Umræða fréttir
  • Gunnar Ármannsson

Nýr framkvæmdastjóri LÍ: Gunnar Ármannsson

Eins og við sögðum frá í síðasta tölublaði Læknablaðsins hefur Ásdís Rafnar látið af starfi sem framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands. En maður kemur í manns stað og við stöðu Ásdísar tók Gunnar Ármannsson lögfræðingur.

Gunnar er 35 ára gamall, fæddur fremst í Eyjafirði og ólst þar upp til fimm ára aldurs þegar fjölskylda hans flutti á Stór-Hafnarfjarðarsvæðið þar sem hann hefur haldið sig að mestu síðan. Hann tók þó stúdentspróf frá MA og innritaðist í lagadeild Háskóla Íslands haustið 1987. Þaðan lauk hann embættisprófi í lögum vorið 1993. Fyrir tveimur árum hóf hann nám í viðskiptafræði meðfram starfi og lauk MBA-prófi í vor.

Að loknu lagaprófi réðst Gunnar til starfa hjá Tollstjóranum í Reykjavík og hefur starfað þar síðan, nú síðast sem forstöðumaður innheimtusviðs. Hann hefur tekið virkan þátt í störfum Stéttarfélags lögfræðinga, sat í stjórn þess á árunum 1994-1998 og var formaður í eitt ár. Einnig sat hann í stjórn Bandalags háskólamanna á árunum 1996-1998 og í laganefnd samtakanna frá 1996-2002. Þá má nefna að á árunum 1993-1996 var hann aðstoðarmaður íslensku fulltrúanna í norrænni nefnd sem hafði það hlutverk að fylgjast með innleiðingu Evrópuréttar í landslög.

Í spjalli við Læknablaðið sagðist Gunnar hafa lesið það út úr auglýsingunni um starf framkvæmdastjóra LÍ að það félli vel að menntun hans og áhugasviði, hann væri lögmaður með menntun á sviði viðskiptafræði og með töluverða reynslu af starfsemi stéttarfélaga. "Ég hef alltaf haft áhuga á vinnurétti og fundist hann vera lifandi fag þar sem menn verða stöðugt að halda vöku sinni. Ég fæ ekki betur séð en að ég geti svalað þeim áhuga mínum vel í þessu starfi," segir hann.

Af heimavígstöðvum Gunnars er það helst að segja að hann er giftur Margréti Gunnarsdóttur lögfræðingi og eiga þau tvö börn. -ÞH

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica