Umræða fréttir
  • Mynd 1

Spítalinn er á vakt allan sólarhringinn allt árið

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að verið er að sameina deildir og starfsemi sjúkrahúsanna í Reykjavík. Ein þeirra deilda sem gengur í gegnum slíkt ferli er slysadeildin í Fossvogi en hún hefur verið sameinuð bráðadeildinni við Hringbraut og heyrir undir slysa- og bráðasvið spítalans. Þann 1. mars var gerð sú breyting á starfsemi þessara deilda að vaktaskipting þeirra var afnumin. Þess í stað eru bráðadeildir spítalans nú opnar allan sólarhringinn allt árið.

Samkvæmt nýja skipulaginu verður Slysa- og bráðadeild í Fossvogi opin slösuðum og veikum allt árið en eins og áður verður Bráðamóttakan við Hringbraut að mestu leyti tilvísunarmóttaka þar sem fólk kemur eftir að hafa verið skoðað af lækni. Hún verður einnig opin allan sólarhringinn og þangað verður meðal annars beint hjartasjúklingum og krabbameinssjúklingum sem eru í meðferð á Landspítalanum Hringbraut. Þar verður móttaka fyrir veik börn og við Hringbraut verður einnig móttaka fyrir bráðatilfelli á kvennadeild og geðdeild.

Á Slysa- og bráðadeild í Fossvogi geta allir komið beint inn af götunni. Þar verður vinnulaginu breytt nokkuð en skipting í bráðamóttöku og slysamóttöku sem áður gilti fyrir lækna deildarinnar þykir ekki henta lengur. Nýja skipulagið er þannig að allir sem koma inn fara í svonefnda forgreiningu þar sem ákvörðun er tekin um meðferð. Sé það mat hjúkrunarfræðings í forgreiningu að viðkomandi þurfi mikillar aðhlynningar og jafnvel innlagnar við fer hann inn á það sem nefnt er bráðavakt. Þar er tekið við þeim tilfellum þar sem þarf fjölmenna áhöfn og mikið rými. Hinir fara á svonefnda gönguvakt þar sem tekið er við þeim sem ekki þurfa á slíkri þjónustu að halda, einfaldari eða léttari tilvik sem oftast leiða til þess að viðkomandi getur farið heim aftur.



Nýtt símkerfi

Sameining sjúkrahúsanna og ofannefndar breytingar á starfsemi bráðamóttökunnar munu hafa áhrif á flæði sjúklinga um spítalann. Að sögn stjórnenda deildarinnar má hugsa sér að einstaklingur komi í Fossvog og fái þar fyrstu aðhlynningu og meðhöndlun en þurfi síðan í vissum tilfellum að flytjast niður á Hringbraut á viðeigandi deild til frekari meðferðar. Slíkir flutningar verða óhjákvæmilegir meðan spítalinn starfar á tveimur stöðum. Stjórnendur deildarinnar leggja áherslu á að tryggja gott og hnökralaust samband milli deilda svo að flutningar og samskipti verði örugg og hröð.

Um mánaðamótin var nýtt símkerfi tekið í notkun á spítalanum og við það breytast símanúmerin. Í flestum tilvikum eiga læknar að hringja í aðalnúmer sjúkrahússins sem er 543 1000. En liggi mikið við og læknir þurfi að komast í beint samband við bráðamóttöku getur hann hringt í 543 2100.

Starfsmenn segja að breytingarnar sem gerðar hafa verið á skipulagi og vinnulagi auki hagræði en séu engin stórbylting. Helsta breytingin felst í því að leggja niður akútdagakerfið sem skipti bráðainnlögnum milli Fossvogs og Hringbrautar. Vinnulag verður áfram að mestu óbreytt við Hringbraut. Slysa- og bráðamóttaka er þess eðlis að aðsókn og vinnuálag er afar sveiflukennt en markmiðið með breytingunum er að reyna að jafna þessar sveiflur út og dreifa álaginu jafnar á daga vikunnar.



Slysadeildir eru stuðpúði

Mikilvægi þessa hluta sjúkrahússins vefst kannski ekki fyrir neinum en um bráðadeildirnar tvær fóru um 70.000 manns í fyrra, þar af 54.000 í Fossvogi. Þá eru aðeins taldir með þeir sem þurftu á þjónustu að halda en ekki aðstandendur eða aðrir fylgdarmenn. Þessi fjöldi skiptist þannig að um 40.000 komu vegna slysa en um 30.000 vegna veikinda.

Sama þróun er í gangi hér á landi og í nágrannalöndum okkar að fjöldi þeirra sem slasast helst lítið breyttur en hlutfall veikra hækkar. Mesta fjölgunin er hjá mikið veiku fólki og öldruðu sem endurspeglar breytingar sem eru að verða á samsetningu þjóðarinnar. Að sögn starfsmanna er sú mynd sem blasir við í nágrannalöndum okkar af yfirfullum slysamóttökum að verða að veruleika hér á landi. Við þessu er lítið hægt að gera þar sem aðrar úrlausnir eru annaðhvort ekki til eða fullnýttar.

Slysadeildir eru eins og stuðpúði milli heilbrigðiskerfisins og þjóðfélagsins og þær líða fyrir skort á aðstöðu fyrir þá sem eru of veikir til þess að fara heim en ekki nógu veikir til þess að leggjast inn á sjúkrahús. Sjúkrahótel myndi leysa þennan vanda að verulegu leyti en þau þyrftu þá að vera sem næst bráðadeildinni, helst þannig að innangengt sé á milli. En á meðan þetta ástand varir virðist lausnin vera sú að leggja æ meiri byrðar á fjölskylduna sem þarf að sinna veikara fólki en áður.

Þegar blaðamaður hitti stjórnendur deildarinnar að máli bárust byggingaráætlanir sjúkrahússins að sjálfsögðu í tal. Greinilegt var að deildin býr sig undir að bíða lengi eftir nýju húsnæði, 10 eða jafnvel 20 ár. Í því sambandi benda þau á að núverandi húsnæði Slysadeildar í Fossvogi hafi verið reist til bráðabirgða. Síðan er liðið 21 ár og engin teikn á lofti um að deildin sé á förum úr því í bráð.

-ÞH



Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica