Umræða fréttir

Læknadeild ætti að semja við erlenda háskóla um aðgang að framhaldsnámi - Rætt við Michael W. Peterson yfirmann lyflækninga við UCLA

Það er óþarfi að tíunda það í þessu blaði að læknar þurfa að heita má án undantekninga að leita til útlanda eftir framhaldsmenntun. Hér á landi er orðinn til vísir að framhaldsnámi í heimilislækningum en þeir sem vilja leggja stund á aðrar sérgreinar þurfa að leita út fyrir landsteinana. Íslenskir læknar fara víða í leit sinni eftir menntun, bæði austur og vestur yfir Atlantshaf, og margir telja það kost því þá berst hingað fjölbreytt þekking úr ýmsum áttum.

Þótt alltaf blundi með læknum áhuginn á því að menn geti menntað sig að fullu hér á landi hafa þeir sem telja sig raunsæismenn í þessum efnum talið vænlegra til árangurs að semja við erlend sjúkrahús og læknaskóla um aðgang að framhaldsnámi. Enginn formlegur samningur mun vera til um slíkan aðgang en víða um heim hafa íslenskir læknar getið sér gott orð og opnað dyrnar fyrir kollegum sem á eftir koma.

Á dögunum átti hér leið um bandarískur læknir, Michael W. Peterson, yfirmaður lyflækninga við Kaliforníuháskóla í Fresno og San Francisco. Erindi hans hingað til lands var að ræða við forystumenn Landspítalans og Háskóla Íslands um samstarf á sviði framhaldsmenntunar, auk þess sem hann flutti erindi á fundi læknaráðs spítalans um notkun upplýsingatækni í kennslu læknanema. Læknablaðið hitti hann að máli og spurði fyrst hvort hann teldi raunhæft að Íslendingar gætu komið sér upp framhaldsmenntun í læknisfræði.

Stuðningskerfið vantar

"Þið gætuð eflaust gert það, í það minnsta að hluta, en til þess að það mætti verða þyrfti að breyta ýmsu. Það þyrfti að vera hægt að gefa læknum í framhaldsnámi tíma til að sinna námi sínu, lausir við starfsskyldur, auk þess sem stjórnendur námsins þyrftu að geta helgað sig stjórnun og kennslu. Í öðru lagi má benda á að ekkert framhaldsnám er hugsanlegt án öflugra rannsóknastofnana. Þið eigið marga góða rannsóknarmenn en það vantar stuðningskerfið sem rannsóknir þurfa að hafa, sjóði og styrktarstofnanir. Það má þó eflaust leysa í samvinnu við erlendar stofnanir, enda stunda margir rannsóknir hér af mikilli ástríðu, þrátt fyrir ófullkomið umhverfi."

Peterson er nýtekinn við núverandi stöðu sinni en hann starfaði áður við háskólann í Iowa þar sem margir íslenskir læknar hafa aflað sér framhaldsmenntunar. Hvernig líst honum á þá leið að Háskóli Íslands geri samning við erlenda spítala og læknaskóla um að taka við íslenskum læknum í framhaldsnám?

"Ég held að það væri til góðs að þið gerðuð samning við nokkra spítala, þó ekki of fáa því það er gott að læknar geti valið. Það tryggir meiri fjölbreytni í náminu. Samstarfið sem verið hefur við skólann í Iowa hefur verið báðum til gagns og það mætti þróa áfram. Íslendingar njóta góðs álits þar og þykja vel menntaðir. Ég held líka að því megi slá föstu að nemendur frá Iowa hafi lagt sitt af mörkum til að styrkja íslenskt heilbrigðiskerfi. En ég held að fastir samningar myndu ýta undir að læknar færu utan.

Einn stærsti kosturinn fyrir íslenska lækna við að læra í Bandaríkjunum er að sjúklingahópurinn á stærri sjúkrahúsum er miklu fjölbreyttari en hér á landi. Hann glímir við aðra sjúkdóma og önnur vandamál, þar eru margar þjóðir og ólíkir menningarheimar. Ég get nefnt sem dæmi sjúkrahúsið í Fresno þar sem ég starfa en á upptökusvæði þess eru 45% íbúanna af norðurevrópskum uppruna, 30% spænskumælandi og 10% blökkumenn. Slík reynsla hlýtur að gagnast Íslendingum sem nú eru að verða æ fjölþjóðlegri."

Fjölbreytni sjúkdóma of lítil hér

En mætti ekki hugsa sér að koma upp hluta af framhaldsnámi hér og semja síðan við erlenda skóla um að taka við læknum sem vilja ljúka því ytra?

"Jú, það væri hægt, en þar er þó eitt vandamál við að etja í Bandaríkjunum. Læknaráðin sem veita lækningaleyfi viðurkenna helst ekki menntun sem menn afla sér í öðrum löndum en Bandaríkjunum og þau hafa heldur verið að herða kröfurnar á síðari árum. Íslenskir læknar gætu samt sótt sitt nám að einhverju leyti og jafnvel fengið vinnu en þeir geta ekki fengið sérfræðiviðurkenningu og þeir fengju ekki vinnu í sérgreinum þar sem mikil samkeppni ríkir. Og hvað undirsérgreinar varðar þá getum við ekki hleypt mönnum inn án þess að hafa samþykki læknaráðanna.

Annað sem gæti valdið erfiðleikum er að læknar í framhaldsnámi verða að hafa aðgang að fjölbreyttum sjúklingahópi og að geta starfað í teymum en til þess að mynda þau þarf hóp af velþjálfuðu og sérhæfðu fólki. Þetta væri í sjálfu sér ekkert mál í algengari sjúkdómaflokkum en erfiðara í þeim sjaldgæfari því til þess að veita viðunandi þjálfun þarf marga sjúklinga á skömmum tíma. Flest erlend sjúkrahús gera kröfur um slíkt og það gæti valdið vandræðum fyrir ykkur."

Nemendaskipti möguleg

Hvort sem af því verður að Íslendingar komi sér upp vísi að framhaldsnámi í fleiri sérgreinum eða ekki hafa menn bent á ýmsa möguleika á samstarfi við erlenda læknaskóla. Meðal þeirra eru gagnkvæm skipti á læknanemum sem gætu sótt einstök námskeið og samstarf á sviði tölvutækni. En hefur Ísland upp á eitthvað að bjóða sem bandarískir læknar í framhaldsnámi gætu haft áhuga á?

"Já, ég kem auga á ýmsa möguleika. Til dæmis gætu menn haft áhuga á að stunda rannsóknir í erfðavísindum og faraldsfræði hér á landi. Íslendingar eiga besta upplýsingakerfi á Norðurlöndum sem segir ekki svo lítið því Norðurlönd eru talin í fremstu röð á þessu sviði. Eins get ég ímyndað mér að bandarískir læknar gætu haft áhuga á bráðalækningum eins og þær eru stundaðar hér í samstarfi lækna og björgunarsveita. En til þess að slík læknaskipti geti orðið að veruleika þyrfti að koma á kerfi í kringum þau. Framhaldsnámið skiptist í kjarna- og valgreinar og ég held að svona skipti gætu verið hluti af valgreinum. En þið þyrftuð að afla sjúkrahúsdeildum eða einstökum læknum akademískrar viðurkenningar til þess að námið hlyti samþykki sem hluti af framhaldsnámi.

Á sviði tölvutækni getum við átt gott samstarf og það er raunar þegar komið á að einhverju leyti. Sjúkrahúsið í Iowa var með þeim fyrstu í Bandaríkjunum til þess að koma sér upp nettengdu tölvukerfi sem nýttist bæði í lækningum og kennslu. Þetta var fyrir tíu árum og spítalinn nýtur viðurkenningar fyrir kerfið sem sést meðal annars á því að víða á sjúkrahúsum hefur verið komið upp svonefndum spegilsíðum af Iowa-kerfinu, það nefnist "mirror sites" á fagmálinu. Ein þessara spegilsíðna er hér á Landspítalanum þar sem Gunnar Guðmundsson hefur komið henni upp og meira að segja þýtt hana að hluta. Við notum þetta kerfi í kennslu og það ætti einnig að geta nýst íslenskum læknum."

Að kenna kennurunum

Peterson hefur sem forystumaður kennslusjúkrahúsa velt fyrir sér aðferðum við að kenna verðandi læknum. Það er því freistandi að spyrja hann hvort læknar séu endilega bestu kennararnir?

"Nei, því fer fjarri, sumir læknar eru hræðilegir kennarar! Áður fyrr var við lýði einskonar meistarakerfi á bandarískum sjúkrahúsum en það gekk sér til húðar. Nú eru starfræktar við alla stærri læknaskóla sérstakar deildir til að þróa kennsluhætti og kenna fólki að kenna. Okkur hefur vissulega farið fram en það þarf stöðugt að sinna þjálfun kennara á sjúkrahúsum. Ég hélt fund með kennurum við læknadeildina hér þar sem við fjölluðum um aðferð sem nefnd hefur verið Problem based learning eða vandamiðað nám. Þetta er ólíkt hefðbundinni kennslu en nýtur æ meiri vinsælda í læknaskólum og sumir höfðu einhverja reynslu af því hér. Þessi aðferð er tæplega 15 ára gömul og hún er ekki upprunnin hjá læknum heldur kemur hún frá góðum skólamönnum. Þessari kennsluaðferð er beitt við helming bandarískra læknaskóla og það er ljóst að til þess að stjórna slíkri kennslu þarf þjálfaða kennara," sagði Michael W. Peterson og bætti því við að hann byði íslenska lækna velkomna í framhaldsnám til Fresno.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica