Umræða fréttir
  • Mynd 2
  • Mynd 3
  • Mynd 4
  • Mynd 5

600 starfsmenn á rúmlega 15.000 fermetrum

Það væsir ekki um læknisfræðirannsóknir á Íslandi. Nýlega var vígt stórhýsi Íslenskrar erfðagreiningar sem stendur við Sturlugötu í Vatnsmýri, réttu ári eftir að byggingarframkvæmdir hófust. Húsið sem risið hefur á methraða er ríflega 15 þúsund fermetrar að flatarmáli, þrílyft á kjallara.

Segja má að þarna séu þrjú hús því að sunnanverðu eru tvö hús þar sem rannsóknarstofurnar eru og tölvuvinnslan fer fram en þvert á norðurenda þeirra er skrifstofubyggingin. Þar á milli er inngangur og anddyri auk 200 manna fyrirlestrasalar og búningsherbergja starfsfólks. Á milli húsanna er opið svæði undir glerþaki þar sem er mötuneyti á neðstu hæð en á efri hæðum eru brýr yfir þetta rými og tengja þær álmurnar saman.

Hér gefst ekki rúm til að lýsa öllum þeim tækniundrum og tækjabúnaði sem prýða þessa byggingu en þar skortir ekkert á að gera aðstöðu til vísindarannsókna einhverja þá bestu sem hugsast getur. Það er þegar farið að skila sér í því að fjöldi þeirra tilrauna sem þurft hefur að endurtaka hefur snarlækkað eftir að starfsemi hófst í húsinu. Er ástæðan talin vera bætt loftræsing og umhverfi sem ekki spillir efniviðnum sem unnið er með.

Að sjálfsögðu er mikil tölvumiðstöð í húsinu og hríslast lagnir þaðan um allt húsið, eins og segir í fréttatilkynningu fyrirtækisins. Í þessari tölvumiðstöð verður gagnagrunnurinn frægi hýstur og hafa ekki aðrir aðgang að honum en þeir sem standast augnpróf í þar til gerðum skanna.

Í þessu húsi munu hartnær 600 starfsmenn fyrirtækisins sinna sínum verkum. Í þeim hópi eru nokkrir læknar en auk þess skipta samstarfslæknar fyrirtækisins tugum eða hundruðum. Íslensk erfðagreining hefur tryggt sér lóð sunnan við bygginguna þar sem risið gæti lyfjaþróunardeild sem fyrirtækið festi kaup á ekki alls fyrir löngu en óákveðið er hvort hún verður starfrækt hér á landi eða utanlands. Fari svo að hún verði vistuð hér á landi fá um 250 manns til viðbótar vinnu við hana.

Blaðamaður Læknablaðsins skoðaði húsið á vígsludaginn og tók meðfylgjandi myndir. -ÞH

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica