Ritstjórnargreinar

Læknablaðið - frá læknum til lækna

Læknablaðið hefur nú verið gefið út með því sniði sem lesendur blaðsins þekkja það í dag frá ársbyrjun 2000. Nýju útliti blaðsins fylgdu ekki róttækar breytingar á innihaldi þess, sem enn má skipta í þrjá megin hluta, en það er efni fræðilegs eðlis, almennt efni er snýr að læknum og auglýsingar. Þegar skoðuð eru hlutföll þessara efnisþátta Læknablaðsins síðastliðin tvö ár kemur í ljós að fræðigreinarnar taka yfir tæplega helming blaðsíðufjöldans (44% árgangs 2000; 40% árgangs 2001), en auglýsingar nánast nákvæmlega sama hlutfall (27%) blaðsíðufjöldans í hvorum árgangi um sig. Af þessu má sjá, sem og staðfestist ef litið er til fyrri árganga, að hluti efnis er kalla má almenns eðlis fer hægt vaxandi og er það í takt við það sem hefur verið að gerast hjá læknablöðunum á hinum Norðurlöndunum. Hver og einn þessara megin efnishluta er mikilvægur og ekki hægt að segja að einn sé mikilvægari en annar. Auglýsingarnar tryggja að vissu marki fjármagn til útgáfu blaðsins, þar sem áskriftargjöld hrökkva skammt til en almenni hlutinn kemur á framfæri við lækna ýmsum mikilvægum upplýsingum og fréttum er snúa að lífi og starfi þeirra. Fræðilegi hlutinn er ef til vill sá hluti blaðsins sem er hvað mikilvægastur og gerir blaðið áhugavert, ekki bara fyrir lækna heldur einnig fyrir almenning sem fengið hefur nasasjón af þessum efnishluta í fjölmiðlum en sú umfjöllun hefur farið vaxandi síðustu árin.

Í þessum tveimur síðustu árgöngum sem um ræðir hafa birst 83 greinar fræðilegs eðlis, um fjórar greinar að meðaltali í hverju blaði og eru þá ótaldar fræðigreinarnar sem birst hafa í tveimur þemaheftum sem komu út á tímabilinu, enda gilda aðrar reglur um birtingu greina í þemaheftum. Á bak við þennan fræðilega hluta Læknablaðsins eru fjórfalt fleiri greinar sem eru í vinnslu hverju sinni og hefur þessi fjöldi verið mjög jafn síðustu ár. Þannig hefur hin mikla gróska sem margir hafa þóst merkja í vísindastarfi á Íslandi ekki skilað sér inn á síður Læknablaðsins nema síður sé. Þessi gróska er mælanleg í aukningu á framlögum til og umsóknum úr vísindasjóðum, hún er mælanleg í aukningu á fjölda og umsvifum vísindafyrirtækja og í fjölda þeirra er sækja í rannsóknatengt framhaldsnám við læknadeild Háskóla Íslands þó svo að þar þurfi ekki endilega að fara læknar. Auðvitað má svo vera að niðurstöður þessara rannsókna séu að einhverju leyti birtar í erlendum vísindaritum en samhliða birting í Læknablaðinu er vel möguleg og vel þess virði enda oftast unnið úr íslenskum efnivið er lýsir íslenskum aðstæðum. Hér þarf að bæta um betur og þurfa læknar að vera iðnari við að reka smiðshöggið á vísindavinnu sína sem verður að teljast birt grein í fagtímariti, íslensku eða erlendu nema hvoru tveggja sé, og eru læknar hvattir til að notfæra sér þann möguleika er felst í samhliða birtingu.

Svo litið sé aftur til þessara 83 fræðigreina þá hafa höfundarnir komið þar á framfæri niðurstöðum vísindarannsókna sinna um leið og þeir fá fyrir þá vísindavinnu viðurkenningu og vottun sem þeir geta notað síðar við atvinnu eða stöðuumsóknir. En hverjir eru höfundarnir? Að ofannefndum greinum standa 285 höfundar, allt frá einum upp í átta að hverri grein en auðvitað er það svo einhverjir koma að fleiri en einni grein. Í yfir 90% tilvika eru höfundarnir læknar eða læknanemar, en ef athugað er sérstaklega starf fyrsta höfundar kemur í ljós að fjórðungur eru unglæknar, það er aðstoðar- eða deildarlæknar og 12% eru læknanemar. Þannig eru 37% fyrstu höfunda að fræðigreinum í Læknablaðinu læknanemar eða læknar er nýlokið hafa kandidatsprófi. Er þetta eðlilegt? Til eru ákveðnar reglur um það hverjir fái að bera heitið fyrsti höfundur og er megin inntak þeirra reglna sú að þeir einir fái að kalla sig fyrsta höfund sem koma fram með hugmyndina að vísindavinnunni, tengi vandamálið við aðferðafræðina og inni af hendi meirihluta þeirrar vinnu er kalli fram niðurstöðurnar ásamt því að túlka þær. Er þetta á færi læknanema og nýútskrifaðra? Varla, en óefað hafa þeir oftast lagt af mörkum mestu vinnuna við rannsóknirnar sjálfar og meðfylgjandi greinaskrif enda bera margar greinar sem koma inn til ritstjórnar blaðsins þess merki að þar fari óþjálfaðir pennar, en það er ef til vill það versta að handleiðsla við greinaskrifin virðist hafa verið lítil. Með þannig vinnubrögðum er hætta á að niðurstöður athyglisverðra rannsókna verði að engu vegna þess hversu óvanir aðal greinarhöfundar eru að koma þeim á framfæri í vísindagrein. Það má ekki koma fyrir.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica