Umræða fréttir

Stuldur á lyfseðilseyðublöðumÁ árinu 2001 bárust Lyfjastofnun sjö tilkynningar um stuld á lyfseðilsblokkum auk tveggja tilkynninga þar sem ekki var vitað hvort stolið hefði verið nokkrum lyfseðilseyðublöðum eða heilli blokk eða blokkum.

Allar þessar tilkynningar bárust Lyfjastofnun eftir 1. júní 2001 og í öllum tilvikum nema einu var um að ræða nýja formið af lyfseðilseyðublöðum.

Reglugerð nr. 111/2001 um gerð lyfseðla og ávísun lyfja tók gildi þann 1. apríl 2001, þar var kveðið á um nýtt form lyfseðla og skal lyfseðilseyðublað prentað á pappír með sérstöku vatnsmerki. Þessi breyting var gerð meðal annars í ljósi þess að tilraunum til fölsunar á lyfseðlum með ljósritun og/eða skönnun útgefinna lyfseðla hafði fjölgað mjög. Dæmi eru um að skönnuð afrit sama lyfseðils hafi verið afgreidd í sjö apótekum. Vitað er að lyfseðilseyðublöð ganga kaupum og sölum í fíkniefnaheiminum og nú þegar ekki er lengur hægt að skanna eða ljósrita lyfseðla verða óútfyllt lyfseðilseyðublöð enn "verðmeiri". Í raun er hægt að líta á lyfseðilseyðublað sem óútfyllta ávísun á peninga í fíkniefnaheiminum.

Mjög mikilvægt er að læknar gæti vel að óútfylltum lyfseðilseyðublöðum því ásókn í þau mun aukast með tilkomu vatnsmerkja á lyfseðilseyðublöðum og eftir 1. júlí 2002 eru eldri form lyfseðilseyðublaða ógild.

Lyfseðilseyðublöð á að umgangast á sama hátt og önnur verðmæti og geyma í læstum hirslum og halda skrá yfir notkun þeirra. Mjög mikilvægt er að tilkynnt sé til Lyfjastofnunar eins fljótt og hægt er þegar lyfseðilseyðublöð, stök eða blokkir, hverfa eða ef grunur vaknar um það.

Lyfjastofnun beinir þeim tilmælum til lækna að þeir reyni í umgengni sinni með lyfseðilseyðublöð að fyrirbyggja að þau komist í hendur óviðkomandi aðila.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica