Umræða fréttir

Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Vaktafyrirkomulag á Landspítala í uppnámi

Undanfarna mánuði hafa læknar á Landspítala háskólasjúkrahúsi verið að reikna út frítökurétt sinn. Er þetta gert til að framfylgja bókun 1 með kjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar sem var undirritaður 2. júlí 2001. Samkvæmt þessu hafa læknar sem vinna vaktavinnu við Landspítala háskólasjúkrahús þurft að reikna út hver fyrir sig hversu mikinn áunninn frítökurétt þeir eiga eftir vaktir unnar frá 1. nóvember 1997. Mjög mismunandi er hversu mikil frí hafa safnast upp en hjá þeim læknum sem vinna svokallaðar staðarvaktir er um mjög langan tíma að ræða.

Afleiðingar þessa geta verið margvíslegar. Í fyrsta lagi er í sumum tilfellum um svo mikil frí að ræða að ekki er augljóst að hægt verði að veita leyfi frá störfum nema verulega breytt vinnufyrirkomulag komi til og að ráða þurfi talsvert fleira fólk í vinnu svo það verði mögulegt að taka út þennan frítíma. Í öðru lagi hefur yfirstjórn sjúkrahússins lýst því yfir að gera verði ráðstafanir til þess að þessi uppsöfnun frítökuréttar hætti eða að minnsta kosti minnki stórlega. Til þess að það megi verða er ljóst að núverandi vaktafyrirkomulag verður að breytast þannig að læknar vinni aldrei meira en 13 tíma á sólarhring. Þar að auki kalla þessar breytingar á aukinn fjölda lækna til að sinna þessum styttri vöktum. Lauslegir útreikningar mínir benda til að það gæti á næstu árum þurft 20-30% fleiri lækna á deildir þar sem staðarvaktir eru nauðsynlegar til að sinna styttri vöktum og leysa af lækna í fríi.

Ekki er líklegt að læknar verði tilbúnir að taka upp stórfelldar breytingar á vaktafyrirkomulagi nema búið verði að fjölga stöðum á viðkomandi deildum því annars hlýtur afleiðingin að verða annaðhvort stórlega aukið álag á þá lækna sem fyrir eru í vinnu og/eða verri þjónusta við sjúklinga. Eins og fjárhagsstaða Landspítala háskólasjúkrahúss er núna á ég ekki von á að það verði auðveldur róður að hrinda þessari nauðsynlegu fjölgun í framkvæmd.

Nýtt vaktafyrirkomulag er nú til umræðu hjá deildum þar sem mikill frítökuréttur hefur áunnist og eru ýmsar hugmyndir í athugun þar sem notast er við fyrirmyndir erlendis frá. Styttri vaktir eru að sjálfsögðu manneskjulegri og auðveldari og eru að því leyti mikil kjarabót en læknar eru lítt hrifnir af vaktatilhögun þar sem binding um helgar er aukin. Auk þess hafa menn áhyggjur af því að í kjölfar styttri vakta og aukinna fría fylgi launalækkun.

Það er því geysilega mikilvægt að skoða tillögur til breytinga á vinnufyrirkomulagi ofan í kjölinn þannig að hægt sé að koma í veg fyrir að þær leiði til kauplækkunar og versnandi vinnuaðstöðu lækna. Þetta eru atriði sem taka þarf með í reikninginn í yfirstandandi samningum sjúkrahúslækna.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica