Umræða fréttir
  • Ólafur Ólafsson

Skrifræði og fag í heilbrigðisþjónustu

Margir hafa áhyggjur af vaxandi skrifræði í heilbrigðisþjónustu þegar það er á kostnað fagmennskunnar. Nokkur dæmi um hvernig getur farið ef svo fer fram, verða nefnd hér.I.

Snemma á árinu 1985 uppgötvuðu menn aðferð til þess að skima eftir HIV-smiti í blóði blóðgjafa.

Landlæknisembættið rak mjög á eftir að þessari aðferð væri beitt á Íslandi (1985). Skimun hafði í för með sér aukinn kostnað og þess vegna þurfti að beita mjög ákveðnum faglegum rökum til fjármögnunar á verkefninu. Haustið 1985 var hafin skimun á blóðgjöfum. Ber að nefna Harald Briem og Ólaf heitinn Jensson sem stóðu vel að þessu.

Athyglisvert er að í nokkrum V-Evrópulöndum brugðust menn seint við og tóku ekki upp heildarskimun fyrr en seinna. Margir sjúklingar fengu því smitað blóð við aðgerðir eða vegna sjúkdóms (ofblæði) og veiktust af HIV-veiru. Hörð réttarhöld fylgdu í kjölfarið og margir yfirmenn í heilbrigðisgeiranum misstu stöðu sína eða voru dæmdir. Nær undantekningarlaust kom í ljós að ekki hafði verið farið að ráðum faglærðra lækna, enda læknar með fagkunnáttu sjaldséðir í áhrifastöðum ráðuneyta.

Í bókinni Bad blood eftir J. Reitman frá 1996 er skýrt og skilmerkilega lýst hörmulegum afleiðingum HIV-faraldursins í Bandaríkjunum. Illa var haldið á málinu varðandi val á blóðgjöfum og skimun á HIV-veiru meðal blóðgjafa. Afleiðingin var sú að vitað er um allt að 15.000 manns er sýktust af smituðu blóði, þar á meðal 60% af ofblæðisjúklingum. Mörg réttarhöld voru haldin og þar kom í ljós að Rauði krossinn sem rekur blóðbanka þar í landi hafið ekki varað blóðbanka við í tíma og þar með ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni. Ennfremur kom fram að pólitísk stjórn RK hafði ekki sinnt aðvörun margra faglækna en meðal annars beitt skimunaraðferð sem ekki var nógu trygg. Afleiðingin varð sú að mörgum sjúklingum voru dæmdar bætur, oft þrjár milljónir dollara eða hærri upphæðir. Mikið er rætt um mistök Elizabeth Dole, konu forsetaframbjóðandans Bob Dole, en hún var lengi forseti RK í Bandaríkjunum. Er hún tekin sem gott dæmi um leikmann er kemst í áhrifastöðu í heilbrigðisgeiranum, en nýtir sér ekki fagkunnáttu lækna. Frú Dole hvarf úr forsæti RK.II.

Miklar framfarir hafa náðst í meðferð kransæðasjúklinga. Bandaríkjamenn eru þar í fararbroddi en Íslendingar, Svíar, Hollendingar og fleiri vestrænar þjóðir fylgja fast á eftir. Danmörk sker sig úr þessum hópi og er neðarlega í flokki í Evrópu þó að þeir hafi fyrstir Norðurlandaþjóða stofnað forvarnarráð. Ráðið gerir tillögur um aðgerðir til heilbrigðisráðherra en er að mestu skipað pólitíkusum og skrifborðslæknum. Danir hafa að öðru leyti verið meðal þekktustu þjóða varðandi gæði heilbrigðisþjónustunnar. En tímar og siðir breytast. Spurningar hafa vaknað hvers vegna svo er komið fyrir Dönum. Helsta skýringin er að dregið hafi mjög úr áhrifamætti lækna á nýþróun læknisfræðinnar, þar á meðal forvarnir og aðgerðir.Lokaorð

Það hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér ef stjórnmálamenn eða stjórnskipuð ráð í heilbrigðisgeiranum nýta sér ekki ráð fagaðila. Þá er hætta á að menn kunni ekki að meta rétt eða nýta framfarir er verða í læknisfræði.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica