti. Eins hafa alltaf verið til læknar sem staðið hafa alveg utan við tryggingarnar að hluta til en á sama tíma unnið á stofnunum ríkisins.

Þess vegna lítur málið þannig út frá mínum sjónarhóli: Ríkið verður að halda uppi fullnægjandi heilbrigðisþjónustu fyrir alla. Hins vegar eiga þegnarnir það val að kaupa sér einhverja þjónustu sem læknar bjóða. Sú ákvörðun verður að byggjast á frjálsu vali, það má ekki vera nauðungarval, þvingað vegna ófullnægjandi þjónustu ríkisins. Þá er komin upp sú staða að sumir þjóðfélagshópar neyðast til að kaupa fullu verði þjónustu sem aðrir njóta fyrir mun lægra verð vegna greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar.

Kannski er slíkt ástand í þjóðfélaginu. Ég hef áður kallað stjórnmálamenn til ábyrgðar vegna þessa. Ef einhverjir þurfa að velja þjónustu læknanna í Læknalind vegna þess að þeir eiga ekki kost á annarri þjónustu þá er ábyrgð stjórnmálamanna mikil. En ég er eindreginn stuðningsmaður þess að læknar noti lækningaleyfi sitt til þess að bjóða þjónustu sína og að fólk eigi val um að kaupa sér slíka þjónustu hafi það efni og ástæður til."

Er kerfið að opnast?

Læknalind fellur ekki af himnum ofan í tómarúm því heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið hálfgert vandræðabarn heilbrigðiskerfisins á undanförnum árum. Hvert er álit formanns LÍ á því hvers vegna svo illa hefur gengið að byggja upp heilsugæsluna þannig að íbúar höfuðborgarsvæðisins geti við unað?

"Það hefur ekki verið vilji til að setja nægt fjármagn í hana, uppbyggingin hefur verið of hæg. Fram yfir 1990 var höfuðáherslan lögð á uppbyggingu heilsugæslunnar í dreifbýli en reynt að halda í horfinu á Reykjavíkursvæðinu. Þar var uppbyggingin miklu hægari. Upp úr 1990 átti að setja aukinn kraft í hana en það gekk ekki sem skyldi. Frá 1988 hefur enginn komist inn á samning sem sjálfstætt starfandi heimilislæknir svo það má segja að verið sé að láta þá deyja út sem stétt. Kerfið hefur því verið allt of ósveigjanlegt og fast í bókstafstrú stjórnvalda á það að enginn nema hið opinbera geti rekið heilsugæslu. Fyrir vikið hafa eingöngu þeir sem geta hugsað sér að vinna við þær aðstæður komið til starfa en aðrir ekki. Hefði kerfið verið sveigjanlegra væru örugglega fleiri að störfum núna sem heimilislæknar."

- En nú eru ýmis teikn á lofti um að verið sé að opna á ný rekstrarform. Ráðherra boðar útboð á rekstri heilsugæslustöðvar í Kópavogi og ræðir um að láta reyna frekar á "Lágmúlamódelið".

"Já, heilbrigðisráðherra talar þannig en ég óttast að minna verði um efndir. Eins og rætt er um hlutina núna er ætlunin að stökkva úr ríkisrekstri yfir í opið útboð þar sem búast má við að fyrirtæki á borð við Lyfjaverslun Íslands eða Íslenska aðalverktaka bjóði í reksturinn til 30 ára. Þetta er framandi hugsun fyrir okkur lækna sem höfum verið að tala um verktöku lækna eða gerð þjónustusamninga við ríkið. Vitaskuld geta læknar tekið höndum saman og boðið í reksturinn en þetta er stórt stökk og læknar hafa ekki reynslu af svona rekstri.

Ég efast líka um að hægt sé að semja viðunandi útboðslýsingu út frá þeim upplýsingum sem fyrir liggja, hvort sem litið er á rekstrarþáttinn eða þau verk sem á að vinna á væntanlegri heilsugæslustöð. Ég hef ekki séð ítarlega reikninga um rekstur heilsugæslustöðva og það skráningarkerfi sem notað er á heilsugæslustöðvunum gefur ekki fullnægjandi mynd af því sem við erum að gera þar. Það veit enginn hvað ég og aðrir starfsmenn eru að gera né í hvað á að bjóða."

- Sérðu fyrir þér að ríkið muni þegar fram líða stundir bjóða læknunum í Læknalind að gera við þá þjónustusamning?

"Þeir starfa í stóru hverfi og ef þeir fá marga íbúa þess til að kaupa áskrift og bæta því við þá skatta sem þeir greiða þá hljóta stjórnvöld að spyrja sig hvernig þau eigi að veita þessu fólki þjónustu á sama grunni og öðrum. Ég veit ekki hvert svarið verður en eitthvað verður að gera ef þeim gengur vel," segir Sigurbjörn Sveinsson formaður LÍ.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica