Umræða fréttir

Broshorn 23: Af litlum körlum og hausverk

"Læknir, þú mátt til með að hjálpa mér. Ég get bókstaflega ekkert sofið af því að það er fullt af litlum körlum sem eru á fleygiferð undir rúminu mínu alla nóttina," sagði konan og var greinilega áhyggjufull.

"Það hljómar alls ekki vel. Ég er hræddur um að þú þurfir að leggjast inn á sjúkrahús og vera þar í þó nokkurn tíma til að losna undan þessu sérstaka áreiti," sagði læknirinn alvarlegur í bragði. Konan skynjaði skyndilega að hún var komin út á hálan ís og reyndi að draga úr vandanum. "Ég held að það þurfi nú ekkert að leggja mig inn á sjúkrahús því ég var að fá góða hugmynd hvernig ég lækna mig sjálf heima." Læknirinn varð furðu lostinn og spurði hvernig hún ætlaði að fara að því. "Ég ætla að saga lappirnar af rúminu," svaraði konan.



Í samkvæmi

"Hvoru þarft þú að sinna meira í starfi þínu sem læknir, slysum eða sjúkdómum?" spurði prúðbúin kona með kokdillisglas í hendinni. "Því er ekki auðsvarað, frú mín góð," sagði læknirinn. "Ég er nefnilega kvenlæknir."



Með höfuðverk

"Ég er með mígrenikast af svæsnustu gerð," sagði sjúklingurinn og bar sig illa. "Og hvað viltu að ég geri í því?" spurði læknirinn. "Það er þinn höfuðverkur," svaraði sjúklingurinn.



Spenntur í rúmið

"Þú ert spenntur og stressaður og verður að hætta að fara með vandamálin í rúmið á kvöldin," sagði læknirinn við athafnamanninn sem átti bágt með að sitja kyrr. "Ég vildi gjarnan geta farið að ráðum þínum, en konan mundi ganga frá mér ef ég bæði hana um að sofa annars staðar," sagði maðurinn áhyggjufullur.



Við dánarbeðið

Læknirinn beygði sig yfir líflausan manninn í rúminu. Síðan rétti hann úr sér og sagði grafalvarlegur við eiginkonuna lágum rómi. "Mér þykir það leitt, frú mín góð, en þessu virðist lokið hjá bónda þínum." Þá heyrðist umlað í rúminu: "Er ég enn á lífi?" "Nú er eins gott að þú þegir, Guðmundur. Læknirinn veit fullkomlega hvað hann er að segja."



Ein óðamála

Eldri kona kom til læknis og lét dæluna ganga. Hún talaði óslitið frá því hún heilsaði lækninum og náði meira að segja að koma að nokkrum orðum þegar hún andaði að sér. Eftir drykklanga stund og eintal var lækninum nóg boðið. "Ef ég mætti leggja nokkur orð í belg," sagði hann af sinni alkunnu hæversku. Konan greip strax fram í fyrir honum. "Ég var ekki alveg búin og við skulum ekki gleyma því að þú ert bundinn þagnarskyldu."



Einkalíf

"Mikið lifandis ósköp er ég orðinn þreyttur á þessu stöðuga kvabbi þegar ég á frí og fer út að skemmta mér. Fólk virðir ekki friðhelgi einkalífsins og er sífellt að spyrja alls konar spurninga af læknisfræðilegum toga," sagði Sveinn læknir við Þorstein kollega sinn sem var nokkrum árum eldri. "Ég hef fundið ráð við þessu vandamáli og fæ alveg að vera í friði," sagði Þorsteinn. "Ef einhver dirfist í samkvæmi að spyrja mig út í sjúkdóma eða krankleika segi ég alltaf: "Komdu bara úr spjörunum og þá skal ég kíkja á þig.""



Læknabrandari

"Ég var að missa einn af sjúklingum mínum."

"Það var leitt að heyra. Úr hverju dó hann?"

"Hann dó ekki. Hann varð frískur."



Aldargömul

"Hvernig get ég orðið 100 ára?" spurði kona á miðjum aldri.

"Með því að hætta að borða smákökur, sælgæti, tertur og gosdrykki. Svo skaltu sleppa því að borða rautt kjöt, kartöflur og brauð," svaraði læknirinn.

"Ætti þetta að tryggja það að ég nái því að verða 100 ára?" spurði konan og það hafði lifnað yfir henni.

"Því get ég ekki svarað með vissu," svaraði læknirinn, "en tilfinningin verður alla vega sú sama."

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica