Umræða fréttir

Stjórnarskipti hjá Læknafélagi Reykjavíkur

Stjórnarskipti fóru fram í Læknafélagi Reykjavíkur (LR) á aðalfundi félagsins fimmtudaginn 14. mars sl. Kosið var í stjórn og meðstjórn félagsins og fulltrúar og nefndir skipaðar. Úr stjórn gengu Ólafur Þór Ævarsson, Margrét Georgsdóttir og Runólfur Pálsson. Úr meðstjórn gengu Georg Steinþórsson, Kjartan B. Örvar, Margrét Oddsdóttir og Samúel J. Samúelsson.

Læknafélag Reykjavíkur er öflugt félag og langstærsta svæðafélag lækna en í því eru nú um 670 félagar. Fráfarandi stjórn hefur beitt sér fyrir því að efla sjálfsvitund og kjör lækna og stuðlað að umræðu um fjölbreytileika í rekstrarformum í heilbrigðisþjónustu. Á vegum félagsins hefur verið gerð lögfræðileg úttekt á einkarekinni heilbrigðisþjónustu og lagðar hafa verið fram tillögur um stöðu lækna í nýju skipulagi háskólasjúkrahúss. Stjórnin hefur hvatt til aukinnar samvinnu milli megin hluta heilbrigðisþjónustunnar, heilsugæslu, sjúkrahúss og sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja og læknastofa. Einnig hefur verið bryddað upp á þeim nýjungum að bjóða læknum þjálfun í framkomu í fjölmiðlum og læknar félagsins hafa veitt almenningi fræðslu um heilbrigði og sjúkdóma og tekið þátt í aukinni umræðu um heilbrigðismál í fjölmiðlum.

Í stjórnartíð fráfarandi stjórnar hefur verið lögð áhersla á að auka samkennd lækna og innri styrk félagsins. Fræðslu- og skemmtikvöld hafa verið skipulögð með samblandi af fræðslu um læknisfræðilegt efni, fróðleik um efni ótengt læknisfræðinni og samveru með mökum yfir máltíð. Skapast hefur sú hefð að sá læknir sem stendur fyrir fræðslu kvöldsins skorar á þann sem næst á að fræða.

Samvinna og gerð samninga sjálfstætt starfandi sérfræðilækna við Tryggingastofnun ríkisins (TR) er eitt veigamesta verkefni félagsins. Samninganefnd LR hefur starfað ötullega undir forystu Þórðar Sverrissonar og með mikilli samvinnu við samninganefnd TR og starfsmenn heilbrigðis- og fjármálaráðuneyta. Verulegur árangur hefur náðst í kjaramálum en auk hefðbundinnar samningagerðar hefur skapast góð samvinna LR og TR um skipulagningu þessa mikilvæga hluta heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Þessi starfsemi tekur sífellt breytingum eftir þörf sjúklinga, með breyttum meðferðarmöguleikum og nýjungum í læknisfræði. Hlustað hefur verið á fagleg rök og ráðleggingar læknanna í samninganefndinni og einnig hefur verið haft samráð við lækna úr hinum ýmsu sérgreinum. Vekur það athygli innan stjórnkerfisins hve vel starfsemi sérfræðinga utan spítala er skipulögð og kostnaðargreining skýr. Samstarf þetta hefur vaxið stig af stigi síðustu árin og hefur verið farsælt og kemur það ekki á óvart þar sem læknarnir sjálfir, sem starfa í þessu kerfi og best þekkja til starfseminnar, hafa í vaxandi mæli haft áhrif til að skipuleggja þjónustuna. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi faglegt samstarf milli veitenda og greiðanda heilbrigðisþjónustunnar með þessum hætti og leyfa þessu einstaka samstarfi að þroskast áfram, því hér er um spennandi nýjung að ræða við skipulagningu í heilbrigðiskerfinu sem líkleg er til að tryggja fagleg gæði og jafnframt hagkvæmni í rekstri.

Síðasta samkomulag við TR var gert 19. desember 2001. Samningsbundið einingaverð var ákvarðað kr. 194,00 frá 1 janúar 2002 til 30. september 2002.

Breytingar voru gerðar á samninganefnd LR í vetur. Högni Óskarsson lét af störfum eftir að hafa starfað í nefndinni vel á annan áratug. Hefur Högni verið einn af virkustu og öflugustu samningamönnum nefndarinnar. Einnig hætti Karl Andersen eftir farsælt starf í nefndinni. Nýir í nefndinni eru Sveinn Geir Einarsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Ingólfur Sveinsson og Guðjón Birgisson. Stefán Einar Matthíasson og Þórður Sverrisson formaður hafa borið hitann og þungann af störfum nefndarinnar síðustu árin og halda áfram störfum í nefndinni. Ég vil hér með nota tækifærið til að þakka samingamönnunum af alhug fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins og fyrir faglegt framlag þeirra til bætts skipulags góðrar heilbrigðisþjónustu fyrir sjúklingana.

Vil ég einnig þakka fráfarandi stjórn og meðstjórn fyrir sérstaklega ánægjulegt samstarf á undanförnum fjórum árum og óska nýrri stjórn, Óskari Einarssyni formanni, Sigurði Blöndal gjaldkera og Elínborgu Bárðardóttur ritara, velfarnaðar í störfum fyrir félagið okkar í framtíðinni.



Fráfarandi formaður Læknafélags Reykjavíkur

Ólafur Þór Ævarsson

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica