Umræða fréttir

Aðalfundur Læknafélags Íslands. Lögum félagsins breytt allverulega

Aðalfundur Læknafélags Íslands var haldinn dagana 11. og 12. október og þótt hann muni eflaust teljast hinn merkasti fundur þegar fram líða stundir þá fór hann ákaflega rólega fram og án allra átaka. Þau tímamót urðu að lögum félagsins var breytt allverulega og voru tillögur stjórnar þar að lútandi samþykktar án breytinga og án teljandi athugasemda.

Eins og menn muna þótti að minnsta kosti tveimur aðildarfélögum LÍ lög félagsins þrengja verulega að rétti félagsmanna til að semja um kaup sín og kjör. Félag ungra lækna hefur gengið svo langt að segja sig úr Læknafélaginu og tóku félagsmenn þess félags ekki þátt í aðalfundinum að öðru leyti en því að formaðurinn sat fundinn sem gestur. Þá hefur Skurðlæknafélag Íslands einnig breytt lögum sínum á þann veg að félagið geti í framtíðinni farið með samningamál félagsmanna sinna gagnvart ríkinu í stað þess að leggja þau í hendur hinnar sameiginlegu samninganefndar félagsins sem samið hefur um kaup og kjör allra sjúkrahúslækna.

Eins og fram hefur komið hér í blaðinu ákvað stjórn LÍ að koma til móts við þessi sjónarmið og lagði fram viðamiklar tillögur til breytinga á lögunum, einkum þeim hluta þeirra sem varðar stéttarfélagsþáttinn í starfsemi félagsins. Kjarni þeirra tillagna var sá að breyta reglum um aðild að félaginu á þann veg að í stað þess að aðildarfélög LÍ séu svæðafélög lækna þá verður félagið nú safn svæðafélaga og þeirra félaga sem kjósa að fara með samningsrétt félaga sinna og hafa fengið umboð þeirra til þess.

Tillögurnar voru gerðar undir þeim formerkjum að betra væri "að breyta húsinu frekar en að byggja nýtt", eins og Jón Snædal komst að orði. Þessi stefna féll vel í kramið þannig að umræður um tillögurnar voru á afar jákvæðum nótum og þótt stöku maður hefði einhverjar athugasemdir við þær varð niðurstaðan sú að engar tillögur bárust um að breyta breytingartillögum stjórnar og voru þær því samþykktar einum rómi. Ekki þykir ástæða til að birta lögin með áorðnum breytingum hér í blaðinu þar sem þau voru birt í heild eins og þau eru nú orðin í septemberblaði Læknablaðsins.





Traustur hagur félagsins

Fundurinn allur var í þessum anda, öll dýrin í skóginum voru vinir og hlýddu á skýrslur um hag félagsins sem er traustur. Voru ekki gerðar miklar athugasemdir við rekstur félagsins og engar stórvægilegar. Fjórar ályktanir voru samþykktar og eru þær birtar hér. Málþing var að vanda haldið á laugardagsmorgni og var þar fjallað um þrjú málefni: Sigurður Guðmundsson reifaði reglur um skyldur og réttindi lækna sem General Medical Council í Bretlandi hefur sett, Einar Oddsson fjallaði um kynningu lækna á starfsemi sinni í ljósi nýrrar tækni og Arnór Víkingsson ræddi um símenntun lækna. Erindi Sigurðar landlæknis eru gerð nokkur skil hér í blaðinu.

Eftir hádegi var gengið til kosninga. Úr stjórn gekk Sigurður Kr. Pétursson meðstjórnandi og Oddur Steinarsson sem sat í stjórn fyrir hönd Félags ungra lækna sem ekki á lengur aðild að LÍ. Í þeirra stað voru kjörnir þeir Ófeigur T. Þorgeirsson læknir á Selfossi og Sigurður E. Sigurðsson á Akureyri. Stjórn LÍ fyrir starfsárið 2002-2003 er því þannig skipuð:



Sigurbjörn Sveinsson
formaður

Jón Snædal varaformaður

Birna Jónsdóttir gjaldkeri

Hulda Hjartardóttir ritari

Ófeigur T. Þorgeirsson meðstjórnandi

Páll H. Möller meðstjórnandi

Sigurður E. Sigurðsson meðstjórnandi

Sigurður Björnsson meðstjórnandi frá Sérfræðingafélagi íslenskra lækna

Þórir B. Kolbeinsson meðstjórnandi frá Félagi íslenskra heimilislækna.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica