Umræða fréttir

Tilboð á veiðileyfum í Hreðavatni



Eflaust eru margir veiðiáhugamenn í læknastétt komnir með fiðring sem væntanlega eykst eftir því sem sól hækkar á lofti. Sumir þreyja þorrann og góuna með því að hnýta flugur til að fleygja fyrir stórlaxa sumarsins, aðrir bara bíða.

En fleira er fiskur en lax eins og þar stendur. Svo vill til að Læknafélagið á sumarhús við Hreðavatn en í því fagra vatni er nokkur silungsveiði þótt ekki séu allir fiskar risastórir. Þannig segir í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu frá feðgum sem reyndu fyrir sér í vatninu og komust í feitt. Annar fékk yfir 50 bleikjur en hinn eitthvað færri. Sá síðarnefndi rak einnig í þriggja punda urriða.

Nú hefur stjórn Hreðavatns ehf. sem á veiðiréttinn í vatninu ákveðið að breyta verðlagningu á veiðileyfum á þann veg að í stað þess að þeir sem vilja veiða þar greiði 700 krónur fyrir daginn á eina stöng þá er eigendum sumarhúsa boðið upp á að greiða 5.000 krónur fyrir tímabilið 1. maí til 30. september. Sé það gert mega þeir sem dvelja í hverju húsi veiða á tvær stengur dag hvern allt tímabilið.

Orlofsnefnd Læknafélags Íslands ákvað að taka þessu ágæta tilboði og geta því þeir sem gista í húsum félagsins við Hreðavatn veitt á tvær stengur upp á hvern einasta dag frá maíbyrjun til septemberloka ef vilji er fyrir hendi án þess að greiða fyrir það aukalega.

Það eru tilmæli orlofsnefndar að þeir sem nýta sér þetta veiðileyfi haldi veiðidagbók og skrái hjá sér aflann sem berst á land. Er það bæði til gamans gert og einnig til þess að kortleggja vatnið, hvort þar er einhver veiði að ráði og hvar hún er best.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica