Ritstjórnargreinar
Um vottorðagjöf lækna
Eins og mörgum er í fersku minni hafði stjórn Læknafélags Íslands sjálfsögð afskipti af máli trúnaðarlæknis Flugmálastjórnar, Þengils Oddssonar, er honum var vikið tímabundið úr starfi vegna vottorðs sem hann gaf út fyrir flugmann. Í bréfi sínu til samgönguráðherra segir stjórn LÍ:
"Stjórn Læknafélags Íslands hefur yfirfarið ágreining Þengils Oddssonar, fluglæknis og trúnaðarlæknis Flugmálastjórnar Íslands, annars vegar og Flugmálastjórnar/Samgönguráðuneytisins hins vegar um útgáfu heilbrigðisvottorðs atvinnuflugmanns samkvæmt heilbrigðisákvæðum um flugskírteini. Í hlut á læknir með óvenju fjölþætta starfsreynslu og farsælan feril í læknisstarfi.
Er það niðurstaða stjórnar Læknafélags Íslands að Þengill Oddsson hafi ekki brotið gegn þeim ítarlegu reglum sem uppfylla ber á vettvangi flugöryggismála. Samgönguráðherra hefur skipað nefnd sem skoða skal störf og viðbrögð læknisins vegna þessa ágreiningsmáls. Hafi nauðsyn borið til að stofna slíka rannsóknarnefnd hefði átt að fela henni það verkefni að skoða meðferð þessa máls í heild, - þar með talda stjórnsýslu samgönguráðuneytisins í málinu og annarra þeirra, sem aðild eiga að ágreiningnum eða komið hafa að málinu með einhverjum hætti. Óháð skoðun á öllum málavöxtum hefði það verið trúverðugri skipan mála en sú sem valin var.
Stjórn LÍ hvetur til að rannsökuð verði til hlítar sú óeðlilega og ósæmilega stjórnsýsla að segja lækninum upp störfum, þá er hann hafði sagt sig frá málinu vegna þess ágreinings, sem uppi var. Brottvikning úr starfi vóg að starfsheiðri læknisins, sem hefur sinnt starfi sínu af alúð og kostgæfni og farið í einu og öllu eftir alþjóðlegum vinnureglum, læknisfræðilegum staðreyndum og eigin sannfæringu."
Bæði mál Þengils og staða þeirra lækna sem skipaðir voru í áfrýjunarnefnd til að fara yfir niðurstöðu Þengils vekja ýmsar spurningar um hver réttarstaða lækna er við vottorðagjöf í þeim tilvikum þegar mörkin eru óljós milli faglegrar álitsgjafar annars vegar og stjórnsýsluákvarðana hins vegar. Siðfræðiráð Læknafélags Íslands undirbýr fræðilega umfjöllun um þetta sjónarhorn og er það vel. Heilsugæslulæknar hafa að undanförnu velt fyrir sér skyldum sínum til að láta af hendi vottorð, einkum vegna óska þriðja aðila eins og þeir vilja kalla það, til dæmis vegna trygginga- og dómsmála, veitingu atvinnuleyfa og annarra leyfisveitinga hins opinbera og vegna fjarvista. Í bréfi lögfræðings þeirra og Læknafélags Íslands, Ólafs Jóhannesar Einarssonar, til kjaranefndar frá 29. janúar síðastliðnum stendur:
"Í 12. gr. læknalaga nr. 53/1988 segir: "Lækni er skylt að láta hinu opinbera í té vottorð um sjúklinga er hann annast þegar slíkra vottorða er krafist vegna viðskipta sjúklings við hið opinbera." Forvera ákvæðis 12. gr. læknalaga er að finna í 7. gr. laga nr. 47/1932, um lækningaleyfi, um réttindi og skyldur lækna og annarra, er lækningaleyfi hafa, og um skottulækningar en þar sagði: "Læknar eru skyldir til að láta hinu opinbera í té vottorð um sjúklinga, er þeir hafa eða hafa haft undir höndum, er slíkra vottorða er almennt krafist vegna viðskipta sjúklinganna við hið opinbera, vegna fátækrahjálpar, styrkveitinga, trygginga og þess háttar, og ber þeim að fara nákvæmlega eftir öllum fyrirmælum um gerð vottorðanna. Sama skylda hvílir á sjúkrahúsum og öðrum tilsvarandi stofnunum. Heimilt er lækni að senda landlækni einum vottorðið sem trúnaðarmál, ef honum þykir ástæða til vegna ákvæða 10. gr." Í athugasemdum við 7. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 47/1932 segir: "Það fer meira og meira í vöxt, að hið opinbera þarfnast læknisvottorða vegna styrkveitinga, trygginga, o.s.frv., og verður að skylda lækna til að láta nauðsynleg vottorð í té og gera þau þannig úr garði sem krafizt er. Nú getur komið fyrir að læknir líti svo á, að vottorð, sem af honum er krafizt, gangi nærri ákvæðum 10. gr. um þagnarskyldu lækna og þykir þá rétt, að heimila honum að senda vottorðið landlækni einum sem trúnaðarmál. Er það ákvæði í samræmi við svipað ákvæði í kynsjúkdómalögunum" (Alþt. A-deild, 1932, bls. 186).
Ákvæði nefndrar 7. gr. var að finna óbreytt sem 7. gr. læknalaga nr. 80/1969. Ákvæðinu var síðan breytt með 5. gr. laga nr. 108/1973, en þá var heimild læknis til að senda landlækni einum vottorð felld brott úr lögunum. Hins vegar virðast ekki hafa verið gerðar aðrar efnisbreytingar á 7. gr. læknalaga og má í því sambandi vísa til almennra athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 108/1973, en þar sagði að aðrar efnisbreytingar væru ekki gerðar frá gildandi lögum. Hins vegar væri orðalagi nokkurra greina breytt til nútímalegra horfs (Alþt. A-deild, 1973, bls. 681). Í athugasemdum við 12. gr. frumvarps þess, sem varð að læknalögum nr. 53/1988, segir að ákvæðið sé efnislega samhljóða 7. gr. gildandi laga (Alþt. A-deild, 1986, bls. 1174)."
Ákvæði læknalaga leggur okkur þær skyldur á herðar að gefa sjúklingum okkar vottorð. Þessar skyldur eru hins vegar takmarkaðar samkvæmt lögunum. Sé beitt lögskýringu, eins og lögfræðingurinn hefur gert til að draga fram innihald skyldunnar, er það viðurkennd regla að túlka ákvæði um skyldur borgaranna þröngt. Af því má ráða að ákvæði læknalaga um skyldur okkar varði einungis vottorð sem nauðsynleg eru til að fjalla um bætur úr sjúkra- eða slysatryggingum hins opinbera eða til að njóta félagslegrar aðstoðar. Að sjálfsögðu verða læknar ekki undanþegnir því að bera vitni fyrir dómi, en það er annar handleggur.
Það er eðlilegt að læknar endurskoði tök sín á alls kyns kröfum um vætti vegna margvíslegra viðfangsefna. Það er ekkert sjálfsagt að læknar hlaupi til í hvert skipti sem á þá er kallað til að skera úr um atriði sem liggja fjarri lækningum. Mörg vottorð sem varða fjarvistir úr vinnu, úr skóla eða veitingu byssuleyfa, svo dæmi séu tekin, eru í raun karaktervitnisburðir og byggja á trúnaði læknis og sjúklings og engu öðru. Hve langt á að ganga í slíkri vottorðagjöf?
Það er mín skoðun að læknar eigi almennt að herða kröfur sínar til beiðna sem þeim berast af þessu tagi og prófa hvert mál ítarlega gagnvart samvisku sinni. Þar hefur Þengill Oddsson gefið gott fordæmi.
"Stjórn Læknafélags Íslands hefur yfirfarið ágreining Þengils Oddssonar, fluglæknis og trúnaðarlæknis Flugmálastjórnar Íslands, annars vegar og Flugmálastjórnar/Samgönguráðuneytisins hins vegar um útgáfu heilbrigðisvottorðs atvinnuflugmanns samkvæmt heilbrigðisákvæðum um flugskírteini. Í hlut á læknir með óvenju fjölþætta starfsreynslu og farsælan feril í læknisstarfi.
Er það niðurstaða stjórnar Læknafélags Íslands að Þengill Oddsson hafi ekki brotið gegn þeim ítarlegu reglum sem uppfylla ber á vettvangi flugöryggismála. Samgönguráðherra hefur skipað nefnd sem skoða skal störf og viðbrögð læknisins vegna þessa ágreiningsmáls. Hafi nauðsyn borið til að stofna slíka rannsóknarnefnd hefði átt að fela henni það verkefni að skoða meðferð þessa máls í heild, - þar með talda stjórnsýslu samgönguráðuneytisins í málinu og annarra þeirra, sem aðild eiga að ágreiningnum eða komið hafa að málinu með einhverjum hætti. Óháð skoðun á öllum málavöxtum hefði það verið trúverðugri skipan mála en sú sem valin var.
Stjórn LÍ hvetur til að rannsökuð verði til hlítar sú óeðlilega og ósæmilega stjórnsýsla að segja lækninum upp störfum, þá er hann hafði sagt sig frá málinu vegna þess ágreinings, sem uppi var. Brottvikning úr starfi vóg að starfsheiðri læknisins, sem hefur sinnt starfi sínu af alúð og kostgæfni og farið í einu og öllu eftir alþjóðlegum vinnureglum, læknisfræðilegum staðreyndum og eigin sannfæringu."
Bæði mál Þengils og staða þeirra lækna sem skipaðir voru í áfrýjunarnefnd til að fara yfir niðurstöðu Þengils vekja ýmsar spurningar um hver réttarstaða lækna er við vottorðagjöf í þeim tilvikum þegar mörkin eru óljós milli faglegrar álitsgjafar annars vegar og stjórnsýsluákvarðana hins vegar. Siðfræðiráð Læknafélags Íslands undirbýr fræðilega umfjöllun um þetta sjónarhorn og er það vel. Heilsugæslulæknar hafa að undanförnu velt fyrir sér skyldum sínum til að láta af hendi vottorð, einkum vegna óska þriðja aðila eins og þeir vilja kalla það, til dæmis vegna trygginga- og dómsmála, veitingu atvinnuleyfa og annarra leyfisveitinga hins opinbera og vegna fjarvista. Í bréfi lögfræðings þeirra og Læknafélags Íslands, Ólafs Jóhannesar Einarssonar, til kjaranefndar frá 29. janúar síðastliðnum stendur:
"Í 12. gr. læknalaga nr. 53/1988 segir: "Lækni er skylt að láta hinu opinbera í té vottorð um sjúklinga er hann annast þegar slíkra vottorða er krafist vegna viðskipta sjúklings við hið opinbera." Forvera ákvæðis 12. gr. læknalaga er að finna í 7. gr. laga nr. 47/1932, um lækningaleyfi, um réttindi og skyldur lækna og annarra, er lækningaleyfi hafa, og um skottulækningar en þar sagði: "Læknar eru skyldir til að láta hinu opinbera í té vottorð um sjúklinga, er þeir hafa eða hafa haft undir höndum, er slíkra vottorða er almennt krafist vegna viðskipta sjúklinganna við hið opinbera, vegna fátækrahjálpar, styrkveitinga, trygginga og þess háttar, og ber þeim að fara nákvæmlega eftir öllum fyrirmælum um gerð vottorðanna. Sama skylda hvílir á sjúkrahúsum og öðrum tilsvarandi stofnunum. Heimilt er lækni að senda landlækni einum vottorðið sem trúnaðarmál, ef honum þykir ástæða til vegna ákvæða 10. gr." Í athugasemdum við 7. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 47/1932 segir: "Það fer meira og meira í vöxt, að hið opinbera þarfnast læknisvottorða vegna styrkveitinga, trygginga, o.s.frv., og verður að skylda lækna til að láta nauðsynleg vottorð í té og gera þau þannig úr garði sem krafizt er. Nú getur komið fyrir að læknir líti svo á, að vottorð, sem af honum er krafizt, gangi nærri ákvæðum 10. gr. um þagnarskyldu lækna og þykir þá rétt, að heimila honum að senda vottorðið landlækni einum sem trúnaðarmál. Er það ákvæði í samræmi við svipað ákvæði í kynsjúkdómalögunum" (Alþt. A-deild, 1932, bls. 186).
Ákvæði nefndrar 7. gr. var að finna óbreytt sem 7. gr. læknalaga nr. 80/1969. Ákvæðinu var síðan breytt með 5. gr. laga nr. 108/1973, en þá var heimild læknis til að senda landlækni einum vottorð felld brott úr lögunum. Hins vegar virðast ekki hafa verið gerðar aðrar efnisbreytingar á 7. gr. læknalaga og má í því sambandi vísa til almennra athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 108/1973, en þar sagði að aðrar efnisbreytingar væru ekki gerðar frá gildandi lögum. Hins vegar væri orðalagi nokkurra greina breytt til nútímalegra horfs (Alþt. A-deild, 1973, bls. 681). Í athugasemdum við 12. gr. frumvarps þess, sem varð að læknalögum nr. 53/1988, segir að ákvæðið sé efnislega samhljóða 7. gr. gildandi laga (Alþt. A-deild, 1986, bls. 1174)."
Ákvæði læknalaga leggur okkur þær skyldur á herðar að gefa sjúklingum okkar vottorð. Þessar skyldur eru hins vegar takmarkaðar samkvæmt lögunum. Sé beitt lögskýringu, eins og lögfræðingurinn hefur gert til að draga fram innihald skyldunnar, er það viðurkennd regla að túlka ákvæði um skyldur borgaranna þröngt. Af því má ráða að ákvæði læknalaga um skyldur okkar varði einungis vottorð sem nauðsynleg eru til að fjalla um bætur úr sjúkra- eða slysatryggingum hins opinbera eða til að njóta félagslegrar aðstoðar. Að sjálfsögðu verða læknar ekki undanþegnir því að bera vitni fyrir dómi, en það er annar handleggur.
Það er eðlilegt að læknar endurskoði tök sín á alls kyns kröfum um vætti vegna margvíslegra viðfangsefna. Það er ekkert sjálfsagt að læknar hlaupi til í hvert skipti sem á þá er kallað til að skera úr um atriði sem liggja fjarri lækningum. Mörg vottorð sem varða fjarvistir úr vinnu, úr skóla eða veitingu byssuleyfa, svo dæmi séu tekin, eru í raun karaktervitnisburðir og byggja á trúnaði læknis og sjúklings og engu öðru. Hve langt á að ganga í slíkri vottorðagjöf?
Það er mín skoðun að læknar eigi almennt að herða kröfur sínar til beiðna sem þeim berast af þessu tagi og prófa hvert mál ítarlega gagnvart samvisku sinni. Þar hefur Þengill Oddsson gefið gott fordæmi.