Umræða fréttir

Um verktaka í heilbrigðisþjónustu

Fyrir allmörgum árum kom prófessor R. Anderson, einn af helstu heilsuhagfræðingum Bandaríkjamanna, í heimsókn til Íslands í boði embættis landlæknis og félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Á stórum fundi í Háskólanum barst talið að einkarekinni heilbrigðisþjónustu sem sumir fundargesta voru hlynntir. Prófessorinn bað um lýsingu á "slíkri þjónustu á Íslandi". Að þeirri lýsingu lokinni kímdi hann og sagði að um væri að ræða "verktakaþjónustu" sem byggðist á kaupsamningi við ríkið en ekki "einkarekin þjónusta" samkvæmt skilgreiningu. Ég man eftir að þetta kom ýmsum á óvart. Slík þjónusta hefur lengi verið rekin á Íslandi, til dæmis lengi vel í heimilislækningum og í öldrunarþjónustu. Margt hefur þar tekist vel en helsti gallinn er að víða er þröngt setinn bekkurinn og starfsfólkið í færra lagi. Sérfræðingar á stofum reka einskonar verktakaþjónustu og hafa sinnt henni að mörgu leyti vel, það er tekið erfiða sjúklinga til greiningar og sinnt þeim vel. Galli er að oft er erfitt að koma til þeirra jafnvel erfiðum sjúklingum því að á föstum lista þeirra eru oft sjúklingar sem heilsugæslulæknar gætu vel sinnt eftir að þessir sérfræðingar hafa farið höndum sínum um þá. Ég sé ekkert athugavert við að heilsugæslulæknar sinni verktakaþjónustu sem sérfræðingar eftir samningi við Tryggingastofnun ríkisins. En þá verða þeir að sinna ungbarna- og mæðravernd og öldrunarþjónustu og muna að byggðin nær út fyrir Elliðaárnar! Sérfræðingar kjósa helst að starfa í þéttbýli. Reynsla vestrænna þjóða af slíku verklagi er að þjónustan verður oft dýrari og eigingreiðslur sjúklinga hækka. Þess ber að geta að sjálfsagt geta til dæmis ljósmæður komið upp ungbarna- og mæðravernd og ráðið til sín lækna sem ráðgjafa. Jafnframt gætu hjúkrunarfræðingar gert hið sama á sviði öldrunarþjónustu með lækna sem ráðgjafa. Svo virðist sem gamalt og nýtt greiðslukerfi okkar sem tíðkast hefur á Íslandi, það er föst fjárlög en að hluta til afkastahvetjandi verk samkvæmt samningi við TR, sé býsna hagkvæmt, bæði kostnaðarlega og faglega.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica