Umræða fréttir

1.000 læknum ofaukið í Noregi árið 2015?

Ekki er ýkja langt síðan mikill læknaskortur ríkti í Noregi og þarlend heilbrigðisyfirvöld biðluðu ákaft til erlendra lækna um að koma þangað til starfa. Nú virðist þetta vera að snúast við því ef svo fer sem horfir blasir við atvinnuleysi meðal norskra lækna eftir örfá ár, að því er fram kemur í norska Læknablaðinu.

Nýjar tölur sýna að hver læknir þarf að sinna 274 íbúum í Noregi en sambærilegar tölur fyrir nágrannaríki Noregs eru á bilinu 310-330 íbúar á lækni. Fjölgi læknum jafnhratt og verið hefur undanfarin ár verður þessi tala komin niður í 220 íbúa á hvern lækni árið 2015. Útreikningar norska læknafélagsins benda til þess að árið 2003 verði jafnvægi í framboð og eftirspurn á atvinnumarkaði lækna en strax árið 2004 verða læknar orðnir fleiri en læknastöðurnar.

Ýmis teikn eru á lofti sem öll benda í sömu átt. Þannig fækkaði ómönnuðum læknastöðum á norskum sjúkrahúsum úr 600 í ársbyrjun 1999 í um það bil 220 1. janúar 2001. Lausum stöðum heimilislækna í sveitarfélögum landsins fækkaði frá janúar fram í september 2001 úr 348 í 189. Mest varð fækkunin í nyrstu fylkjum landsins.

Norskir læknanemar hafa af skiljanlegum ástæðum áhyggjur af þessari þróun og benda á að það sé ekki góð hagfræði að standa að menntun lækna sem síðan fá ekkert að gera. Nú kostar yfir 20 milljónir íslenskra króna að mennta lækni og ef það rætist að yfir 1.000 læknum verði ofaukið í Noregi árið 2015 er verið að sóa peningum skattborgaranna á ábyrgðarlausan hátt.

Samtök læknanema saka norska heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytið um að vinna markvisst að fjölgun lækna í því skyni að eiga auðveldara með að manna stöður í dreifbýlinu og lækka laun lækna.

Heimild: Tidsskr Nor Lægeforen 2001; 121: 3001-2.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica