Fræðigreinar
  • Mynd 1
  • Mynd 2
  • Mynd 3
  • Tafla I

Stafar mönnum hætta af lirfum fuglablóðagða?

Ágrip

Síðsumars árin 1995 til 1997 fundust þráfaldlega kláðabólur á fótum barna eftir að þau höfðu verið að vaða í tjörn í Fjölskyldugarðinum í Laugardal í Reykjavík. Rannsóknir sem hófust haustið 1997 leiddu í ljós að útbrotin voru eftir sundlirfur áður óþekktrar tegundar fuglablóðögðu af ættkvíslinni Trichobilharzia. Kláðabóla myndast eftir hverja lirfu sem nær að smjúga í gegnum húðina. Sundlirfurnar fjölga sér kynlaust í vatnasniglinum Radix peregra sem er algengur í tjörninni. Á ensku eru útbrot sem þessi nefnd sundmannakláði (swimmer's itch) en sjúkdómurinn gengur undir nafninu cercarial dermatitis.

Í sýkingartilraunum hefur þessum sundlirfum verið gefinn kostur á því að smjúga í gegnum húð fugla, einkum andfugla. Nýverið báru tilraunirnar árangur því fullorðnar blóðögður og egg fundust í slímhimnu í nefholi andarunga (Anas platyrhynchos f. dom.). Endurteknar smittilraunir hafa leitt til sömu niðurstöðu. Ormar nasablóðagða ferðast upp í nefhol á um þremur vikum eftir að sundlirfurnar hafa borað sig inn í gegnum húðina á fótum. Ferðalagið þangað er sérstakt því ormarnir fikra sig eftir úttaugum upp í mænu, eftir mænunni upp í heila og í gegnum hann á áfangastaðinn í nefholi. Á leiðinni stækka ormarnir og þroskast en þeir lifa á taugavef hýsilsins. Taugaskemmdir virðast standa í réttu hlutfalli við fjölda lirfa sem smita fuglinn.

Tilraunamýs hafa einnig verið smitaðar með sundlirfunni úr vaðtjörn Fjölskyldugarðsins og hefur komið í ljós að hluti þeirra lifir og þroskast að ákveðnu marki í þeim í að minnsta kosti tíu daga. Þegar eftir þrjá daga eru ormarnir komnir upp í mænu. Einnig hafa lirfur fundist í lungum þremur dögum eftir sýkingu. Þar sem sundlirfur fuglablóðagða virðast í einhverjum tilfellum geta náð þroska í spendýrum, þótt aldrei hafi verið sýnt fram á að þær nái fullum þroska í þeim, er fólki ráðlagt að forðast Trichobilharzia sundlirfur á Íslandi.





English Summary

Skírnisson K, Kolarova L

Are nasal Trichobilharzia cercariae potential threath to human health?



Læknablaðið 2002; 88: 739-44



During late summer in 1995 to 1997, repeated outbreaks of maculopapular skin eruptions were observed on legs of children after wading in the pond of the Family Park in Reykjavík, Iceland. Investigation, starting in autumn 1997, revealed that the causative agent was a previously undescribed schistosome cercaria of the genus Trichobilharzia, shed by Radix peregra, the only snail occurring in the pond. This was the first report of swimmer's itch in Iceland. Infection experiments with cercariae from the pond have revealed adult worms and eggs of a Trichobilharzia in the nasal area of ducklings (Anas platyrhynchos f.dom.) 18-23 days p.i., and schistosomula in the spinal cord of BALB/c mice 3, 6 and 10 days p.i. Moreover, a mouse killed 3 days p.i. also had schistosomula in the lungs. During the prepatent period the infected ducklings had neuromotoric symptoms and gross pathology revealed petechiae in the nasal cavity. The results indicate that the cercaria responsible for swimmer's itch in Iceland is a nasal schistosome. Furthermore, adults of two visceral Trichobilharzia species have been found in Icelandic whooper swans Cygnus cygnus. As schistosomula of both nasal and visceral Trichobilharzia species are able to develop and migrate for several days in a non-specific mammalian host, humans are warned to expose themselves to Trichobilharzia cercariae in Iceland.



Key words: Trichobilharzia, cercariae, swimmer's itch, nasal schistosome.



Correspondence: Karl Skírnisson, karlsk@hi.is




Inngangur

Sníkjuormar af ættinni Schistosomatidae (Digenea) eru nefndir blóðögður. Fullorðinsstig þeirra lifa í blóðrás spendýra, fugla og krókódíla en lirfurnar lifa í sniglum, oftast í ferskvatnssniglum, en hafa einnig fundist í sjávarsniglum (1, 2). Mest er vitað um blóðögður sem sníkja á fullorðinsstigi í mönnum, enda valda þær alvarlegum sjúkdómum í þeim. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur áætlað að ríflega 200 milljónir manna séu smitaðar af blóðögðum og árlega dragi þessi sníkjudýr um eina milljón manna til dauða (3).

Blóðögður spendýra tilheyra allar ættkvíslinni Schistosoma en blóðögður fugla eru flokkaðar í nokkrar ættkvíslir. Langstærst þeirra er ættkvíslin Trichobilharzia en innan hennar eru þekktar ríflega 40 tegundir og eru þær algengar í vatnafuglum, meðal annars í öndum, gæsum og álftum. Fullorðnar lifa flestar tegundir fuglablóðagða inni í bláæðum við aftari hluta meltingarvegar og eru þess vegna oft nefndar iðrablóðögður. Nokkrar tegundanna lifa aftur á móti í slímhimnu nefholsins og því kallaðar nasablóðögður (1, 2, 4-6).

Haustið 1997 fundust lirfur fuglablóðagða í fyrsta sinn á Íslandi (7). Lirfurnar voru þá í miklum mæli í vaðtjörn Fjölskyldugarðsins í Reykjavík og höfðu valdið útbrotum á fjölda barna sem þar höfðu verið að leik (mynd 1). Síðan hafa margvíslegar rannsóknir farið fram á tegundinni sem hér á í hlut (7-14). Lirfunni (mynd 2) var lýst fyrir vísindin þar sem hún reyndist á ýmsan hátt vera frábrugðin þeim tegundum sem áður hafði verið lýst (8).

Markmið greinarinnar er tvíþætt. Í fyrsta lagi að gefa almennt yfirlit um þekkingu á líffræði fuglablóðagða og í öðru lagi að segja stuttlega frá rannsóknum á íslenskum fuglablóðögðum, meðal annars nýjum niðurstöðum sem sýnt hafa að sundlirfur úr sniglum sem safnað var í vaðtjörn Fjölskyldugarðsins í Reykjavík haustið 2001 reyndust vera nasablóðögður. Þessar niðurstöður eru ræddar í ljósi nýrrar þekkingar á skaðsemi fuglablóðagða í spendýrum (þar með talið mönnum) sem leitt hefur til þess að fólk er varað við því að útsetja sig fyrir fuglablóðögðulirfum.





Um líffræði fuglablóðagða

Lífsferill

Kvendýr iðrablóðagða verpa eggjum sínum inni í bláæðum við afturhluta meltingarvegar fugla en egg nasablóðagða (mynd 3) finnast í slímhimnu nefholsins því þar lifa fullorðnu ögðurnar annaðhvort í slímhimnunni eða inni í æðum (1, 2, 4-6). Eggin eru með gadda sem auðvelda þeim að rjúfa sér leið í gegnum vefi. Strax eftir að eggi hefur verið verpt hefjast frumuskipti og lirfa tekur að þroskast. Hjá nasablóðögðum lýkur lirfuþroskanum yfirleitt strax í nefholi fuglsins og þegar eggið rofnar skríður þar út bifhærð lirfa (miracidium). Syndir hún út í vatnið þegar fuglinn aflar sér fæðu undir vatnsborði eða fær sér að drekka. Egg iðrablóðagða rjúfa sér aftur á móti leið út úr æðinni sem umlukti kvendýrið. Berist eggið í gegnum þarmavegginn fer það út úr líkamanum með saur fuglsins. Ef drit með eggi í lendir í vatni klekst þar bifhærð lirfa (1, 4).

Bifhærðar lirfur synda um í vatninu í leit að sniglinum þar sem kynlausa æxlunin getur átt sér stað. Beri leitin árangur meltir lirfan sér leið inn í fót hans og breytist þar í móðurlirfuhylki (mother sporocyst). Í því verður kynslaus æxlun og þar myndast svonefnd dótturlirfuhylki (daughter sporocyst) sem færast upp í meltingarkirtla snigilsins. Eftir að hafa þroskast þar um hríð taka dótturlirfuhylkin að framleiða kynstrin öll af sundlirfum (cercariae), einnig með kynlausri æxlun (1, 4).

Sundlirfur sem náð hafa fullum þroska yfirgefa snigilinn og taka til við að leita uppi lokahýsilinn. Þroskatíminn er einkum háður hitastigi og tekur þrjár til 10 vikur. Gagnstætt því sem gildir um bifhærðu lirfuna þá eru sundlirfurnar fjærri því að vera hýsilsérhæfðar. Finni þær hörund, hvort sem það er sundfit fugla, hörund manns eða einhvers annars spendýrs, festa þær sig þar með sogskálinni og taka til við að tæma innihald kirtla, sem meðal annars seyta próteinsundrandi hvötum út um göng á framenda lirfanna (mynd 2). Lítið gat rofnar á hornhúðina og eftir að hafa kastað halanum smýgur framhluti sundlirfunnar þar í gegn á nokkrum mínútum. Hefst þá þroskun svonefndrar schistósómúlu (schistosomula) sem þroskast annaðhvort sem kynþroska kven- eða karlormur (1, 4).

Þroskatími schistósómúla í fuglum tekur oftast tvær til þrjár vikur. Schistósómúlur iðrablóðagða berast á áfangastað eftir blóðrás en schistósómúlur nasablóðagða ferðast frá sýkingarstaðnum, oftast fótum, eftir taugum fuglsins. Fyrst ferðast þær eftir úttaugum í átt að mænunni, síðan eftir henni upp í heila og að lokum fara þær þvert í gegnum heilann á leið sinni til nefholsins. Á þessari leið éta lirfurnar taugavefinn, stækka og þroskast. Hýsillinn verður því óhjákvæmilega fyrir taugaskemmdum sem standa í hlutfalli við fjölda lirfanna sem þroskast (1, 4).

Fullorðnu ormarnir eru yfirleitt 5-10 mm að lengd og 0,02-0,10 mm í þvermál. Karlormar eru svipaðir kvenormunum að stærð en kynin eru frábrugðin í útliti.

Yfirleitt lifa ormarnir ekki nema í nokkra daga, í hæsta lagi fáar vikur, áður en þeir drepast. Kvendýrin verpa miklum fjölda eggja á þessum stutta tíma. Einungis hluti þeirra nær að brjótast út úr líkamanum (inn í þarminn eða út í nefhol) en afgangurinn verður eftir inni í líkamanum og veldur margvíslegum sjúkdómseinkennum sem þó eru ólík hjá iðra- og nasablóðögðum, meðal annars vegna þess að egg iðrablóðagðanna berast út um líkamann með blóðrás hýsilsins og lokast af í hinum ýmsu líffærum þar sem dæmigerð hýsilviðbrögð eiga sér stað (1, 4).



Sundmannakláði

Sundlirfur fuglablóðagða ráðast einnig á spendýr. Þannig sýkjast menn iðulega þegar þeir vaða eða synda í vötnum eða tjörnum þar sem sundlirfur hafa þroskast í vatnasniglum (1). Á ensku er sjúkdómurinn þekktur undir heitinu "swimmer's itch" eða cercarial dermatitis og höfum við kosið að þýða sjúkdómsheitið beint, sundmannakláða, þótt lítið sé um að synt sé í vötnum hér á landi.

Í fyrsta sinn sem menn verða fyrir árás sundlirfa eru ónæmisviðbrögð líkamans yfirleitt lítil. Lýsa einkennin sér þannig að fljótlega eftir að lirfan hefur smogið í gegnum hornlag húðarinnar finna menn kitlandi óþægindi sem oftast standa í nokkrar mínútur, stundum þó nokkru lengur, og kringlóttur blettur, allt að 10 mm í þvermál, kemur í ljós. Oftast hverfa þessi einkenni eftir nokkrar klukkustundir. Stundum eru einkennin þó mun meiri og upphleypt kláðabóla myndast á smugustaðnum eftir 10 til 15 klukkustundir. Á öðrum og þriðja degi myndast oft í miðju kláðabólunnar vessafylltar blöðrur, allt að 2 mm í þvermál. Springa þær gjarnan þegar við þær er komið. Frá og með fjórða degi taka bólurnar að hjaðna, roði og kláði að minnka og yfirleitt eru þær horfnar eftir 10 daga þótt iðulega skilji þær eftir sig dökka bletti á húðinni í mánuð eða jafnvel lengur.

Sumir eru ofurnæmir fyrir árás sundlirfa fuglablóðagða. Hjá þeim myndast vökvafylltar bólur umhverfis smugustaðinn innan klukkustundar. Svæðið bólgnar hratt upp og stækkar þannig að ofnæmisviðbrögðin geta náð yfir svæði sem eru allt að 10 cm í þvermál. Mikill kláði fylgir þessum kláðabólum og tekur það þær mun lengri tíma að hjaðna heldur en hjá fólki sem ekki telst vera ofurnæmt (1). Þar sem mikið er af lirfum í vatni geta menn orðið fyrir árás mikils fjölda lirfa á tiltölulega stuttum tíma og ofnæmisviðbrögðin orðið svæsin, sérstaklega þó hjá þeim sem ofurnæmir eru fyrir sundlirfum.

Sundmannakláði er þekktur í öllum heimsálfum nema á Suðurskautslandinu (1). Útbreiðslan er fyrst og fremst háð útbreiðslu fuglategundanna sem fóstra fullorðnu ormana en auk þess þarf snigiltegundin að lifa í viðkomandi vatnakerfi. Veðurfar ræður miklu um það hversu mikil brögð eru að því að menn fái sundmannakláða, einkum vegna þess að í heitu veðri syndir fólk meira eða baðar sig í vatni heldur en þegar kalt er úti (15). Börn verða oft ver úti en fullorðnir, vegna þess hversu lengi þau leika sér oft í vatni.



Schistósómúlur fuglablóðagða geta þroskast

í spendýrum

Fram á síðustu ár hafa vísindamenn yfirleitt talið að lirfur fuglablóðagða drepist strax eftir að vera komnar inn í húð spendýra. Nýlegar dýratilraunir hafa þó sýnt hið gagnstæða og staðfest að schistósómúlur bæði iðra- og nasablóðagða geta lifað tímabundið í ýmsum spendýrum og valdið í þeim sjúkdómum. Hvað iðrablóðögður snertir hafa tilraunir verið gerðar meðal annars á músum, stökkmúsum, hömstrum, kanínum og rhesus öpum og hafa schistósómúlur einkum fundist í lungum, stundum þegar eftir 10 klukkustundir. Hafa þær fundist þar á lífi allt að sex dögum síðar. Einnig hafa schistósómúlur iðrablóðagða fundist í nýrum, hjarta og meltingarvegi spendýra (1, 16, 17).

Hvað nasablóðögðurnar varðar þá hefur þekking á hegðun þeirra í spendýrum einkum fengist við nýlegar rannsóknir á T. regenti (4). Lifir hún í nefholi andfugla í Mið-Evrópu og hefur hingað til verið eina þekkta nasablóðagðan í Evrópu. Aðrar þekktar nasablóðögður lifa í Ástralíu eða Afríku (1, 2, 5, 6). Eftir smittilraunir á músum hafa schistósómúlur T. regenti þráfaldlega fundist í úttauga- og miðtaugakerfi (18-22) en einnig hafa þær iðulega fundist í lungum tilraunamúsa (23). Lífshættir nasablóðögðunnar sem fundist hefur í vaðtjörn Fjölskyldugarðsins virðast vera hinir sömu sé miðað við þær rannsóknir sem þegar hafa verið gerðar (sjá síðar).





Rannsóknir á sundmannakláða á Íslandi

Lirfur fuglablóðagða finnast í Reykjavík

Í byrjun september 1997 fundust lirfur fuglablóðagða í fyrsta sinn á Íslandi. Voru þær þá í miklum mæli í vatni allstórrar tjarnar sem búin hafði verið til fjórum árum áður í Fjöldskyldugarðinum í Reykjavík. Í ágúst þetta ár bárust starfsfólki garðsins ítrekað fregnir um kláðabólur á fótum barna sem höfðu verið að vaða í tjörninni því fjöldi áhyggjufullra foreldra hringdi til að grennslast fyrir um orsakir útbrotanna. Í lok mánaðarins komu fjögur börn með stuttu millibili til Jens Magnússonar heimilislæknis á Heilsugæslustöðinni í Grafarvogi. Voru þau öll með kláðabólur fyrir neðan hné og höfðu nýlega vaðið í tjörn Fjölskyldugarðsins. Borgarlækni var tilkynnt um málið og leitaði hann þegar ráða hjá dýrafræðingum á Tilraunastöðinni á Keldum. Næsta dag var gerð frumrannsókn á lífríki tjarnarinnar sem strax miðaði að því að kanna hvort þarna væri sundmannakláði á ferðinni. Einungis ein snigiltegund reyndist vera í tjörninni; vatnabobbinn Radix peregra og við athugun á þeim fundust fljótlega sniglar sem sundlirfur fuglablóðagða voru að yfirgefa. Var þetta í fyrsta sinn sem sundamannakláði var staðfestur í mönnum hér á landi.

Ekki er ljóst hversu mörg börn fengu kláðabólur eftir að hafa vaðið þarna árið 1997. Líklegt er talið að sundlirfur hafi einnig hrjáð unga gesti garðsins árin 1995 og 1996 því starfsfólki bárust þá einnig upplýsingar síðsumars um útbrot á fótum barna sem höfðu verið að leika sér í tjörninni. Allt bendir því til þess að sundlirfur fuglablóðagða hafi þegar verið til staðar tveim árum eftir að vatni var fyrst safnað í tjörnina en það var gert um miðjan júní 1993, rétt áður en garðurinn var tekinn í notkun.

Áraskipti á sýkingartíðni í sniglunum

Fylgst hefur verið með sýkingartíðni Trichobilharzia sundlirfa í vatnabobbum í vaðtjörn Fjölskyldugarðsins undanfarin fimm ár (tafla I). Smittíðnin var langhæst árið 1997 en hefur síðan verið allbreytileg milli ára. Fjölmargir þættir geta haft áhrif á sýkingartíðni í sniglunum þótt líklega magnist smit mest upp þegar margir fuglar, hver um sig smitaður af mörgum ormum, halda lengi til á tjörninni því þá berst mikið af bifhærðum lirfum úr nasaholi fuglanna út í vatnið. Sniglastofninn hefur verið svipaður milli ára, og ávallt mjög stór, þannig að sveiflur í smittíðni verða tæplega raktar til millihýsilsins sem lifir við kjöraðstæður í tjörninni.

Árið 2001 var sýkingartíðnin könnuð fjórum sinnum. Jókst hún úr 2,3% í lok júlí (130 sniglar rannsakaðir) í 6,5% í byrjun september (355) en hafði fallið í 2,2% um miðjan október (491) og virtist horfin um miðjan desember (38). Líklegt er að smitaðir sniglar geti fundist í tjörninni strax og hitna fer í veðri á vorin en tíðnin virðist ná hámarki síðsumars og í byrjun hausts og er það svipað og gerist annars staðar í Norður-Evrópu (1).



Útbreiðsla fuglablóðagða á Íslandi

Sumarið 2001 var leitað að blóðögðulirfum í 2435 vatnasniglum sem safnað var í átta vötnum eða tjörnum á Vestur- og Suðausturlandi. Auk þess að finnast í vaðtjörninni í Fjölskyldugarðinum fundust Trichobilharzia sundlirfur einnig í sniglum sem safnað var í Reykjavíkurtjörn (þar höfðu þær raunar fundist strax haustið 1997) og í Síkinu neðan við Deildartungu í Borgarfirði. Í ágúst og september 2002 fundust samskonar lirfur einnig í sniglum úr Mývatni, Víkingavatni í Kelduhverfi, Hrísatjörn við Dalvík og Óslandstjörn á Hornafirði þannig að augljóslega má búast við fuglablóðögðum í lífmiklum vötnum um land allt.



Athuganir á lokahýslum

Fram hefur komið að erfitt er að staðfesta fullorðinsstig blóðagða í fuglum vegna þess hversu stuttan tíma þær lifa í hýslinum, auk þess sem ormarnir eru faldir inni í æðum (iðra- og nasablóðögður) eða í slímhimnu nefholsins (nasablóðögður). Engu að síður hafa tvær ólíkar tegundir iðrablóðagða þegar fundist í álftum hér á landi. Benda ýmis útlitsfræðileg einkenni til þess að hvorugri þessara tegunda hafi áður verið lýst (11, 12). Ekki hefur enn sem komið er verið leitað að fullorðnum blóðögðum í fuglum sem halda til á vaðtjörn Fjölskyldugarðsins í Reykjavík en rannsóknir á fuglum annars staðar frá eru í undirbúningi.



Smittilraunir leiða í ljós nasablóðögðu

Þegar haustið 1997 var Trichobilharzia smituðum sniglum safnað í vaðtjörn Fjölskyldugarðsins í Reykjavík og þeir sendir lifandi til Prag í Tékklandi. Þar var lirfunum sem skriðu út úr sniglunum gefinn kostur á því að smjúga í gegnum húð ýmissa tilraunadýra (anda, kanarífugla, músa og stökkmúsa) og eftir ákveðinn tíma var leitað í líffærum þeirra að schistósómúlum, fullorðnum ormum og eggjum. Svipaðar tilraunir voru gerðar haustin 1998 og 2000 en árið 1999 féllu þær niður vegna þess að engar sundlirfur fundust (tafla I).

Haustið 2001 báru tilraunirnar árangur þegar fjöldi eggja fannst í slímhimnu í nefholi andarunga (Anas platyrhincos f. dom.) sem smitaður hafði verið þremur vikum fyrr með sundlirfum úr snigli sem tekinn var 16. október í vaðtjörn Fjölskyldugarðsins. Niðurstöðurnar bentu til þess að íslenska sundlirfan lifði fullorðin sem nasablóðagða og að eitt eða fleiri kvendýr hafi náð að þroskast þar og verpa eggjum sínum. Í framhaldinu heppnaðist að smita snigla (ósýktan tilraunastofustofn) með bifhærðum lirfum sem klöktust úr eggjunum sem fundist höfðu í nefholi ungans og mánuði síðar tók mikill fjöldi sundlirfa að skiljast út úr sniglunum. Þetta gerði frekari smittilraunir mögulegar því enginn skortur var lengur á sundlirfum. Voru þær gerðar fyrri hluta ársins 2002, bæði á andarungum og músum (BALBc). Egg og fullþroska ormar af báðum kynjum hafa nú fundist í níu andarungum. Þjáðust margir þeirra af hreyfitruflunum vegna skaða sem schistósómúlurnar ollu með áti sínu á taugavef á leið sinni eftir úttaugum og síðan miðtaugakerfi (mænu, heila) upp í nefhol. Þá sáust iðulega slímhúðarblæðingar í nefholi (petechiae) þar sem ormarnir héldu sig og kvendýrin verptu eggjunum. Íslenska tegundin, sem fyrstu rannsóknir benda til að sé áður óþekkt tegund, hagaði sér þannig mjög svipað og systurtegundin T. regenti, ekki einungis í andarungum (fugl, sérhæfður lokahýsill) heldur einnig í músum (spendýr, ósérhæfður lokahýsill) því schistósómúlur fundust í mænu þeirra þriggja músa sem þegar hafa verið smitaðar þremur, sex og tíu dögum eftir að lirfunum var gert kleift að smjúga í gegnum húð þeirra. Í einni músinni fannst schistósómúla í lungum og var það í músinni sem rannsökuð var þremur dögum eftir smitun.





Ályktanir

Niðurstöður sýkingartilrauna benda til þess að Trichobilharzia sundlirfan í vaðtjörn Fjölskyldugarðsins í Reykjavík sé áður óþekkt nasablóðagða sem lifir fullorðin í einhverjum óþekktum andfugli. Lífsferill og líffræði hennar líkjast um margt T. regenti en mismunandi útlit útilokar að hér sé á ferðinni sama tegund. Iðrablóðögður hafa fundist hér á landi í álftum og því er ljóst að fólk hér á landi getur orðið fyrir árás bæði nasa- og iðrablóðagða.

Nýlegar rannsóknir á nasa- og iðrablóðögðum fugla hafa sýnt að schistósómúlur þeirra geta þroskast í ákveðinn tíma í spendýrum og valdið sjúkdómseinkennum, einkum í lungum og á taugakerfi. Þótt flestar sundlirfur fuglablóðagða drepist strax, eða fljótlega eftir að hafa smogið í gegnum húð manna, gefa þessar niðurstöður tilefni til þess að vara fólk við að útsetja sig fyrir sundlirfusmiti (1).

Ýmsar leiðir eru færar til að koma í veg fyrir að sundlirfur fái þrifist í vaðtjörnum á leiksvæðum barna. Einfaldast er að hanna tjarnir þannig að auðvelt sé að tæma þær reglulega, hreinsa og sótthreinsa. Mætti til dæmis gera það um miðbik hvers mánaðar frá maí til september. Þótt hægt sé að drepa vatnasnigla með sérstöku eitri sem blandað er í vatnið er það tæplega fýsilegur kostur á leiksvæðum.





Þakkir

Starfsfólk Fjölskyldu- og húsdýragarðsins í Laugardal hefur stutt rannsóknirnar með ráðum og dáð og meðal annars aðstoðað við sniglasöfnun. Jens Magnússon heimilislæknir léði mynd sem hann tók af fótum barns með sundmannakláða. Katerina Hradkova og Pavlina Kourilova aðstoðuðu við sýkingartilraunir í Prag og Ragnheiður Ásta Karlsdóttir aðstoðaði við athuganir á útbreiðslu sundmannakláða á Íslandi. Rannsóknarsjóður Háskólans hefur í tvígang veitt styrk til þessara rannsókna. Ónefndur ritrýnir benti á ýmislegt sem betur mátti fara. Öllum þessum aðilum er þakkað verðmætt liðsinni.





Heimildir

1. Horak P, Kolarova L, Adema CM. Biology of the schistosome genus Trichobilharzia. Advances of Parasitology 2002; 52 (in press).

2. Blair D, Islam K. The life-cycle and morphology of Trichobilharzia australis n. sp. (Digenea: Schistosomatidae) from the nasal blood vessels of the black duck (Anas superciliosa) in Australia, with a review of the genus Trichobilharzia. Systematic Parasitology 1983; 5: 89-117.

3. Horak P, Kolarova L. Zerkarien-Dermatitis in Mitteleuropa - Überblick und aktuelle Probleme. Mitt Österr Ges Tropenmed. Parasitol 1997; 19: 59-64.

4. Horak P, Dvorak J, Kolarova L. Trichobilharzia regenti n. sp. (Schistosomatidae, Bilharziellinae), a new nasal schistosome from Europe. Parasite 1998; 5: 349-57.

5. Islam KS. Development of Trichobilharzia australis Blair & Islam, 1983 in the snail, Lymnaea lessoni Deshayes and in an experimental definitive host, the Muscovy duck. J Helminthol 1986; 60: 301-6.

6. Islam KS. The morphology and life-cycle of Trichobilharzia arcuata n. sp. (Schistosomatidae: Bilharziellinae) a nasal schistosome of water whistle ducks (Dendrocygna arcuata) in Australia. Systematic Parasitology 1986; 8: 117-28.

7. Skírnisson K, Magnússon J, Kristjánsdóttir Þ, Kolarova L. Sundmannakláði staðfestur á Íslandi. Læknablaðið 1999; 84 (Fylgirit 37): 59.

8. Kolarova L, Skírnisson K, Horak P. Schistosome cercariae as the causative agent of swimmer's itch in Iceland. J Helminthol 1999; 73: 215-20.

9. Kolarova L, Skírnisson K, Horak P. Schistosomes from Northern Europe. Helminthologia 1999; 36: 131-2.

10. Kolarova L, Skirnisson K, Horak P, Sitko J. Schistosomes in Iceland. Bull Scand Soc Parasitology 1999; 9: 19.

11. Kolarova L, Skirnisson K. Trichobilharzia spp. found in whooper swans (Cygnus cygnus) in Iceland. Acta Parasitologica 2000; 45(3): 145.

12. Skírnisson K, Kolarova L. Trichobilharzia blóðögður í álftum (Cygnus cygnus) á Íslandi. Læknablaðið 2000, 86 (fylgirit 40): 58.

13. Skírnisson K, Kolarova L. On Schistosoma research in Iceland. Helminthologica 2001; 38: 243-4.

14. Skírnisson K, Hradkova K, Kourilova P, Kolarova L. The recently found Trichobilharzia cercaria in Iceland is a nasal schistosome. Proceedings of the 10th Interntional Congress of Parasitology, Vancouver, Canada, 4-9 August, 2002, 284.

15. Thors C, Linder E. Swimmer's itch in Sweden. Helminthologia 2001; 38: 244.

16. Haas W, Pietsch U. Migration of Trichobilharzia ocellata schistosomula in the duck and in the abnormal murine host. Parasitology Research 1991; 77: 642-4.

17. Moravcova J, Kolarova L. Trichobilharzia szidati development in the lungs of a nonspecific host. Helminthologia 2001; 38: 170.

18. Horak P, Dvorak J, Kolarova L, Trefil L. Trichobilharzia regenti, a pathogen of the avian and mammalian central nervous systems. Parasitology 1999; 119: 577-81

19. Kolarova L. Central nervous system as a target of helminth migration in humans. Helminthologia 2001; 38: 237-41.

20. Horak P, Kolarova L. Bird schistosomes: do they die in mammalian skin? Trends Parasitol 2001; 17: 66-9.

21. Kolarova L, Horak P, Cada F. Histopathology of CNS and nasal infections caused by Trichobilharzia regenti in vertebrates. Parasitol Res 2001; 87: 644-50.

22. Hradkova K, Horak P. Neurotropic behaviour of Trichobilharzia regenti in ducks and mice. J Helminthol 2002; 76: 137-41.

23. Horak P, Kolarova L. Survival of bird schistosomes in mammalian lungs. Int J Parasitol 2000; 30: 65-8.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica