Umræða fréttir

Læknadeild Háskóla Íslands: Numerus Clausus lagður niður - Nýtt inntökupróf verður tekið upp í vor

Á síðastliðnu ári var ákveðið að breyta reglum um inntöku nýnema í læknadeild Háskóla Íslands og taka upp inntökupróf að sumri í stað þess að beita Numerus Clausus á miðju fyrsta ári námsins eins og verið hefur. Þetta hefur vakið upp ýmis viðbrögð og mótmæli hjá ákveðnum hópi stúdenta en deildin ætlar að halda sínu striki og halda fyrsta inntökuprófið að áliðnum júnímánuði næstkomandi.

Að sögn Stefáns B. Sigurðssonar prófessors í lífeðlisfræði og formanns kennsluráðs hefur aðferðin sem kennd er við Numerus Clausus alltaf verið umdeild. Hún hefur meðal annars verið gagnrýnd á þeim forsendum að þeir sem ráða ferðinni í læknadeild eigi ekki að hafa vald til þess að ákveða hversu margir læri til læknis.

"Aðalástæðan fyrir þessum fjöldatakmörkunum hefur alltaf verið sú að það er ekki hægt að bjóða nema takmörkuðum fjölda læknanema upp á viðunandi kennslu," sagði Stefán í viðtali við Læknablaðið. Lengi vel voru 36 nemar teknir inn á hverju ári en fyrir nokkrum árum var hægt að fjölga þeim í 40. "Með breytingum á starfsemi sjúkrahúsanna hefur aðstaðan batnað enn frekar og stjórn deildarinnar hefur þrýst á að fá að fjölga nemum upp í 48. Þetta hefur verið samþykkt og er til umfjöllunar í Háskólaráði og ráðuneytinu," sagði Stefán. Verði þessu vel tekið fá 48 nemar inngöngu í deildina næsta haust og rætt er um að fjölga þeim enn meira á næstu árum.

"Meðal þess sem þrýstir á fjölgun nemenda er breytingin sem orðið hefur á kynjasamsetningu læknanema. Konum hefur fjölgað verulega og eru nú um helmingur nemenda og í sumum árgöngum talsvert fleiri en karlar. Margir segja að þetta kalli á fleiri lækna meðal annars vegna þess að konur sætti sig ekki við hinn langa vinnutíma sem læknar hafa unnið."Miðað við námskrá framhaldsskóla

Stefán segir ýmsar ástæður fyrir því að Numerus Clausus hafi gengið sér til húðar. Námsefnið sem notað er þar hefur verið óbreytt lengi og er það afmarkað að erfitt er að finna stöðugt nýjar spurningar úr því til að prófa nemendur. Þegar deildinni var svo gert að birta eldri próf á netinu fyrir tveimur árum hafi þetta orðið enn erfiðara.

"Einnig hefur það sætt vaxandi gagnrýni að hafa prófið á miðjum vetri. Þeir sem ekki fá inngöngu eiga þá erfitt með að skipta um fag og hjá flestum er árið því ónýtt. Margir reyna aftur og aftur eins og sést á því að nýstúdentar eru yfirleitt ekki nema um það bil þriðjungur þeirra sem fá inngöngu. Hinir eru að reyna í annað, þriðja eða allt upp í sjöunda sinn og því má segja að fyrir þá sé búið að lengja læknanámið um tvö til þrjú ár.

Þetta er líka mjög vafasamt í ljósi þess mikla andlega álags sem nemendur eru undir í prófunum samfara því að margir góðir námsmenn fá ekki inngöngu þrátt fyrir gífurlega vinnu og að þeir nái prýðisárangri. Nú um áramótin var síðasti maður inn með 8,24 í meðaleinkunn.

Við höfum verið spurðir af hverju ekki sé valið inn eftir einkunnum á stúdentsprófi. Við höfum svarað með því að benda á þann mikla mun sem er á milli framhaldsskóla og hversu breytilegt námsefni er að baki hverjum áfanga stúdentsprófsins. Nú er hins vegar búið að setja framhaldsskólunum nýja námskrá sem verður komin til framkvæmda að fullu árið 2004. Þar verða námsáfangarnir samræmdir og þar af leiðandi sambærilegir.

Við ákváðum því að taka upp inntökupróf sem tekur við nýstúdentum og raðar þeim. Prófið grundvallast að sjö tíundu á því sem kennt hefur verið í framhaldsskólunum síðustu ár þó án þess að beinlínis sé verið að prófa úr því námsefni. Við gefum upp ákveðin áfanganúmer og biðjum fólk að skoða efnisþætti áfanganna. Við ætlum að leita til framhaldsskólakennara og fá þá til að semja spurningar byggðar á námsefninu en þær verða settar í banka sem við munum moða úr þegar við semjum prófið. Allt er þetta skýrt út á heimasíðu læknadeildar. Þar verða einnig birt sýnishorn af spurningum svipuðum þeim sem verða á prófinu. Samkvæmt reglunum eiga menn að skrá sig í prófið fyrir 5. júní en prófið sjálft verður svo haldið upp úr miðjum júní.

Annað nýnæmi er að þrír tíundu af prófinu verða spurningar sem ekki byggjast á ákveðnu námsefni. Þar verður könnuð almenn þekking, siðfræðileg álitaefni og hvernig nemendur nálgast vandamál. Þessi hluti verður nýtt og spennandi viðfangsefni og á örugglega eftir að vekja athygli," segir Stefán.Mótmæli stúdenta

- En geta allir sem hafa stúdentspróf tekið þetta inntökupróf?

"Já, ef menn hafa stúdentspróf af bóknámsbraut. Töluverð umræða varð reyndar í undirbúningsnefndinni hvort miða ætti eingöngu við áfanga af náttúrufræðibrautum. Niðurstaðan varð hins vegar sú að breikka sviðið til þess að gera það mögulegt fyrir þá sem koma af mála- og félagsfræðibrautum að taka prófið enda koma margir starfandi læknar af þeim brautum. Þeir sem koma af mála- og félagsfræðibrautum þurfa þó að bæta við sig áföngum í efna-, eðlis- og stærðfræði en þeir sem koma af náttúrufræðibraut þurfa að bæta við sig áföngum í sögu og félagsfræði."

- Talsmenn stúdenta hafa mótmælt þessum reglum. Um hvað snýst þeirra gagnrýni?

"Það sem þeir gagnrýndu í upphafi var próftökugjald að upphæð kr. 5.000 sem gert var ráð fyrir í upphaflegum tillögum okkar. Prófgjaldið var fellt út en í staðinn var sett ákvæði um að háskólinn geti ákveðið próftökugjald almennt fyrir öll inntökupróf í skólann. Við erum fyrst með slíkt próf í læknadeild en við vitum að aðrar deildir fylgjast grannt með okkur. Það þótti því rétt að hafa samræmi milli deilda í slíkri gjaldtöku.

Önnur gagnrýni kom frá þeim nemendum sem gengust undir próf í haust en komust ekki inn. Þeir vildu fá að reyna aftur á grundvelli Numerus Clausus næsta haust þar sem þeir telja sig eiga meiri möguleika að komast inn þannig en með því að fara í inntökuprófið. Þetta viljum við ekki fallast á því þá myndi einungis annar hópur verða í þeirra stöðu um næstu áramót. Við höfum bent þeim á að námið sem þeir hafa lagt að baki ætti að nýtast þeim og veita þeim forskot á nýstúdentana. Þeir hafa líka tíma til að bæta við sig þekkingu og rifja upp, auk þess sem þeir eru lífsreyndari og ættu því að hagnast á því að fá spurningar um almenna þekkingu.

Loks má nefna að gagnrýnt hefur verið að breytingin sé ákveðin með skömmum fyrirvara. Réttast hefði verið að ákveða svona fjögur ár fram í tímann svo framhaldsskólanemar gætu tekið mið af henni við val á áföngum. Málið hefur verið til umræðu í fjölmiðlum síðastliðið ár og var til lykta leitt í deildinni síðastliðið vor. Það var síðan staðfest formlega í háskólaráði í byrjun nóvember. Við setningu reglnanna var tekið tillit til þessa með eins til tveggja ára aðlögunartíma og reglurnar taka ekki að fullu gildi fyrr en eftir þann tíma. Í aðlöguninni felst að mikið tillit er tekið til þess hvað kennt hefur verið í framhaldsskólunum undanfarin ár. Það hefur þó komið upp nokkur misskilningur varðandi þetta atriði og því hafa frekari skýringar verið settar inn á heimasíðuna," sagði Stefán B. Sigurðsson prófessor að lokum.

Úr reglugerð um inntökuprófEinhvers misskilnings virðist gæta um þær reglur sem læknadeild hefur samþykkt um inntökupróf í deildina. Hér birtist hluti 5. greinar þar sem kveðið er á um viðmiðun sem notuð verður í prófinu á sumri komanda (feitletruðu áfangarnir eru þeir sem stuðst verður við í vor, hinir bætast við síðar):Í fyrsta sinn (árið 2002) verður einkum miðað við þau námskeið sem eru í kjörnum mála-, náttúrufræði- og félagsmálabrauta. Áherslur einstakra greina úr ráðlögðum undirbúningsnámskeiðum geta síðar orðið mismunandi frá einu ári til annars.

Þeir áfangar sem lagðir eru til grundvallar fyrir prófið eru eftirfarandi:

1. Eðlisfræði, EÐL 103, 203, 303

2. Efnafræði, EFN 103, 203, 303, 313

3. Enska, ENS 103, 203, 303, 403

4. Félagsfræði, FÉL 103, 203

5. Íslenska, ÍSL 102, 202, 212, 303, 403, 503

6. Náttúruvísindi, NÁT 103, 113, 123, LÍF 103

7. Saga, SAG 103, 203

8. Stærðfræði, STÆ 103, 203, 303, 403, 503

9. Tölfræði, STÆ 313, 413

10. Tölvufræði, TÖL 103, 113, 203

11. Sálarfræði, SÁL 103, 203

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica