Umræða fréttir

Skýrsla Unicef um ástandið í fyrrum kommúnistaríkjum: Allt að þriðjungur barna býr við sára fátækt

Fátækt, vannæring og sjúkdómar setja enn mark sitt á líf barna í austanverðri Evrópu og þeim hluta Asíu sem áður heyrðu undir Sovétríkin, að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Unicef, hefur gefið út. Þótt rúmur áratugur sé liðinn frá falli Berlínarmúrsins fer misréttið enn vaxandi og í skjóli þess fjölgar fátækum börnum.

Í ríkjum þar sem kommúnistaflokkar réðu ríkjum áður eru nú 18 milljónir barna sem draga fram lífið á undir 220 krónum á dag. Í Albaníu, Úsbekistan og Tadsjikistan er þriðjungur allra barna vannærður en sjöunda hvert barn í Rússlandi, Úkraínu og Armeníu.

Forvarnarkerfi þessara ríkja eru víðast hvar hrunin og í sumum ríkjum er ekki nema helmingur barna bólusettur við algengustu barnasjúkdómum. Berklar breiðast ört út og í fátækari ríkjum hefur skráðum berklatilfellum fjölgað um 50% á skömmum tíma. Meðal þeirra er Rúmenía. Ástandið í þessum ríkjum einkennist af efnahagslægð, fátækt, félagslegu misrétti, vannæringu, yfirfullum fangelsum og æ stærri hópum heimilislausra en þetta veldur því að sjúkdómar breiðast ört út og erfitt er að bregðast við farsóttum, meðal annars vegna skorts á lyfjum. Sums staðar hafa nýir ónæmir stofnar berklabakteríu orðið til beinlínis vegna rangrar lyfjanotkunar eða lélegra lyfja, segir í skýrslu Unicef. Heimild: BMJ 2001; 323: 1326.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica