Umræða fréttir

Af sjónarhóli stjórnar. Á að auglýsa allar stöður lækna?

Fram að þessu hefur það ekki þótt sýna mikla stéttvísi að varpa þessari spurningu fram enda lengi verið baráttumál lækna að allar stöður séu auglýstar og af hverju að breyta því?

Í 17. grein laga Læknafélags Íslands segir m.a.:

"Enginn félagsmaður má sækja um eða taka við stöðu eða embætti nema þau hafi verið auglýst til umsóknar með minnst fjögurrra vikna fyrirvara. Með stöðu er hér átt við, að stöðugildi sé a.m.k. 25%, ráðningartími a.m.k. 3 mánuðir og að staðan falli utan kanditatsárs ungra lækna. Það telst einnig staða sé stöðuhlutfall aukið þannig, að það nái 25% stöðugildi."

Hér er enginn greinarmunur gerður á því hver er vinnuveitandi eða hvers eðlis starfið er. Það hefur þó verið skilningur þeirra sem að þessari lagagrein stóðu á sínum tíma að átt væri við lækningastöður hjá sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum enda fáum öðrum stöðum til að dreifa. Þessar ráðningar voru að jafnaði til frambúðar og því þótti skipta máli að allir til þess bærir læknar fengju jöfn tækifæri. Lagagreinin var svar Læknafélagsins við þeirri tilhneigingu vinnuveitenda að ráða lækna í afleysingastöður um skamman tíma en framlengja ráðninguna hvað eftir annað og dæmi voru um lækna sem voru þannig ráðnir árum saman. Það voru ekki síst íslenskir læknar erlendis sem höfðu af þessu áhyggjur enda voru tækifæri hvers og eins til að fá starf heima ekki mörg, einkum í fámennum sérgreinum. Það er einkum frá þeim komið að fyrirvarinn verði að minnsta kosti fjórar vikur svo þeim gæfist tími til að safna gögnum og senda inn með umsókn. Starfsvettvangur lækna er hins vegar breytilegri í dag og nú er svo komið að fjölmargir læknar eru ráðnir til ýmissa starfa án auglýsingar og virðast fáir kippa sér upp við það. Rétt er vekja athygli á því að lög félagsins leggja þá kvöð á lækna að taka ekki við stöðum nema þær hafi verið auglýstar en þó er virðing manna fyrir þessari grein ekki meiri en svo að margir þeirra hafa frumkvæði að því að leita eftir ráðningu hjá fyrirtækjum án þess að nokkuð hafi verið auglýst og eru í sumum tilvikum ráðnir í kjölfarið. Þetta eru einkum rannsóknarstöður til afmarkaðra verkefna hjá einkafyrirtækjum en þeim hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Þó má finna ótímabundnar ráðningar á þeim vettvangi sem eru að því er virðist ígildi ráðningar á opinberum vettvangi. Annað svið sem hefur stundum valdið deilum er þegar læknar stofna fyrirtæki til lækninga og starfa þar sjálfir án þess að til auglýsinga hafi komið. Sem dæmi má nefna heilsugæslustöðvar á eftirsóknarverðum svæðum og hefur það aftur leitt til þess að hið opinbera hefur ekki stofnað stöð á því svæði. Í þessum tilvikum hafa rekist á tvö sjónarmið Læknafélagsins, annars vegar að allar stöður skuli auglýstar, samanber ofannefnda lagagrein, og hins vegar að gera öllum rekstarformum jafn hátt undir höfði. Það þýðir í reynd að Læknafélagið hefur stutt sérstaklega einkaframtakið því það hefur átt undir högg að sækja innan heilbrigðiskerfisins. Það hefur ekki þótt viðeigandi að hvetja lækna til að hefja eigin rekstur og jafnframt leggja á þá kvöð að stöðurnar sem þeir hafa búið til sjálfum sér til handa verði auglýstar!

Tímabært er að endurskoða lagagreinina enda ófært að í lögum Læknafélagsins séu ákvæði sem enginn virðir. Ekki er óeðlilegt að gera misjafnar kröfur til ráðninga eftir eðli starfans. Kennslustöður við Háskólann og lækningastöður á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum eiga að lúta áfram sama ákvæði um auglýsingar enda um það sátt meðal lækna og opinberra aðila núorðið. Öðru máli gegnir um hinn almenna vinnumarkað. Ef horft er til þess sem gildir á því sviði fyrir háskólamenn virðist sem hverjum vinnuveitanda sé látið það eftir að ákveða hvernig hann hagar ráðningum. Stöður geta verið auglýstar, ráðningarskrifstofu falið að velja einn eða fleiri sem komið geti til greina eða hreinlega að ákveðnum einstaklingum er boðið starf milliliðalaust.

Eðlilegt er að læknar ræði þetta innan félagsins og ef vilji stendur til þess er hægt að breyta ákvæðinu um auglýsingar á næsta aðalfundi í haust.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica