Umræða fréttir

Læknar gegn tóbaki

Þann 5. október síðastliðinn var stofnað félagið, Læknar gegn tóbaki. Félagið er opið öllum læknum sem áhuga hafa á tóbaksvörnum. Markmið félagsins eru:

1. Að vinna að því að gera öllum sem nota einhvers konar tóbak auðveldara með að hætta því.

2. Að stuðla að forvörnum gegn hvers konar tóbaksnotkun, meðal annars með markvissu starfi gegn áróðri tóbaksframleiðenda.

Starfinu verður einkum beint að almenningi, læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum og stjórnmálamönnum.

Á stofnfundinum voru samþykkt lög fyrir félagið og kjörin þriggja manna stjórn. Stofnfélagar eru allir þeir sem láta skrá sig í félagið fyrir 1. desember 2002. Árgjald verður 1.000 krónur í ár. Á stofnfundinum var rætt um að æskilegt væri að félagið stofnaði eigin vef, með því að setja upp tengil á heimasíðu Læknafélagsins. Þegar hefur fengist leyfi stjórnar LÍ til þess.

Með þessum fáu orðum, ásamt meðfylgjandi lögum félagsins vill stjórn þess kynna það. Stjórnin vill gjarnan heyra frá áhugamönnum á sviði tóbaksvarna, fjölga félagsmönnum og móta framkvæmd félagsins á markmiðum þess í samráði við þá. Ritari félagsins tekur við skráningum nýrra félagsmanna bréflega eða á netfang sitt.

Formaður: Pétur Heimisson, Heilbrigðisstofnunin

Egilsstöðum, petur@hsa.is

Ritari: Sigurður Böðvarsson, Landspítala,

sigurdbo@landspitali.is

Gjaldkeri: Lilja Sigrún Jónsdóttir, Hjartavernd,

Lilja@hjarta.is



Félagið vill undirstrika þá lykilaðstöðu sem allir læknar eru í til að sinna tóbaksvörnum og hvetur lækna til að ganga í félagið.





Lög félagsins



1. grein

Félagið heitir: Læknar gegn tóbaki. Með "tóbaki" er átt við allar tegundir tóbaks.



2. grein

Félagar geta orðið allir læknar, sem áhuga hafa á tóbaksvörnum. Heimili félagsins og varnarþing er á skrifstofu Læknafélags Íslands Hlíðasmára 8, Kópavogi.



3. grein

Markmið félagsins eru tvíþætt. Annars vegar að vinna að því að gera öllum sem nota einhvers konar tóbak auðveldara með að hætta því. Hins vegar að stuðla að forvörnum gegn hvers konar tóbaksnotkun, m.a. með markvissu starfi gegn áróðri tóbaksframleiðenda. Það hyggst einkum ná markmiðum sínum með starfi gagnvart almenningi, læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum, og stjórnmálamönnum. Félagið undirstrikar þá lykilaðstöðu sem læknar hafa til að sýna fordæmi og sinna tóbaksvörnum.



4. grein

Stofnfélagar eru allir þeir sem láta skrá sig í félagið fyrir 1. desember 2002.



5. grein

Stjórn félagsins skal skipuð 3 félagsmönnum; formanni, ritara, gjaldkera. Stjórnarmenn eru kosnir á aðalfundi, til tveggja ára í senn, en endurkjör er heimilt. Stjórn boðar til félagsfunda þegar þurfa þykir. Dagleg umsjón félagsins er í höndum formanns í samvinnu við aðra stjórnarmenn.

6. grein

Aðalfundur skal haldinn árlega. Stjórn skal boða fundinn skriflega, með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Einungis félagsmenn mega sitja aðalfundi. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi og löglega boðaður aðalfundur hefur óskoraðan rétt til afgreiðslu mála.

Á dagskrá aðalfundar skal vera:

- skýrsla stjórnar

- reikningar lagðir fram til samþykktar

- árgjald ákveðið

- breyting á lögum

- stjórnarkjör og kosning tveggja endurskoðenda

- önnur mál.



7. grein

Reikningar félagsins miðast við aðalfund ár hvert.



8. grein

Félagið verður aðeins lagt niður með að minnsta kosti tveimur þriðju hluta atkvæða á löglega boðuðum aðalfundi, enda hafi tillaga um að leggja það niður verið send með aðalfundarboði.



9. grein

Lögum félagsins má aðeins breyta á löglega boðuðum aðalfundi, enda hafi lagabreytingatillaga fylgt fundarboði.



10. grein

Lög þessi öðlast gildi við samþykkt þeirra á endurteknum stofnfundi og aðalfundi félagsins 05. 10. 2002.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica